Færsluflokkur: Bloggar

Styrkir ESB aðild fullveldið?

Það er fremur kómískt oft á tíðum, að fylgjast með málflutningi ESB sinna.

Þeir halda því fram að sambandsaðild þýði ekki afsal fullveldis og utanríkisráðherrann hæstvirti og knái, sagði hróðugur, að fullveldið myndi styrkjast við inngönguna.

Fyrrum lögspekingur sambandsins sagði í Kastsljósviðtali að þjóðir afsöluðu sér ekki fullveldi, heldur deildu þær fullveldi sínu með hinum aðildarríkjunum, þegar þær gengju í sambandið.

Öllum er vitanlega frjálst að hafa sína skoðun á kostum og göllum aðildar, en svona staðreyndarvillur eru engum til framdráttar.

Hugtakið fullveldi þýðir vitanlega það, að fullvalda ríki mótar leikreglur samfélagsins á eigin spýtur, óháð öðrum.

Færa má rök fyrir því, að með ýmsum samþykktum á EES tilskipunum deilum við nú þegar fullveldinu með öðrum þjóðum, einnig gerum við það í samtarfi okkar við NATÓ og SÞ. 

Með ESB aðild afsölum við fullveldinu enn frekar, því ESB lög eru lögum einstakra aðildarríkja æðri, einnig vilja Brusselmenn okkur ekki að eiga fiskinn okar í friði, það kom einnig fram í Kastljósinu.

Ekki hætti ég mér frekar út hina hina hálu braut lögspekinnar, en verð samt að segja, að ég er afar óhress með að láta útlendinga vasast í fiskveiðiauðlindinni og verð öskuillur yfir þessari leiðinda áráttu þeirra að banna hvalveiðar.

Vilja menn ekki jafnrétti og hvers vegna á að hlífa hvölum frekar en þorskræflinum, sem er óskaplega sakleysileg og yndæl skepna?

Auðvitað þurfum við að veiða öll kvikindi, sem ekki eru í útrýmingarhættu, við erum jú kjötætur að stærstum hluta.

Fræðimaðurinn sagði ennfremur í viðtalinu, að nauðsynlegt væri fyrir smærri þjóðir á borð við Bretland, Þýskaland og Frakkland að standa saman og mynda varnir gegn stórveldum á borð við Bandaríkin, Indland og Kína.

Við þurfum ekki að óttast fyrrgreind stórveldi, þau hafa komið betur fram við okkur heldur en einstök ríki innan ESB. Við höfum átt prýðileg samskipti við Bandaríkin svo dæmi sé tekið.

Vandséð er að íslendingar hefðu það betra, þótt við værum í sambandinu. Varla myndu Írar taka undir það sjónarmið, Grikkir sennilega ekki heldur né Spánverjar. Almenningur í þessum löndum býr við atvinnuleysi og leiðinda blankheit.

Það þýðir ekki að hlusta á stjórnmálamenn, í öllum ríkjum heims hafa pólitíkusar það nokkuð þokkalegt miðað við almenning, sama hversu aumt ástandið er í þeirra löndum.

Mótmælin á götum ríkja ESB bera þess glöggt vitni, að fólk hefur það slæmt, það á frekar að taka mark á því heldur en að lesa stöðugt einhverjar reglugerðir frá Brusselmönnum sem líta þokkalega út, við fyrstu sýn.

Þótt ég vilji ekki fyrir nokkurn mun sjá inngöngu í Evrópusambandið, þá þurfa ekki allir að vera á sömu skoðun varðandi það.

En að halda því fram að í því felist styrking á fullveldinu, það er óttaleg della.


Er Samfylkingin kúgaður flokkur?

Í öllum flokkum er ágreiningur, það er eðlilegt.

Órólega deildin í VG tekst á við forystuna, í Framsókn eru skiptar skoðanir um ESB aðild og þingmenn takast á, í Sjálfstæðisflokknum er ágreiningur um Icesave og ESB og þar eru þingmenn ekki sammála.

En Samfylkingin, þar virðist enginn ágreiningur vera, enda hrósaði blessuð gamla konan úr forsætisráðuneytinu félögum sínum fyrir, hversu dugleg þau voru við að vera henni sammála.

Fallast má á þau rök, að ekki sé beinlínis fallega gert að skammast í öldruðum konum, en það er einum of langt gengið þegar öldnu konunni í formannsstólnum er leyft að skrökva að eigin flokksmönnum.

Blessunin gamla fór með leiðinda fleipur þegar hún ræddi skýrslu Greco, en það er félagsskapur sem fylgist með því að spilling grafi ekki um sig í Evrópulöndum.

Hinn aldurhnigni leiðtogi Samfylkingarinnar sagði frá því glöð í bragði, að eftirlitsstofnunin hefði hrósað ríkisstjórninni í hástert fyrir góða fylgni við tilmæli stofnunarinnar.

Það var misskilningur hjá gömlu konunni, Greco lét þess getið í niðurlagi skýrslu sinnar að eftirfylgni stjórnvalda væri beinlínis óviðunandi.

Kannski er ljótt að segja að Samfylkingin sé kúgaður flokkur, það er erfitt að sýna gömlum konum hörku, svo mikið er víst.

Ætli þau nagi sig ekki í handarbökin fyrir að hafa talið sjálfum sér og þeirri gömlu trú um, að hún væri góður leiðtogi?


Umræða á lágu plani.

Útgerðarmenn eru á engan hátt frábrugðnir öðrum einstaklingum af sama kynþætti í atferli sínu og háttum almennt.

Samt af einhverjum undarlegum ástæðum, kjósa sumir að kalla þá glæpamenn og þjófa.

Lögum samkvæmt telst það heiðarleg atvinna að gera út skip til fiskveiða, einnig telst það ekki stríða gegn lögum að halda málstað sínum á lofti og vilja veg sinn hvað mestan.

Í eldri og þróaðri samfélögum njóta menn virðingar stjórnvalda, ef þeim tekst að skapa miklar gjaldeyristekjur, en  hér á landi ríkir afar sérstæða ríkisstjórn, sem reynir allt sem hún getur, til þess að þrengja að afkomu þeirra.

Blessuð gamla konan í forsætisráðuneytinu sagði þá státa af kjafti þeim er skötuselir bera, það er vissulega sjónarmið út af fyrir sig, en harla óvenjulegt að æðstu ráðamenn þjóða opinberi sínar hugsanir með þessum hætti.

Útgerðarfyrirtæki voru flest á framfæri ríkisins að mestu leiti, áður en kvótakerfið komst á. Það hefur vissulega marga galla, en það hefur gert það að verkum, að útgerðir standa nú á eigin fótum og skila hagnaði.

Meðan veiðar voru frjálsar og ríkið stöðugt að hlaupa undir bagga með útgerðarmönnum, þá nutu þeir talsverðrar virðingar í samfélaginu, þeir voru allavega ekki kallaðir þjófar og glæpamenn á opinberum vettvangi.

Svo þegar þeir fara að standa á eigin fótum og þurfa ekki lengur að væla utan í ráðamönnum, þá eru þeir allt í einu orðnir vafasamir pappírar með skötuselskjaft.

Hætt er við að umræðan þurfi að þróast aðeins betur, áður en hún getur talist vitræn.


mbl.is Talað til útgerðar eins og glæpamanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þykjast þessir menn eiginlega vera?

Jóhanna fyllist nú réttlátri reiði yfir afskiptasemi ríkisendurskoðunar, hæstiréttur er líka með eintóm leiðindi við kerlingarangann.

Skilja þessar stofnanir ekki að hún er alltaf að vinna samkvæmt sinni bestu vitund?

Þótt vitundin hennar sé ekki alveg kórrétt, þá er þetta þó allavega hennar vitund og það þurfa ekki allir að hafa eins vitund.

 

Hvaða leiðindi eru þetta í honum Guðlaugi að vera að spyrja út í Stefán Ólafsson, vita menn ekki að Stefán er prófessor og hefur fengið út hagstæðar niðurstöður fyrir þá sem þurfa að lifa af lágum launum?

Það er ekki hægt að gera allt hundrað prósent, þótt hún geti kannski ekki leiðrétt kjör landsmanna í raunveruleikanum, þá er það þó viðleitni að láta Stefán reikna og fólk getur þó allavega haft það gott á pappírum.

En það er erfitt að gera öllum til hæfis, svo kemur bara eitthvað leiðinda nöldur frá ríkisendurskoðanda.

Svarið var vitanlega vitlaust, en Ríkisendurskoðun skoðar svarið ekki eins og það er, gerir ráð fyrir að það eigi að vera rétt. Það eru náttúrulega kolvitlausar forsendur, því vitlaust svar ber að skoða sem vitlaust svar, ekki gefa sér þær forsendur að það hafi átt að vera rétt.

Hæstiréttur og Ríkisendurskoðun hengja sig alltaf í sömu smáatriðin, þessar stöðnuðu stofnanir ganga alltaf út frá þeirri forsendu að allt eigi að vera rétt, en hvaða máli skiptir það?

Jóhönnu hefur tekist það sem fáir töldu mögulegt fyrir nokkrum árum.

Henni hefur tekist að verða forsætisráðherra og hún hefur líka haldið Sjálfstæðisflokknum frá ríkisstjórn í tvö ár, það er nú afrek út af fyrir sig, hjá konu sem hefur ekkert vit á efnahagsmálum.

En stofnanamenn skilja ekki svona hluti.

Þeir eru hundleiðinlegir og heimta alltaf að allt sé rétt, ég skil Jóhönnu vel að vera svolítið örg þessa daga.


mbl.is Sendi Ríkisendurskoðun leiðbeiningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt hjá Ólínu.

Ólína Þorvarðardóttir bendir á þá alkunnu staðreynd, að margt sé hægt að læra af þeim sem eldri og reyndari eru.

Hinu góða heilræði sínu, beinir hún til Lilju Mósesdóttur og bendir henni á, að margt geti hún lært af Jóhönnu Sigurðardóttur, sem alkunn er fyrir mikla hörku, þegar hún kemur sínum skoðunum á framfæri.

Vitanlega finnst Ólínu Lilja vera óþarflega lin, hún gerir lítið annað en að segja sínar skoðanir, en það gustar ekki nóg af henni, að mati þingmannsins.

Auðvitað finnst Ólínu, sem er alkunnur kvenskörungur, að Lilja eigi að tileinka sér þá hörku sem Jóhann býr yfir.

Lilja á vitanlega að taka Jóhönnu til fyrirmynda, að mati Ólínu, skella hurðum hægri vinstri, öskra í pontu, hundskamma þá sem eru ósammála henni og stofna nýjan flokk eins og skot.

Það gerði Jóhanna þegar hún var óhress með þá ríkisstjórn sem hún sat í á sínum tíma.


mbl.is Orð látin vaða eins og púðurskot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nokkur missir af Ásmundi Páli?

Ásmundur Páll Hjaltason sem gegndi formennsku fyrir VG á Austurlandi, hefur nú sagt sig úr flokknum.

Honum finnst eins og ansi mörgum félagsmönnum VG forystan ekki vera að framfylgja stefnu flokksins, á skömmum tíma hafa tveir af trúnaðarmönnum flokksins sagt sig úr honum.

Steingrími Joð finnst þetta örugglega vera óttaleg smámunasemi, hvað ætli þurfi að vera að framfylgja einhverri stefnu meðan vinstri flokkarnir fá að vera við völd?

Já, þetta lið ætti að skilja það, að stærsta takmarki vinstri manna hefur verið náð, Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið utan ríkisstjórnar í heil tvö ár, það munar nú um minna.

Og hvað er fólk að hengja sig á einhver prinsippmál, sem litlu skipta í heildarmyndinni, eins og stefnuskrá flokksins. Hvaða máli skiptir þótt rangar ákvarðanir hafi verið teknar trekk í trekk og ríkisstjórnin sé engan veginn að standa sig?

Steingrími Joð finnst vitanlega, að félagsmenn VG geti sætt sig við hörmulega ríkisstjórn vegna þess, að það hefur tekist að halda sjálfstæðismönnum frá völdum. Vinstri menn þurfa að átta sig á því, að það er helsta takmarkið og hægt að færa margar fórnir, í þeim megintilgangi halda Sjálfstæðisflokknum sem lengst frá völdum og ef landið fer á hausinn, þá er lokatakmarki þeirra náð, Sjálfstæðisflokkurinn kemst þá aldrei aftur til valda.

En þetta skilja sumir flokksmenn ekki, þess vegna er alveg eins gott að losna við þá hið fyrsta.

Svo var Karólína náttúrulega áhugalaus um allt er varðaði starfið, hún vildi bara framfylgja stefnunni, mætti illa á fundi osfrv.

Ætli það sé nokkur missir af honum Ásmundi Páli, svona stífir prinsippmenn þvælast bara fyrir alvöru hugsjónamönnum.

Hugsjónamenn VG hafa það eina takmark, að halda Sjálfstæðisflokknum sem lengst frá völdum, enda er þá ólíklegt að einhverjir verði leiðinlega ríkir og jafnvel óbreyttir alþýðumenn líka, það getur haft slæm áhrif á þá, sem vilja fremur rífast um pólitík en vinna.

Það er sko ekki mikill missir af svona liði, sem skilur ekki út á hvað hin raunverulega stefna gengur, burtséð frá einhverri stefnuskrá sem enginn skilur hvort sem er.


Auðveld leið til frama.

Sjaldan hefur verið eins mikið um tækifæri fyrir fólk sem gjarnan vill vekja á sér athygli og eiga möguleika á þokkalegu viðurværi, en það borgar sig ekki að láta prinsipp þvælast fyrir sér í þeim efnum.

Ef menn hugsa eingöngu um eigin hag og eru ekki þjakaðir af heiðarleik, þá er byrjunin einföld.

Best er að byrja á því að stofna bloggsíður á moggablogginu og eyjunni. Það þarf ekkert að hafa neitt fyrir því að skrifa, gott er að kenna "helvítis íhaldinu" um allt og nota þetta hugtak nokkuð oft í sínum skrifum. Líklegt er að Hrannar B Arnarsson aðstoðarmaðurinn knái líti með velþóknun á allar fyrirsagnir sem fela í sér eftirfarandi; "allt Davíð að kenna", "Davíð olli hruninu" og fleiri stórar yfirlýsingar er varða skítkast á persónu ritstjórans í Hádegismóum.

 

Svo er óvitlaust að vitna til skrifa aðstoðarmannsins hugumstóra, segja að endingin á pistlunum hans "pælum í því" hafi vakið viðkomandi til umhugsunar og hann hafi hug á að fá þessa stórkostlegu hugmynd að láni, því "pælum í því" veki heiladauða þjóð af dvala og fái hana til að sjá með skýrum hætti, hversu góð verk Jóhanna sé að vinna.

Næsta skref er vitanlega að skrá sig í Samfylkinguna og tala mátulega hátt, svo helstu stuðningsmenn Jóhönnu heyri, þeim fer fækkandi, en með lagni má finna þá á fundum á vegum flokksins, um að Jóhanna sé hetja og berjist gegn ofurvaldi helvítis íhaldsins með kvikindið hann Davíð við stjórnvölinn.

Einnig er flott að tala um útgerðarmafíuna í LÍÚ sem öllu vill ráða. Svo í framhaldinu má fá birtar greinar í Fréttablaðinu þar sem Jóhönnu er hrósað í hástert, hægt er að segja að hún hafi náð ótrúlegum árangri í efnahagsmálum á skömmum tíma, við erfiðasta tíma sem nokkuð vestrænt ríki hefur nokkurn tíma staðið frammi fyrir.

Þá opnast leiðin, væntanlega hefur einhver á vegum Jóhönnu samband við viðkomandi og fær tækifæri til að kynnast honum nánar.

Svo áður en haninn galar þrisvar, þá er viðkomandi einstaklingur kominn í tryggt starf hjá hinu opinbera og þiggur ágæt laun, þau eru ekkert í vandræðum með að fóðra það og halda fjölmiðlum í skefjum, annað eins hefur verið gert.

Svo þegar ríkisstjórnin fer frá völdum, þá þekkja þau hjá Samfylkingunni fullt af ríkum köllum sem geta reddað vildarvini flokksins fínni vinnu það sem eftir er.

Tækifærin eru næg ef fólk er tilbúið til að selja samvisku sína.


Þau kunna allar brellurnar.

Það verður að segja Samfylkingarfólkinu til hróss, að þau kunna allar brellurnar upp á sína tíu fingur og eru ansi leikin við, að láta ekki hanka sig á smáatriðunum.

Þeim tókst aldeilis að snúa á mig núna, ég verð að viðurkenna það.

Ég var að spekúlera í afskiptum Árna Páls af ráðningu framkvæmdarstjóra Íbúðarlánasjóðs og það rifjaðist upp fyrir mér atriði úr landsfundarályktuninni þeirra árið 2009, en þar var eitthvað verið að gagnrýna pólitísk afskipti af mannaráðningum.

Ég taldi mig ansi góðan, að geta hankað þau á þessu.

En þau sáu við mér helvítin á þeim, ég kíkti á síðuna þeirra og varð heimaskítsmát.

Ályktunin var svohljóðandi; "Efnahagsleg endurreisn þarf að haldast í hendur við opnara og lýðræðislegra stjórnkerfi. Pólitísk afskipti af mannaráðningum hjá hinu opinbera hafa veikt stjórnkerfið og grafið undan faglegri stjórnsýslu".

Við fyrstu sýn virðist vera viðleitni hjá þeim að laga þetta atriði, sem þegar betur er að gáð, þá er þetta bara almenn umfjöllun um þetta efni.

Hvergi kemur fram að þau lofi að gera endurbætur á þessu eða gera nokkuð annað en að koma ákveðinni hugsun í orð, þetta lítur vel út á pappírum vegna þess að liðsmenn þeirra gera nú ekki svo miklar kröfur, en þess var vel gætt að ekki væri hægt að hanka þau á neinu.

Vitanlega vildu þau hafa smá svigrúm til að hafa afskipti af mannaráðningum og ef menn ætla að benda þeim á þetta atrið, þá geta þau einfaldlega sagt; "ja, við lofuðum aldrei að taka á þessu var það nokkuð?".

Þetta hljómar svolítið gnarrað, en sniðugt samt.

Það er allavega ekki hægt að hanka þau á þessu, svo mikið er víst.


Er rasismi að aukast á Íslandi?

Ég hef verið dálítið hugsi undanfarið vegna skrifa DV um rasista á Íslandi og viðtöl sem blaðið tók við talsmenn þessa hóps.

Því miður finnst mér flest geta gerst hér á landi, í ljósi þess að hópur fólks gerði þau reginmistök að leiða Jóhönnu og Jón Gnarr til valda, reiðin virðist enn krauma í fólki vegna efnahagshrunsins og reiði fær skynsamt fólk til að gera hina ótrúlegustu hluti.

Vitanlega er ekki hægt að banna fólki, að vera illa við litaða einstaklinga ekki frekar en, að það eigi að banna fólki, að vera illa við mig vegna minna skoðana.

En þegar gefið er í skyn, að ofbeldi gegn lituðum sé réttlætanlegt, það finnst mér óásættanlegt.

Annars finnst mér þessi rasismi fáránlegur í ljósi þess, að það var hvíti maðurinn sem tók svertingja með valdi, burt frá heimkynnum sínum og svo vilja sumir hvítir ekkert með þá hafa.

Ég ætla að vona að sá hugsunarháttur sé horfinn, sem gengur út á það, að nýta lifandi fólk sem húsdýr eins og gert var við svertingja fyrr á öldum.

Það er svartur blettur á sögu landanna sem það gerðu og verður seint afmáður.

Mér er nú málið einnig svolítið skylt, þar sem ég á kolsvarta mágkonu og þar af leiðandi dökk bróðurbörn.

Mágkona mín er alin upp í Kaþólskri trú, hefur biblíuna á náttborðinu og ákallar Jesús og Maríu í hvert skipti sem blótsyrði hnýtur af vörum mágs hennar, þetta er yndislega kona og sérstaklega blíð, hún hefur kennt mér margt um lífið, því hún á bágt með að skilja vælinn í fólki hér á landi.

Bróðir minn er enn í sjokki eftir að hann skrapp til að hitta tengdaforeldra sína í Afríku fyrir tveimur árum, aðstæður eru aðrar en hér á landi, hann fékk m.a. að kynnast því að svertingjar eru ekki allir mjög elskir að hvítum mönnum, af skiljanlegum ástæðum, en hann er svo ljós yfirlitum að hann lýsir í myrkri.

Það væri fræðandi fyrir þá sem kvarta yfir aðstæðum hér á landi að kynnast lífinu í Afríku.

Þau hjónin fóru út að borða þar ytra og þurftu að bíða talsvert eftir matnum. Bróðir minn spurði þá eiginkonu sína, hvort það væri verið að slátra matnum eins og menn spyrja gjarnan hér á landi þegar biðin er orðin löng.

Hún skellihló, því hún hefur búið hér í mörg ár og kannast við svona spurningar, hún tjáði eiginmanni sínum að það væri einmitt verið að slátra matnum. Ísskápar eru ekki algengir þar sem hún býr né önnur þægindi sem okkur þykja sjálfsögð hér á landi.

Samt er þetta lífsglatt fólk sem brestur í dans af  engu tilefni, ég skal játa það, að mér finnst hálf óþægilegt í veislum hjá þeim hjónum, þegar ég er rifinn upp af konum sem mágkonu minni tengjast og neyddur til að dansa. Dans hefur aldrei verið á mínu áhugasviði, auk þess er ég frekar stirður í hreyfingum, en ég hef lengt líf Afríkubúanna umtalsvert því þeim finnst ógurlega fyndið að horfa á mig dansa.

Svo eru það blessuð börnin þeirra, falleg börn sem taka heilshugar undir  sjónarmið, sem ég hef komið inn hjá börnunum í minni fjölskyldu, að ég sé uppáhaldsfrændinn, og veita mér þann heiður að stökkva í fangið á mér og sýna mér þá fallegu einlægni sem börnin ein kunna að gera.

Svo þykir afskaplega ljótt ef einhver vill meiða þetta fólk sem á sérstakan stað í mínu hjarta.

Fyrir utan það, að þá get ég aldrei sætt mig við að nokkur manneskja þurfi að eiga vona á því, að vera beitt ofbeldi fyrir það eitt, að bera annan húðlit en ofbeldismaðurinn.

Það er ekkert annað en helvítis villimennska sem er ólíðandi í siðmenntuðum löndum.

 


Afar sérstæður forsætisráðherra.

Jóhanna er afskaplega sérstæð kona eins og flestir vita. Í ræðu sinni á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar sagði hún m.a.; "það er af sem áður var þegar Ísland sat í skammarkróknum eitt fárra ríkja Vestur Evrópu", og þá var hún að ljúga því að flokksmönum sínum, að skýrsla GRECO sem eru samtök ríkja gegn spillingu hafi sagt að allt hefði farið til betri vegar, eftir að hún tók við völdum.

Ég er löngu hættur að trúa henni, þannig að ég kíkti á vef Forsætisráðuneytisins.

Þar eru úrdrættir úr umsögnum GRECO, árið 2001 var sagt að spilling væri með því minnsta sem gerðist í Evrópu, árið 2006 fagnaði stofnunin því að Ísland hefði sett góðar reglur varðandi fjármál stjórnmálasamtaka.

Rauði þráðurinn er samt sá því miður, að íslendingar hafa ekki farið nægjanlega eftir fyrirmæli stofnunarinnar varðandi lagasetningar gegn mútuþægni.

Og hvað hefur svo batnað eftir að hin "tæra vinstri stjórn komst til valda?

Stofnunin lagði til að tryggt yrði lagaákvæði um mútur og áhrifakaup í almennum hegningarlögum og að þau næðu einnig til fulltrúa erlendra fulltrúaþinga sem færu með stjórnsýsluvald, niðurstaðan var sú að þessum tilmælum hafi ekki verið fylgt.

Svo vildi GRECO einnig að skýrt yrði með viðunandi hætti hvað skuli teljast viðeigandi og óviðeigandi gjafir. Þeim tilmælum var ekki heldur fylgt.

Í niðurstöðu skýrslunnar kemur fram að Ísland hafi eingöngu framkvæmt ein fyrirmæli af fimmtán á viðunandi hátt.

Í skýrslunni segir m.a.; "Í ljósi framangreinds er það niðurstaða GRECO að hin afar takmarkaða fylgni sé í heildina óviðunandi".

Að lokum krafðist stofnunin þess að skýrslan yrði þýdd og birt almenningi, þannig að fólk getur lesið hana í heild sinni, á vef ráðuneytissins og leitað að hrósi frá GRECO mönnum, ekki gat ég fundið hrós í skýrslunni.

En Jóhanna vitanlega lofar þeim öllu fögru, það kemur fram í skýrslunni, en ætli það sé ekki eins með þau loforð og hún hefur gefið þjóðinni?

Lítið kemur fram jákvætt í þessari skýrslu, en þó sjálfstæðismenn hafi ekki staðið sig sem skyldi, við að fara eftir fyrirmælum stofnunarinnar, þá fengu þeir þó allavega hrós fyrir tvö atriði sem þóttu til fyrirmyndar, spilling með því minnsta í Evrópu árið 2001 og hrós fyrir að setja reglur varðandi fjármál stjórnmálaflokka.

Hafi við verið einhvern tíma í skammarkróknum hjá þeim, sem er nú æði vafasöm fullyrðing því Ísland hefur aldrei verið ofarlega á spillingarlista, þá er það ekki Jóhanna sem kemur okkur úr honum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband