Færsluflokkur: Bloggar

Dómstóll götunnar.

Eftir hrunið á fjármálamörkuðum heimsins hefur hinn hvimleiði dómstóll götunnar verið á fullu við að fella dóma.

Margir af hans meðlimum láta sér nægja að renna syfjuðum augum svefndrukknir í fasi yfir fyrirsagnir Fréttablaðsins. Síðan keyra þeir í vinnuna uppfullir af fróðleik þeim, sem fyrirsögnin felur í sér og fræða þá gjarna áhugasama vinnufélaga um viðkomandi málefni. Ef fræðarinn hefur háværan málróm og notar slatta af blótsyrðum, til að rökstyðja sitt mál, þá hefur hann sannfært alla á vinnustaðnum umviðkomandi mál í örstuttum kaffitíma. Svo breiðist boðskapurinn út og dómur er að lokum uppkveðinn.

Þeir meðlimir dómsstólsins sem af mestri djúphyggni í hópnum státa, ganga lengra og lesa greinina til enda. Þeir þurfa þá færri blótsyrði til þess að fylla upp í frásögnina og geta talað á lægri nótum en hinir.

Þessi hvimleiði, sjálfskipaði dómstóll vekur reiði og ótta í samfélaginu.

Þegar ég hugsa til hans, þá þakka ég fyrir alvöru dómstóla og alvöru réttarríki. Fagmenn taka sér marga mánuði til að kanna mál til hlítar á meðan fúskararnir láta sér eina blaðagrein nægja.

Vissulega geta fagmenn komist að rangri niðurstöðu, enda er ekkert fullkomið í þessum heimi, en meiri líkur eru á að þeir, finni sannleikann heldur en hinir.

 


Stjórn hinna stóru lyga.

Þessi ríkisstjórn er í mínum huga stjórn hinna stóru lyga.

Í upphafi var því logið að þjóðinni, að til stæði að slá skjaldborg um heimili landsins, einnig var því logið að eftirfylgni við lög yrði aukin og ráðamenn áttu að axla ábyrgð.

Skjaldborgin var svikin, en í staðinn var sleginn skjaldborg um auðmenn og er m.a. annars hægt að vísa til Jóns Ásgeirs, sem ekur um á eðalvagni og heldur um stjórnartauma stærsta fjölmiðils landsins. Einnig má benda á, að þrátt fyrir fögur fyrirheit, þá bendir fátt til annars en að þeir sem ollu hruninu, séu í prýðismálum peningalega séð á meðan alþýðunni blæðir.

Því var logið að þjóðinni árið 2009 að lausnir skuldsettum heimilum í vanda, væru væntanlegar fljótlega eftir helgi, ef þetta heitir ekki lygi, þá hafa þau mjög óvanalegt tímaskyn sem er óheppilegt fyrir fólk í æðstu stöðum þjóðarinnar.

Því er ennfremur logið, að stjórnlagaþing gegni mjög mikilvægu hlutverki í endurreisninni. Það eina sem getur endurreist þjóð sem skortir fé er að sjálfsögðu öflugri peningaöflun.

Á flokkráðsfundi Samfylkingar laug Jóhanna því upp í opið geð sinna félaga, að Greco, sem er stofnun er fylgist með spillingu Evrópulanda hafi gefið góða ríkisstjórninni góða einkunn, betri en nokkru sinni áður. Stofnunin gaf stjórnarliðum falleinkunn í sinni skýrslu. Jóhanna sagði á sama fundi að Ísland hafi verið í skammarkróknum hjá stofnuninni, það er helber lygi, árið 2001 kom fram í skýrslu Greco að landið væri eitt það minnst spillta í V-Evrópu, Ísland hefur aldrei nokkurn tíma verið í "skammarkróknum" hjá þessari ágætu stofnun.

Oft hafa stjórnmálamenn hagrætt sannleikanum og verið á afar gráu svæði, en efast er um að,  nokkur önnur ríkisstjórn hafi logið eins oft að þjóðinni.

En af einhverjum undarlegum ástæðum finnst einn og ein, sem segir þetta vera góða ríkisstjórn.


Eru ekki allir jafnir fyrir lögum?

Það hafa verið haldnir þjóðfundir og þeir endurspegla ríka kröfu um réttlæti, einnig kveður stjórnarskráin á um, að allir skuli vera jafnir fyrir lögum.

Ekki skal lagður dómur hér á persónur unga fólksins sem um ræðir, en vafalaust er þetta prýðisfólk.

En þau eru grunuð um glæp, hann felst í því m.a. að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu.

Það er lögbrot, um það þýðir ekki að deila og þeir sem brjóta lög, þurfa að sæta ábyrgð.

Engin ákvæði eru til um það í lögum, að menn sleppi við dóma séu þeir góðviljaðir og státi af sterkri réttlætiskennd.

Vonandi lærir fólk af þessu og fer að bera meiri virðingu fyrir lögum.


mbl.is Stuðningshópur mótmælir ákæru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæm afleiðing alheimskreppunnar.

Þessi ríkisstjórn sem nú situr er ekkert annað en slæm afleiðing alheimskreppunnar.

Upplýstir kjósendur taka oft heimskulegar ákvarðanir þegar kreppir að.

Þjóðverjar teljast í hópi fremstu þjóða, hvað varðar heilbrigða skynsemi og gáfnafar almennt. Samt kusu þeir Adolf Hitler, eftir að þeir höfðu þurft að burðast með hjólbörur fullar af seðlum, til þess að kaupa sér, einn ræfils brauðhleif.

Heilbrigð skynsemi hjá þorra íslendinga hvarf um hríð og þeir kusu yfir sig verstu ríkisstjórn lýðveldisins, ég hélt um tíma að þetta væri versta ríkisstjórn veraldarsögunnar, en hámenntaður maður í stjórnmálafræði tjáði mér, að það væri hægt að finna meiri asna í stjórnmálasögunni.

Ekki er verið að líkja blessuðu gömlu konunni við Hitler, því þrátt fyrir afskaplega erfitt lundarfar og síendurtekin bræðiköst, þá er hún nú ólíkt vinalegri í viðmóti heldur en hinn hræðilegi harðstjóri.

Þessi furðulega ríkisstjórn virðist telja sig yfir lögin hafin, Svandís Svavarsdóttir telur sig ekki hafa brotið lög, hún kveðst, eins og Jóhanna blessunin, hafa verið að vinna samkvæmt bestu samvisku.

Ef umhverfisráðherra hlýtur dóm, sem staðfestur er af Hæstarétti fyrir sína bestu samvisku, hver er þá birtingarmynd slæmrar samvisku hjá henni?


mbl.is Svandís segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómálefnanleg umræða um ESB

Umræðan um ESB hér í bloggheimum er stórfurðuleg, þar sem stóryrðin ganga á milli stríðandi fylkinga.

Það er ekkert launungarmál, að ég hef ekki minnsta áhuga á inngöngu og mun berjast gegn henni fram í rauðan dauðann.

En ekki ætla ég samt að segja að Brusselmenn myndu setja allt fjandans til, þótt það séu vandræði í mörgum löndum sambandsins, þá virðist fólk lifa þokkalegu lífi þar, svona almennt séð.

Ég tel okkar hagsmunum mikið betur borgið utan sambandsins, auk þess er afskiptasemi Brusslemanna afar hvimleið.

Fólk hér á landi lifði ágætis lífi meðan Danakonungur ríkti hér á landi. En margir bentu á þá staðreynd, að íslendingum færi betur að stjórna sínum málum, því Danir væru ekki nægjanlega kunnugir íslenskum hagsmunum og það er einmitt kjarni málsins.

Evrópusambands löndin lifa ekki á fiskveiðum eins og við, þar ríkja aðrar aðstæður. Það skiptir Brusselmenn engu máli hvort hvalur er veiddur eður ei, en það skiptir okkur heilmiklu máli. Íslendingar hafa mikið óþol gagnvart atvinnuleysi á meðan Evrópubúar þola það betur, þótt fáar þjóðir beinlínis gleðjist yfir því.

Það setur líka að manni ákveðinn ugg, þegar íbúar sambandsríkja eru farin að kvarta yfir stjórnlyndi Brusselmanna.

Ekkert bendir heldur til þess að ofangreind ríki bjóði upp á betri lífskjör en við njótum hér á landi. Sumt er kannski skárra og annað ekki, því svona mál er aldrei hægt að sjá í svart/hvítu ljósi.

Þetta snýst vitanlega um lífsskoðanir fólks, sumum hentar eflaust betur að búa innan ESB og öðrum ekki.

Fólk þarf einfaldlega að gera það upp við sig, á upplýstan hátt, hvorn kostinn það velur á endanum.

Er það vilji þjóðarinnar að lúta stjórn embættismanna sem þekkja ekki íslenskar aðstæður eða einstaklinga sem eru bornir og barnfæddir hér á landi?

Sumir kvarta yfir spillingu stjórnmálamanna, en benda skal á, að spilling er ekki eingöngu til á Íslandi.

Hún þekkist allstaðar þar sem barátta er um verðmæti, svo er það líka oft ansi snúið að segja til um, hvað sé spilling og hvað ekki.


Sköpun verðmæta er forsenda samstöðu.

Þjóðfundir hafa verið haldnir til þess að koma þjóðinni saman um ákveðin markmið, einnig tala forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar um nauðsyn þess að fólk standi saman.

Gallinn við þessar áskoranir er sá, að flestir eru að leita eftir samstöðu með eigin skoðunum.

Hver er okkar helstri styrkleiki?

Dugnaður, vinnusemi ásamt ágætu menntunarstigi, einnig erum við friðsöm þjóð.

Við höfum auðlyndir sem hægt er að nýta til gjaldeyrisöflunar.

Af einhverjum ástæðum hefur ekki myndast samstaða hjá þjóðinni varðandi auðlindanýtingu og meðan þá samstöðu skortir, þá eru litlar líkur á að samstaða náist um önnur mál.

Grunnurinn að okkar velferð er öflun gjaldeyris og það er ekki hægt án þess að nýta allar mögulegar auðlyndir í þessu landi.

Margir eru óhressir með álver, það er sjónarmið út af fyrir sig en varla byggt á forsendum hagkvæmni. Núna verðum við að leggja tilfinningarnar til hliðar og hugsa um arðsemi.

Þótt það bætast við álver, þá verður samt nóg af ósnortinni náttúru til að njóta og sýna ferðamönnum. Það þarf alltaf að færa fórnir ef þjóðir ætla að standa á eigin fótum.

Áhyggjur þjóðarinnar snúast fyrst og fremst um efnahagslega afkomu, flest annað virðist í lagi.

Meðan ekki er unnið að verðmætasköpun, þá verður engin sátt.

Það sem ríkisstjórnin er að gera um þessar mundir, er svipað og  læknir sem fær til sín hjartveikan einstakling. Í stað þess að einbeita sér að hjarta sjúklingsins, þá fer læknirinn að skoða hvort möguleiki sé á fótbroti eða jafnvel handleggsbroti, vegna þess að viðkomandi læknir treystir sér ekki til að meðhöndla hjartasjúkdóma.


Er enginn sem skilur ríkisstjórnina?

Jóhanna forsætisráðherra reyndi að sýna Ríkisendurskoðun fram á það, að ekki væri við hæfi að gagnrýna hennar störf, þar sem hún gerði jú allt samkvæmt bestu vitund. Erfitt að hrekja svona sterk rök, en Ríkisendurskoðun skellir skollaeyrum við ábendingum gömlu konunnar.

Svo kemur Hæstiréttur og dæmir kosningar til stjórnlagaþings ólöglegar, þótt sýnt hafi verið fram á, að Ástráður Haraldsson hafi nostrað mjög við undirbúning þeirra og ríkisstjórnin öll, gerði þetta samkvæmt sinni bestu vitund.

Svo er Svandís blessunin, sem þráir ekkert heitar en ósnortna náttúru, tekin í gegn og Hæstiréttur ógildir ákvörðun hennar, sem þó var tekin með hennar bestu vitund.

Ríkisstjórnin öll hlýtur að vera niðurbrotin eftir allar þessar ákúrur, það er eins og enginn skilji hvaða afrek hún hefur unnið.

Stjórnarliðum hefur tekist það sem enginn trúði að vinstri mönnum tækist, að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum í heil tvö ár.

Vitanlega hafa vinstri menn aldrei verið uppteknir af uppbyggingu samfélagsins, þau vilja frekar eyða peningum og því er ekki að neita, að þau hafa náð að öngla saman talsverðu lánsfé til að nota í hin ýmsu gæluverkefni sín.

Ég efast um að taugakerfi vinstri manna hefði þolað það, ef sjálfstæðismenn hefðu unnið eins og þau gera, Steingrímur Joð væri örugglega þegjandi hás eftir öll öskrin á þingi og Jóhanna væri svo illa haldin af réttlátri reiði að hún væri ýlfrandi á einhverri stofnun; "helvítis íhaldið, helvítis íhaldið" osfrv.

En nú ættu þau að fara að hvíla sig.

Þeim hefur tekist að halda sjálfstæðismönnum frá völdum í tvö ár, er það ekki nóg í bili?

 


mbl.is Ákvörðun ráðherra ógilt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrapp Davíð til Danmerkur?

Þótt mér þyki það miður mjög að bankar verði gjaldþrota úti í heimi, þá get ég ekki annað en hugsað til þeirrar múgsefjunar sem orðið hefur hér á landi.

Bankakerfið hjá okkur var í rúst, þeir urðu gjaldþrota eins og allir vita.

Eflaust eru margir vinstri menn ósammála mér, en ég efast um að Davíð hafi átt hlut að máli varðandi fall Amagerbankans.

Hvenær ætlar fólk að skilja þá staðreynd, að óábyrg stjórnun þeirra sem báru ábyrgð á rekstri bankann er um að kenna.

Skyldi einhverjum Dana detta í hug, að lögsækja forsætisráðherrann þar í landi út af bankakrísunni og kreppunni sem þeir eru að upplifa um þessar mundir?


mbl.is Amagerbankinn gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf áminning.

Við sem tjáum okkar skoðanir hér í bloggheimum eigum að virða skoðanir hvers annars.

Hægt er að takast harkalega á um málefni, en ekki vera stöðugt að saka menn um annarlegar hvatir osfrv.

Ég skal fúslega viðurkenna það, að mín bjargföst sannfæring er sú, að vinstri stefnan slævir skynsemi þeirra sem að henni hallast, en ég efast ekki um góðan vilja hjá þeim og ágæta greind á öðrum sviðum, en pólitískum.

Einnig geri ég mér grein fyrir að vinstri mönnum finnst hið sama um mig, þannig að við verðum þá að vera sammála um að vera ósammála.

Þegar farið er að ráðast á aðra með persónulegum svívirðingum, þá getur það virkað meiðandi á þann sem fyrir þeim verður og sá sem setur þær fram, niðurlægir sjálfan sig um leið.

En taka skal fram, að ég mun aldrei lögsækja neinn fyrir neikvæð ummæli í minn garð, einfaldlega vegna þess að mér finnast orð aldrei meiðandi, þvert á móti finnst mér gaman af skrítnu fólki sem gasprar eins og vitfirringar.

En það hafa ekki allir sama húmor og ég og það ber að virða.

 


mbl.is Prófmál um ummæli á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Get ég orðið milljónamæringur á næstu dögum?

Miðað við forsendur ríkisstjórnarinnar, er möguleiki á að ég geti orðið milljónamæringur á næstu dögum.

Eina sem ég þarf að gera er að sækja um lán upp á nokkrar milljónir, gefum okkur að ég fái lánið og geti sýnt upphæðina á bankareikningum, þá er ég orðin milljónamæringur samkvæmt skilgreiningu æðstu ráðamanna landsins.

Og þar sem ég verð orðinn milljónamæringur á allra næstu dögum, þá get ég hætt að þvælast út á sjó, setið heima hjá mér í rauðum silkislopp, lesið góðar bækur og hlustað á klassíska tónlist.

Afgangurinn af laununum mínum gætu dugað smátíma, þannig að ég þarf ekki að ganga strax á lánið. Ég get þá notið þess að vera milljónamæringur, rölt um bæinn og verslað mér Armani fatnað hjá Sævari Karli, ég get setið á kaffihúsum og tjáð öllum að ég sé milljónamæringur.

Já, ég þarf þá ekki lengur að þvælast a sjónum í allavega veðrum og slíta skrokknum út.

Svona get ég lifað í nokkurn tíma, áhyggjulaus og glaður, en það kemur að skuldadögum og bankinn fer að rukka mig um lánið.

Finnst fólki þetta undarleg afstaða?

Þetta er ósköp svipað og ríkisstjórnin er að gera og þau eiga sína fylgismenn, ótrúlegt en satt.

Forsætis bæði og fjármálaráðherra hafa verið að telja þjóðinni trú um að hún sé ekki í svo slæmum málum, hagvöxtur sé að aukast og staðan að batna, því við fáum slatta af lánum.

Eins og tala um að sleppa við að slíta skrokknum út, þá þykjast þau geta sloppið við að slíta landinu út með því að virkja fyrir stóriðju, sem gefur ágætlega af sér.

Vitanlega þarf ég að slíta skrokknum út til að fá tekjur, samt eyðilegg ég hann ekki alveg.

Á sama hátt þarf mögulega að skaða lítinn hluta landsins, án þess að eyðileggja það alveg. Þótt við förum í álversframkvæmdir og jafnvel virkjum neðri hluta Þjórsár, þá erum við ekki að eyðileggja Ísland, það verður ennþá til ósnortin náttúra til að njóta.

Það þýðir ekki stöðugt að lifa í draumaheimi og halda að það sé hægt að lifa endalaust á lánum.

Útrásarvíkingarnir reyndu það og allir vita hvernig það fór.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband