Færsluflokkur: Bloggar
Miðvikudagur, 8. desember 2010
Af hverju fæddist ég á Íslandi?
Þeir sem eiga því láni að fagna að fæðast í friðsömu og litlu landi eins og Íslandi, ættu að spyrja sig þessara spurningar og jafnvel fyllast þakklætis yfir því, að hafa fæðst á Íslandi.
Hvers vegna fæddumst við ekki í Palestínu, þar sem enginn er óhultur um líf sitt eða barna sinna. Það er ískaldur raunveruleiki Palestínsku þjóðarinnar, að börn eru skotin og öll börn eiga foreldra sem, bera sorgina alla sína ævi.
Það getur enginn mannlegur hugur svarað þessum spurningum. Ekki er hægt að halda því fram að við séum betra fólk hér á landi heldur en þeir sem búa í Palestínu, Írak eða Afganistan. Við erum öll af sama meiði, höfum sömu þrá eftir góðu og friðsælu lífi.
Fyrir okkur er friðsælt líf veruleiki sem okkur finnst sjálfsagður, fyrir hin löndin sem nefnd eru að ofan, þá er friðsælt líf fjarlægur draumur sem rætist kannski aldrei.
Ef við viðurkennum þá staðreynd að við eigum engan æðri rétt en þeir sem í stríðshrjáðum löndum búa, þá ættum við að vera nokkuð sátt.
En það einkennilega við lífið er, að sumir eru aldrei sáttir. Það kallast frekja og óraunhæfar væntingar.
Ætli við fengjum mikla samúð frá þeim sem búa í stríðshrjáðum löndum ef við sílspikuð og sælleg færum að nöldra yfir fjármálakreppu? Þau hafa aldrei þekkt neitt annað en fjármálakreppu. Reunar er varla hægt að tala um kreppu hjá þeim, því þau hafa ekki þekkt neitt góðæri, þannig að þar er enginn samdráttur.
Nei, hætt er við að það yrði svipað og að sitja við sjúkrabeð deyjandi manns með ólæknandi sjúkdóm barmandi sér yfir þrálátu kvefi.
Með því að vera stöðugt kvartandi yfir eigin örlögum, þá stöðvast eðlilegt hugsanaflæði sem fundið getur lausnir við vandanum. Reiði og skrílslæti lengja kreppuna, því þá myndast lítið tóm til annarra verka.
Ef við getum andvarpað af feginleik og jafnvel þakkað Guði þá miklu náð að hafa fæðst hér á landi, þá höfum við strax stigið mikilvægt skref til endurreisnar. Ef við náum að fyrirgefa þeim sem okkur finnst hafa á okkur brotið, þá finnum við til léttis. Þetta snýst ekki um aðra, heldur okkur sjálf. Reiðin sem við berum í garð útrásavíkinga, svo dæmi sé tekið, bitnar á okkur sjálfum og jafnvel okkar nánustu. Sennilega fáum við seint tækifæri til að skamma þá beint, og þó svo væri, þá myndi reiðin ekki hverfa. Hætt er við að viðkomandi útrásarvíkingur myndi láta hjá líða að biðja okkur fyrirgefningar á mistökum sínum. Hægt er þá að ráðast á viðkomandi og fá frítt fæði og húsnæði í boði hins opinbera, í skiptum fyrir frelsið.
Það er ekki stjórnlagaþing sem fær okkur til að líða betur. Ekki heldur meira fé. Á góðæristímanum voru ekki allir syngjandi glaðir dag hvern. margir voru pirraðir yfir að geta ekki grætt nógu mikið, aðrir hræddir um að tapa því mikla sem þeir græddu osfrv.
Þakklæti, kærleikur, jákvæðni og gleði, það er hin sanna endurreisn sem varir hvað lengst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 8. desember 2010
Fegurð lífsins.
Nú ríkir árstíð mikilla þversagna, meðan myrkrið er hvað svartast hið ytra, þá skín ljósið í hjörtum okkar skærar en á öðrum ársins tíðum. Við fögnum flest fæðingu frelsarans og þá berum við mikla umhyggju hvert fyrir öðru og ekki síst, okkar minnstu bræðrum. Okkur finnst sárt til þess að vita að einhver geti ekki haldið jól og erum tilbúin til að leggja okkar af mörkum til þess að sem flestir geti þeirra notið.
Fölskvalaus gleði barnanna okkar vekja hjá okkur þær fegurstu tilfinningar sem við búum yfir, flest nálgumst við það, að verða börn á ný. Þegar hátíðin gengur í garð, þá finnum við fyrir skærri birtu í okkar hjörtum og fáir verða ósnortnir af henni. Samt er kolsvarta myrkur úti á meðan innri birtan skærast skín.
Við vitum líka að sólin fer brátt að hækka á lofti, þannig að birtan hið ytra fer að aukast.
Um jólin skynjum við hvað best þá fegurð sem lífið býr yfir í allri sinni dýrð.
Þótt það ríki dimma og drungi yfir efnahagsmálum okkar, þá höfum við möguleika á sömu birtunni og við njótum um jólin. Það er sárt bæði og erfitt að lifa við sára fátækt, verst er þó svartsýnin.
Bjartsýni, von og trú getur fleytt okkur yfir erfiðleikana og gert þá léttbærari en ella. Við vitum að þetta er ekki fyrsta kreppan sem gengur yfir og góðærið sem leið er heldur ekki það síðasta.
Við göngum inn í næstu góðæristíð reynslunni ríkari. Þá vitum við að ekkert í þessum heimi er sjálfgefið og lærum betur að njóta þess sem við höfum. Einnig verður okkur það ljóst að það þarf að umgangast peninga af virðingu og ekki að treysta um of á lánsfé.
Við komum sterkari út úr þessum erfiðleikum ef við varðveitum ljósið innra með okkur.
Ljósið getum við fundið alla daga ársins í augum barnanna okkar, fallegum minningum og von um að bjartari tíð sé í vændum.
Við vitum það, ef við stöldrum við og sefum sárustu reiðina, að öll él birtir um síðir. Kreppa á fjármálamarkaði og samdráttur í efnahagslífi er alltaf tímabundið ástand.
Gleymum því ekki að við búum í friðsömu samfélagi og þurfum minna að óttast um líf okkar og limi en margar aðrar þjóðir. Líf í stríðslausu landi hlutum við án endurgjalds.
Það getur enginn ríkisstjórn né heldur óvandaðir fjármálamenn tekið af okkur fegurð barnanna okar né heldur ást okkar nánustu. En við þurfum að rækta ástina. Það er eingöngu í okkar valdi.
Það er stolt og reisn mannsins og hvernig hann tekst á við verkefni líðandi stundar sem sker úr um hvort hann fer með sigur af hólmi eður ei.
Við stjórnum ekki alltaf aðstæðunum, en við getum haft fulla stjórn á viðbrögðunum.
Varðveitum vonina og hið innra ljós og horfum á fegurð lífsins, þá höfum við ávallt að lokum sigur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 8. desember 2010
Er einhver munur á "fjórflokknum"?
Þetta hugtak "fjórflokkurinn" er afar sérstætt, því í eðli sínu eru þetta fjórir ólíkir flokkar með ólíkar stefnur. Það er talsverður munur á þeim.
Ekki skal farið út í að kryfja þetta mál til mergjar, heldur bornir saman tveir flokkar sem telja sig báðir burðarásinn, hvor á sínum armi stjórnmálavængjanna tveggja.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur stigið fram og viðurkennt mistök sín, án þess að benda á sök annarra flokka. Fyrrum varaformaður sagði ummæli sín algerlega óafsakanleg, það var þegar hún sagði útlenska sérfræðinga þurfa á endurmenntun að halda. Flestir forystumenn flokksins eru sammála um að ríkisútgjöld hafi verið aukin allt of mikið og harmað það, að hrunið hafi gerst á þeirra vakt. Sjálfstæðismenn lögðu það einnig til, fljótlega í kjölfar hrunsins, að set yrði á fót Rannsóknarnefndalþingis sem skilaði svo skýrslu sinni sl. vor.
Sjálfstæðismenn eru breyskir og þeir misstíga sig oft, eins og mannkyn allt. En þeir þora að horfast í augu við þá staðreynd. Þess vegna vilja þeir takmörkuð ríkisafskipti, þeir gera sér grein fyrir því, að of mikil afskipti stjórnmálamenna hafa oftar en ekki neikvæð áhrif. Einnig gera þeir sér grein fyrir því að of háir skattar eru íþyngjandi fyrir fólk, auk þess þá valda þeir mikilli eyðslugleði hjá stjórnmálamönnum.
Svo er það andstæði póllinn, Samfylkingin. Hún er andstæður póll meðan vinstri stefna er enn í tísku, með hækkandi sól og bættum hag eru þau vís með að færa sig til hægri, ef atkvæðin liggja þar.
Þau dásömuðu útrásina mjög á sínum tíma og vildu allt gera til þess að auðvelda auðmönnum lífið. Fyrrum formaður þakkaði sínu fólki útrásina og vöxt fjármálakerfisins. Þegar í ljós kom að það var rangt, þá fóru þau í flækju. Einfaldast var að kenna sjálfstæðismönnum um allt, en viðurkenna ekki sín eigin mistök sem og glámskyggni. Það eina sem þau biðjast afsökunar á er að þau hafi ekki verið nógu ákveðinn við sjálfstæðismenn er þau voru í samstarfi við þá.
Með sömu rökum geta sjálfstæðismenn ásakað Samfylkinguna fyrir aukin ríkisútgjöld, það virðist liggja beint við. Þeir gera það ekki, því ærlegir menn axla sínar byrðar með sóma og læra af mistökunum.
Svo eru það "áhangendurnir" úr háskólasamfélaginu.
Þórólfur Matthíasson, Þorvaldur Gylfason og Stefán B. Ólafsson hafa allir komið með rangfærslur. Þeir hafa sagt að hér á landi væri ójöfnuður meiri en annarstaðar, það var fundið út með því föndra við Gini-stuðla til að sanna sitt mál, einnig hafa þeir sagt að allt færi á annan endann ef Icesave samningarnir yrðu ekki samþykktir á sínum tíma osfrv. Aldrei hafa þeir komið fram og viðurkennt að hafa haft rangt fyrir sér. Það lýsir ekki stórmennsku.
Háskólaprófessor sjálfstæðismanna Hannes Hólmsteinn Gissurarson dásamaði útrásina og fjármálamarkaðinn í heild sinni. Hann sýndi glámskyggni á góðæristímanum.
En hvað gerði hann þegar í ljós kom að hann hafði rangt fyrir sér?
Hann viðurkenndi það umbúðarlaust.
Við erum í einhverskonar vegferð til þroska í þessum heimi, sem ég kann ekki að skýra. Öllum verður á að gera mistök og þeir sem bera mikla ábyrgð, þeirra mistök verða afdrifaríkari en annarra.
Þeir verða ávallt sigurvegarar sem horfast óttalaust í augu við gerðir sínar, en þeir sem kenna öðrum um sín mistök, þeir þroskast afskaplega seint, ef þá nokkurn tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 8. desember 2010
Hvar býr spillingin?
Spillingin býr í mannlífinu sjálfu, hún er hluti af því. Birtingamynd hennar er mismunandi eftir því hvaða stöðu fólk gegnir, en rótin er sú sama.
Þeir sem tilheyra stétt hins hefðbudna verkalýðs finnst ósköp notalegt að þurfa geta greitt framhjá skatti, það kemur minna við pyngjuna hjá okkur, einnig finnst þeim sem selja vöru og þjónustu prýðisgott að gera það framhjá skattinum, því það færir þeim meira í vasann.
Svo eru það þeir sem fara með mannaforráð. Þeir eru oftar en ekki veikir fyrir því að hygla sínum ættingjum og vinum og ráða þá í vinnu og veita þeim hin ýmsu hlunnindi.
Þeir sem í stjórnmálum starfa gera ýmislegt til þess að hjálpa sínu fólki og veita þeim gjarna góðar stöður auk þess að hygla sínum mönnum á ýmsan máta.
Enda er mannskynið í heild sinni gjörspillt. Ég tel líklegt að hver einasti maður þurfi að slást við óheiðarleikann í sjálfum sér. Svo er það spurning um viljastyrk hverning til tekst. Okkur finnst ólíkt þægilegra að benda á galla annarra en okkar sjálfra. Það er fjandi erfitt að horfast í augu við sjálfan sig eins og maður er.
Svo er það líka spurning hvað er spilling og hvað er ekki spilling, um það er lengi hægt að deila.
Það verður hver og einn að svara því fyrir sig og einnig því, hvort við séum eitthvað betur sett þegar upp verður staðið, ef ofangreind atriði hyrfu úr mannlífinu.
Þá hugsanlega fengi enginn vinnu sem skyldur væri þeim sem færu með völdin, allir væru að passa sig á að vera ekki sekir um spillingu. Þrátt fyrir allt þá kemur "svarta hagkerfið" peningum á hreyfingu sem annars væru jafnvel kjurrir osfrv.
Við skulum forðast dómhörku, heldur að leitast við að gera okkar besta. Við getum aldrei gert þá kröfu til okkar og annarra að við verðum nokkur tíma fullkomin og laus við spillingu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 8. desember 2010
Lygi eða vanþekking?
Þegar Icesave samningarnir hörmulega voru gerðir, komu fram þjóðkunnir einstaklingar og sögðu, að ekki væru betri samningar í boði. Þeir hafa allir gerst sekir um annað hvort mikla vanhæfni, lygar eða stórkostlega vanþekkingu. Kannski má finna hluta af þessu þrennu hjá þeim öllum.
Þórólfur Matthíasson sem er prófessor í Hagfræði, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Gylfi Magnússon fyrrum viðskiptaráðherra sögðu allir einum rómi að landið væri í stórkostlegum vanda ef samningarnir yrðu ekki samþykktir. Vitanlega tók Jóhanna Sigurðardóttir undir þessa þvælu í félögum sínum. Það voru fleiri álitsgjafar sem státa af menntun og þykjast luma á mikilli þekkingu í efnahagsmálum sem héldu þessari vitleysu fram. Einn af þeim var sá sem flest atkvæði hlaut á stjórnlagaþing, Þorvaldur Gylfason.
Eftir að þessum arfavitlausu samningum var hafnað kom í ljós að allir ofangreindir einstaklingar lugu bæði að sjálfum sér og þjóðinni. Samt njóta þeir ennþá trausts a.m.k. hjá stærstu fjölmiðlum landsins.
Jú, unglingurinn síungi Jónas Kristjánsson, sem af mörgum er talinn einn besti samfélagsrýnir þjóðarinnar af einhverjum ástæðum, tók þátt í þessum arfavitlausa málflutningi.
Ef þjóðin er ennþá fávitar og fífl samkvæmt hans skilning, þá erum hún á æði vafasamri braut ef hann fer að hrósa henni.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um það, að lánshæfismatið hefur skánað, gengið styrkst og við höfum allavega ekki farið neðar eftir þessa heimsendaspá spekinganna.
Að lokum má geta þess, að "hrunflokkarnir tveir" sem sumir kalla, Sjálfstæðis og Framsóknarflokkur barðist af hörku gegn þessum galna samningi vinstri stjórnarinnar tæru. Þjóðin sýndi það einnig og sannaði, að hún er vel greind og prýðilega upplýst, þjóðin barðist hetjulega á móti þvælunni.
Skyldu enn vera jafn margir sem taka mark á ofangreindum einstaklingum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 7. desember 2010
Fangi í eigin draumi.
Vesalings formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands er hlekkjaður fangi í eigin draumi og kemst ekki út úr honum. Það er þekkt með mikla ákafa menn sem eru hallir undir náttúru og dýravernd að þeir tapa algerlega öllu því sem talist getur raunveruleikaskyn.
Það er svo sem í lagi að festast í draumheimum ef það er ekki verið að ergja saklaust fólk á sínum draumum , sem oftar en ekki, eru fjöldanum hvimleiðir mjög. En það gerði einmitt formaðurinn hugumstóri, hann leitaði liðsinnis Bandaríkjamanna, en þeir eru margir eins og þessi ágæti maður, kominn langt frá náttúrunni og þannig fólk heldur gjarna að kjöt og fiskur verði til í matvörumörkuðum heimsins.
Það er oft betra að leyfa skynseminni að hafa hönd í baga þegar verið er að velta fyrir sér hinum ýmsu málum, tilfinningar geta verið varasamar ef þær eru látnar ráða för.
Mannskepnan er þeim takmörkunum haldin að vera bundin í holdi og holdið þarf mat til að geta lifað. Þetta hefur verið vitað lengi, enda ein af frumþörfum þeirra sem jörðina byggja.
Þótt ég hafi starfað í áratugi við fiskveiðar og drepið gríðarlegt magn af fiski, þá er mér alls ekki illa við dýr hafsins. Þegar maður sér blessaða fiskanna synda rólega undir yfirborði hafsins, er ekki laust við að maður finni til væntumþykju þeim til handa. Enda þykir mér vænt um flest sem lífsanda dregur. Samt ber að varast að tengjast fiskunum ekki of nánum tilfinningaböndum, því þá ætti ég afar erfitt með að sinna mínu starfi og myrða heilu fjölskyldurnar.
Hvalkjöt er prýðismatur og hollur mjög. Það er talað um offjölgun jarðar og væntanlegan matarskort, á sama tíma vilja sumir banna veiðar á hvölum, allt út af einhverri tilfinningasemi. Þetta hefði í eina tíð verið kallað að haga sér eins og "hjartveikur aumingi"
Að berjast á móti því að smáþjóð geti drýgt tekjur sínar og notið góðs matar, kallast það ekki bara heimska?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 4. desember 2010
Samfylkingin kennir sjálfsæðismönnum um flest sem miður fer.
Samfylkingin er ósköp skrautlegur klúbbur. Þau hafa lært það í gegn um tíðina að þegar þau lenda í vandræðum, þá er best að kenna sjálfstæðismönnum um. Enda hefur það virkað því sjálfstæðismenn eru alltaf svo kurteisir og lítt gefnir fyrir deilur.
Það nýjasta hjá þeim er að kenna fylgisspekt við Sjálfstæðisflokkinn, um margt sem miður fór, er mynduð var ríkisstjórn með honum árið 2007.
Það er í ómaklegt að kenna öðrum um eigin mistök og þeir sem slíkt gera ættu ekki að vera traustsins verðir. Staðreyndin er sú að Samfylkingin var alveg eins bláeyg gagnvart fjármálaheiminum og sjálfstæðismenn. Meira að segja mun ákafari í daðri sínu við auðmenn fortíðar.
Umbótanefndin hefur kannski ekki setið landsfund þeirra árið 2007 þegar Ingibjörg Sólrún þakkaði jafnaðarmönnum það að útrás og vöxtur fjármálakerfisins varð að veruleika Einnig var því lofað að búið væri til hagstæðara lagaumhverfi til að fjármálageirinn gæti vaxið enn frekar. Landsfundurinn fór fram áður en þau gengu til samstarfs við sjálfstæðismenn, svo því sé til haga haldið. Ekki má gleyma því, að Bjarni Ármannson var sérstakur gestur landsfundarins. Sjálfstæðismenn hafa aldrei svo mér sé kunnugt um, boðið óflokksbundnum auðmanni að taka til máls á landsfundi hjá sér.
Umbótanefndin hefur sýnt það og sannað að Samfylkingin er engan veginn tilbúinn til að horfast í augu við veruleikann eins og hann er, en menn komast ekki langt á lyginni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 2. desember 2010
Stígum varlega til jarðar.
Ég vil taka það fram, að það gleður mig mjög að heyra þær fréttir að listin hafi talsverða vigt í hagkerfinu og skili miklum tekjum í ríkiskassann. Það er jákvætt að peningar séu á hreyfingu í samfélaginu.
En að halda því fram að skapandi greinar séu að koma í staðinn fyrir fiskveiðar og áliðnað, það tel ég vera of mikla bjartsýni um þessar mundir. En gott væri ef staðan væri sú, því mannsandinn býr yfir meira magni heldur en hinar auðlindirnar tvær, þótt hæpið sé kannski að segja að hann sé óþrjótandi.
Ekkert hefur komið fram, nema það hafi farið framhjá mér, að skapandi greinar séu að koma með meiri gjaldeyri til landsins heldur en áliðnaður og sjávarútvegur.
Vitanlega skiptir það alltaf mestu máli og ekki síst á tímum sem þessum að endurnýja fjármagnið, því peningar rýrna á meðan enginn endurnýjun verður.
Þess vegna er það stórhættulegt fyrir þjóðina að ætla á tímum sem þessum að fara að leggja meiri rækt við skapandi greinar heldur en þær sem standa undir mestu gjaldeyrisöfluninni.
Núna er mjög áríðandi að horfa til staðreynda og afla eins mikinn gjaldeyri og mögulegt er. Það á að vera ofar í forgangsröðinni heldur en menning og listir, þótt það megi vissulega ekki gleymast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 2. desember 2010
Allt hefur kosti bæði og galla.
Í umræðunni hættir fólki til að upphefja eina hlið og fordæma aðra. Það er hættulegt og getur skapað ófyrirsjáanlegar afleiðingar.
WikiLeaks menn hafa vakið fólk til umhugsunar um ýmislegt, nefna má það sem gerðist í Írak þegar Bandarískir hermenn fóru offari. Það var óvitlaust að koma því inn í umræðuna.
En að opinbera ummæli Kínversks ráðamanns í garð Norður Kóreu manna var óafsakanlegt með öllu. Þegar hugað er að friði í heiminum, þá liggur fyrir að viss hætta getur stafað af N-Kóreu. Kínverjar eru sagðir vera í aðstöðu til að hafa áhrif á ráðamenn þar. Það að birta neikvæð ummæli í garð N-Kóreu á viðkvæmum tímum getur reynst afdrifaríkt.
Því miður er mín tilfinning sú að WikiLeak sé í sama flokki og aðrir æsifréttamiðlar, vilji leitast við að koma með fréttir sem fólk vill fá, án þess að hugsa út í afleiðingarnar.
Heimurinn okkar er langt frá því að vera fullkominn, hann er meingallaður í eðli sínu, þótt hann búi einnig yfir góðum kostum.
Stríðsrekstur er sá veruleiki sem heimurinn býr við, þótt nokkur lönd sleppi við hann.
Og fyrst stríðsrekstur er veruleiki, þá eru leyniþjónustur nauðsynlegar. Ef fótunum er kippt undan þeim þá getur skapast heilmikið hættuástand í heiminum.
Þótt mörgum sé það mjög í mun að hafa allt uppi á borðum, þá getur fylgt því meiri hætta að upplýsa sumt heldur en að halda því leyndu.
![]() |
Amazon hætti að hýsa WikiLeaks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 1. desember 2010
Innflytjendamál.
Við íslendingar þurfum nú að horfast í augu við þá staðreynd, að útlendingar hafa kostað okkur fé og þeir hafa líka gengið í störf sem íslendingar gætu þegið á tímum sem þessum.
Ekki er verið með þessu að skammast út í útlendingana né heldur að hvetja til ofbeldis gagnvart þeim. Útlendingar eru vitanlega fólk eins og við, með sömu vonir og þrár. Tómas Guðmundsson sagði í einu ljóða sinna; "hjörtun slá eins í Súdan og Grímsnesinu". Það eru orð að sönnu.
En við íslendingar þurfum að fara að ræða málin öfgalaust og reyna að komast að hagstæðri niðurstöðu fyrir þjóðina.
Hvað þýðir það að tilheyra þjóð?
Án þess að fara út í miklar langlokur, þá má segja að þjóðin sameinist í því, að hugsa um hag sinn sem heildar. Það þýðir að íslenska þjóðin þarf að setja landa sína í fyrsta sæti og aðrar þjóðir þurfa að vera neðar í goggunarröðinni. Við eigum að sjá um að skapa störf fyrir íslendinga og láta þá hafa forgang og fara varlega í að hleypa einstaklingum af öðru þjóðerni í þau störf sem til eru.
Það er vegna þess að þjóðin þarf að bera af því kostnað, er þá vísað til atvinnuleysisbóta og annarra réttinda sem útlendingar hafa unnið sér inn eftir aðeins fárra ára búsetu.
Þjóð sem hefur takmörkuð fjárráð og býr við lítið hagkerfi getur illa hugsað um fleiri en eigin þegna. Þetta er ekki sjónarmið sem er litað af fordómum í garð útlendinga, heldur vegna þess að lítil þjóð þarf að hugsa út frá þeim forsemdum sem fyrir hendi eru.
Sumir hafa komið með það einkennilega sjónarmið að við séum öll innflytjendur. Þótt mér finnist það kolvitlaust, þá ber samt að virða skoðanir annarra og nú skulæum við hugsa út frá því sjónarmiði.
Á vinnumarkaði, svo dæmi sé tekið, þá ávinnur fólk sér meiri réttindi því lengur sem það starfar hjá viðkomandi fyrirtæki. Engum finnst neitt óeðlilegt við það.
Er þá nokkuð óeðlilegt við það, að þeir innflytjendur sem hafa búið hér mann fram af manni í ellefu hundruð þrjátíu og sex ár njóti meiri réttinda en þeir sem eingöngu hafa dvalið hér í nokkur ár eða allt niður í nokkra mánuði?
Meðan við erum ekki orðin raunverulegt heimsveldi, þá verðum við að hugsa fyrst og fremst um okkar hag eins og allar þjóðir gera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)