Færsluflokkur: Bloggar
Þriðjudagur, 26. júlí 2011
"Lengi býr að fyrstu gerð".
Allir íslenindingar hljóta að vera hugsi yfir hryllingnum sem átti sér stað í Noregi og fólk veltir því fyrir sér, hvað fær mann til að gera svona hræðilega hluti, drepa saklaust fólk, með köldu blóði.
Enginn er þess umkominn að skilja til fulls, hvað hrærist í huga illvirkjans, en augljóst er, að þessi maður hefur fyrirgert öllum sínum rétti, hann á engan rétt lengur og enginn má láta sér detta til hugar, að réttlæta þessi illvirki hans.
En getum við eitthvað lært af þessu og leitast við að bæta okkur?
Komið hefur fram að illvirkinn var lagður í einelti í æsku, vinur hans upplýsti það.
Einelti er birtingarmynd vanþroska mannsins. Ef einhver er öðruvísi og fellur ekki í hópinn, þá er hann ýmist útilokaður eða hæddur af samferðarmönnunum, þetta þekkist meðal fullorðina jafnt sem barna, en skoðum börnin.
Börn geta komið brotin í skóla, minnimáttakennd vegna útlitslýtis, vegna erfiðra heimilisaðstæðna og sum börn eru látin gjalda þess, að foreldrar þeirra falla ekki inn í fjöldann.
Öll börn eiga rétt á vinsemd og hlýju, við erum öll skyldug til að sýna börnum vinarþel, sú skylda er okkur í blóð borin. Við þurfum að þroska með okkur skilning á fjölbreytileika mannlegs eðlis, en ekki vera stöðugt að dæma hvert annað.
Við getum spurt okkur að því, þótt það sé að sönnu erfið og krefjandi spurning, einnig mjög ósanngjörn, því enginn getur svarað henni.
En spurningin er, hvort hefði verið hægt að koma í veg fyrir voðaverkin, ef illvirkinn hefði mætt meiri skilning í æsku og samfélagið hefði sýnt honum vinsemd, skólafélagar tekið hann í hópinn og tekið honum eins og hann var. Það er erfitt að umgangast marga, en við verðum samt, því öll erum við bræður og systur og líf okkar allra er það sama.
Ef einn klikkar og fremur illvirki, þá bitnar það á heiminum öllum.
Við megum aldrei fyrirgefa þessum manni, því þá höfum við tekið þá áhættu, að illmenni sem sækjast eftir athygli og frægð, fá hana og geta átt von á að komast í sögubækur.
þess vegna væri við hæfi, að hunsa öll illmenni sögunnar og hætta að fjalla um þau, fyrir sumum er nafn Hitlers sveipað hetjuljóma, svo dæmi sé tekið. Og það er alltaf verið að tala um hann annað slagið.
Við eigum að fordæma menn sem gera svona og þurrka þá úr minningunni.
Á sama tíma eigum við að hlúa að hvert öðru, gæta þess að engin sé einmanna, jafnvel þótt viðkomandi sé hundleiðinlegur og óþolandi, slíkir einstaklingar eiga líka rétt á vinrðingu, eins og allir aðrir,
Umfram allt eigum við að hafa vakandi auga með öllum börnum þessa lands. Ef við sjáum barn sem er dapurt og hugsi, þá eigum við að hvetja það til að tjá sig og hlusta af athygli.
Fara varlega í nöldur og skammir, heldur að hrósa og leiðbeina um leið, það eiga allir skilið hrós og þeir sem verðskulda það ekki á eigin forsendum, þeir þurfa meira hrós en aðrir. Allir hafa einhverja kosti, við megum aldrei gleyma því.
Hlúum að hvert öðru og látum engan í okkar nærumhverfi einan og yfirgefinn og umfram allt, sláum skjaldborg um börnin.
Því lengi býr að fyrstu gerð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 25. júlí 2011
Hvaða flokkur hefur staðið fyrir helstu framförunum?
Nú er rétta tækfærið fyrir hláturmilda vinstri menn að lengja líf sitt með góðum hlátri, því ég ætla nú enn og aftur að halda á lofti þeim góðu verkum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir.
Til þess að hægt sé að reka framsækið nútímaþjóðfélag þarf fyrst og fremst að huga að tveimur þáttum, öflugri tekjuöflun og öflugu velferðarkerfi.
Nú halda margir að sjálfstæðismenn hafi lítið verið að spekúlera í velferðarmálum, en það er mikill misskilningur og misskilning ber að leirétta, með haldbærum rökum.
Ef við tökum fyrir tekjuöflun, þá er það óumdeilt, að Nýsköpunarstjórnin stóð sig vel í að afla tekna, keyptir voru nýsköpunartogarar fyrir stríðsgróðann, það skapaði mikla atvinnu bæði til sjós og lands.
Svo er það náttúrulega velferðarkerfið, en það var endurbætt mikið í tíð Nýsköpunarstjórnarinnar og Ólafur Thors var mjög hreykinn af þessu góða og framsækna velferðarkerfi.
Lög um atvinnuleysistryggingar voru líka sett á að frumkvæði sjálfstæðismanna. Sumir efasemdamenn munu eflaust ætla, að þessar umbætur séu tilkomnar vegna þrýstings verkalýðsflokkanna tveggja, en lög um atvinnuleysistryggingar voru sett þegar sjálfstæðismenn voru með framsóknarmönnum í ríkisstjórn.
Þetta hefur nú komið fram hjá mér áður og eru ekki nýjar fréttir, en ég gleymdi lögum um fæðingarorlof, en þau voru einmitt sett þegar sjálfstlæðismenn voru við völd, árið 1946, svo voru lög um feðraorlof einnig sett í stjórnartíð sjálfstæðismanna.
Greinilegt er að í öll skiptin sem íslendingar fengu einhverjar réttarbætur, þá voru sjálfstæðismenn við völd, þá er átt við mikilvægustu réttarbæturnar. Annars finnst mér feðraorlofið ekkert sniðugt, en það er bara mín skoðun.
Mörgum þykir gaman að nudda sjálfstæðismönnum upp úr hruninu og það er erfitt að halda uppi vörnum fyrir flokkinn í því máli.
En því ber að halda til haga, að Framsóknarflokur og Samfylking eiga þar hlut að máli, án þess að verið sé að gera lítið úr hlut sjálfstæðismanna.
Miðað við öll þau góðu verk sem sjálfstæðismenn hafa unnið í gegn um tíðina, þá er hægt að fyrirgefa þeim heimskupörin öll, þeir hafa iðrast. Flestir ættu að hafa lesið og heyrt setningar á borð við; "við brugðumst algerlega,"við sofnuðum á verðinum", "það vorum við sem brugðumst, ekki stefnan" osfrv., þetta eru tilvitnanir í forystumenn Sjálfstæðisflokksins.
Ég ætla svo að vona, að einhverjir geti hlegið mikið, húmor manna er misjafn, sumir hlægja meira að segja að staðreyndum sem virðast ekki fyndnar, svona í almennum skilningi.
Nú ef einhverjum finnst ég vera að fara með rangt mál, þá væri fallega gert að leiðrétta mig.
Ef ekkert nýtt kemur fram í þessu máli, þá er það staðreynd, að Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuð og herðar yfir alla flokka hér á landi, en ég veit að hann hefði mátt haga sér betur á síðustu árum og ekki tapa sér svona í dansinum í kring um gullkálfinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Mánudagur, 25. júlí 2011
Heimurinn þarf að móta ný viðmið.
Þetta er undarlegur heimur sem við lifum í, fjölmiðlar gefa það í skyn, að snarbrjáluð illmenni séu afskaplega gáfuð og klár, jafnvel þótt þau drepi samborgara sína með köldu blóði.
Lesa má frásögn af "miskunnsemi" illmennisins í Noregi, en þar segir frá 11. ára dreng sem baðst griða og illmennið leyfði barninu að lifa. Svo er líka sagt frá manni á sundi, sem hinn óhugnalega illi byssumaður sleppti að skjóta.
Svo átti norðmaðurinn víst að hafa ritað margt gáfulegt, eins og að einn maður með hugsjón geti gert meira gagn en hundrað þúsund manns sem hugsa um eigin hag.
Fræðimenn og fjölmiðlar hafa náttúrulega gert þetta lengi, að upphefja illmenni og óþverra. Hver hefur ekki lesið um það, hversu Hitler var nú gáfaður, sumir vilja meina að hann hafi verið grænmetisæta, því hann vildi ekki drepa dýr, slík var víst góðmennska illmennis sem hikaði ekki við að drepa menn, konur og börn fyrir það eitt að hafa fæðst sem Gyðingar.
Vitanlega á heimurinn að fordæma þá sem ógna lífi fólks, jafnvel þótt viðkomandi sé ekki alslæmur og hafi ágæta eðlisgreind til að bera jafnvel ansi góða eins og mörg illmenni státa víst af.
Fjölmiðlar og fræðimenn hafa oft litið framhjá ýmsum staðreyndum ef verið er að verja einhvern málstað, hvers vegna er ekki þá hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd, að illmenni geti haft einhverja góða kosti?
Með því að fordæma ilmenni og fjalla sem minnst um þeirra kosti, frekar að gera lítið úr þeim, þá er allavega ekki verið að veita illmennum framtíðar innblástur til fleiri illverka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 24. júlí 2011
Versta birtingarmynd lágkúrunnar.
Frændur okkar og vinir í Noregi þurfa um þessar mundir að horfast í augu við hryllilega athburði.
Illmenni tók sig til og drap nítíu og tvo samlanda sína, þannig að sorg norðmanna er meiri en nokkur orð fá lýst.
Við íslendingar eru lánsöm þjóð, þrátt fyrir vandræði í efnahagsmálum og talsverð blankheit hjá mörgum, þá hefur enginn verið drepinn hér á landi og það ber okkur að þakka fyrir.
En í stað þess að sýna samstöðu og samhryggjast frændum okkar og vinum af öllu hjarta, þá hefja menn árásir á pólitíska andstæðinga og nota þennan hrylling sem vopn í pólitískri baráttu.
Oft hefur hin pólitíska umræða hér á landi lagst lágt, en það ber að vona, að hún fari aldrei á lægra plan heldur en hún hefur nú gert.
Að lokum vil ég geta þess, að ef einhver búsettur í Noregi eða tengdur því landi les þessar línur, þá vil ég votta viðkomandi mínar innilegustu og dýpstu samúðarkveðjur.
Á svona stundu er ekki hægt að finna réttu orðin, því þau eru ekki til.
Ég vona og bið að algóður Guð veiti norsku þjóðini styrk til að takast á við sorgina, það er eina sem breyskur maður getur gert á svona stundu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Föstudagur, 22. júlí 2011
Sjálfstæðisflokurinn hugsar um fólkið í landinu.
Útlendur hagfræðingur að nafni Marco Pietropoli bendir á þá staðreynd, sem þekkt hefur verið lengi, að Sjálfstæðisflokkurinn hugsar um fólkið í landinu, öðrum flokkum fremur.
Hann nefnir vissulega ekki Sjálfstæðisflokkinn, en flestir sem ekki eru blindaðir af reiði og hatri, skilja hvað hann meinar.
Enginn flokkur hefur bætt lífskjör hér á landi meira en Sjálfstæðisflokkurinn.
Stjórn hinna vinnandi stétta setti á lög um almannatryggingar árið snemma á fjórða áratugnum, en í ljósi sögunnar hefur vinstri flokkum ekki gengið vel í ríkisstjórn, þannig að ekki var hægt að fullkomna verkið, fyrr en sjálfstæðismenn komu að málum.
Það var "Nýsköpunarstjórnin" undir forystu sjálfstæðismanna sem fullkomnaði verkið og kom á fót alvöru kerfi, sem þjóðin gat verið stolt af, vegna þess að sjálfstæðismenn hugsuðu líka um uppbyggingu atvinuveganna, en flestir aðrir en hatursfullir vinstri menn vita að velferðarkerfin þarf að fjármagna með raunverulegum peningum, en ekki skattahækkunum og lántökum.
Ekki skal farið nánar í löngu liðna fortíð í bili, heldur skulu staðreyndir sem eru nær okkur í tíma skoðaðar.
Sjálfstæðismenn sáu til þess, að hárrétt ákvörðun var tekin, þegar bankarnir voru látnir falla, það sparaði okkur nokkur þúsundir milljarða, sjálfstæðismenn sáu líka til þess, að lánasöfnin voru yfirtekin með afföllum, til þess að koma til móts við skuldug fyrirtæki og heimili í landinu.
Vitanlega eyðilögðu vinstri menn þetta, enda hafa þeir sýnt það og sannað, að þeir eru óhæfir til að hugsa um hagsmuni þjóðarinnar.
Á meðan annar flokkurinn treystir sér ekki til annars en að treysta á ESB, þá svíkur hinn flokkurinn kjósendur sína, því VG lofaði því fyrir kosningar, að þeir myndu berjast gegn ESB aðild.
Ekki er hægt að standast þá freistingu að fara aðeins í söguna, en á síðari hluta sjötta áratugs síðari aldar, var myndað svokallað "Hræðslubandalag", en það var aðferð vinstri flokkanna til að halda sjálfstlæðismönum frá völdum.
Vinstri flokkarnir lofuðu þá, að segja skilið við NATO og reka herinn úr landi.
Hvers vegna var það ekki gert?
Jú vinstri menn vilja frekar taka lán, heldur en að stuðla að verðmætasköpun, því þeim er svo illa við að fólk græði. Bandaríkjamenn buðu vinstri stjórninni hagstætt lán, gegn því að þeir fengju aðstöðu hér á landi fyrir herinn sinn.
Þanig að svik vinstri manna við kjósendur sína ættu ekki að koma neinum á óvart, sagan er alltaf að endurtaka sig.
Eflaust hafa sjálfstæðismenn ekki getað staðið við allt sem þeir hafa lofað, en það má fyrirgefa þeim en ekki vinstri mönnum.
Sjálfstæðismenn eru ekki stöðugt að grobba sig af réttsýni, heiðarleika og stefnufestu, því þeir hafa þá skynsemi til að bera og þá auðmýkt til að vita, að heiðarleiki og réttsýni eru hverjum manni erfið og krefjandi markmið, en samt ber að vinna að þeim af fullum heilindum.
Breyskleiki okkar er til staðar, við þurfum að kannast við hann til að sigrast á honum.
"Það vorum við sem brugðumst, ekki sjálfstæðisstefnan", "við sofnuðum á verðinum", þetta eru tilvitnanir í ýmsa forystumenn Sjálfstæðisflokksins eftir hrun.
Hvað gerir Samfylkingin?
Jú hún kennir sjálfstæðismönnum um allt klúðrið hjá sér og þykist hvergi hafa komið nálægt neinu öðru, en að sýna meðvirkni með sjálfstæðismönum.
Og VG?
Þau eru heppin að hafa ekki verið í ríkisstjórn á árunum fyrir hrun, því þá hefðu þau ekki getað grobbað sig eins og þau gera í dag.
VG lætur öll prinsipp lönd og leið og hlýðir öllu, ef ráðherrastólar eru í boði. "Kettirnir" sem Jóhanna hefur verið að smala, eru ýmis hraktir í burtu, eða þeim gefinn rjómi að lepja.
![]() |
Íslenska leiðin til fyrirmyndar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Fimmtudagur, 21. júlí 2011
Vinstri menn eru snillingar.
Að vissu leit má segja, að vinstri menn séu snillingar, þá meina ég snillingar í lygi, þótt það sé æði vafasamur titill.
Þeim tekst alltaf að fá fólk til að trúa öllu illu upp á Sjálfstæðisflokkinn, sennilega vegna þess að kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins kunna ekki að verja sig og flokkinn.
Samfylkingin kemur útbelgd af falskri réttlætiskennd og þykist vera að taka til eftir sjálfstæðismenn, m.a. með því að breyta spillingunni sem sjálfstæðismenn eiga að hafa sett af stað í fiskveiðimálum og fólk trúir þessu eins og nýju neti.
Það er rétt hjá mörgum, að hin mikla tilfærsla á aflaheimildum skapaði óeðlilegan gróða og veðsetning aflaheimilda til þess að geta keypt hlutabréf var vitanlega út í hött. Óveiddur fiskur í sjó eru afskaplega vafasöm verðmæti eins og flestum ætti að vera ljóst, því hann er ekki auðtamin skepna.
Alþýðuflokkurinn gamli ber jafnmikla sök á þessari vitleysu eins og sjálfstæðismenn. Sett var á fót svokölluð "Tvíhöfðanefnd" sem átti að vinna í löggjöf um fiskveiðimá. Annar formaður nefndarinnar, eðalkratinn Þröstur Ólafsson lýsti því yfir, vestur í Bolungarvík, að hann vildi að fiskvinnslhús gætu notið góðs af kvótaverðmætum eins og fiskiskip. Það þýddi, að fiskvinnsluhús hækkuðu í verði eins og skipin, vitanlega eykst veðhæfni eigna við það.
Svo má ekki gleyma því, að Sjálfstæðisflokkurinn var ekki við völd þegar kvótinn var settur á og framsalið, þannig að vafasamt telst að kenna sjálfstæðismönnum um það.
Svo er það einkavæðing bankanna, kratar voru á móti dreifðri eignaraðild að bönkunum, vegna þess að þau töldu að bankarnir nytu meira trausts á markaði ef það kæmi til stór kjölfestufjárfestir.
Samfylkingin bauð til sín á landsfund, útrásarvíkingum, Samfylkingin, flokkur sem kennir sig við jafnaðarstefnu, bókstaflega dýrkaði auðmenn á árunum fyrir hrun og vildi að þeir græddu sem allra mest.
Sjálfstæðisflokkurinn er vissulega ekki saklaus af mistökum, en auðmannadýrkun, óeðlilegt brask með aflaheimildir í sjávarútvegi og allt það sem fólk ergir sig á í dag, það skrifast hnífjafnt á reikning Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknarflokks og ef VG hefðu verið í ríkisstjórn, þá væru þeir samsekir líka, því VG hlýðir öllu ef þeir fá ráðherrastóla.
En ástæðan fyrir því að íslendingum hefur gengið vel, í samanburði við aðrar þjóðir, er vitanlega hin góða stefna Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt það og sannað, að hann er flokkur verðmætasköpunar og framfara, á meðan vinstri flokkarnir hatast út í þá sem þeir kalla auðmenn.
Þar sem ég er ekki hatursfullur og hraðlyginn vinstri maður, þá langar mig að lokum til að koma með tilvitnun í fylgirit, sem kom með hinu virta blaði "Economist" um áramótin 1998-1999.
Fylgiritið fjallaði um efnahagsmál á Norðurlöndum og sagt var að íslendingar hefðu haldið vel á málum undanfarin ár, 5% hagvöxtur hafi verið í landinu þrjú ár í röð, en þá hafði sjálfstæðisflokkurinn verið við völd í rúm sjö ár og enginn Björgólfur stóð þá í bankarekstri, atvinnuleysi var aðeins um 2% og Ísland var þá í fimmta sæti á heimslista OECD yfir kaupmátt ráðstöfunartekna.
Kæru vinstri menn, þið hafið rétt til að hata Sjálfstæðisflokkinn af öllu hjarta og þrá það hvað heitast að Davíð Oddsson líði endalausar þjáningar, sem og allir sjálfstæðismenn. Þið megið vissulega trúa því, að Sjálfstæðisflokkurinn sé rót alls ills.
En í Guðs almáttugs bænum, reynið þið að venja ykkur af þessari andskotans lygi, hún kemur bara í bakið á ykkur fyrr eða síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 21. júlí 2011
Á að hjálpa öllum?
Eftir að hafa spjallað við ágætan kunningja minn, sem ég hef þekkt ansi lengi, þá varð ég mjög hugsi yfir opinberri aðstoð við fólk í fjárhagserfiðleikum.
Þessi ágæti maður starfar sjálfstætt sem iðnaðarmaður og hann hefur oftast haft ágætar tekjur, því hann er duglegur að vinna og góður verkmaður, en með peninga hefur hann aldrei kunnað að fara.
Hann byggði sér einbýlishús og missti það, einnig hefur hann misst bæði og neyðst til að selja íbúðir sem hann hefur búið í og sl. 3 ár hefur hann verið í leiguhúsnæði.
Í gegn um tíðina hefur hann verið snarvitlaus út í hið opinbera, því skattayfirvöld hafa sýnt honum takmarkaðan skilning. Utanlandsferðir, dýrir jeppar og annar lúxus hefur verið það stór kostnaðarliður hjá honum, þannig að opinber gjöld hafa orðið að sitja á hakanum. Hann hefur fárast yfir þessum háu vöxtum sem vanskil á virðisaukaskatti bera auk kostnaðar, allar skuldir hans við skattinn hafa margfaldast, því lengur sem hann hefur trassað að borga.
En nú kveður við anna tón hjá mínum manni, þegar ég hitti hann á dögunum var hann glaðari en ég hef nokkru sinni séð hann, nú loksins er hið opinbera farið að sýna hans sjónarmiðum skilning.
Þeir hjá umboðsmanni skuldara vilja gera allt fyrir hann og nú sér hann fram á að verða skuldlaus maður eftir örfá ár, án þess að hafa svo mikið fyrir því.
Umboðsmaður skuldara heimtar reyndar að hann selji Land-cruserinn, en honum finnst það í lagi, hann getur vel sætt sig við smábíl tímabundið. Umboðsmaður skuldara hefur samið við skattinn fyrir hann og nú þarf hann að borga 5-10.000 kr. á mánuði í einhver ár, svo verður restin afskrifuð.
Eitthvað eru bankarnir tregari í taumi en ríkið finnst honum, en það ergir hann ekki neitt, hann verður bara gjaldþrota í tvö ár, svo byrjar hann upp á nýtt.
Þar sem hann hefur alltaf farið til sólarlanda á hverju ári, þá spurði ég hann hvernig honum þætti að vera á klakanum í sumar. Ekki skyldi hann spurningu mína í fyrstu, en þá spurði ég hann hvort hann hefði nokkuð efni á að fara til sólarlanda þetta árið, þá kvaðst hann nú hafa ráð undir rifi hverju.
Hann hafði unnið talsvert í svartri vinnu á árinu og var nú búinn að nurla saman fyrir utanlandsreisu og hann vann fyrir einhvern sem átti nóg af gjaldeyri, þannig að hann fékk víst greitt fyrir vinnuna í Evrum, þannig að nú áti hann fyrir ferðinni og smá gjaldeyri til að taka með sér.
Ekki var nú laust við að gleði hans ylli smá ergelsi hjá mér, þótt ég hafi "kyngt ælunni" og samglaðst honum í orði. Ég fór að hugsa til þess, að ég hafi alltaf unnið mikið, í erfiðisvinnu og yfirleitt þénað ágætlega.
Ég hef alltaf borgað mínar skuldir og farið ágætlega með peninga, reyndar kostar sitt að koma upp fimm börnum, en það er fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka.
Strákunum mínum hefur lengi langað til sólarlanda, þannig að ég ákvað að láta það eftir þeim og ætla að skreppa, í fyrsta skiptið á ævinni, á sólarströnd næsta sumar og njóta þess að eiga góða tíma með fjölskyldunni í sólinni á Portúgal eða Spáni.
Ég hef leikandi efni á því, en ég hef ekki getað leyft mér að gera eins og minn skuldum vafði vinur, að fara einu sinni til tvisvar á ári, mín fjárráð hefðu ekki leyft það, samt hef ég oftast þénað meira en hann.
En ég velti því fyrir mér, hvort umboðsmaður skuldara ætti ekki að kynna sér forsögu sinna skjólstæðinga aðeins betur, fólk þarf náttúrulega að axla ábyrgð á sínum gjörðum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 20. júlí 2011
Íslendingar geta hvorki skilið Íraels eða Palestínumenn.
Össur Skarphéðinsson á að fara varlega í yfirlýsingar varðandi málstað Palestínumanna, einfaldlega vegna þess, að við getum ekki skilið þessar þjóðir nægjanlega til þess að geta tekið einarða afstöðu.
Við sem byggjum þessa örsmáu eyju norður í ballarhafi þekkjum ekkert annað en frið, við höfum ekki verið í stríði við aðrar þjóðir.
Hvernig getum við skilið sjónarmið þjóða, sem hafa lifað við stríð og blóðsúthellingar í þúsundir ára. Slíkar aðstæður skapa reiði og hatur, þannig að vel er hægt að skilja bæði Ísraela og Palestínumenn. Óhætt er að segja að stjórnmálamenn þessara landa séu ábyrgir fyrir þessum hörmungum, því enginn vill gefa eftir.
Hægt er að hafa samúð með almenningi í Palestínu og það er mjög auðvelt að fyllast reiði út í Ísraelsmenn eftir að hafa horft á grátandi tólf ára dreng frá Palestínu segja heimsbyggðinni frá því, að hann væri bara saklaust barn, það var alveg rét hjá honum. Foreldrar hans voru skotnir og systir hans líka, hann kom fram í fréttum RÚV þegar verið var að lýsa stríðinu þar ytra.
Einnig eru Palestínumenn einnig mjög herskáir, þeir skjóta á saklaust fólk í Ísrael, þannig að vel er hægt að finna til samúðar með Ísraelsmönnum.
Báðir aðilar hafa eitthvað til síns máls, í deilum gildir gamla máltækið; "sjaldan veldur einn þá er tveir deila". Við íslendingar getum ekki breytt hinu rótgróna hatri sem ríkir á milli þesara nágrannaþjóða, en við getum sýnt þeim báðum virðingu og vinsemd.
Hvorug þessi ríki hafa ráðist á Ísland né heldur sýnt okkur neitt annað en vináttu. Við eigum að halda góðu sambandi við bæði ríkin, en ekki þykjast geta breytt þeim að nokkru leiti.
Einfaldlega vegna þess, að við getum aldrei skilið þessar þjóðir til fulls, við þekkjum hvorki hernað né stríð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 20. júlí 2011
Sjálfstæðisflokkurinn á glæsta fortíð sem hann á að læra af.
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður, fyrir áttatíu og tveimur árum, þá var það markmið hans að efla hag allra íslendinga, óháð því hvaða stétt þeir tilheyrðu.
Ólafur Thors sagði að hann væri hvað stoltastur af hinu stórkostlega velferðarkerfi sem stofnað var í tíð "Nýsköpunarstjórnarinnar".
Ef Sjálfstæðisflokkurinn væri eins innréttaður og sumir lygalaupar í spunaliði vinstri manna vilja vera láta, þá er nú hætt við að Ólafur heitinn hefði frekar glaðst meira yfir hinum góða árangri sem "Nýsköpunarstjórnin" náði í verðmætasköpun og fjölgun atvinnutækifæra, en honum þótti meira til velferðarkerfisins koma.
Okkur þykir ósköp notalegt að vita til þess, að við fáum bætur frá hinu opinbera ef við verðum fyrir atvinnumissi. En hver skyldi nú hafa staðið fyrir því?
Um miðjan sjötta áratug síðustu aldar höfðu staðið yfir illleysanlegar vinnudeilur og ríkisstjórnin ákvað að reyna að miðla málum, þá voru framsóknar og sjálfstæðismenn saman í stjórn. Ríkisstjórnin ákvað að stofna atvinnuleysistryggingarsjóð sem var vitanlega prýðisgóð hugmynd.
Miklar og harðar deilur voru í ríkisstjórninni og hún var að falli komin. Ólafur Thors ákvað að ríkisstjórnin héldi saman þar til að búið væri að ganga frá atvinnuleysistryggingum með fullnægjandi hætti og það tókst.
Svo má vitanlega þakka sjálfstæðismönnum afnám hafta og aukið frelsi landsmönnum til handa.
En Sjálfstæðisflokkurinn hefur stundum gleymt sér á löngum valdatíma, það er alveg rétt.
Ofþanin ríkisútgjöld, meðvirkni með fjármálamönnum og fleiri atrið má tína til, en það eru alltaf tækifæri til að snúast til betri vegar.
Sjálfstæðisflokkurinn er opinn og lýðræðislegur flokkur sem rúmar margar ólíkar skoðanir. Með því að takast á um málefnin og sættast á málamiðlanir sem flestir geta sætt sig við, þá getur flokkurinn náð vopnum sínum á ný.
Íslendingar eru ágætlega greindir upp til hópa, þess vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn haft mest fylgi allra flokka, oftast nær.
Hægt er að hártoga allt fram og til baka, en eftir standa nokkrar staðreyndir.
Ísland hefur náð að byggja upp fyrirmyndarsamfélag á flestum sviðum, við höfum búið við lítið atvinnuleysi að mestu leiti allan lýðveldistímann, miðað við önnur lönd. Allir hafa haft tækifæri til menntunar og flestir búa í eigin húsnæði, mestallur samnaburður við aðrar þjóðir er okur í hag.
Og Sjálftæðisflokkurinn hefur verið ríkjandi afl í landsmálum lengst allra flokka á lýðveldistímanum.
Til þess að sanngirni sé gætt, þá má geta þess, að vinstri flokkarnir hafa líka gert mjög góða hluti, þegar þeir voru í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum.
Í stað þess að trúa lygi spunameistara, þá er betra að lesa sér til og skoða hvernig hefur gengið hér á landi, þegar vinstri flokkar hafa ríkt án Sjálfstæðisflokksins og með honum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 20. júlí 2011
Eru allir fæddir jafnir?
Jafnaðarstefnan gerir ráð fyrir því, að allir séu fæddir jafnir, en það er vitanlega tóm þvæla.
Fólk fæðist með misjafna eðliseiginleika sem nýtast misvel í lífinu, sumir geta einfaldlega ekki gert nokkurn skapaðan hlut almennilega á meðan allt virðist leika í höndunum á öðrum. Einnig skiptir máli í hverskonar fjölskyldur börn fæðast.
Tökum dæmi um tvö börn sem fæðast með mikla tónlistarhæfileika, annað barnið á foreldra sem eru þekktir tónlistarmenn, hitt barnið á foreldra sem eru verkafólk.
Vitanlega á barnið sem á þekktu tónlistarmennina sem foreldra miklu greiðari leið í músíkina heldur en hitt barnið.
Eigum við þá að sjá til þess með lögum, að möguleikar barna sem eiga þekkta tónlistarmenn sem foreldra verði heftir, til þess að auka möguleika hinna?
Vitanlega ekki, svona er lífið, hvað sem jafnaðarstefnan hefur um málið að segja.
Hins vegar eigum við öll rétt á virðingu og mannlegri reisn, það er hið sanna jafnrétti.
Jafnaðarstefnan hefur aldrei verið til í raunveruleikanum, aðeins í hugum jafnaðarmanna, því mannlegt eðli stjórnast ekki af stjórnmálaskoðunum fólks.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)