Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 27. september 2010
Á nú að fara að banna heimskuna líka?
Heimskan er afar hvimleiður en hundtryggur fylgifiskur mannsins og svo hefur verið frá örófi alda. Heimskan fer ekki í manngreiningarálit, hún leggst jafnt á háa sem lága. Margir af greindustu mönnum sögunnar hafa orðið að lúta í lægra haldi fyrir henni mislengi á sinni æfi.
Meðan fjármagn flæddi hér í stríðum straumum átti heimskan góða daga hér á landi. Fáir voru ósnortnir af þessum vágesti. Menn áttuðu sig ekki á því, að það þarf framleiðslu til að skapa fjármagn, lánsfé dugir ekki til langframa.
Ríkisstjórnin sem ríkti á árunum fyrir hrun var svo illa haldin af heimskunni, að hún snarjók ríkisútgjöld og gleymdi öllum þeim góðu gildum sem sjálfstæðisstefnan boðar. Samfylking og Framsókn tóku heimskunni einnig fagnandi og töldu hana óskaplega skynsamlega og góða. Heimskan getur nefnilega virst ansi gáfuð, þess vegna blekkir hún svona marga.
Einnig má færa rök fyrir því að margir stjórnmálamenn veiti heimskunni hjá sér öruggt skjól, fyrstu heimskupör stjórnmálasögunnar voru nefnilega ekki framin hér á Íslandi á liðnum árum þótt margir virðast telja svo vera.
Ég hef þá trú að allflestir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa séu grandvarir og heiðarlegir einstaklingar. Þess vegna finnst mér æði vafasamt að lögsækja þá fyrir heimsku. Birtingamynd heimskunnar er vissulega fólgin í vanrækslu ýmiskonar og fyrst og fremst að sjá ekki veruleikann eins og hann er.
En ef það á að varða við lög, þá er hætt við að þörf sé á fleiri fangelsum.
Heimskan hættir nefnilega ekki að blekkja stjórnmálamenn þótt reynt sé að banna það með lögum. Hún finnur sér alltaf nýjar leiðir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 27. september 2010
Bónus er enginn góðgerðarstofnun.
Af einhverjum ástæðum dásama margir þá Bónusfeðga fyrir einstaka manngæsku og vilja til að rétta kjör almennings.
En þar er á ferðinni þessi undarlega grunhyggni sem virðist ráða sjónarmiðum allt of margra.
Jóhannes og Jón Ásgeir hafa frá upphafi rekið sitt fyrirtæki með það fyrir augum að græða sem mest.
Það er ekkert óeðlilegt að menn hugsi á þann veg, fyrirtæki á að reka með hagnaði. En framganga þessara ágætu manna í útrásinni var meira lituð af óhóflegri græðgi sem hægri sinnaða frjálshyggjumanninum mér þykir óskaplega slæm, enda er græðgi ekki boðuð af neinni stjórnmálastefnu svo vitað sé.
Einnig er vert að skoða hvernig þeir feðgar beittu sér við þá sem seldu þeim vörur. Birgjarnir voru þvingaðir til að lækka sitt verð umtalsvert, annars myndi Bónus ekkert kaupa af þeim.
Komið hefur fram að Bónus hefur verið með sömu álagningu og aðrar verslanir, reynda hafa þeir stundum gefið afslátt af ýmsum vörum, svonefnt "tilboð", en það gera flestar verslanir líka.
Ekki sé ég ástæðu til að þakka þeim fyrir eitt eða neitt, þeir stofnuðu fyrirtæki til að græða á því og það tókst. Það var ekki endilega í mína þágu eða neytenda, hvers vegna er vöruverð svona mikið hærra hér á landi en í öðrum löndum?
Hvers vegna eru allir matvörukaupmenn sem kveðið hefur að í gegn um tíðina skráðir í bókina "Íslenskir milljarðamæringar"?
Ekki finnst mér neitt athugavert við það að menn vilji græða, en að þeir séu að gera það gagngert til að hjálpa almenningi, mér finnst það ansi langsótt.
Bónus var sniðug viðskiptahugmynd á sínum tíma, en að halda því fram að þeir hafi meiri manngæsku og kærleik til að bera en aðrir kaupmenn, það finnst mér óttalegt bull.
Það að gefa rausnarlega til góðgerðarmála er algengt auglýsingabragð hjá ríka fólkinu og virkar vel á fjöldann.
![]() |
Hagar greiða 270 milljóna sekt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 27. september 2010
Athyglisverð klókindi.
Þótt margt verði miður sagt um getu ríkisstjórnarinnar á hinum ýmsu sviðum, þá er það að einu leiti sem vinstri menn bera höfuð og herðar yfir aðra. Þeim tekst að beina umræðunni í þær áttir sem þau vilja. Það hentar þeim ekki vel um þessar mundir, að fólk sé að spekúlera í praktískum málum eins og þeim sem snúast um rekstur samfélagsins.
Þjóðin féll kyllisflöt fyrir herkænsku þeirra og er núna upptekinn af því, hvort eigi að dæma fyrrum ráðherra eða ekki.
Þótt við settum alla ráðherra fyrri ríkisstjórnar í fangelsi og jafnvel nokkra þingmenn með, þá leysir það engan vanda. Við þurfum að einbeita okkur að því sem máli skiptir, við aukum ekki landsframleiðsluna með því að fangelsa fólk eða refsa á annan hátt.
Það þarf bæði að skera niður og fá fjármagn inn í landið.
Menntakerfið hefur verið okkur dýrara en það er víða annarsstaðar. Samt náum við ekki eins góðum árangri í að mennta grunnskólabörn svo dæmi sé tekið. Ef einhver dugur er í þessari ríkisstjórn þá ætti hún að skoða þessi mál frá grunni og leitast við að spara allan óþarfa kostnað.
Sendiráð út um allan heim kosta mikinn pening, einnig er dýrt að hafa allt þetta starfsfólk á launum sem skapar engin verðmæti. Þarna þarf að eiga sér stað mikill niðurskurður.
Einnig á að slá öll verkefni út af borðinu sem hafa kostnað í för með sér og skila litlu sem engu til baka. Þessi umræða er miklu þarfari heldur en það, að fá útrás fyrir refsigleði og reiði.
Vitað er að álframleiðendur hafa sýnt landinu áhuga. Tryggvi Þór Herbertsson hefur komist að þeirri niðurstöðu eftir að hafa rætt við sérfræðinga að næg orka virðist vera til álframleiðslu til handa.
Það liggur ljóst fyrir að mörgum líkar illa við álver. En á erfiðum tímum þarf oft að gera fleira en gott þykir. Staðreyndir tala sínu máli og álver henta okkur mjög vel því þau greiða háá skatta til samfélagsins. Ennfremur skapa þau fjölda starfa bæði beinna sem og afleiddra.
Ef stjórnvöld vilja ekki álver þá verða þau að benda okkur á aðra kosti sem skila sambærilegum tekjum til þjóðarbúsins. Það þýðir ekki að haga sér alltaf eins og menn séu í stjórnarandstöðu og vera á móti öllu og notast við "af því bara" röksemdina sem þekkt er meðal vinstri manna og skólabarna á leikskólum og yngsta stigi grunnskóla.
Þegar umræður voru um álverið fyrir austan benti einn af forsvarsmönnum austfirðinga á það, að einhver náttúrusamtök hefðu verið í samstarfi við vestfirðinga með það takmark, að skapa atvinnu án stóriðju. Þeim varð ekkert ágengt.
Hætt er við að atvinnugrein sú sem sumir vinstri menn kalla "eitthvað annað" skili litlum tekjum til okkar, hún virðist allavega vera gagnslaus. Í mörg ár eða áratugi hafa vinstri menn boðað þessa ósýnilegu atvinnustefnu án árangurs.
Hafi fyrrum ráðamenn brotið lög þá eiga þeir að svara fyrir það fyrir þar til bærum dómstólum. Hinn harði og arfavitlausi dómstóll götunnar ætti að fara að þagna, reynslan hefur sýnt að hann gerir ekkert annað en ógagn og skapar sundrungu og reiði.
En það hentar ríkisstjórninni ágætlega að fólk beiti fremur reiði en skynsemi um þessar mundir, því þá hugsa menn ekki um það sem raunverulega skiptir máli..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 26. september 2010
Undarleg sjónarmið félagsfræðiprófessorsins.
Maður er nefndur Stefán B. Ólafsson og starfar hann sem prófessor í félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Oft hefur það verið sagt um prófessora að þeir séu gjarnan fastir í sínum eigin hugarheimi og nái illa sambandi við heim þann sem við hin lifum og hrærumst í. Þannig held ég að sé ástatt fyrir Stefáni því hann virkar hvorki illviljaður né tiltakanlega vitlaus.
Fyrir nokkrum árum lagði hann á sig mikla vinnu við að sannfæra sjálfan sig og aðra um að það væri óeðlilega mikil fátækt hér á landi. Vitanlega hættir mörgum til að trúa því sem svona lærðir menn segja, þannig að sumir voru ansi daprir yfir þessari sérstæðu skoðun Stefáns.
Fátækt er vissulega mikið böl og því miður þekkist hún í öllum samfélögum heimsins. En raunveruleikinn var víst sá samkvæmt tölum ESB að fátækt væri minna vandamál hér en í öðrum ríkjum heimsins. Það er vissulega góður árangur hjá svona lítilli og ungri þjóð.
Svo vildi hann meina að tekjumunur væri meiri en víða annarstaðar og notaðist við svonefndan Gini stuðul. Hann var svo ákafur í að sanna sitt sjónarmið að hann gleymdi sér aðeins blessaður kallinn. Hann tók nefnilega inn í sínar tölur hagnað af sölu hlutabréfa, en það mun ekki gert annarstaðar. Vitanlega hefur þetta áhrif á hina raunverulegu mynd, en hvers vegna að láta þennan leiðinda raunveruleika þvælast fyrir sér þegar möguleiki er á að sýna illmennsku sjálfstæðismanna?
Það nýjasta hjá þessum sérstæða manni er að segja það ekki hafa áhrif á vinnuframlag manna að hækka skatta. Vitanlega kemur það heim og saman við hans kenningar, því hann hélt því fram að skattar hafi hækkað hér á landi frá 1991-2008 og megnið af þeim tíma hafa íslendingar verið með afbrigðum vinnusamir.
En ef sleppt er að miða við þessar undarlegu kenningar varðandi skattahækkanir fyrri ríkisstjórna, sem ríma alls ekki við raunveruleikann, þá sést það glöggt að háir skattar minnka áhuga fólks á að afla mikilla tekna. Hver vill vera að leggja á sig ómælt erfiði í vinnu og borga svo stærstan hluta teknanna í ríkissjóð?
Svari nú hver fyrir sig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 26. september 2010
Norræn velferðarstjórn á Íslandi?
"Hin tæra vinstri stjórn" gaf það loforð fyrir kosningar að hér yrði mynduð Norræn velferðarstjórn.
Að ætla að byggja upp sambærilegt samfélag og tíðkast t.am. í Svíþjóð er ekkert annað en argasta sjálfsblekking.
Fyrir mörgum árum stofnuðu nokkrir grínsamir einstaklingar flokk sem nefndur var "Sólskinsflokkurinn", þau lofuðu sól allt árið. Allir vissu að það gengi ekki upp, en margir höfðu gaman af gríninu.
En vinstri flokkarnir eru ekki að grínast, þau halda í fúlustu alvöru að við getum gert það sama og Svíar og einnig trúa þau að íslendingar geti með tíð og tíma notið þess eins mikið og hin ágæta sænska þjóð að borga háa skatta.
En þau gleyma þeirri mikilvægu staðreynd að ástæða þess að frændur okkar í Svíaveldi borga sína skatta með bros á vör er fyrst og fremst sú, að fólk fær mikið til baka frá hinu opinbera. Hérna á Íslandi hafa stjórnmálamenn illa kunnað að fara með fé eins og dæmin sýna.
Einnig erum við það ungt lýðveldi að við höfum ekki efni á svona lúxus velferð eins og þeir í Svíþjóð. Reyndar er það svo að lítil endurnýjun fjármagns er í Svíþjóð, opinberi geirinn hefur vaxið meira en einkageiri og útflutningur. Það gengur ekki upp til lengdar.
Ástæða þess að nágrannaþjóðir okkar gátu leyft sér að hafa jafnaðarstefnu er náttúrulega sú að þær byggja á sterkari og eldri grunni en við. Hér á landi .þýðir ekkert að leyfa sér að hafa einhverja draumórastefnu, við þurfum að skapa verðmæti og vinna mikið til að geta hjálpað þeim sem minna mega sín.
Það fer að verða svolítið erfitt að hafa eintóma draumóramenn og sveimhuga við stjórnvölinn í landinu. Núna er fjármálaráðherra önnum kafin við að reyna að hækka skatta meira, hann heldur að svoleiðis föndur bjargi okkur út úr vandanum. Því miður er hin sára staðreynd sú að hann meinar ósköp vel kallanginn. Hann trúir þessu nefnilega sjálfur.
Það eina sem þessi ríkisstjórn hefur gert til að færast í áttina að Norrænu velferðarkerfi er að snarhækka skatta og auka flækju stigið. Það heitir reyndar ekki velferð heldur þvingandi ofbeldisaðgerðir.
Norræn alvöru velferðarstjórn í sinni tærustu mynd myndi einfaldlega setja þjóðina endanlega á hausinn. En vinstri menn hafa oftast verið fremur lítt hrifnir af hinum raunverulega heimi, enda getur verið þægilegra að lifa í draumheimum.
Þrátt fyrir þægindi draumheima, þá getur verið hættulegt að stjórna þaðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 21. september 2010
Virkar vinstri stefnan?
Ávallt hef ég opin huga fyrir nýjum sjónarmiðum, því ég lít svo á að alltaf sé hægt að breyta um skoðun ef það finnst önnur betri. Það er ekkert nema þröngsýni og heimska að móta sér skoðun fyrir lífstíð og neita að láta af henni þótt hún reynist röng.
Snemma komst ég að raun um það, að stefna Sjálfstæðisflokksins væri sú besta fyrir þjóðina sem fram hefur komið. Sú skoðun hefur styrkst á síðustu árum til muna. En því er ekki að neita að á sumum tímabilum hefur mönnum verið mislagðar hendur við að framfylgja henni. Það skýrist af því að ómögulegt er að finna fullkominn einstakling til starfa við landsstjórnina, þetta eru víst allt menn og konur af holdi og blóði.
Í kjölfar hrunsins héldu margir að það væri gott að fá vinstri stjórn, sumir lifa enn í þessari blekkingu af einhverjum ástæðum. Vinstri stefna hefur aldrei virkað svo ég viti til að byggja upp samfélag. Það er vegna þess að hún er fyrst og fremst eyðslustefna sem gleymir því að það þarf að vinna fyrir peningum til að skapa verðmæti.
Sumir halda því fram að Svíþjóð og Danmörk séu dæmi sem afsanni ofangreindar fullyrðingar en svo er ekki.
Ástæða þess að vinstri stefnan gat gengið í þessum löndum er vitanlega sú, að kapítalismi og frjáls markaður ásamt gömlum sjóðum varð til þess að hægt var að búa við vinstri stefnu. Opinberi geirinn hefur vaxið mun meira heldur en einkageirinn í þessum löndum og það skapar af eðlilegum ástæðum ekki nýtt fjármagn. Enda hefur velferðakerfi þessara þjóða sem vinstri stjórnin okkar þráir svo heitt verið að sliga þær oft á tíðum og þörf hefur verið að draga úr því.
Enginn viti borinn maður hefur haldið því fram að heimurinn sé réttlátur eða að allir séu í raun jafnir. Samt vilja vinstri menn reyna að jafna fólk með því að taka meira af þeim sem hærri tekjur hafa. Það gengur ekki til lengdar vegna þess að hver maður vill njóta ávaxta erfiðis síns. Það er ákveðið réttlæti í því fólgið og ekkert annað en óréttlát frelsissvipting að leyfa fólki ekki að græða með lögmætum hætti.
Þær þjóðir sem hafa byggt sitt á vinstri stefnu þykja okkur ekki góðar fyrirmyndir. Þar ríkir stöðugur ófriður og oftast sár fátækt auk þess sem sjálfsögð mannréttindi eru oft fótum troðin. Þar er ég að vísa í ríki S-Ameríku en þar ríkir víða sósíalisminn sem margir vinstri menn virðast þrá. Það er sennilega vegna þess að þeir hafa búið við velsæld hér á landi sem þakka má farsælli stjórn Sjálfstæðisflokksins frá lýðveldisstofnun.
Þó skal ekki gleyma því að sjálfstæðismenn sofnuðu á verðinum og ofþöndu ríkisbáknið á árunum fyrir hrun, en það var ekki sjálfstæðismennska heldur einhvers konar vinstri villa. Sjálfstæðisstefnan boðar ekki mikinn ríkisrekstur eins og flestir vita.
Vinstri menn eru staurblindir á mannlegt eðli þegar þeir segja að sjálfstæðismenn vilji ekki hugsa um þá sem minna mega sín. Það er alvarleg ásökun í ljósi þess, að allir vilja hjálpa sínum minnstu bræðrum og systrum sem ekki eru haldnir mannvonsku eða siðblindu á háu stigi. Ekki er hægt að segja að vinstri menn hafi hugsað betur um lítilmagnann, enda er hin sára staðreynd sú að það er erfitt að halda uppi góðu velferðarkerfi. Einnig hefur öryrkjum fjölgað mjög á undanförnum árum.
Vinstri menn hafa skorið niður á heilbrigðis og velferðarsviði á sama tíma og tekið var lán upp á tugi milljóna til að setja á fót einhverja fjölmiðlastofu sem enginn knýjandi þörf er á um þessar mundir. Á sama tíma er verið að henda fé í hin og þessi gæluverkefni og ráða góðvini og flokksfélaga í tímabundin störf utan hefðbundins ráðningaferlis.
Af hverju heyrist ekkert um niðurskurð í utanríkismálum? Það má selja helling af sendiráðum og leggja niður tugi starfa sem myndi spara stórfé er hægt væri að nota á skynsamlegan hátt.
En vinstri menn munu seint geta rekið þjóðfélag af nokkru viti. Það er auðvelt að eyða fullt af peningum til að gleðja kjósendur, en öllu erfiðara að búa til frjóan jarðveg fyrir erlent fjármagn og skapa hér verðmæti.
Ef litið er yfir sögu vinstri manna hér á landi, þá sést það glöggt að þeir voru ansi duglegir við að sækja fé í vasa atvinnurekenda og knýja fram launahækkanir, stundum án þess að framleiðslan stæði undir þeim.
En aldrei hafa þeir komið með hugmyndir né hrint af stað neinni verðmætasköpun. Öflun verðmæta er þrátt fyrir allt besta velferðaraðstoð sem hægt er að veita. Þess vegna urðu allar þessar framfarir þegar frjáls markaður fór að virka í heiminum. En það er mikið verk óunnið við að slípa hann til, samt borgar sig engan veginn að leggja hann af.
Hvers vegna rekur ríkið byggingavöruverslun í samkeppni við aðra á sama markaði? Hægt er að koma með fjölmörg dæmi sem styðja það eitt, að vinstri stefna hefur aldrei virkað við uppbyggingu samfélagsins. Það er ekki hennar eðli að skapa verðmæti.
En hún getur virkað tímabundið þegar hægri stefna og frjáls markaður hefur byggt grunninn. En spurningin er, til hvers þurfum við hana?
Hægri menn eru engu minni mannvinir en þeir sem halla sér til vinstri eins og dæmin sanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 7. september 2010
Á hinn almenni launamaður aldrei að fá séns?
Fluttar hafa verið fréttir af fyrrum auðmönnum Íslands og fyrirgreiðslum sem þeir hlotið hafa í bankakerfinu. Nú á víst að gefa Gaumi séns og leyfa þeim að fá frið í einhvern tíma. Þrátt fyrir að þeir sem að þessu fyrirtæki stóðu hafi átt stóran hlut í því hruni sem hér varð. Útrásarvíkingarnir aka um á Range Roverum og búa í flottum húsum lifandi eins og greifar, þeir þurfa engar áhyggjur að hafa af sinni afkomu.
En hinn almenni launamaður sem hefur sér það eitt til saka unnið að vilja eignast þak yfir höfuðið? Hann skal borga hvort sem hann hefur efni á því eða ekki, allar sínar skuldbindingar. Hann getur mögulega fengið einhvern gálgafrest með ströngum skilyrðum.
Og þeir sem létu bankanna ljúga inn á sig ólöglegum lánum? Bankarnir bera enga ábyrgð heldur eru það þeir sem létu plata sig. Það sorglega er, að einhverjir hafa framið sjálfsvíg út af þessum hryllingslánum og varla þarf að fjölyrða um líðan þeirra aðstandenda, hún er hörmuleg.
Ríkisstjórnin álpaðist til þess að kaupa ólögleg lán og þar af leiðandi verðlaus af hinum föllnu bönkum, er þar átt við gengistryggðu lánin. Bera bankarnir einhverja ábyrgð þar? Ber ríkisstjórnin einhverja ábyrgð? Nei það er víst sá hluti almennings sem álpaðist til að treysta bönkunum.
Vitað er að ýmis lánasöfn voru afskrifuð hjá hinum föllnu bönkum, en það mátti náttúrulega ekki afskrifa neitt hjá hinum almenna launamanni. Jafnvel þótt á það hafi verið bent af málsmetandi mönnum að það gæti verið skynsamlegt og jafnvel komið hagkerfinu til góða, því það myndi örva einkaneyslu. En "hinni tæru vinstri stjórn" virðist vera illa við að almenningur græði eitthvað, allur gróðinn á að koma í hlut útrásarvíkinga sem eru þeim vinveittir. Almenningur hefur víst ekki greitt mikið í kosningasjóði Samfylkingarinnar og þarf nú að gjalda þess.
Vinstri stjórnin hin tæra gleðst yfir því að hafa fengið lán frá útlendingum til að geta fegrað stöðu sína tímabundið . Þau hafa líka ágætar tekjur og mörg hver trygg eftirlaun þannig að þau geta sofið róleg yfir skuldum.
Hinn almenni launamaður á bara að borga sínar skuldir og þræla myrkranna á milli til þess.
Og ekki þætti þeim það verra ef fólk fengist til að trúa bullinu í sér.
En hinn almenni launamaður, hann á ekki að fá neinn séns, hann á að borga allt til baka með tilheyrandi verðbótum og vöxtum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 7. september 2010
Að lifa á lánsfé.
Það þykir ekki hyggin maður sem byggir sína afkomu á lánsfé, skynsamlegra þykir að vinna fyrir því sem fólk eignast. Þetta liggur ljóst fyrir ekki satt?
Og sama lögmálið gildir að sjálfsögðu í ríkisrekstri.
Ekki er þar með sagt að lántökur séu í öllum tilfellum ónauðsynlegar, vitanlega skapast þær aðstæður sem ýmislegt verður óframkvæmanlegt nema að taka lán. En það þarf að skapa tekjur til að greiða lánin til baka. Og til að skapa tekjur geta menn þurft að gera fleira en gott þykir.
Erlendir fjárfestar standa víst ekki í biðröð til að fá að fjárfesta hér á landi, en álframleiðendur virðast fúsir til að vera hér með starfsemi. Og hver er reynsla okkar af slíkri framleiðslu?
Í Straumsvík hefur verið stunduð álbræðsla í rúma fjóra áratugi. Þegar hafin var þar starfsemi kom fljótlega í ljós, að þar var gert betur við verkafólk en þekkst hafði áður hér á landi. Borguð voru hærri laun auk ýmissa hlunninda. Það segir sína sögu að margir hafa starfað þar áratugum saman og komast þar færri að en vilja. Álver skapa störf fyrir háskólamenntað fólk, verkafólk, iðnaðarmenn auk fjölda verktaka sem byggja afkomu sína á þeim. Einnig eru þau í hópi stærstu skattgreiðenda landsins.
Nú liggur það ljóst fyrir að álframleiðendur erlendir eru tilbúnir til að reisa fleiri verksmiðjur hér á landi, en það má víst ekki vegna þess að mörgum er af einhverjum ástæðum illa við álver. Ríkisstjórninni finnst betra að væla út lánsfé heldur en að taka þá vinnu sem landanum býðst.
Reyndar segjast þau vilja eitthvað annað í staðinn sem á að vera betra. En hvað á það að vera?
Gott og vel, álver sem slík skipta ekki höfuðmáli, heldur skiptir það máli að afla atvinnu og tekna. Ef ríkisstjórnin getur ekki komið með betri lausnir þá neyðist hún til að taka tilboðum álfyrirtækjanna. Það er lítið annað í boði.
Árið 2007 er nefnilega liðið og það kemur aldrei aftur. En ríkisstjórnin hefur fest sig í því vafasama ártali, hún grobbar sig af því að hafa getað vælt lán út úr útlendingum og heldur að það reddi öllu.
Nákvæmlega eins og útrásarvíkingarnir gerðu, þeir tóku mikið af lánum og spiluðu sig stóra um stund.
Öll lán þarf að borga til baka og hvað gerist þegar enginn vill lengur lána okkur?
Þá þýðir lítið að halda fast í okkar sjálfstæði og auðlyndir því miður, því einhvers staðar þarf að fá tekjur til að lifa af.
Eflaust er best að þessi ríkisstjórn víki og við taki stjórn sem vill atvinnuskapandi framleiðslu ásamt framþróun þessari þjóð til handa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 7. september 2010
Eiga lífeyrissjóðir að vera í áhætturekstri?
Lífeyrissjóðir landsmanna hafa á undanförnum árum tekið þátt í afar vafasömum viðskiptum og tapað þar nokkru fé. Hver ætti að vera tilgangur lífeyrissjóða?
Því er auðsvarað, lífeyrissjóðir eiga að vera í öruggri ávöxtun og þeirra hlutverk er að tryggja öldruðum eigendum sínum lífeyri í ellinni auk þess að vera nokkurs konar samtrygging félagsmanna ef slys ber að höndum.
En að lífeyrissjóðir séu að taka þátt í rekstri fyrirtækja, það ætti ekki að vera þeirra hlutverk. Á síðustu misserum hafa nokkrir stjórnendur lífeyrissjóða ekki staðið undir væntingum. Þeir hafa verið verðlaunaðir með milljónum í starfslokagreiðslur. Þetta er óásættanlegt með öllu.
Lífeyrissjóðir eiga að búa yfir lágmarks mannskap sem á að borga eðlileg laun fyrir sína vinnu Ekki getur ábyrgð stjórnenda réttlætt há laun, því hún er lítil sem engin.
Það kallast varla að taka ábyrgð ef menn geta klúðrað sinni vinnu og fengið háár starfslokagreiðslur í staðinn, það kallast að axla ábyrgð annað hvort að, laga sín verk eða hætta án þess að fá nokkrar greiðslur í staðinn.
Fullvissa manna fyrir því að hafa há laun og örugga starfslokasamninga virkar sljóvgandi, menn vita að ekkert slæmt getur gerst. Það er óhætt að taka stórar áhættur því viðkomandi hefur engu að tapa. Við sjóðsfélagarnir fáum bara lægri greiðslur, en þeir hafa það alltaf jafngott.
Opinbert fé og peningar lífeyrissjóða eiga alls ekki að vera í áhætturekstri, mönnum hættir til að vera glannalegri með fé sem þeir eiga ekki sjálfir.
Ef möguleiki er á að fyrirtæki geti lifað þrátt fyrir tímabundinn lausafjárvanda, þá er það vænlegri kostur að bjóða starfsmönnum að reka það og viðskiptabanki viðkomandi fyrirtækis ætti að sýna biðlund.
Ef reksturinn er vonlaus þá á að keyra það í þrot.
En ekki að hætta lífeyri landsmann í svona glannaskap.
![]() |
Kaup Framtakssjóðs á Vestia gagnrýnd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 7. september 2010
Hryllileg hagstjórn "hinnar tæru vinstri stjórnar".
Mörgum er það tamt að beita líkingum úr sjómannamáli og er það góður siður í ljósi þess, að þjóðin hefur byggst upp að stórum hluta vegna auðlynda hafsins.
Oft er talað um "að halda sjó", en þá er skipum snúið beint upp í vindinn og þar er beðið eftir því að veðrinu sloti. Ef keyrt er áfram í snarvitlausum veðrum þá getur skipið sokkið.
Sama lögmál gildir varðandi þjóðarskútuna okkar, það þarf að halda sjó og bíða eftir að veðrinu sloti. Það þýðir að ekki skal ráðist í ný ríkisútgjöld, skorið skal niður eins mikið og mögulegt er, en leitast við að verja velferðarkerfið til hins ýtrasta, því ekki viljum við að þrengingarnar bitni hart á okkar minnstu bræðrum og systrum. Einnig þarf að fara varlega í hækkanir á sköttum og öðrum gjöldum, því svoleiðis aðgerðir þrengja hag þjóðarinnar ásamt því að hækka afborganir lána.
En hvað gerir ríkisstjórnin í storminum?
Það er ráðist í stofnun fjölmiðlastofu og tekin fyrir þeirri aðgerð lán upp á tugi milljóna, flokksgæðingar eru ráðnir í hin og þessi störf sem auka ríkisútgjöld ásamt því að snarhækka skatta og bæta gráu ofan á svart með því að auka flækjustig skattkerfisins. Og hvað er gert í því að bæta ímynd þjóðarinnar?
Það er flogið til Brussel og send inn aðildarumsókn, án vilja meirihluta þings og þjóðar. Það getur ekki verið vel til þess fallið að bæta okkar ímynd, að reyna að sannfæra ESB um það að bráðum verði meirihlutavilji fyrir þessum málum.
Á tímum sem krefjast sparnaðar og aðhalds á ekki að ráðast í breytingar á stjórnskipun, breyta ráðherraskipan osfrv. Þótt þetta séu ekki stórar tölur í heildarsamhengi þjóðarbúsins, þá væri hægt að nýta þessa peninga í að annaðhvort verja velferðarkerfið eða spara þá. Molar eru líka brauð var einhvern tíma sagt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)