Færsluflokkur: Bloggar

Úrsagnir úr Samfylkingunni.

Ég hef nú nokkrum sinnum bent á það að Samfylkingin er ekki stjórnmálaflokkur heldur nokkurs konar klúbbur áhugafólks um eigin frama. Hugsjónir eru litlar, þau haga sér eftir tískustraumum hverju sinni.

Til að gæta sanngirni skal þess getið að ekki er verið að dæma einstaklinga heldur birtingamynd klúbbsins sem heild, vissulega er til gott fólk þar innanborðs með góðar hugsjónir.

Nú hafa margir sagt sig úr klúbbnum og í þeim hópi eru m.a. fyrrum aðstoðarmaður Björgvins G., sonur Ingibjargar Sólrúnar og eiginmaður hennar, einnig hefur Kolbrún Bergþórsdóttir sem er frægur krati hætt stuðningi við þennan sérstæða klúbb.

Ef boðað verður til kosninga þá þykir mér gaman að vita hversu margir kjósa þá Samfylkinguna.

Raunverulega ætti enginn að gera það því svo illa hefur hún staðið sig á liðnum árum, þótt hörð sé samkeppnin í klúðri stjórnmálamanna samtímans, þá held ég að Samfylkingin ásamt VG eigi met sem seint verður slegið


Steingrímur í stjórn og stjórnarandstöðu.

Steingrímur J. Sigfússon gaf sig lengi vel út fyrir að vera sjálfum sér samkvæmur og að fólk gæti treyst því sem hann segði.

Það var á þeim tíma sem hann var í stjórnarandstöðu, en þá gat hann nú aldeilis talað.

Flestir muna þegar hann var snarbrjálaður yfir því að íslenskir ráðamenn væru að ræða við Breta og hollendinga, honum fannst við ekki þurfa að borga krónu til þeirra.

Eitthvað var verið að núa honum þessum orðum um nasir í Kryddsíldinni eftir að varð stjórnarliði.

Þá sagðist hann ekki hafa vitað nógu mikið um málið.

Það getur nefnilega verið slæmt þegar menn segja hluti sem þeir vita ekki nægjanlega mikið um.

Þegar hann breytti um skoðun varðandi Icesave fullyrti hann það að Svavar vinur hans myndi "landa stórkostlegum samningi". Það kom síðan á daginn að hann vissi ekki um hvað hann var að tala, samningurinn var sá alversti sem hægt var að ná varðandi Icesave.

En ég hefði viljað að hann væri enn sama sinnis og hann var í desember árið 2008, en hann sagði í Morgunblaðinu þann 8/12 2008 orðrétt; "ríkið á ekki að standa í því að bjóða upp fólk á þessum viðkvæmu og erfiðu tímum. Ríkið á bankanna og íbúðarlánasjóð og innheimtumenn ríkissjóðs eru líka gerendur í þessu, svo það á vel að vera hægt". Hann vildi vernda heimili almennings á þessum tíma.

En hann er fljótur að skipta um skoðun og sennilega eftir allt saman sá stjórnmálamaður sem hvað mest hefur hent öllu því sem hann hefur staðið fyrir lengst út á hafsauga.

Ragnar Reykás er staðfastur prinsippmaður í samanburði við Steingrím.


Hárrétt ákvörðun hjá Ólafi G.

Ólafur G. Einarsson gerði það eina rétta í stöðunni, hann ákvað að mæta ekki og sýna skoðun sína í verki.

Hafi pólitík hér á landi komist á lágt plan þá er það nú. Ég efast um að stjórnarliðarnir hafi gert sér grein fyrir út á hvaða braut þeir héldu með þessari vitleysu sinni.

Má búast við því að sú stjórn sem tekur við fari að kæra fyrrverandi ríkisstjórn?

Ekki ef sjálfstæðismenn taka við því þeir eru það vandir að sinni virðingu.

 


mbl.is „Þar með var niðurlæging Alþingis fullkomnuð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Að komast í gegn um þetta saman sem þjóð"

Lokaorð fármálaráðherra í viðtalinu voru þau að við "þyrftum að komast í gegn um þetta saman sem þjóð".

Það er alveg rétt hjá honum, en þá þurfum við alvöru ríkisstjórn. Hagfræðikenningar og talnaleikfimi vinstri sinnaðra háskólamanna duga ekki til að komast út úr kreppunni.

Það að setja fé í opinberar framkvæmdir dugar ekki heldur né það að hvetja fólk til framkvæmda.

Það að hreyfa sömu peningana á milli manna leysir ekki nokkurn vanda til frambúðar þótt það geti virkað ágætlega til mjög skamms tíma.

Það mikilvægasta á þessum tímum er að efla útflutning og laða inn erlent fjármagn.

En það skilur þessi ríkisstjórn ekki enda aldrei þurft að hafa mikið fyrir lífinu. Það er ósköp notalegt að fá launin sín alltaf á réttum tíma og vera alltaf öruggur með atvinnu, en fólk sem þekkir ekkert annað er óhæft til að reka samfélag.

"Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær" segir allt sem segja þarf.

Það eina sem þarf að gera er að byrja á því að lækka skatta og í framhaldinu leita að erlendum fjárfestum og á sama tíma styrkja stoðir útflutningsins. Engar aðrar leiðir duga, sama hvað vinir ráðherranna í hagfræðingastétt segja.

Þessi ríkisstjórn kemur seint til með að skapa tekjur fyrir samfélagið, þess vegna er hún algerlega gagnslaus og stórhættuleg samfélaginu öllu.


mbl.is Óánægja vegna skuldavanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkrar staðreyndir um sjómenn.

Sjómannastéttin hefur stundum verið sveipuð ákveðnum ævintýraljóma, ástsælustu söngvara þjóðarinnar hafa sungið um menn sem njóta þess að takast á við hafið, standa í stormi og stórsjó og vinna sitt göfuga starf í þágu lands og þjóðar, margir hafa talað um "hetjur hafsins og hermenn þjóðarinnar". Einnig hafa fjölmiðlar oft slegið fram feitletruðum fyrirsögnum þar sem rætt er um allar þær milljónir sem sjómenn eru að þiggja í laun fyrir tiltölulega stuttan tíma.

Þetta sem sungið er um ber að líta á sem ævintýrasöngva, því þrátt fyrir áratugasjómennsku, þá hef ég aldrei vitað til þess að nokkur maður njóti þess að vera í brjáluðum veltingi og látum úti á reginhafi langt frá fjölskyldu og vinum.

Allavega hefur mér aldrei þótt gaman af að vera í svona látum þótt ég sé í þessu starfi og hafi verið ansi lengi. Sjómenn eru eins og aðrir menn, okkur þykir vænt um okkar fjölskyldur og vini og viljum gjarna njóta mikilla samvista við okkar fólk.

En við veljum þetta sjálfir og hvers vegna?

Vegna þess að við höfum möguleika á því að þéna vel, en það er alls ekki án fyrirhafnar.

Þau skip sem eru að koma með mikinn afla að landi t.a.m. frystitogarar hafa menn innanborðs sem eru búnir að vinna mikið án þess að fá einn frídag í 5-6 vikur og oft hafa þeir staðið margar frívaktir að auki. Þessir peningar koma svo sannarlega ekki af sjálfu sér og menn hafa unnið vel og mikið fyrir hverri einustu krónu.

Til þess að geta verið til sjós þurfa menn að temja sér ákveðna hörku. Sjómenn sem lesa þetta eru mér örugglega sammála.

Í landi getur fólk hringt inn veikindi ef það fær flensu, úti á sjó er það ekki í boði.

Það er ekki vegna mannvonsku, heldur er þetta það erfið vinna að hver hönd skiptir máli, ef það fækkar um einn á vakt, þá leggst mikið aukaálag á hina. Þess vegna verða menn að harka af sér og bíta duglega á jaxlinn.

Svo eru það launin.

Þau fara eftir verði á mörkuðum og því aflamagni sem veiðist hverju sinni. Það er aldrei á vísan að róa. Menn geta haft góðar tekjur, jafnvel himinháar í sumum tilfellum.

Um leið og verð á mörkuðum lækkar, gengið verður mjög sterkt eða veiðin minnkar , þá verða þessir sömu menn að þola mikla tekjuskerðingar.

Hvers vegna er enginn skipstjóri í hópi ríkustu manna landsins, en þeir hafa tvöfaldan hlut, ef launin eru alltaf svona góð eins og margir halda?

Á síðustu árum fyrir hrun þá var gengið mjög hátt skráð. Á þessum tíma var nær ómögulegt að manna fiskiskip og þeir sem komu um borð voru oft algerlega gagnslausir og jafnvel hættulegir sjálfum sér og öðrum.

Úti á sjó getur ein hugsun eða hreyfing oft skilið á milli lífs og dauða. Þess vegna þarf flotinn að vera mannaður af þjálfuðum og reyndum sjómönnum. Þeir láta ekki bjóða sér lág laun ef það er hægt að hafa það betra í landi.

Það vilja nefnilega flestallir menn vera á þurru landi með sinni fjölskyldu.

En menn eru tilbúnir til að leggja mikið á sig fyrir góð laun, þess vegna þarf að borga hærri laun til sjómanna heldur en þeirra sem vinna í landi, til að hægt sé að manna skipin á sómasamlegan hátt.

Allavega meðan sjávarútvegurinn vegur enn svona þungt í útflutningi landsins.

.


Ríkisstjórnin fær fyrsta hólið!!!

Þar sem mér finnst að allir eigi að njóta sanngirni verð ég að hrósa ríkisstjórninni fyrir þetta framtak.

Ég hef aldrei verið hrifinn af ríkisstyrkjum og ekki séð tilganginn með því að vera að borga mér fyrir að ala upp mín börn. Ég hefði gjarna viljað að þessir peningar færu til þeirra sem á þyrftu að halda, ég hef ávallt verið matvinnungur og getað séð vel fyrir mér og mínum. Opinberir styrkir í formi barnabóta er óþarfa bruðl handa sjálfbjarga fólki.

Það á að styðja þá sem ekki geta séð sér farborða sökum fátæktar eða sjúkleika, vitanlega vil ég ekki að saklaus börn líði skort.

En svona hafa stjórnmálamenn því miður hagað sér, verið að ausa fé til fólks til að auka vinsældir sínar.

Ég vil ganga lengra og afnema þær með öllu.

Þegar ég ólst upp þá var faðir minn eina fyrirvinnan. Við vorum þrír bræður og bjuggum í sextíu fermetra íbúð öll fimm. Þetta var gott líf þótt við hefðum oft þurft að fá okkur aðeins minna á diskinn síðustu daga mánaðarins og aldrei fengum við neitt umfram brýnustu nauðsynjar.

Það voru engar barnabætur þá, faðir minn var á lágum launum, samt gekk þetta upp. Nútímafólk er vant svo miklum lúxus að frekjan er orðin allt of mikil.  Heilbrigt og gott fjölskyldulíf ásamt góðum skammti af kærleik og blíðu, ég naut þess svo sannarlega í æsku þótt lítið hafi verið um peninga.

Fólk þarf að læra að skilja það, að við búum í litlu landi þar sem tekjur eru ekki miklar. Þess vegna þurfa sem flestir að bjarga sér upp á eigin spýtur.

Við höfum góða möguleika á því að verða rík í framtíðina ef við nýtum mannauðinn og erum vinnusöm og lærum að spara.

Ég hvet ríkisstjórnina til að gera m,eira af því að skera niður óþarfa kostnað, en sjái jafnframt til þess að börn þurfi ekki að lifa undir fátæktarmörkum. 


mbl.is Barnabætur lækkaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Ísland að verða bananalýðveldi?

Oft hefur hugtakið "bananalýðveldi" heyrst hér á landi, en það hefur mest verið notað til að tjá óánægju með einhver atriði og sem röksemd í þvargi á þingi.

Við höfum til þessa, frá lýðveldisstofnun búið við ágætt stjórnarfar þrátt fyrir ýmis mistök sem gerð hafa verið, en flestum hefur liðið ágætlega hér á landi og búið við öryggi og frelsi.

Hreyfingin er skilgetið afkvæmi búsáhaldabyltingarinnar og var til hennar stofnað af fólki sem vildi breyta samfélaginu til hins betra. Ekki er hægt að ræða þeirra getu enn sem komið er, því flokkar ná ekki að sanna sig fyrr en þeir komast í ríkisstjórn.

Einn af þingmönnum Hreyfingarinnar talar um stjórnsýsluna með vandlætingasvip og bendir á það, að í öðrum löndum sé harðara tekið á málum. Ef svona hrun hefði gerst annars staðar þá væri væntanlega búið að kalla alla stjórnsýsluna til ábyrgðar og búið að ganga í gegn um tvær ef ekki fleiri kosningar, það er eðlilegt uppgjör að hans mati.

Þetta þjóðfélag sem hann talar um er væntanlega til í Draumheimum, en það fyrirfinnst ekki á þessari plánetu svo vitað sé.

Bloomberg fréttaveitan segir frá því, að Ísland sé eina landið sem hafi dregið stjórnmálamenn til ábyrgðar fyrir hrunið og Bloomberg veit ansi vel hvað er að gerast í ríkjum heimsins.

Enda dettur engum siðmenntuðum ríkjum að kæra stjórnmálamenn fyrir athafnir einkafyrirtækja.

Í Bandaríkjunum voru forsvarsmenn Enron dæmdir, þeirra gjörðir kostuðu Bandaríkin stórfé. Engum datt til hugar að dæma sitjandi ríkisstjórn fyrir glæpi Enron manna, enda er það fáránlegt.

Ef það á að vera ólögmætur gjörningur að geta ekki séð hvað kemur til með að gerast í náinni framtíð þá eru allir stjórnmálamenn bullandi sekir.

Það eru bara ráðstjórnaríki og kannski einhver bananalýðveldi sem haga sér með þessum hætti. Siðmenntuð lönd vita að gerendur í glæp hafa gerst sekir um refsivert athæfi en ekki eftirlitsaðilar. 

Ef það á að kæra stjórnmálamenn fyrir afglöp í starfi og mistök þá hafa dómstólar lítinn tíma til að sinna öðrum verkum.  Nær daglega berast fréttir af afglöpum núverandi ríkisstjórnar en sem betur fer detur engum í hug að kæra þau.

Hvað sem raular og tautar, þá getur skynsemisbrestur og heimska aldrei varðað við lög.


Seinheppin forsætisráðherra.

Mikið lifandis skelfing getur háttvirtur forsætisráðherra verið seinheppin persóna, það virðist allt snúast öfugt miðað við það sem hún segir.

Hún vildi slá skjaldborg um heimilin.

Ekki leið langur tími þar til það loforð var gefið að heimilin urðu fyrir verulegum búsifjum, afborganir lána hækkuð vegna hennar aðgerða osfrv., það er eins og ekkert gangi upp hjá konugreyinu.

Svo eftir allt streðið ákvað hún að friða aðeins almenning og setti á fót hina víðfrægu "Atlanefnd" til þess að svala hefndarþorsta fólks og sýna fram á að ríkisstjórnin vildi draga fólk til ábyrgðar.

En eftir að hún hafði nýlokið við að skipa þessa nefnd rann upp fyrir henni leiðinda staðreynd, hún sat náttúrulega í þeirri ríkisstjórn sem nú átti að taka til ábyrgðar.

Í snatri var leitað til spunameistara flokksins og þeir látnið skera hana úr snörunni. Hún las á þingi það sem ritað hafði verið fyrir hana um að nefndin sem hún skipaði gætti sennilega ekki nægjanlega vel að mannréttindum sakborninga.

Þetta er að verða eins og besti farsi, loksins þegar vesalings konan hélt að hún hefði friðað almenning og myndi hugsanlega uppskera smá vinsældir í skoðanakönnunum þá kom áfallið.

Þessi aðgerð hennar til að staðfesta fyrir þjóðinni að hún hefði ekki alveg tapað sinni frægu réttlætiskennd hefur nú orðið til þess að fjöldi manns segir sig úr flokknum, meira að segja sonur forvera hennar á formannsstóli er svekktur og hættir í flokknum ásamt mörgum dyggum stuðningsmönnum flokksins.

Flestir myndu nú gefast upp eftir alla þessa óheppni, en ekki Jóhanna. Nei, hún lifir ennþá í þeirri sjálfsblekkingu að þjóðin þarfnist hennar.

Kannski væri reynandi fyrir fjölmiðla að hvetja hana eindregið og hrósa henni fyrir vel unnin störf?

Þá myndi hún kannski hætta því hún er svo óttalega öfugsnúin þessa dagana blessunin.


Ber Samfylkingin höfuðábyrgð á hruninu?

Vitað er að Samfylkingin þáði mikið af auðmönnum á árunum fyrir hrun. Einnig sagði fyrrum formaður það berum orðum að þakka beri jafnaðarmönnum fyrir það, að útrásin og stækkun bankakerfisins væri möguleg.

Jón Baldvin hefur einnig sagt það að hann hafi beitt sér mjög fyrir því að fá sjálfstæðismenn til að samþykkja að ganga til viðræðna varðandi EES samninginn.

Sá hluti EES samningsins sem fjallaði um reglur varðandi bankamál voru meingalaðar eins og síðar kom í ljós, þannig að hægt er að ímynda sér að hrunið hefði ekki orðið svona sárt ef við hefðum aldrei tekið upp EES samninginn.

Ennfremur var það svo, að þegar Þingvallastjórnin var mynduð þá lagði Samfylkingin á það áheyrslu að lög yrðu hagstæð fjármálageiranum til handa, það væri nauðsynlegt að styðja við bakið á auðmönnunum svo þeir gætu grætt meira.

Þetta er enginn tilbúningur hjá mér, heldur staðreyndir. Hægt er að finna ræðu Ingibjargar Sólrúnar á vef Samfylkingar þar sem hún flutti á landsfundi árið 2007 .

Þar sagði hún að þakka megi sjálfstæðis og framsóknarmönnum það eitt, að hafa fylgt fordæmi jafnaðarmanna varðandi opnun fjármálamarkaðar að hætti ESB.

Þegar allt svo hrundi þá eiga sjálfstæðismenn að bera þeirra sök á þessu máli ásamt sinni eigin.

En geta ber þess að hvorki samfylkingarmenn né sjálfstæðismenn bera höfuðábyrgð á hruninu þótt þessir flokkar hafi vissulega gert mistök, heldur voru að glannalegir fjármalamenn bæði frá Íslandi og öðrum löndum sem bera höfuðábyrgð þar á.

Hverjum hefur dottið til hugar í Bandaríkjunum að lögsækja ríkisstjórn sína fyrir undirmálslánin, Enron osfrv?

Að sjálfsögðu engum, það þekkist ekki í hinum vestræna heimi, nema á Íslandi að ásaka stjórnvöld fyrir óvandaðar fjárfestingar og aðra gjörninga manna sem blindaðir voru af einskærri græðgi. Hafi einhver talað um Ísland sem bananalýðveldi, þá gæti það átt við í tíð þessarar ríkisstjórnar sem nú er við völd.

Samfylkingarfólk á ekki að draga fyrir dóm og dæma fyrir lögbrot eða ámælisverða vanrækslu, það er engum hagur í því. Fyrrum ráðherrar í fangelsi auka ekki hagvöxt né gera nokkuð fyrir samfélagið, ef eitthvað er þá tapast nokkrar krónur því það þarf að gefa þeim að borða og greiða fyrir þá húsnæði á meðan.

Nú þarf að nýta okkar færustu sérfræðinga til að finna raunhæfa lausn á skuldavanda heimila og fyrirtækja, það þarf að finna nýjar lausnir í gjaldeyrismálum þjóðarinnar.

Það þarf að efla útflutningsgreinarnar og finna fleiri, það þarf að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Það að hækka skatta í kreppu er eitt það versta sem nokkur ríkisstjórn getur gert.

Eina útflutningsgreinin sem þessi blessaða ríkisstjórn eflir er útflutningur á atvinnuleysi.

Hann felst í því að hrekja duglegt fólk til Noregs og annarra landa, af því leiðir náttúrulega minna atvinnuleysi en hefði getað orðið.

En varla skapar sá útflutningur hagvöxt, nema að Stefán B. Ólafsson eða Indriði H. Þorláksson hafi talið ríkisstjórninni trú um það.

Það hljómar ótrúlega en við hverju er hægt að búast af mönnum sem telja sjálfum sé trú um að skattahækkanir þurfi ekki að minnka vinnugleði fólks og að þau fyrirtæki sem greiða hæstu skattanna séu vita gagnslaus fyrir hagkerfið.


Lausn á peningamálunum?

Robert nokkur Mundell sem er prófessor í hagfræði við Columbia háskólann benti á hugsanlega lausn á peningamálum okkar.

 Hann benti á tvo möguleika, annað hvort að tengja krónuna við dollar eða evru.

Á honum var að skilja að heppilegra væri fyrir okkur að bindast dollar því eins og hann sagði orðrétt;"ef þið sameinist evrusvæðinu þá væruð þið að binda ykkur dýpra stjórnmálalega séð".

Ég tel það góðan kost að skoða gaumgæfilega tengingu við dollar frekar en evru.

Ástæðan er fyrst og fremst sú, að við höfum betri reynslu af samstarfi við Bandaríkin, þau hafa stutt okkur vel í gegn um tíðina, nefna má Marshall aðstoðina sem dæmi, en þar fengum við meira fé en okkur raunverulega bar. Einnig höfum við átt ágætt samstarf við BNA í gegn um NATO osfrv.

Ekki hefur þess orðið vart að Bandaríkjamenn hafi mikið verið að íhlutast í hvernig við höguðum okkar lagasetningum eða rekstri samfélagsins að öðru leiti.

ESB hefur aftur á móti þá leiðindaáráttu að vilja stöðugt vera að skipta sér af, þeir eru óþarflega stjórnsamir. Ennfremur er það mitt mat og margra annarra að við eigum meira sameiginlegt með Bandaríkjunum en Evrópulöndum, við stöndum þeim nær karakterlega séð.

Mandell sem einnig er Nópelsverðlaunahafií hagfræði og sérfræðingur í peningamálahagfræði segir það hættulegt fyrir okkur að búa við fljótandi gengi, auðvelt er fyrir ríkustu menn og ríki heimsins að hafa geigvænleg áhrif á svona lítið hagkerfi ef gengið er fljótandi.

Ég tel það hyggilegra fyrir stjórnvöld að geyma allt óþarfa föndur um stund og einbeita sér að efnahagsmálunum. Ef hægt væri að lagfæra gengismálin þá yrði það mikil búbót fyrir samfélagið í heild sinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband