Færsluflokkur: Bloggar
Föstudagur, 21. janúar 2011
Borgarstjóranum leiðist minnihlutinn.
Borgarstjóri Reykjavíkur lét þess getið að honum þætti leiðinlegt að hlusta á minnihlutann í borgarstjórn.
Að hans mati er pólitíkin þurr, flókin og hundleiðinleg, hann er líka að vinna í því að fá annan borgarstjóra til að sinna því sem að pólitík snýr.
Svo er alveg óvíst að sjálfstæðismenn séu tilbúnir til að setja það göfuga markmið á oddinn að flytja ísbjörn hingað til lands, en það mun að sögn borgarstjórans, stórauka ferðamannastraum hingað til lands.
Svo eru sjálfstæðismenn stöðugt með einhver leiðindi út í hann, jafnvel þótt hann sé margbúinn að gefa það út, að hann sé ekkert í borgarmálunum til að ástunda pólitík.
Sjálfstæðismenn skilja það ekki, þótt hann hafi margoft tekið það fram, að hann er bara þarna til þess að hafa örugga afkomu, hann þarf jú að sjá fyrir fjölskyldu.
Sjálfstæðismenn í borgarstjórn þekkja ekki hverslags líf það er, að vera listamaður og þurfa stöðugt að vera að finna sér ný verkefni. Það er nefnilega fínt að vera borgarstjóri, þá hefur maður öruggar tekjur í heil fjögur ár og getur þar af leiðandi einbeitt sér betur að listsköpun, því þá eru fjárhagsáhyggjur ekki að loka huganum fyrir hinni skapandi listagyðju.
Hann er búinn að leitast við að vera skemmtilegur og næs við sjálfstæðismenn, segja þeim brandara osfrv., en þeim er alveg sama.
Það eina sem þetta lið hugsar um er pólitík og aftur pólitík.
Hann er nefnilega einn af nokkrum einstaklingum í íslenskri pólitík sem var kosinn til að gegna starfi stjórnmálamanns án þess þó að vera stjórnmálamaður.
Einhvern tíma átti gamall afdalabóndi að hafa sagt; "ja hún er skrítin tík þessi pólitík".
Skyldi þessum ágæta manni hafa dottið til hugar, að pólitíkin ætti eftir að vera svona skrítin, eins og hún er á íslandi í dag?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 20. janúar 2011
Hvenær ætla vinstri flokkarnir að hætta að klúðra málum?
Nú eru liðin tvö ár frá því að Sjálfstæðisflokkurinn fór frá völdum, þannig að ekki er lengur hægt að kenna honum um.
Samt eru mörg fordæmi fyrir þessari áráttu vinstri stjórna, að klúðra og kenna sjálfstæðismönnum um.
Hver man ekki eftir R-listanum?
Hann var við völd í tólf ár og allan tímann þóttust þau vera að "taka til eftir íhaldið", með því að hækka öll gjöld sem og skatta á borgarbúa.
Og snarauka skuldir um mörg hundruð prósent.
Sjálfstæðismönnum tókst þó að minnka skaðann með því að láta bankanna falla í stað þess að dæla í þá stórfé eins og t.a.m. Írar gerðu.
Svo þegar Írar og Bretar eru búnir að segja í sínum fjölmiðlum að íslendingar hafi farið rétt að og þeir sjálfir gert stór mistök, þá tekur fjármálaráðherrann sig til og gerir sömu mistökin og Írar og Bretar.
Það er verið að dæla fé í sparisjóðina, Sjóvá, jafnvel þótt þjóðin þurfi ekki á þessum félögum að halda.
Það ætti að vera nóg að hafa einn til tvo banka til að sinna fjármálastarfsemi fyrir þetta litla samfélag.
Einhvers staðar kom fram að það væri búið að dæla níutíu milljörðum í hin og þessi björgunarverkefni ónauðsynlegra fyrirtækja á sama tíma og það er verið að skera niður einhverja þrjá milljarða í heilbrigðiskerfinu.
Ef Steingrímur hefði sleppt þessum fjáraustri í ónýt fyrirtæki, þá hefði sennilega verið hægt að hlífa þeim hluta þjóðarinnar sem á við sjúkdóma að stríða.
Er það kannski misminni hjá mér, að Steingrímur hafi sagst ætla að stofna hér á landi Norræna velferðarstjórn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 20. janúar 2011
Er þetta allt sjálfstæðismönnum að kenna?
Málflutningur vinstri manna hefur gengið hvað mest út á það, að kenna sjálfstæðismönnum um allt sem miður fer.
Það er afskaplega ódrengilegt af þeim, því þeir geta ekki, með nokkru móti, fríað sig ábyrgð á stjórn landsins.
Ef sanngirni er gætt, þá má vissulega þakka þeim fyrir hlut sinn í því, að Ísland stendur eins vel að vígi og raun ber vitni, þrátt fyrir ungan aldur þjóðarinnar og hið mikla hrun sem varð hér á landi haustið 2008.
Það hefur komið fram áður, að sjálfstæðismenn hafa verið í ríkisstjórn heil fimmtíu og þrjú ár frá því lýðveldið var stofnað, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá verið valdalaus í fjórtán ár alls.
Ef við tölum um Alþýðuflokk og Alþýðubandalag sem vinstri flokkanna, ásamt forverum Alþýðubandalagsins, þá hafa þessir flokkar verið hluti af ríkisstjórn landsins í fimmtíu og tvö ár.
Það er nú allur munurinn á þessum flokkum, Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðeins eitt ár fram yfir vinstri flokkanna í ríkisstjórn.
Ef vinstri flokkarnir segja að þeir hafi aldrei ráðið neinu meðan þeir voru í ríkisstjórn, þá hljóta þeir að vera til lítils gagns í pólitík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 20. janúar 2011
Upp úr skotgröfunum.
Því miður hefur svonefndur "skotgrafahernaður" einkennt hina pólitísku umræðu allt of mikið.
Að mínu viti hafa vinstri menn farið þar framarlega í flokki, allavega á síðustu árum. Þeir skammast út í sjálfstæðismenn og halda því fram að þeir hafi skapað allt hið neikvæða í íslensku samfélagi, en þeir hins vegar ávallt leitast við að bæta hag almennings.
Ef litið er yfir söguna, þá stenst þessi fullyrðing ekki.
Ef fólk gefur sér örlítinn tíma, þá er hægt að nálgast ansi víða yfirlit, yfir ríkisstjórnir þær sem setið hafa frá lýðveldisstofnun.
Ef menn taka niður flokksgleraugun og lesa það sem stendur í þeim upplýsingum, þá verða þeir þess fljótt varir, að vinstri flokkarnir voru ansi oft í ríkisstjórn með sjálfstæðismönnum og það kom líka fyrir, ekki oft reyndar, að sjálfstæðismenn voru utan ríkisstjórnar.
Þannig að hafi vinstri menn verið svona óhressir með gjörðir sjálfstæðismanna, þá var þeim í lófa lagið að færa samfélagið að sinni stefnu.
En aldrei breyttu þeir neinu sem máli skiptir, yfirleitt var haldið áfram á svipaðri vegferð og áður.
Þótt vont sé að fullyrða um ástæður sem liggja að baki þegar t.a.m. einhver er ráðinn í embætti, þá má glöggt sjá tilhneigingu allra flokka til að hygla sínum mönnum umfram aðra.
Ekki sést mikill munur á hag alþýðu landsins, hvort heldur ríkti hér ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum eða án hans.
Það væri ágætt ef vinstri menn væru tilbúnir til að ræða stefnur á vitgrænum grunni og sleppa óhróðri um persónur og hætta þeim hvimleiða kæk að saka pólitíska andstæðinga um glæpi eða það, að vinna gegn hag alþýðu þessa lands.
Ég get sagt það af fullri hreinskilni, að þótt ég hafi oft ritað hart gegn núverandi forystumönum þjóðarinnar, þá ber ég engan kala til neins innan ríkisstjórnarinnar. Þau hafa ekki gerst sek um glæpi né neitt sem stríðir gegn lögum.
En ég áskil mér þann rétt að gagnrýna störf þeirra, á málefnalegan hátt að sjálfsögðu.
Og þótt ég tali um klaufahátt þeirra, þá eru það ekki persónulegar árásir, heldur mín bjargfasta skoðun þess efnis, að vinstri menn kunna ekki að stjórna. En ég er opin fyrir umræðu um þá skoðun mína, a málefnalegum nótum.
Opin og víðsýn umræða, án þess að svívirða persónur, er besta leiðin til farsældar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 19. janúar 2011
Hefur Jóhanna litla þekkingu á stjórsnskipunarmálum?
Hæstvirtur forsætisráðherra hefur sýnt það og sannað að hún hefur talsvert yfirgripsmikla vanþekkingu á efnahagsmálum.
Gefum kerlingaræflinum séns á því, hún hefur aldrei verið í ráðuneytum sem að efnahagsmálum snúa og aðallega verið að spekúlera í velferðarmálum, þá rúmu þrjá áratugi sem hún hefur setið á þingi.
En nú hefur hún einnig opinberað vanþekkingu á stjórnskipunarmálum, það er æði sérstakt eftir áratuga starf á hinu háa alþingi.
Hvers vegna var hún eiginlega gerð að forsætisráðherra?
Ég var að vona að ég fengi smá frí af fréttum af aulahætti hennar, en það er víst borin von.
Hún var að svara fyrirspurn Guðlaugs Þórs á þingi fyrir skömmu.
Þar sagði hún blessunin að það væri eiginlega ekki hægt að nálgast upplýsingar um bankanna, það væri náttúrulega ekki nógu gott, hún viðurkenndi það þó.
Svo réttlætti hún orð þín með lögum sem Davíð Oddsson átti að hafa sett árið 2003. varðandi það að þingmenn gætu ekki fengið upplýsingar um bankanna, henni þótti það vissulega slæmt og á henni var að heyra, að henni hafi þótt það lengi.
Ef fólk trúir mér ekki, þá er hægt að smella á tengil hér á síðunni minni sem vísar á t24 og finna þar grein sem heitir;"Þetta er allt Davíð að kenna", þá má heyra ræðuna þar sem hún lætur þessi orð sín falla.
Augljóslega veit hún ekki að samkvæmt almennri stjórnskipan hér á landi, þá getur forsætisráðherra lagt fram frumvarp og oftast er það samþykkt, því hún er nú ekki í vandræðum að sannfæra þingmeirihlutann og smala nógu mörgum köttum til þess að ná sínu fram.
Kannski heldur hún að Davíð ráði öllu enn þann dag í dag.
En staðreyndin er samt sú, sama hvað vinstri menn halda, að Davíð Oddson hefur ekkert með stjórn landsins að gera, hann starfar nefnilega sem ritstjóri Morgunblaðsins.
Og Morgunblaðið er orðið mikið minna blað með minni áhrif en það var, því miður, því ágætt væri að taka margt til greina af því sem Davíð skrifar. En það er önnur saga.
Vinstri menn eru sennilega svona seinir að átta sig á breytingum.
Vegna þess að Davíð réði öllu ansi lengi og Morgunblaðið hafði eitthvað um hin ýmsu mál að segja í gamla daga, þá halda þeir að ekkert hafi breyst.
Það skiptir reyndar engu hvað sagt er við blessaða vinstri mennina, þeir taka engum staðreyndum
Stækkunarstjóri ESB er mér innilega sammála í þessum efnum og það er maður sem Samfylkingin ætti að taka mark á.
Bloggar | Breytt 21.1.2011 kl. 01:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 19. janúar 2011
Veldur fyrningarleiðin auknu brottkasti?
Meginástæður brottkasts við íslandsstrendur er skortur á aflaheimildum og kvótaleiga.
Í gegn um tíðina hef ég frekar leitast við að starfa hjá stórum og öflugum útgerðum, vegna þess að þar hef ég tryggari afkomu. Þess vegna þarf ég ekki að taka þátt í brottkasti, við getum hirt allan afla sem kemur um borð.
Því miður skal það játast, að ég hef tekið þátt í brottkasti, en það eru hátt í tuttugu ár síðan, þannig að botið er fyrnt og óhætt að játa það nú.
Það háttaði þannig til, að útgerðin sem ég var hjá var lítil og hafði yfir litlum aflaheimildum að ráða, það þurfti að leigja kvóta. Þess vegna vildi útgerðin henda verðminni fiski fyrir borð, annars hefðu veiðarnar ekki borgað sig.
Ef að fyrningaleiðin verður að veruleika, þá eykst brottkastið umtalsvert, það er staðreynd, hvort sem mönnum líkar það betur eða ver. Menn fara að koma með stærsta fiskinn að landi og henda þeim smærri í hafið, eða einfaldlega að hætta útgerð, því enginn nennir að reka fyrirtæki og hafa af því lítinn eða engan hagnað.
Hagspekingurinn Þórólfur Matthíasson vildi að hvert kíló af þorski yrði leigt á hundrað og sjötíu krónur, það myndi redda þjóðarbúskapnum.
Frystitogari fær að meðaltali 320. krónur fyrir kíló af þorski þannig að miðað við 170. króna leigu, þá fær útgerðin 157 krónur í sinn hlut. Það þarf ekki reiknimeistari til að sjá, að frystitogari ber sig ekki með þessum tekjum. Önnur skip fá talsvert lægra verð fyrir aflann.
Menn geta reiknað sig fram og til baka, en niðurstaðan verður alltaf sú sama, brottkastið eykst hvort sem mönnum líkar betur eða ver, ef fyrningaleiðin verður farin og menn þurfa að leigja aflaheimildir.
Ekki nema einhverjir hugsjónamenn gefi sig fram og séu tilbúnir til gjaldeyrisöflunar án þess að græða ágætlega á því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 19. janúar 2011
Helvítis viðkvæmnin í vinstri mönnum.
Vinstri menn eru með afbrigðum viðkvæmar sálir og litlir í sér, svona upp til hópa, þótt það leynist stöku alvöru maður inn á milli, en þá er það yfirleitt sjálfstæðismaður í felum.
Þeir væla eins og stungnir grísir og hóta að klaga í mbl.is ef einhver hægri maður andar á þá.
Þeir þola ekki að þeim sé hallmælt, en þeir geta kallað okkur öllum þeim nöfnum sem þeir þola ekki að heyra sjálfir. Ef einhver segir eitthvað sem særir þá, það þarf ekki að vera annað heldur en sannleikurinn um yfirburði sjálfstæðismanna á hinu pólitíska sviði, þá ryðjast þeir inn á síður okkar með miklum fúkyrðaflaumi.
Það er nefnilega þannig, að eftir höfðinu dansa limirnir.
Steingrímur Joð, foringi þeirra kallaði Davíð Oddsson gungu og druslu, hinn foringinn Jóhanna Sigurðardóttir sagði að útgerðarmenn hefðu kjaft eins og skötuselir státa af, það væri hægt að skrifa heilan bókaflokk um fúkyrði vinstri manna. Ef það væri markaður fyrir þannig bókmenntir, þá væri hægt að stofna gróðafyrirtæki utan um útgáfu þessara bóka, því stöðugt bætist við.
Ef þau hins vegar fá kurteislega orðaða gagnrýni, þá finnst þeim hún ómakleg og ómálefnaleg og væla þá gjarna yfir miklu álagi.
Sem betur fer eru sjálfstæðismenn ekki orðhvatir einstaklingar, alla vega ekki þeir sem á þingi sitja, því annars væri slökkvilið höfuðborgarinnar í stöðugri vinnu við að þurrka upp gífurlegt vatnsmagn sem rynni úr augum stjórnarliða.
Steingrímur varð næstum klökkur þegar hann var spurður um ummæli sín vegna Svavars samninganna í morgunþætti Rásar 2, enda hætti þáttarstjórnandinn snarlega þegar hún sá framan í hann, það yrði hálf neyðarlegt fyrir konugreyið að hafa grætt fjármálaráðherrann í beinni útsendingu. Hún hefði þá misst starfið eins og skot og það er ekki gott á krepputímum.
Þið vinstri menn sem lesið þetta, þið megið kalla mig öllum þeim nöfnum sem ykkur dettur til hugar, það snertir mig ekki neitt.
Þið eruð óttalegar kellingar, vælið yfir því þótt talað sé til ykkar á kjarnyrtri íslensku.
En þið getið sagt allt við okkur sjálfstæðismenn sem ykkur listir, við erum það öruggir með okkur og vel kunnir okkar kostum og göllum.
Miðað við reynsluna, þá erum við betri menn því harðar sem þið dæmið okkur.
Núna líður mér aðeins betur, ég hef verið sárkvalinn af verkjum vegna slæmrar byltu sem ég hlaut í brælunni úti á sjó í síðustu viku.
Það er ágætt að skeyta aðeins skapi sínu á vinstri mönnum til að lina mestu kvalirnar, þeir hafa oft gert það við mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 18. janúar 2011
Er þá Jóhanna svona snobbuð eftir allt saman?
Ég ætla að segja frá tveimur konum sem hlotið hafa ólík hlutskipti í lífinu.
Önnur hefur hlotið þau leiðu örlög, að hafa verið svipt möguleika til sjálfsbjargar sökum örorku, hún hefur ekki sjálf valið sér þann þunga kross sem hún ber.
Hin hefur verið böðuð í frægðarljóma út um allan heim og nýtur aðdáunar og virðingar heimsins.
Eitt er þó sameiginlegt með þeim, þær hafa báðar sterkar skoðanir og kjark til að láta þær í ljós. Þær hafa báðar kosið að nýta sér mótmælavettvanginn sem farveg til að koma sínum málum á framfæri.
Sú sem lífið hefur veitt hinn þunga kross stóð ein fyrir framan stjórnarráðið og nýtti sér þann lýðræðislega rétt, að láta óánægju sína í ljós.
Greip þá aðstoðarmaður Jóhönnu, eflaust með hennar samþykki, til þess ráðs að láta fjarlægja hana með lögregluvaldi.
Samt var þetta aðeins ein, ósköp venjuleg kona, að koma skoðunum sínum á framfæri við þjóðkjörna ríkisstjórn landsins.
Svo kemur hin, ásamt fjölda manns og gerir það sama og hin. Hún mætir niður á alþingi til þess að koma skoðunum sínum á framfæri við þjóðkjörna ríkisstjórn landsins.
Af því að hún hefur baðað sig í frægðarljóma heimsins og nýtur aðdáunar og virðingar hjá mörgum, bæði hér heima og erlendis, þá tekur Jóhanna á móti henni með bros á vör og lofar að taka hennar sjónarmið gaumgæfilega til athugunar.
Ekki er ég að segja að Jóhanna hefði átt að siga lögreglunni á Björk og hennar félaga alla, en það hefði verið ósköp huggulegt að stíga út, bjóða hinni konunni í kaffi og hlusta á hennar sjónarmið.
En fyrst hún var bara ósköp venjuleg íslensk kona, þá var ekkert fínt að fá að taka í höndina á henni og spjalla við hana.
Þetta er ekkert annað en helvítis snobb hjá hæstvirtum forsætisráðherra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
Þriðjudagur, 18. janúar 2011
Hvernig er ímynd okkar út á við?
Oft er gott að setjast niður, leitast við að horfa óháð yfir sviðið og gefa tilfinningum frí um stund.
Tifinningar eru óraunsæjar og þær geta haft truflandi áhrif á skynsemina.
Ég fæddur og uppalinn hér á þessu landi og er alíslenskur í báðar ættir, þannig að enga tengingu hef ég til annarra landa. Í þau fáu skipti sem ég hef skroppið til útlanda fer mig að hlakka til að komast heim eftir örskamma hríð, án þess að mér líði endilega illa í útlöndum.
En ef ég hefði fæðst í öðru landi og væri að fylgjast með fréttum frá Íslandi?
Þá væri álit mitt á þessu landi talsvert öðruvísi.
Í stuttu máli, þá myndi ég álíta íslendinga eintóma fábjána og engan áhuga hafa á að koma til landsins, þá er ég að meina ástandið eins og það er nú um stundir. Ímyndin var vissulega önnur en hún er í dag, þótt hún hafi að vissu leiti byggst á froðu.
Ég myndi sjá forsætisráðherra íslendinga, gamla konu sem getur vart tjáð sig á öðru tungumáli en íslensku. Jóhanna er alls ekki ómyndarleg, en hún hefur ekki yfirbragð leiðtoga.
Ef ég væri búsettur í aðildarríki ESB og myndi fylgjast með framgöngu íslendinga í því máli, þá er hætt við að ég myndi hlægja mikið, ásamt fjölskyldu minni og vinum.
Utanríkisráðherrann lofar reglulega að áhugi íslendinga á ESB fari nú að aukast, aðrir ráðherrar í sömu ríkisstjórn vilja ekki inngöngu og meirihluti þjóðarinnar er á móti henni.
Svo þætti mér kreppuvæll íslendinga hlægilegur.
Í landi þar sem jafnvel ómenntað verkafólk býr í einbýlishúsum og á flotta jeppa, þar myndi ég ekki telja vera kreppu á ferðinni.
Ég heyrði af Austurrísku fjölmiðlafólki sem kom hingað til lands í þeim tilgangi að gera þátt um hið ægilega ástand sem hafði skapast vegna hrunsins.
Fjölmiðlaliðið frá Austurríki lenti í smávægilegum vandræðum, þeim fannst kreppan ekki hafa haft mjög mikil áhrif á íslendinga, þannig að þau gátu ekki gert frétt úr þessu ástandi.
Til að nýta ferðina minnir mig að þau hafi skoðað jarðhitasvæði á landinu.
En ef ég væri útlendingur, þá þekkti ég ekki krafta þá sem í íslenskri þjóðarsál búa. Þessi þjóð hefur gert kraftaverk á örskömmum tíma, með því að koma sér upp samfélagi í fremstu röð meðal þjóða á tæpum mannsaldri. Í dag er til háaldrað fólk sem náð hefur náð að upplifa allar þessar breytingar, ólst jafnvel upp í torfkofa fyrstu árin osfrv.
Ég hygg að á umliðnum árum hafi verið of lítil barátta, það getur dregið úr sjálfsbjargarviðleitni.
En nú er tækifæri fyrir okkur að sýna umheiminum þann kraft sem í okkur býr.
Hættum að væla yfir kreppunni og lítum á hana sem dýrmætt sóknarfæri til framfara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 18. janúar 2011
Steingrímur Joð, alltaf sjálfum sér samkvæmur.
Ég er nú að leitast við að finna eitthvað sem bendir til skynsemi hjá núverandi forystumönnum þjóðarinnar, en ég finn ekkert annað en það sem staðfestir hversu furðuleg þau eru, Jóhanna og Steingrímur Joð.
Mér finnst hálf nöturlegt að hafa svona fólk í æðstu embættum, hvað ætli útlendingar haldi um okkur hin?
Steingrímur hefur oftar en ekki gefið sig út fyrir að vera ærlegur prinsipp maður sem skipti ekki um skoðanir eins og vindurinn blæs. Ég er að reyna að finna heimildir sem staðfesta þessi orð hans, en það virðist ómögulegt.
Árið 1991 sagði Davíð Oddsson að hegðun Ólafs Ragnars væri;"svona fráhvarfseinkenni fyrrverandi ráðherra".
Þetta ætti nú að vera ósköp saklaust í eyrum Steingríms, því hann kallaði Davíð jú gungu og druslu, einnig lamdi hann í öxlina á Geir H. Haarde og kærði hann ári seinna, með sorg í hjarta, fyrir að hafa unnið sér það til saka að vera heiðarlegt góðmenni.
Geir verður sennilega fyrsti maður réttarsögunnar sem verður látinn svara til saka fyrir að vera heiðarlegt góðmenni, en vinstri stjórnir hafa svolítið sérstakar áheyrslur.
En augljóslega finnst Steingrími mjög óviðeigandi að segja að menn séu haldnir fráhvörfum eftir að hafa setið um hríð á ráðherra stóli.
Hann hundskammaði Davíð með þessum orðum; "hyggst forsætisráðherra rökstyðja þau ummæli sín að fráfarandi ráðherra geti ekki sinnt störfum sínum sökum fráhvarfseinkenna, eða vill hann draga þau til baka, og ef svo er, mun hann þá biðjast afsökunar á þeim?"
Prinsipp maður hefði vitanlega aldrei brigslað fyrrum ráðherra um fráhvörf eftir valdasetu, þannig að Steingrímur myndi aldrei gera svoleiðis.
Eða hvað?
Jú þegar hann var sjálfur orðinn fjármálaráðherra sagði hann, um Sturla Böðvarsson að mig minnir, þegar Sturla var óhress með að vera settur úr stóli forseta alþingis; ég held að þetta séu nú þau heiftarlegustu fráhvarfseinkenni sem ég hef séð."
Kannski hefur honum verið svona illa við Sturlu, allavega notaði hann þau dónalegustu ummæli um hann sem honum gat dottið í hug, að hans mati.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)