Færsluflokkur: Bloggar

Svandís óttast einkavæðingu.

Vesalings konan, hún Svandís Svavarsdóttir. Hún þjáist af einkavæðingarfóbíu.

Í viðtali við Sigurjón Egilsson í þættinum á Sprengisandi í október 2009,  kvaðst hún óttast framkvæmdamenn.

Fyrst vildu þeir breyta fyrirtækjum í ohf, síðan í ehf og loks í hf. Þá væri næsta skrefið einkavæðing og almenningur gæti keypt.

Það er náttúrulega svakalegt, að einkaaðili skuli vilja kaupa ríkisfyrirtæki til að græða. Eðlilegt að hún sé kvíðin stelpu ræfillinn.

Hvernig ætli væri komið fyrir landinu ef þetta sjónarmið hefði ráðið ríkjum framan af?

Flest þróuð ríki heimsins gera sér grein fyrir því, að fyrirtæki hagnast betur í höndum einkaaðila.

Sá hagnaður skilar sér svo til samfélagsins, einnig greiða einkafyrirtæki hærri laun en opinberir aðilar gera.

 Vilja vinstri menn líka koma í veg fyrir að hinn almenni launamaður geti haft það þokkalegt?

Friðrik mikli sagði þau fleygu orð; "því meir sem ég kynnist mönnunum, því vænna þykir mér um hundinn minn".

Ég get sagt með sanni, því meir sem ég kynnist vinstri flokkunum, því vænna þykir mér um Sjálfstæðisflokkinn.

 


Hafa skal það sem sannara reynist.

Álitsgjafar ýmsir sem starfað hafa á vegum vinstri manna hafa komið með misvísandi upplýsingar til þess að blekkja fólk til fylgislags við sína hugmyndafræði.

Gallinn er sá, að þetta eru hámenntaðir menn og sumir hverjir starfa þeir við kennslu í háskólum landsins.

Þorvaldur Gylfason hefur lengi talað niður íslenskan sjávarútveg. Hann kvað sjávarútveginn aðeins vera 5% af þjóðarframleiðslunni í grein sem hann ritaði í Fréttablaðið fryir nokkrum mánuðum síðan.

Hann gleymdi vitanlega að geta þess að það er munur á því fjármagni sem sjávarútvegur skilar heldur en t.a.m. verslun, þjónusta og iðnaður fyrir innanlandsmarkað og ekki má gleyma þætti skapandi greina í þjóðarframleiðslunni.

Þessi 5% sem hann nefnir er vafalaust rétt tala, þegar miðað er við þjóðarframleiðslu, en það hugtak þýðir ekkert annað en heildarvelta þjóðarbúsins.

Staðreyndin er hins vegar sú, að 5% vega þungt, því sjávarútvegurinn kemur með gjaldeyri inn í landið og endurnýjar þar af leiðandi það fjármagn sem fyrir er.

Raunar sagði Þorvaldur eitt sinn að bankastarfsemi væri orðinn "gróandi útflutningsvegur" og hann var nokkuð bjartsýnn á að fjármálaumsýsla væri framtíðar burðarstoð hagkerfisins. 

En það var árið tvöþúsund og sjö, þá var hann svo ægilega brattur með fjármálakerfið eins og allir samfylkingarmenn.

Margir náttúruverndarsinnar vitna í Indriða H. Þorláksson og skrif hans varðandi álver.

Indriði beitir sömu blekkingunni, hann kemur með staðreyndir en matreiðir þær villandi ofan í fólk.

Hann sagði að innlendur virðisauki væri eingöngu átta milljarðar og það svaraði til 0,6-0,7% af þjóðarframleiðslu. En átta milljarðar af innfluttu fjármagni er okkur dýrmætara í eðli sínu en allt sem kemur til vegna innanlands starfsemi, þótt það séu kannski hærri upphæðir.

Vill einhver tapa átta milljarða gjaldeyristekjum úr þjóðarbúinu?

Þegar fólk sér núll komma eitthvað prósent, þá finnst engum það sérstaklega merkilegt. Og þrjú þúsund störf sem verða til í kring um álver, það er bara lítið brot af heildarvinnuafli þjóðarinnar, eitt prósent eða rétt innan við það.

En þrjú þúsund störf það er nú ágætt út af fyrir sig og æði kostnaðarsamt yrði nú fyrir samfélagið, ef þau hyrfu á brott.

Þeir eru fastir í mörg þúsund ára gamalli aðferð forn-Grikkja sem gengur út á það, að sannfæra fólk um sinn málstað, hvort sem hann er réttur eður ei.

Sú aðferð getur virkað vel fyrir ungt skólafólk, hún getur þroskað heilann. En sem innlegg í alvöru umræðu er þetta mikið eyðileggingar fyrirbæri.


Svavar samningamaður.

Ég hef verið að dunda mér við að skoða greinasafn Morgunblaðsins á netinu og þar er margt athyglisvert að sjá.

Svavar Gestsson var í viðtali við Morgunblaðið þann 8. júní 2009. Þetta var áhugavert viðtal við manninn sem nýlega hafði landað stórkostlegum samningi að mati Steingríms Joð.

Svavar sagði m.a. í þessu ágæta viðtali;"það stórkostlega við þessa niðurstöðu (hann er að tala um Icesave samninginn sinn), er að ekki þarf að loka einu einasta sjúkrarúmi eða einni einustu skólastofu næstu sjö árin. Það þarf ekki að skerða hár á höfði velferðarkerfissins næstu sjö árin".

Steingrímur hafði uppi stór orð um gæði þessa samnings, en Svavar bætti um betur. Hann fullyrti það að samningurinn hans myndi sjá til þess að niðurskurður í velferðarkerfinu væri ástæðulaus með öllu.

Hvernig dettur fólki til hugar, að hægt sé að treysta vinstri mönnum, fyrir landsstjórninni?

 


"Þetta er á lokastigi, tilbúið í næstu viku".

Oft höfum við heyrt Jóhönnu segja hin ýmsu mál vera á lokastigi.

Svona til gamans langar mig að fjalla um frétt úr Morgunblaðinu frá 27. september árið 2009, en þá var þetta líka allt að koma eins og svo oft, hjá henni Jóhönnu.

Þar segir að Jóhanna hafi tilkynnt á flokksráðsfundi Samfylkingar að útfærsla aðgerða sem koma áttu til móts við þann hóp, sem verst væri settur, væri nú á lokastigi

Jóhanna sagði orðrétt áfundinum að "allar kannanir sýna að vandinn er viðráðanlegur  og að í raun eru það 20% heimila sem þurfa nú á aðgerðum að halda".

Já þetta var þá.

En núna, tæpu einu og hálfu ári seinna eru aðgerðirnar varla búnar, þótt þær hafi verið á lokastigi þá.

Skyldi Jóhanna vilja líkja eftir Guði almáttugum?

Einn dagur hjá Guði þýðir þúsund ár hjá okkur mönnunum.

 


Óvanalega yfirgripsmikil vanþekking á efnahagsmálum.

Jóhanna Sigurðardóttir státar af óvanalega yfirgripsmikilli vanþekkingu á efnahagsmálum, ef miðað er við einstakling sem setið hefur meira en þrjá áratugi á alþingi. Hún hefur setið talsvert á ráðherrastóli og er nú um stundir forsætisráðherra eins og allir vita.

Það var mikið til í því, þegar Davíð Oddsson sagði í sinni frægu ræðu á landsfundi sjálfstæðismanna; "að hún væri eins og álfur úr hól".

Flestum er í fersku minni rangfærslur hennar í núverandi embætti, þannig að ástæðulaust er að fjalla um þær að þessu sinni.

Morgunblaðið sagði frá því þann 20. júní árið 2008 að Jóhanna félagsmálaráðherra hafi ákveðið að stofna tvo nýja lánaflokka hjá Íbúðalánasjóði, til þess að tryggja fjármögnun íbúðarlána banka og sparisjóða landsins. Lánshlutfall átti að vera 80% af kaupverði íbúðar og hámarkslán skyldu hækka úr átján og upp í tuttugu milljónir.

Þeir sem greiðan aðgang höfðu að upplýsingum er vörðuðu efnahagsmál á þessum tíma, hefði átt að vera það fulljóst hversu galin hugmynd það var að auka útlán í umhverfi því sem þá ríkti.

Jóhanna hefur ákveðið að fylgja sinni tilfinningu varðandi efnahagsmál, en hún er ekki upp á marga fiska, í stað þess að afla sér upplýsinga og gaumgæfa málin á yfirvegaðan hátt. En það er ekki hennar styrkur, heldur virðist hún vaða áfram í tómri þvælu.

Svo kemur þessi stórmerkilega vankunnátta konunnar sem þótti vinsælasti ráðherra ríkisstjórnar þess tíma enn og aftur í ljós, þegar Birkir Jón Jónsson þingmaður lét í ljósi áhyggjur af ástandinu á íbúðarmarkaði.

Þá fannst Jóhönnu þingmaðurinn ungi helst til of svartsýnni, hún taldi markaðinn ekki eins helfrosinn og sumir vildu vera láta.

En hún gleymdi raunar einu mikilvægu atriði, það er að skoða málið í heild sinni.

Hún renndi augum yfir tölur frá Íbúðarlánasjóði sem sýndu litlar breytingar, en gleymdi að gera ráð fyrir því, að bankarnir væru hættir að mestu leiti að lána til íbúðarkaupa. 

Hvernig getur nokkur maður logið því að sér að hún sé mikilhæfur stjórnmálamaður?


Skynsamleg ákvörðun hjá Karólínu.

Þeir sem hafa lesið mín skrif draga kannski þá ályktun, að ég hafi lítið álit á vinstri mönnum yfirhöfuð. Það leiðréttist hér með.

Ég á góða vini sem eru gallharðir vinstri menn, því sú stefna samrýmist þeirra lífsskoðun og þeir eru heiðarlegir í sínum skoðunum. Þótt mér finnist vinstri stefnan hlandvitlaus og algerlega vonlaus til að stjórna eftir, þá er hún engu að síður nauðsynleg til mótvægis við hægri stefnuna, sem ég þó álít hvað besta af því sem fundið hefur verið upp.

Vinir mínir á vinstri hliðinni þekkja þessa skoðun mína og virða hana eins og ég virði þeirra.

Það er stórhættulegt lýðræðinu ef aðeins ein stefna verður allsráðandi, því öfgar til hægri eru líka slæmir. Lýðræðisþjóðfélag þarf að leita jafnvægis.

Karólína Einarsdóttir er augljóslega sömu gerðar og framangreindir vinir mínir. Hún er vinstri sinnuð því hún telur þannig kerfi henta sér best og það er vel.

Gagnrýni mín hefur fyrst og fremst beinst forystuliði vinstri flokkanna, þau virðast ekki hafa neina aðra hugmyndafræði heldur en þá, að halda völdum hvað sem það kostar.

Sterkir einstaklingar á borð við Karólínu sætta sig ekki við svoleiðis óheilindi, hún virðist hugsjónamanneskja með hjartað á réttum stað og slíkt fólk er samfélaginu dýrmætt mjög.

Ég vona að hún ásamt öllum þeim innan raða VG stofni alvöru vinstri flokk og að þau berjist fyrir sínum hugsjónum.

Málefnaleg barátta um hugmyndafræði veldur jákvæðri gerjun í samfélaginu sem á endanum skapar upplýst og gott þjóðfélag. 

Lífið býr yfir óendanlegu litrófi, við hægri menn getum lært margt af vinstri mönnum og öfugt, en þá verða menn að halda persónum utan við málefnin og ekki brigsla hvert öðru um óheilindi.

Mig langar að enda á orðum frjálshyggjumannsins og mannvinarins Milton Friedman, en hann sagði í sjónvarpsþætti falleg orð árið 1984; 

            "Ólíkar skoðanir bæta heiminn!!"


mbl.is Formaður segir sig úr VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausnir Steingríms Joð veturinn 2008.

Þann 30. nóvember árið 2008 voru forystumenn stjórnmálaflokka spurðir um áheyrslur sínar og stefnur.

Steingrímur svaraði spurningunni sem varðaði leiðir út úr efnahagsvandanum á eftirfarandi hátt:

Nýta ber alla möguleika til innlendrar verðmætasköpunar í hefðbundnum greinum atvinnulífsins með því að blása lífi í skipasmíðaiðnað, ullar og skinn iðnað, hefja kornrækt osfrv.

Ekki hefur hann hrint þessum hugmyndum í framkvæmd, enda vandséð að þær myndu hjálpa mikið við núverandi aðstæður.

Við þurfum að efla þær útflutningsgreinar sem við þekkjum hvað best, en það skilur Steingrímur ekki.

Svo var hann spurður um, hvort erlendir kröfuhafar eigi að eignast hlut í bönkunum.

Svar hans var á þessa leið; "Nei, ég tel að það orki tvímælis að opna á slíkt, því þá fara önnur markmið forgörðum".

En sá hann ekki til þess að erlendir kröfuhafar, sem enginn nema hann vita seili á, eignuðust hlut í bönkunum, gott ef ekki ráðandi hlut?

Það virðist ekki vera orð að marka vesalings manninn.


Þegar Steingrími Joð var hlýtt til sjálfstæðismanna.

Gagnasafn Morgunblaðsins geymir margt sem áhugavert er að skoða.

Þann 18. desember árið 2007 tók Agnes Bragadóttir viðtal við kappann Steingrím Joð.

Í viðtalinu bar Sjálfstæðisflokkinn á góma og Steingrímur sagði m.a. um þann ágæta flokk; "Við erum eindregnir talsmenn fyrir samábyrgu norrænu velferðarkerfi og vissulega hefur Sjálfstæðisflokkurinn stutt ýmsa þætti þess í gegn um tíðina, eða a.m.k. látið þá í friði og skorið sig úr að því leiti frá norrænu hægri flokkunum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur meiri víðsýni til að bera en systurflokkar hans á Norðurlöndunum".

Þetta var ansi huggulega sagt hjá honum þá, en eftir hrun umhverfðist hann gjörsamlega.

Það ber að hafa það í huga að hann er vinstri maður og þeir geta skipt snarlega um skoðun ef það hentar málstaðnum.

Þegar hrunið kom þá öskraði hann í pontu um frjálshyggju Sjálfstæðisflokksins sem setti allt á hliðina og Sjálfstæðisflokkurinn eyðilagði allt sem hét norrænt velferðarkerfi hér á landi.

Hugsa sér tæpu ári áður hafði hann sagt Sjálfstæðisflokkinn hafa staðið vörð um vissa hluta kerfisins og staðið sig betur en hægri flokkar á norðurlöndum, allt í einu höfðu þeir eyðilagt það, á honum var að skilja að eyðilegging hins norræna velferðarkerfis hafi byrjað árið 1991.

Hvað var það í velferðarkerfinu sem hrundi? 

Velferðarkerfið var ekki eyðilagt af sjálfstæðismönnum, en núverandi ríkisstjórn hefur ekkert bætt það, frekar dregið úr því ef eitthvað er.


Hefur Steingrímur alltaf verið mótfallinn stóriðju?

Í Morgunblaðinu þann 5. september árið 2008 er sagt frá því að Össur Skarphéðinsson hafi verið að hrekkja vin sinn Steingrím Joð.

Prakkarinn Össur kvað Steingrím hafa stutt virkjanir í neðri hluta þjórsár, en það mun reyndar vera góður virkjanakostur fyrir álver í Helguvík.

Steingrímur Joð brást illa við þessum ummælum Össurar og kvað hann fara með fleipur, gott ef honum fannst hann hreinlega ekki vera að ljúga upp á sig.

En ritarar þingsins hafa unnið sín störf af kostgæfni og alúð, þannig að það var hægt að finna skjalfest ummæli Steingríms er vörðuð þetta mál.

22. nóvember árið 2005 sagði Steingrímur Joð í ræðu á þingi, að virkjanir í neðri hluta Þjórsár væri prýðis góður kostur, þannig að Össur laug ekki í þetta sinn.

Einnig sagði Steingrímur Joð á þingi árið 1990 að Ísland hentaði vel til álframleiðslu, því við gerðum það á umhverfisvænni hátt en þjóðir sem notast við olíu og kol.

Steingrímur Joð hefur þá einu sinni verið talsvert skynsamur maður, það er ekki víst að allir viti það, en gott er að honum sé þá ekki alls varnað blessuðum, það er bara verst hvað hann er fljótur að skipta út skoðunum blessaður angans karlinn.

Er Steingrímur Joð virkilega svona upptrekktur alla daga, að hann veit ekkert hvað hann er að segja?

Varla finnst kjósendum það traustvekjandi að hafa fjármálaráðherra sem skiptir reglulega um stefnur í hinum ýmsu málum.


Hvað meinti Davíð Oddsson?

Það sem Davíð Oddson ritaði í Morgunblaðið varðandi aðkomu Steingríms Joð að eftirlaunafrumvarpi því sem hann fordæmir nú um stundir liggur nú ljóst fyrir.

Ég hugsaði talsvert um það sem hann skrifaði, það hlaut eitthvað að búa þar að baki, því Davíð fer ekki með fleipur, hann er heiðarlegri en svo.

Svo fann ég grein eftir Gunnar Birgisson sem hann ritaði þann 12. maí árið 2007.

Þar segir Gunnar að það hafi komið þrír menn að máli við Davíð Oddsson, það voru þeir félagar Guðjón A. Kristjánsson, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson. Þeir höfðu þá búið til tillögu eða frumvarp um þetta mál sem Steingrímur kallaði hörmungarmál nokkru seinna.

Enda er það ólíklegt að Davíð Oddsson, sem var þá í ríkisstjórn og eflaust farinn að velta fyrir sér að vera ekki mörg ár til viðbótar í stjórnmálum, væri upptekinn af því að bæta kjör formanna stjórnarandstöðuflokkanna. Það var vitanlega hagur Steingríms Joð að fá þessar góðu launauppbætur fyrir að vera formaður VG, ásamt þeim hlunnindum sem hann lagði til sjálfum sér til handa.

Ekki er ólíklegt að Geir H. Haarde hafi stutt þetta frumvarp í samræðum við Davíð og jafnvel fengið hann til að samþykkja það. Ég ræð það af orðum þeim er Davíð ritaði varðandi höggið sem hann gaf Geir á þingi um árið, enda kvaðst Steingrímur vera með sorg í hjarta eftir að hafa stefnt svona heiðarlegu góðmenni fyrir landsdóm.

Steingrímur Joð samdi sem sagt eftirlaunafrumvarpið sem hann síðar skammaði Davíð fyrir.

Það er ekki að spyrja að ósvífni vinstri manna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband