Færsluflokkur: Bloggar
Föstudagur, 14. janúar 2011
Sumir kunna að axla ábyrgð.
Guðlaugur Þór Þórðarson gerir upp fortíðíðina á vef sínum. Þar segir hann m.a.;"Við fórum of geyst, vorum ekki forsjál í velgenginni og gættum ekki að því að gera nauðsynlega aðlögun á því grunnstefi sjálfstæðisstefnunnar að frelsi fylgi ábyrgð. Lagið var rammfalskt en hljómaði þó vel í eyrum flestra. Þar liggur okkar sök. Þar liggur mín ábyrgð og þá ábyrgð vil ég axla".
Það að axla ábyrgð þarf ekki endilega að vera það, að hverfa af vettvangi. Sumir reyndar hafa vitnað í ábyrgð skipsstjóra og logið því að skipsstjóri víki ávallt úr brúnni ef skipið strandar. Ég hef nú verið heppinn öll þau ár sem ég hef verið til sjós, en tvisvar samt lent í því að skip sem ég var á strandaði. Í bæði skiptin kom skipsstjórinn okkur af strandstað án þess að missa starfið.
Það er stórmannleg leið við að axla ábyrgð á sínum mistökum, að viðurkenna þau og læra af þeim, án þess að hlaupa í burtu frá vandanum. Það er Guðlaugur Þór að gera ásamt öðrum sjálfstæðismönnum.
Ég minnist þess ekki að SF hafi viðurkennt eigin mistök, heldur klínt öllu á sjálfstæðismenn. Í umbótaskýrslunni þeirra kemur fram að þau leyfðu sjálfstæðismönnum um of að ráða ferðinni og sýndu ákveðna meðvirkni. Þótt margt megi slæmt um Jóhönnu segja, þá getur hún varla talist meðvirk, hún stendur þvert á móti mjög fast á sínum skoðunum, þannig að greinilega var hún mjög sátt við fjármálamarkaðinn eins og hann var.
Það er slæm leið og ekki til þess fallin að axla ábyrgð, að flýja frá eigin verkum og eigin orðum.
Frægt er þegar Samfylkingin dásamaði útrásina og bauð aðalútrásarvíkingnum á landsfundinn sinn. Fyrrum formaður SF þakkaði jafnaðarmönnum allt sem gerði útrásina að veruleika, en kenndi svo sjálfstæðismönnum umþegar í ljós kom, að þetta var allt saman meingallað.
En sjálfstæðismenn viðurkenna fúslega sín mistök og hafa ekki þörf fyrir að kenna öðrum um.
Þegar lesin er tilvitnunin í afsökunarbeiðni Guðlaugs Þórs sést það glöggt, að hann er aðeins að ræða um ábyrgð sjálfstæðismanna.
Sjálfstæðismenn viðurkenna sín mistök afdráttarlaust og af hreinskilni.
Samfylkingin, sem þó hafði nákvæmlega sömu stefnu varðandi fjármálamarkaðinn og sjálfstæðismenn, getur ekki ennþá viðurkennt sannleikann. jafnvel þótt stofnuð hafi verið umbótanefnd, en sú nefnd geiri ekkert annað en að taka undir vælinn í forystunni, kenna sjálfstæðismönnum um allt sem miður fór.
Þau eru eins og hræddir krakkar sem vilja ekki fá skammir fyrir sína óþekkt. Þekkt er sú aðferð hjá börnum að benda á félagann sem tók þátt í skammarstrikinu og segja; "hann gerði það, ég gerði ekki neitt".
Þetta er óskaplega vanþroskaður og barnalegur klúbbur, Samfylkingin. Reyndar þætti mér vænt um ef einhver gæti leiðrétt mig með einhverjum rökum, því satt að segja finnst mér hálf nöturlegt að til sé flokkur sem hagar sér á jafn ómerkilegan hátt og Samfylkingin. Því miður hef ég ekki séð nein gögn sem hrakið geta þessa skoðun mína.
En endilega ef einhver getur komið með heimildir sem staðfesta vilja SF til að viðurkenna eigin mistök, þá væri gott að sjá þær. Því það er ekki gott að vita af því, að svona flokkur skuli fara með æðstu mál landsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 13. janúar 2011
Óvænt upphefð.
Það er ágætis leið til þess að drepa tímann þegar ég er í landi, að dunda svolítið á netinu.
Stundum viðra ég skoðanir mínar, oft ferðast ég um netheima og lendi á hinum ýmsu síðum.
Einni síðu lenti ég á sem hýst er á Eyjunni, hún heitir því frumlega nafni; "Frelsi og franskar" og flytur víst fréttir og fréttaskýringar sem Bandaríkin varða.
Ég renndi augum yfir síðuna, frekar syfjaður eftir óreglulegan svefn á sjónum. En ég glennti upp glyrnurnar þegar ég sá nafn mitt ritað, því það er sameiginlegt með mér og öðrum einföldum sálum veraldarsögunnar, ég er ákaflega hégómagjarn að eðlisfari.
Það var ekki um að villast, heiðursmaður nokkur Ásgeir að nafni sá ástæðu til að geta mín við hlið ýmissa stórmenna samfélagsins, kann ég honum hinar bestu þakkir fyrir.
Ásgeir ritaði þann 11. október sl; "Nei nú get ég ekki orða bundist, "er skítkastið eitthvað sem vinstri menn mega einir nota" spyr Grétar. Svona spyr ekki maður sem lesið hefur AMX.is, Þjóðmál, Skafta Harðarson, Hannes Hólmstein, Staksteina og Jón Ríkharðsson, svo ég nefni nokkra stórvirka skítadreifara sem áberandi eru í umræðunni".
Bloggið mitt er svona ágætis dægradvöl, einnig hef ég til þess að svala tjáningarþörfinni skrifað í aðra miðla. En mér finnst það nú ofhól hjá öðlingnum Ásgeiri að telja mig í hópi þessara merkismanna sem hann nefnir.
Nú bíð ég spenntur eftir því að einhver álíti mig enn merkilegri mann, kannski einn af aðaláhrifamönnum stjórnmála og viðskiptalífsins, kannski álítur einhver mig hafa sambönd á alþjóðavettvangi.
Nú bíð ég fullur tilhlökkunar eftir enn meiri upphefð í netheimum, satt að segja átti ég aldrei von á að nokkur yrði sérstaklega upptekinn af minni persónu, en enginn veit sína ævi fyrr en öll er.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 13. janúar 2011
Rökþrota vinstri menn.
Þegar hlustað er á málflutning vinstri stjórnarinnar og þeirra stuðningsmanna, þá má glögglega sjá að rök hafa þeir engin máli sínu til stuðnings.
Þau halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eyðilagt allt hér á landi, samt hafa þau lengst af tekið þátt í ríkisstjórnum með sjálfstæðismönnum.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn er svona vonlaus eins og þau halda fram, hvernig stendur þá á, að Ísland hefur boðið upp á prýðisgóð lífsskilyrði frá lýðveldisstofnun?
Það þýðir ekkert fyrir þau að hanga í einkavæðingu ríkisbankanna, hinir hrundu líka og meira að segja bankar í útlöndum. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þeir sem keyptu bankanna af ríkinu hafi staðið sig ver en aðrir, þeir stóðu sig allir illa sem stjórnuðu íslenskum bönkum á árunum fyrir hrun, meira að segja Bjarni Ármannsson sem þó var í miklum metum hjá SF, þau buðu honum á landsfundinn sinn árið 2007.
Ólíklegt er að þjóðin hafi verið í skárri stöðu, þótt Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki komið nálægt ríkisstjórn allan lýðveldistímann. Hægt er að færa rök fyrir því, að landið væri í margfalt verri stöðu án Sjálfstæðisflokksins.
Alþýðuflokkurinn, undanfari SF lagði grunninn að útrásinni ef marka má orð Ingibjargar Sólrúnar. Hægt er að skoða heimildir frá síðasta áratug sem sannar það með óyggjandi hætti, að stefna SF varðandi fjármálamarkaðinn var á engan hátt öðruvísi en stefna Sjálfstæðisflokksins. Og Vg hefði vitanlega fylgt SF að málum.
Það sem hefði verið öðruvísi í landstjórn síðustu ára, án aðkomu sjálfstæðismanna er að staðan hefði verið mun verri. Ríkisútgjöld hefðu aukist mun meira, einnig er ólíklegt að vinstri menn hefðu greitt niður skuldir. Þorvaldur Gylfason er í miklu áliti hjá SF, þannig að haustið 2008 hefðu menn leitað leiða til að dæla fjármagni inn í eitrað bankakerfi, því þorvaldur hélt að við lausafjárvanda væri að etja.
Sjálfstæðisstefnan er mun betri og farsælli en vinstri stefnan, það eru allar heimildir sem staðfesta það.
Gaman væri ef vinstri menn gætu bent á einhver afrek í landsstjórninni önnur en þau, að hafa gegnt þokkalega hlutverki verkalýðsfélags.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 13. janúar 2011
Hefðbundin kerfi virka best.
Hinir svokölluðu "grasrótarhópar" sem hreiðrað hafa um sig í samfélaginu vilja bylta hinu hefðbundna kerfi og búa til eitthvað alveg nýtt. Þeim er óskaplega illa við alla "kerfiskalla" og vilja helst endurnýja á þingi og gott ef ekki öllum opinberum stofnunum.
Samt er það svo, að það sem þau fordæma hvað mest virkar best.
Þeim löndum sem við berum okkur saman við er stjórnað einmitt af "kerfiskörlum" og á hefðbundin hátt. Oft finnst okkur reglugerðarbáknið of þungt í vöfum, ýmsum finnst þeirra sjónarmiðum ekki gert nægjanlega hátt undir höfði osfrv.
En samt ríkir ágæt velsæld í löndum þar sem "kerfiskarlar" ríkja. Heilbrigðiskerfin virka þannig að fólk á möguleika á að fá bót sinna meina, stríð eru fátíð osfrv.
En í löndum þar sem "grasrótin" fær að virka og byltingar eru tíðar, þar er ekki gott að lifa. Í suður Ameríku eru lönd þar sem menn gera óhikað byltingu ef þeir eru óhressir með stjórnarfarið.
Þar er komin hefð á þessa vitleysu og fáir geta verið óhultir. Efnahagskerfið er í molum, þrátt fyrir ágætar náttúruauðlyndir, einmitt út af óstöðugu stjórnarfari.
Margir vinstri menn ganga um keikir í bol sem sýnir mynd af vini Castro, sá var víst drepinn ungur að árum. Vinstri mennirnir dásama byltinguna á Kúpu, en tala á sama tíma um að bæta samfélagið og jafnvel auka frelsi íbúanna.
Hefðbundin kerfi geta oft verið ansi þreytandi, ástæðan er sú að menn af holdi og blóði ráða þar ríkjum.
En þau eru margfalt betri en byltingar veitleysan sem viðgengst í sumum löndum og gerir ekkert annað en að búa til nýjar byltingar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 12. janúar 2011
Hvurslags réttarríki er þetta eiginlega?
Óttalegur ruglandi verður alltaf í samfélaginu þegar vinstri menn komast til valda.
Stjórnarskráin kveður á um, að allir séu jafnir fyrir lögum,en nú á að fara að þvarga það fram og til baka.
Þetta er að verða ein allsherjar vitleysa.
Það er í lagi að stefna Geir H. Haarde fyrir landsdóm, af því að hann hugsanlega gerði einhver mistök. Þau eru ekki skilgreind nákvæmlega, en mörgum finnst það ansi líklegt að hann hafi brotið lög og stefna honum þess vegna með sorg í hjarta, vegna þess að hann er svo ægilega góður maður og heiðarlegur.Reyndar þótti Geir svo góður maður, að sá sorgmæddi vildi ólmur mynda með honum ríkisstjórn vorið 2007.
Svo koma níumenningarnir, það má helst ekki dæma þá vegna þess að þeir voru svo reiðir út af bankahruninu. Kemur það í veg fyrir málssókn ef menn verða reiðir út af blankheitum og vandræðagangi í samfélaginu? Það þykir afar sérstæð lögfræði að flestra mati.
Svo vilja Bandaríkjamenn rannsaka, ekki ákæra, þátt þingmannsins Birgittu Jónsdóttur varðandi Wiki-leaks. Þá verður allt vitlaust og embættismenn hjóla í sendiherrann Bandaríska og benda honum á að þingmaðurinn njóti friðhelgi.
Miðað við áheyrslur ríkisstjórnarinnar, þá ber að sleppa flestum við ákærur, nema ef þeir eru skráðir í Sjálfstæðisflokkinn. Þá er nú aldeilis í lagi að rannsaka menn í bak og fyrir og reyna að fá þá dæmda.
Ég spyr bara aftur; "hvurslags réttarríki er þetta eiginlega?"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 12. janúar 2011
Hægri menn kjósa friðinn.
Munurinn á okkur sem aðhyllumst hægri stefnu og þeim sem til vinstri hallast er m.a. sá, að við aðhyllumst friðsamar aðgerðir.
Þótt vafalaust séu til friðsamir vinstri menn og herskáir hægri menn, þá er þetta sú birtingamynd sem heild þessara tveggja stjórnmálastefna gefur.
Ekki liði mér vel ef t.a.m. Steingrímur Joð eða Jóhanna þyrftu að þola harða refsingu, vegna þess að heimska getur ekki verið í andstöðu við lög. Við hægri menn myndum mótmæla harðlega hverskyns aðgerðum sem miða myndu að því, að meiða andstæðinga okkar á einhvern hátt, hvort sem það er líkamlega eða andlega.
Það sést glöggt á þessum tímum, þar sem ríkir stjórn sem er okkur hægri mönnum alls ekki að skapi, við viljum hana frá hið fyrsta.
Að hætti siðaðra manna beitum við tungu og penna til að koma þeim frá völdum.
Í kjölfar hrunsins voru vinstri menn ósáttir við sitjandi stjórn, ekki má gleyma því að húsnæði VG var notað til að geyma mótmælaspjöld og þingmaður þeirra var í stöðugu sambandi við mótmælendur og þingflokkur VG með formann flokksins í fararbroddi lagði blessun sína yfir aðgerðir mótmælenda.
Tungan og penninn kann að vera mun seinvirkari heldur en ofbeldisaðgerðir vinstri manna.
En við hægri menn viðurkennum rétt einstaklingsins til þess að þurfa ekki að þola ofbeldi, einnig virðum við friðhelgi alþingis sem og aðrar opinberar byggingar.
Að mínu viti kallast hægri stefnan ekkert annað en heilbrigð skynsemi byggð á kristilegum grunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 12. janúar 2011
Er beint lýðræði til bóta?
Eftir að fjármálakerfið hér á landi hrundi, þá hefur krafan um beint lýðræði orðið frekar hávær. En það er með þá umræðu eins og svo margar, hún einkennist af grunnhyggni.
Ef við hefðum beint lýðræði hér á landi, en ekki fulltrúalýðræði, þá er ekkert sem segir að við lifðum endilega betra lífi hér á landi. Þvert á móti, það yrði sennilega flóknara fyrir almenning en þægilegra fyrir stjórnmálamenn að vissu leiti.
Almenningur hefur yfirhöfuð lítinn tíma og takmarkaðan áhuga á að kynna sér mál frá öllum hliðum.
Við höfum tvö nýleg dæmi um beint lýðræði, það var þegar íbúakosningin var vegna stækkunar álversins í Straumsvík og Icesave kosningin.
þessi tvö dæmi sýna það, að beint lýðræði getur brugðist til beggja vona.
Íbúakosningin var algert klúður, vegna þess að það var of mikið horft í tilfinningar en lítið tillit tekið til beinna hagsmuna. Vitanlega hefur Hafnarfjörður hagsmuni af stækkun álversins sem og þjóðin í heild sinni.
Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave var hinsvegar vel heppnuð.
Það sem eftir stendur er það, að í beinu lýðræði er ekki hægt að draga neinn til ábyrgðar.
Í fulltrúalýðræði eiga stjórnmálamenn á hættu að missa þingsæti ef þeir eru ekki að standa sig.
Einnig hafa kjörnir fulltrúar betra aðgengi að gögnum og þeir hafa meiri tíma til að fara yfir þau.
Þótt sumir telji það fullnægjandi rannsókn að renna augum yfir blaðagreinar sem varða viðkomandi mál, þá er það ekki svo í raunveruleikanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 12. janúar 2011
Er til einhver "Valhallarskoðun"?
Ég er nú einn alharðasti sjálfstæðismaður Íslands og skrepp gjarna í kaffisopa niður í Valhöll þegar ég staldra við á föstu landi.
Þar taka oftast á móti mér indælar konur, hverri annarri fallegri og spjalla við mig um daginn og veginn.
Aldrei hef ég orðið var við að starfsfólkið í Valhöll segi mér fyrir verkum, þau eru í vinnu fyrir mig, því ég er jú einn af flokkseigendunum þar sem ég greiði alltaf vissa upphæð mánaðarlega af mínum launum. Það er frekar að ég nöldri yfir linkind forystunnar og grípi tækifærið ef þingmann ber að garði og skammast í viðkomandi, vegna þess að mér finnst þau allt of lin í stjórnarandstöðu.
Oftast er mínum ábendingum tekið af kurteisi, en að forystumenn flokksins, sem eru í vinnu hjá mér en ekki öfugt, reyni að segja mér hvað ég á að blogga um eða eitthvað í þá áttina, það er af og frá.
Enda yrði ég ansi reiður ef einhver færi að skipta sér af blogginu mínu. Það er bara svona dægradvöl, mér finnst notalegt að láta gamminn geysa þegar ég sit einn heima og hef engan að tala við.
En jú, það er til "Valhallarskoðun" og hún er einnig mín skoðun, það er að sjálfstæðisstefnan er landi og þjóð til mikilla heilla og svo hefur verið frá stofnun þessa góða flokks.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 12. janúar 2011
ESB trúarbrögð.
Mér finnst málflutningur sumra Evrópusinna hér í bloggheimum minna á Votta Jehóva, þeir boða sinn boðskap af svo miklum trúarhita.
Ég fékk einhverntíma tvo votta í heimsókn til mín. Þar sem frekar kalt var úti þennan dag ákvað ég að bjóða þeim inn í kaffi. Mér finnst hálfleiðinlegt hvað fólk getur verið leiðinlegt við vottanna, því þetta eru jú bestu grey sem eru að flytja sinn boðskap í einlægri trú. Sama er um ESB sinnanna, þetta eru vel meinandi einstaklingar, en fólk sem festist í kreddum er oftast öfgafullt í sinni framgöngu.
Nú, vottarnir þáðu kaffisopann og hugsuðu sér gott til glóðarinnar, þarna voru þeir komnir með nýja sál í söfnuðinn sinn. Þegar þeir urðu varir við það að ég var þeim ekki sammála, sögðu þeir að ég hefði ekki lesið biblíuna. Ég kvaðst nú aldeilis hafa lesið hana og vitnaði í ritninguna máli mínu til stuðnings. Þá sögðu þeir að ég skildi ekki biblíuna og buðust til að fræða mig um merkingu hennar. Þá beindi ég talinu að öðru og tókst með lagni að fá þá til að spjalla um almenn málefni. Síðan kvöddu þeir og þökkuðu fyrir kaffið, eflaust telja þeir mig ekki í góðum málum þegar kemur að dómstóli Guðs, en það verður að hafa það.
ESB sinnarnir eru nákvæmlega eins. Þeir segja að fólk sem er ekki sammála þeim hafi einfaldlega ekki kynnt sér ESB og ef fólk hefur kynnt sér þetta blessaða samband þeirra, þá hefur það ekki sömu þekkingu og þeir. Meira að segja rakst ég á rökræður eins trúmannsins á You to be þar sem hann var að rökræða við Íra og kynna honum kosti sambandsins. Írinn var óhress með ESB og sama hvað íslendingurinn reyndi, það tókst ekki að sannfæra þann írska.
Svo þegar maður hittir fólk sem býr í ESB ríki, þá virðist það ekki mjög sátt við sambandið. Fyrir tveimur árum var ég staddur í Þýskalandi og af eðlislægri forvitni minni spurði ég Þjóðverja spjörunum úr.
Enginn sem ég hitti var ánægður með ESB eða evru. Öllum bar saman um, að matur hafi hækkað til muna eftir upptöku evrunnar og í dag væri erfiðara að vinna fyrir fjölskyldu heldur en þegar Þýska markið var gjaldmiðill þeirra.
Ekki vildu þeir meina að sameining Austur og Vestur Þýskalands hafi verið höfuðorsakavaldurinn, heldur Evrópusambandið.
Það er nokkuð ljóst, að innganga í ESB leysir engan vanda hjá okkur, þvert á móti flækir það málin vegna þess að við þurfum að aðlagast breytingum sem eru ekki endilega til góðs.
.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 12. janúar 2011
Er ég nú orðinn ábyrgur fyrir hruninu?
Margt æði sérstakt hef ég heyrt frá Þorvaldi Gylfasyni, en athyglisvert fannst mér að lesa það á Pressunni í morgun, að ég ræfillinn væri nú orðinn ábyrgður fyrir hruninu.
Er þá ekki hægt að segja stjórnvöld ábyrg fyrir aukinni glæpatíðni sökum fækkunar og niðurskurðar í löggæslumálum?
Þessi eilífa hártogun um ábyrgð á hinu og þessu er komin út í öfgar. Ég get ekki borið neina ábyrgð á bankahruninu, einfaldlega vegna þess að ég hef ekkert nálægt bankamálum komið. Ekki ætla ég heldur að kenna stjórnvöldum um aukna glæpatíðni, vegna þess að þau bera ekki ábyrgð á glæpum þeirra sem fremja þá.
Það eru gerendurnir sem bera ábyrgð á sínum verknaði og í tilfelli bankanna, þá voru það stjórnendur þeirra sem bera ábyrgð á hruninu en ekki stjórnmálamenn eða almenningur í landinu.
Ég skal hinsvegar fúslega gangast við því að hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn landi og þjóð til heilla.
Sjálfstæðismenn stóðu fyrir því , ásamt sínum framsóknarmönnum, að setja lög um fjármálamarkaðinn sem tóku mið af ESB löggjöfinni, hún átti víst að vera svo góð eftir því sem menn sögðu, þótt annað hafi komið síðar í ljós.
Það má vera æði sérstæður skilningur á eigin þjóð, ef einhver ætlast til þess að íslensk stjórnvöld hafi getað sett betri lög utan um sína fjármálastarfsemi en aðrar þjóðir, sem höfðu mörghundruð ár fram yfir okkur í bankarekstri. Það er álíka jafnvitlaust og að halda því fram að lítið fótboltalið utan af landi geti sigrað Liverpool í knattspyrnu.
En vilji Þorvaldur Gylfason eða einhver annar klína á mig ábyrgð á bankahruninu, þá skal ég glaður svara fyrir þær sakir hjá þar til bærum dómstólum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)