Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 17. janúar 2011
Mér hugnast ekki mótmæli.
Ég hef aldrei séð framliðnar verur og ég hef aldrei séð framtíðina birtast mér ljóslifandi eins og á sýningartjaldi, því ég virðist gjörsneyddur því sem skyggnigáfa kallast.
Samt minnist ég þess að hafa sagt við skipsfélaga mína þegar lætin hófust á Austurvelli í hitteðfyrra, að það kæmi ekkert nema einhver helvítis vitleysa út úr þessum mótmælum.
Þeim fannst þetta eðlilegt sjónarmið hjá mér, þar sem þeir þekkja glöggt mínar skoðanir á pólitík, en þeir sögðu að þessi bylting myndi kasta íhaldinu burtu og það væri von til þess að alvöru ríkisstjórn kæmist að, eftir ógnarstjórn íhaldsins.
Þá setti ég upp spámannssvip og sagði að vinstri stjórn myndi ekki laga neitt, heldur gera illt verra. Í framhaldinu minnti ég þá á ýmis atvik úr tíð fyrri vinstri stjórna og kom með nokkra punkta varðandi ágæti íhaldsins, þá gerðu þeir það sama og vanalega, sögðu að ég væri hálfviti og hristu höfuð sín af hneykslun yfir heimsku minni.
En ég hafði rétt fyrir mér þótt ég sé kannski hálfviti, en hálfvitar eru prýðisfólk og enginn þarf að skammast sín fyrir að tilheyra þeim góða hópi. Þeir segja ekki mikið í dag félagar mínir um borð þegar ég rifja þetta upp fyrir þeim, þeir vita að ég hafði rétt fyrir mér.
Mótmælin á morgun skila heldur engu nema einhverjum leiðinda látum, kannski verður eggjum eða tómötum hent í ráðamenn og þinghúsið, ég tek ekki þátt í svoleiðis æfingum.
Reiðin lagar ekki nokkurn skapaðan hlut, það þarf að hafa jákvætt hugarfar og þolgæði þegar erfiðleika bera að höndum. Vinstri stjórnin er afkvæmi búsáhaldabyltingarinnar, þeir sem að henni stóðu verða að sætta sig við það.
Ég dunda mér áfram við að mótmæla með aðstoð tölvunnar, einnig rífst ég við alla vinstri menn sem ég hitti og reyni það ómögulega, að sveigja þá til réttrar stefnu.
Þolinmæði og æðruleysi í þrengingum hefur ávallt virkað best. Það er sama hversu slæmt ástandið verður, það birtir æ um síðir.
![]() |
Boða til mótmæla á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Mánudagur, 17. janúar 2011
"Stétt með stétt".
Slagorðið "stétt með stétt" hefur fylgt sjálfstæðisflokknum allt frá stofnun hans. því miður hefur aldrei auðnast að koma því í framkvæmd, en það yrði lykill að mikill hagsæld.
Vinstri mennirnir komu af stað stéttarátökum sem voru ekki til farsældar fyrir þjóðina. Hægt er að færa rök fyrir því, að kaupgjaldið hafi oftar en ekki verið hærra en framleiðslan hefur staðið undir.
Launþegar og vinnuveitendur þurfa að vera samstíga í uppbyggingu fyrirtækja landsins. Þeir þurfa að setjast niður og finna sameiginlegan flöt á sínum ágreiningsefnum og ná að skilja hvern annan til fulls.
Það er vissulega langtímaverkefni, en nauðsynlegt að fara í.
Batnandi hagur beggja er allra hagur. Starfsmenn þurfa að leggja sitt af mörkum til að auka framleiðni og leitast við að spara á réttum stöðum, atvinnurekendur ber að sýna starfsmönnum umbun takist þeim að hjálpa til við raunverulega uppbyggingu fyrirtækisins.
Þetta er ný hugsun byggð á gömlu slagorði sjálfstæðismanna. Það sem þjóðin þarf er ný hugsun.
Hugsun byltingaraflanna frá Austurvelli er ekki ný. Oft hafa byltingaröfl tekið völdin með sömu hugsun að baki, að umbylta ríkjandi stjórnarfari og það hefur ekki farið vel til þessa. Að mínu viti er sú tilraun fullreynd.
Stjórnsýslan virkar og hana má bæta með tíð og tíma. En varlega þarf að fara í allar breytingar, því það sem virðist gott og fallegt um stund, getur falið í sér stóra galla þegar til lengri tíma er litið.
Núverandi stjórnfyrirkomulag hefur virkað til þessa, það er að flestu leiti sambærilegt í nágrannalöndum okkar.
Við þurfum fyrst að einbeita okkur að því að vinna okkur út úr efnahagsvandanum og koma á sátt í samfélaginu.
Sátt milli aðila vinnumarkaðarins og sátt milli þings og þjóðar.
En það þýðir ekki að fólk eigi að vera sátt við núverandi ríkisstjórn, hún þarf að hverfa frá völdum hið fyrsta til að atvinnulífið geti dafnað.
Þegar stjórnin hverfur frá völdum getum við orðið sátt við þá sem fyrir henni fara, því þau hafa gert sitt besta.
Vitið er bara ekki meira en Guð gaf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 17. janúar 2011
Þensla í undirheimum.
Ég er alveg steinhissa á að nokkur skuli geta borið blak af sitjandi ríkisstjórn, það er sama hvert litið er, allt er í molum hjá henni.
Það er verið að setja stórfé í stjórnlagaþing, samningsviðræður við ESB og aukin útgjöld til Bankasýslu ríkisins. Einhverjum kann að þykja þetta prýðismálefni, en varla er hægt að segja með alvöru rökum að framangreind atriði eigi að vera efst á forgangslista á sama tíma og stöðugt er skorið niður í löggæslumálum.
Innbrotatíðni eykst jafnt og þétt og ofbeldisglæpir ýmsir og ríkisstjórnin aðhefst ekkert.
Þessi lánlausa og handónýta ríkisstjórn, veldur mikilli þenslu í undirheimum landsins og glæponar græða á tá og fingri, meðan hart er sótt að heimilum og löglegri starfsemi í landinu.
Ef ég hefði þankagang vinstri manns myndi ég segja ríkisstjórnina handbendi glæpamanna, en ég skrifa þetta á alþekkta vankunnáttu vinstri manna til að stjórna landinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 17. janúar 2011
Hræðsla við útlendinga.
Hræðsla við útlendinga er ekki ný af nálinni hér á landi. Blaðamaðurinn J. Ross Browne sem ferðaðist um landið árið 1862 segir skemmtilega sögu af presti nokkrum sem hljóp skelfdur inn í bæ þegar hann leit blaðamanninn augum. Hann spurði Geir Zöega, sem var leiðsögumaður hans, hvers vegna hann hafi hlaupið inn í bæ. Geir svaraði því þá til, að presturinn hafi aldrei séð útlending áður. Síðan var þeim boðið í bæinn og guðsmaðurinn skalf eins og hrísla allan tímann sem útlendingurinn talaði við hann.
Á öðrum stað í bókinni segir Browne ansi skemmtilega frá kynnum hans af bónda nokkrum hér á landi. Sá horfði þannig á hann, að blaðamaðurinn hafði það á tilfinningunni að bóndinn væri ekki alveg viss um að hann væri sömu gerðar og íslendingar, þ.e.a.s. af holdi og blóði.
Núna, hundrað og fimmtíu árum seinna eru þó flestir íslendingar sannfærðir um að útlendingar séu sömu gerðar og við, ósköp venjulegt fólk. En samt gætir einhverrar hræðslu margra við að hafa viðskipti viðþá.
Erlendir fjárfestar hafa eignir sínar og umsvif þar sem það er hagstæðast hverju sinni. Þeim er alveg sama hvaða nafn landið hefur, þeir vilja græða.
Okkar er að sannfæra þá um að þeir græði best á að halda sínu hér á landi og jafnframt verðum við að gæta okkar hagsmuna.
Það þýðir vitanlega ekkert annað en eðlilegt samningsferli þar sem báðir græða og jafnræðis er gætt.
Ótti við útlendinga er algerlega ástæðulaus, við þurfum á þeim að halda og það þarf að sýna þeim það, að þeir þurfi á okkur að halda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 16. janúar 2011
Hægri stefnan virkar best.
Ef litið er til stjórnmálasögu veraldarinnar, þá má glöggt sjá að hægri stefnan, sambland af frjálshyggju og kapítalisma hefur virkað hvað best.
Samkvæmt skilgreiningu stjórnmálafræðinga, þá gengur hægri stefna út á frelsi til orða og athafna en vinstri stefnan boðar meira stjórnlyndi. Þar sem að maðurinn er ekki auðtamin skepna og vill fara sínar leiðir, þá leiðir af sér að frelsið er farsælast af öllu því sem þekkt er í dag.
Ef við förum frá hinni hefðbundnu hægri og vinstri stefnu og skoðum nýja aflið í íslenskum stjórnmálum, Hreyfinguna, þá hefur hún ekkert nýtt fram að færa. Ekki skal efast um göfugan ásetning þeirra, en spurningin er, hver er hugmyndafræðin?
Hún gengur víst út á það, að færa völdin til fólksins. Ekki er víst að það sé betra, því hægt er að hafa áhrif á almenning alveg eins og stjórnmálamenn, með allskyns áróðri frá sérhagsmunahópum. Enda er almenningur langt frá því að vera einsleitur hópur, þar ríkja ólík sjónarmið alveg eins og á þingi.
Það sást með glöggum hætti þegar íbúakosningin var í Hafnarfirði, ekki var það hagstæð niðurstaða sem kom út úr henni. Samt fékk almenningur að ráða. Miðað við stemminguna í samfélaginu, þá er ekki meira vit í því sem margir úr hópi almennings láta frá sér fara heldur en margt af því sem frá stjórnmálamönnum kemur. Svo hafa nýir hópar sem myndast hafa í byltingum náð völdum úti í heimi og erfitt er að sjá að það hafi haft hagsæld í för með sér.
Alvöru stjórnmálaafl boðar hugmyndafræði sem virkar til hagsældar. Hugmyndafræði hægri manna gengur út á frjáls viðskipti að stórum hluta ásamt þeirri sjálfsögðu hugsun að hlúa þurfi að okkar minnstu bræðrum og systrum.
Frjáls viðskipti lögðu grunn að því kerfi sem við þekkjum í dag á sviði velferðar og menntunarmála.
Gallinn er sá, að frjáls viðskipti hafa aldrei náð að dafna hér á landi, fáum aðilum hefur með samþykki hægri og vinstri manna tekist að sölsa undir sig markaðinn. Við þurfum að gæta að því í framtíðinni að nýir markaðir feli í sér frjálsa samkeppni.
Hugmyndafræði stjórnmálaafla má ekki ganga út á það að hygla einni stétt framar öðrum stéttum. Vinstri flokkarnir voru stofnaðir sem sérhagsmunabandalög verkalýðsins á meðan Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður sem flokkur allra stétta.
Verkefni sjálfstæðismanna verða þau helst, að standa vörð um frelsið og gæta þess að heilbrigð samkeppni ríki.
Það þýðir ekki að jafna kjör fólks með ofbeldi eins og vinstri menn vilja gera. Svoleiðis aðferðir ergja fólk og draga úr því allan mátt.
Skattar eiga að vera í lágmarki sem og ríkisútgjöld. Það er gott aðhald fyrir stjórnmálamenn að hafa ekki úr miklum peningum að spila. Þetta vita sjálfstæðismenn best allra í pólitík.
Kjör fólks jafnast af sjálfu sér ef hægri stefnan fær að virka eins og hún á að gera.
Þá verða fleiri að keppa á markaðnum, þannig að erfiðara er um vik að hækka vörur úr hófi fram. Það þýðir að menn geta ekki orðið eins ríkir og í núverandi kerfi. Og þetta allt mun gerast með fullri sátt, því enginn verður heldur mjög fátækur.
Það á ekki að vera markmið neins að verða óhóflega ríkur, því það hefur ekki orðið mörgum til gæfu.
Mönnum líður hvað best ef þeir hafa frelsi til að gera hvað sem þeir vilja. Ríkisvaldið á að sjá til þess að menn hafi ekki frelsi til að skaða aðra, einnig að lágmarksmenntun verði kostuð af ríkinu ásamt heilbrigðisþjónustu öllum til handa.
Svo er í lagi að standa að einhverju leiti undir kostnaði við börn þessa lands, því þau eru framtíðin og geta ekki séð fyrir sér sjálf. Börnin eru að miklu leiti á ábyrgð þjóðarinnar að mínu mati.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 16. janúar 2011
Íslendingar hafa löngum verið framarlega í jafnréttismálum.
Það kann að vera árátta hjá mér, en af einhverjum sökum er ég ákaflega viðkvæmur fyrir öllum rangfærslum.
Sagt var í búsáhaldabyltingunni að það þyrfti harða byltingu til að breyta málunum og vitnuðu í það, þegar íslenskar konur fengju kosningarétt árið 1915.
Bríet Bjarnhéðinsdóttir var fremst í flokki kvenréttindakvenna á fyrri hluta tuttugustu aldar.
Hún hélt ræðu við þetta tækifæri og þakkaði þar alþingismönnum fyrir að hafa veitt konum margvíslegar réttarbætur undanfarin ár og nú kosningaréttinn.
Bríet vitnaði í grein sem hún ritaði árið 1885 um menntun og réttindi kvenna, en kvaðst ekki hafa minnst á kosningaréttinn;"því svo langt vorum við ekki komnar þá".
Tveir þingmenn fóru fremstir í flokki á ofanverðri nítjándu öld við að hvetja konur til að krefjast kosningaréttar, það voru Skúli Thoroddsen og séra Ólafur Ólafsson. Skúli Thoroddsen fór fremstur í flokki, við að hvetja konur og þær fylgdu honum síðar að þeim málum. Ekki er neitt minnst á að nokkur átök eða bylting hafi verið í þessu samhengi.
Mér þykir alltaf leiðinlegt þegar einhverjar konur ryðjast fram og skammast í okkur karlmönnum fyrir að bera ekki virðingu fyrir sér. Engan karlmann þekki ég sem ekki ber mikla virðingu fyrir konum.
Og sjálfur hef ég verið einlægur aðdáandi kvenna frá því ég fyrst leit þennan heim augum og það fer ekkert minnkandi með árunum. Konur eru stórkostlegar og sérstaklega íslenskar konur, þótt vissulega séu þær margar fallegar í útlöndum.
Og konur eiga ekki að skammast sín fyrir útlit sitt, því tískukóngar í París eiga ekki að ráða því hvers konar vaxtarlag er fallegt. Það er fyrst og fremst hin innri fegurð sem skiptir máli. Feitar konur hafa þann kost helstan að það er hægt að elska svo mikið af þeim.
Kærleiksblik í augum og hjartahrein umhyggja fyrir lífinu, hið sanna kveneðli er það sem heillar menn. Fyrir mér eru allar konur fallegar ef þær hafa hreint og göfugt hjartalag.
Konur hafa haslað sér völl víða og það er mjög gott. En mér finnst samt óþarfi, þótt konum gangi vel, að segja að karlmenn séu síðri á einhverju sviði.
Ef eitthvað er í jafnréttisumræðunni sem er neikvætt, þá er það þessi árátta sumra kvenna að telja sig yfir karlmenn hafnar. Kynin eiga að virða hvert annað á jafnréttisgrundvelli.
Vinstri sinnaðar femínistakonur eru alltaf að reyna að reka fleyg milli karla og kvenna. En mér finst þær samt líka fallegar, Sóley Tómasdóttir finnst mér t.a.m. ágætlega hugguleg kona, þetta á við um þær allar. Ég hef bara aldrei séð ljóta konu svei mér þá, nema einu sinni í Bretlandi þegar ég fór í söluferð til Grimsby fyrir fjölmörgum árum. En þegar hún brosti, þá fannst mér hún falleg þá þá geisluðu augun svo mikið.
Þetta sjá allir íslenskir karlmenn, konur standa okkur vitanlega jafnfætis að öllu leiti. Enda hafa mælingar sýnt það, að við stöndum framarlega í jafnréttismálum og látum ekki fallegu vinstri femínistanna blekkja okkur.
Konur, ég segi fyrir hönd íslenskra karla; "við dýrkum ykkur allar"!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Föstudagur, 14. janúar 2011
2020 áætlunin.
Jóhanna hefur augljóslega lært ýmsa klæki á sínum langa stjórnmálaferli. Henni tókst nokkrum sinnum að friða fólk með því að lofa aðgerðum eftir helgi eða í næstu viku.
Þar sem hún hefur glögga aðstoðarmenn, þá varð henni það ljóst að fólk væri hætt að taka mark á þessum "næstu daga" trixum. Þá þurfti nú aðeins að leggja heilann í bleyti.
Vafalaust hefur hennar hundtryggi aðstoðarmaður, spunameistarinn góði Hrannar B. Arnarsson, verið henni betri en enginn í þessu máli. Þau komust að þeirri niðurstöðu að ágætt væri að setja fram 2020 áætlun. Það liti vel út á prenti 20/20, einnig gæti þetta verið ágæt aðferð til að kaupa frið.
Árið 2020, þegar allt átti að vera komið í lag, þá væri enginn hætta á að Jóhanna þyrfti að svara fyrir eitthvað sem kynni að misfærast í þessari áætlun. Hún væri þá orðin sjötíu og átta ára gömul, vafalaust löngu hætt í pólitík og ekki er það venja fréttamanna að vera ágengir við stjórnmálamenn sem væru að nálgast níræðisaldur.
Árið 2020 hefðu sjálfstæðismenn sennilega ríkt nokkuð lengi og lagfært það sem miður fór hjá "hinni tæru vinstri stjórn", þá gæti Jóhanna þakkað sér að einhverju leiti það góða ástand sem þá ríkti.
Sökum gæflyndis sjálfstæðismanna og minnisleysis almennings, þá má vel hugsa sér að Jóhanna fengi heiðurinn af þessu öllu.
Já hann er klókur og framsýnn maður, hann Hrannar B., Jóhanna kann líka ýmis trikk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 14. janúar 2011
Saving Iceland beitti ekki ofbeldi?
Þingmaðurinn Birgitta Jónsdóttir sagði í Kastljósi að þeir sem tóku þátt í mótmælum Saving Iceland hópsins, hafi ekki beitt ofbeldi og lét að því liggja að svokallaðir aðgerðarsinnar væru óskaplega friðsamt fólk.
Þetta hljómar illa við það sem gerðist árið 2005, en þá munu mótmælendur á vegum hópsins hafa ráðist að fólki sem var á hóteli fyrir austan, að mig minnir, og skvett grænlituðu skyri. Vitanlega er það ekkert annað en ofbeldi að skvetta skyri framan í blásaklaust fólk.
Vitanlega er það ekkert annað en ofbeldi að skvetta skyri framan í fólk, einnig er það ofbeldi að valda töfum á vinnu með því að hlekkja sig við vélar og þó það teljist kannski ekki ofbeldi, þá er það æði vafasöm aðgerð að spreyja á vegmerkingar litum sem hylja merkingu þeirra.
Mótmælahópar á borð við Saving Iceland samanstanda oftar en ekki af öfgafólki sem telur sín sjónarmið betri en annarra. Þau láta sér ekki nægja að hafa aðrar skoðanir en fjöldinn, heldur leitast við að þröngva þeim upp á saklaust fólk, með góðu eða illu.
Þeim er ekki annt um skoðanafrelsi fólks og það er ekki góð latína í ríkjum sem búa við góða lýðræðishefð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 14. janúar 2011
Ófullkomleiki hagfræðinnar.
Hagfræðin er ákaflega ófullkomin vísindagrein fyrir þær sakir, að hún notar hugtök sem geta litið vel út á blaði en eru samt sem áður villandi og varasamt er að taka mark á þeim.
Ef hagvöxturinn er tilkominn vegna þess að tekist hefur að afla aukinna lána og einkaneysla aukist að einhverju marki, þá eru það ekki góðar fréttir fyrir þjóðina.
Ekkert hefur komið fram sem bendir til aukinnar erlendrar fjárfestingar né auknum útflutningstekjum. Hagkerfi geta verið drifin áfram af margvíslegum kröftum ,þau geta verið þjónustudrifin, útflutningsdrifin osfrv. Íslenska hagkerfið hlýtur engan bata fyrr en útflutningur og nýjar erlendar fjárfestingarkoma fram.
Trúir einhver því að ég sé milljónamæringur ef mér tekst að fá 100. milljónir að láni og get sýnt þá upphæð á bankareikningi?
Þetta er nákvæmlega sama dellan og ríkisstjórnin með fulltingi AGS er að reyna að troða í landsmenn.
![]() |
Spá 2% hagvexti á þessu ári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 14. janúar 2011
Hvers vegna er engin rannsókn?
Ræfildómur forsætisráðherra er með eindæmum. Hún talaði eitthvað um það, að rannsaka þyrfti almennilega einkavæðingu bankanna, en svo gerist ekki neitt?
Vitanlega á að koma öllum málum á hreint, fyrst fólk vill enn vera að vandræðast með orsakir hrunsins. Ef hún telur eitthvað glæpsamlegt hafa verið á ferðinni hjá sjálfstæðismönnum, þá ber að sjálfsögðu að rannsaka það. Sama gildir vitanlega um Steingrím Joð, hann á að vera maður til að standa við stóru orðin.
Það á líka að rannsaka allar aðgerðir núverandi ríkisstjórnar varðandi starfsemi bankanna á þeirra vakt, upplýsa þarf þingið um hverjir eru raunverulegir eigendur bankanna.
Það þýðir ekki að fara alltaf undan í flæmingi. Það gildir einu í hvaða flokki fólk er, allir eiga að vera jafnir fyrir lögum.
Ég er ansi hræddur um að Jóhanna hafi verið hvatvísari varðandi landsdóminn ef hún hefði ekki óttast eitthvað varðandi eigin þátt í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í kjölfar hrunsins. Vitað er að hún jók lánveitingar Íbúðarlánasjóðs þvert á skuldbindingar þær er hún hafði áður ritað undir.
Þótt ég sé yfirlýstur og eindreginn stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins, þá vil ég alls ekki að sjálfstæðismenn sleppi hafi þeir brotið eitthvað af sér. Hver og einn verður að axla ábyrgð á sínum gjörðum.
En aumingjaskapur ríkisstjórnarinnar er slíkur, að ekki hefur enn tekist að sakfella neinn þeirra sem átti þátt í hruninu haustið 2008.
Það er nefnilega ekki nóg að rífa kjaft í fjölmiðlum, það þarf að gera eitthvað vilji menn kalla sig alvöru stjórnmálamenn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)