Færsluflokkur: Bloggar
Sunnudagur, 24. október 2010
Hvar er jafnréttið?
Dapurlegt var að lesa frétti um brottrekstur ungs manns úr starfi.
Sá einstaklingur sem um ræðir, var starfsmaður Netto í Mjódd, starf hans fólst í því að koma innkaupakerrum á sinn stað. Á föstudegi rak starfsmaðurinn óviljandi kerru í viðskiptavin verslunarinnar, sá lagði fram kvörtun sem varð til þess að sá sem um ræðir fékk tilkynningu um að hans starfskrafta væri ekki óskað, aðeins tíu mínútum áður en hann átti að mæta til starfa, mánudeginum eftir að hann rak kerruna óviljandi utan í viðskiptavininn.
Tekið var fram að umræddur starfsmaður væri þroskahamlaður.
Að sögn föður mannsins brotnaði hann gjörsamlega niður, því honum hafði líkað vel í vinnunni. Það er alltaf sárt þegar fatlaðir brotna niður, því þeir eru svo varnarlausir og hjálparvana. Bágt á ég með aðskilja hvað fyrir viðskiptavini Netto vakti þegar hann kvartaði yfir viðkomandi starfsmanni.
Öllum ætti að vera það ljóst að þroskahamlaðir einstaklingar hafa oft verri stjórn á aðstæðum en þeir sem þykjast heilbrigðir á þessu sviði. Ræki þroskahamlaður maður kerru utan í mig myndi mér ekki detta til hugar að gera mál úr því og hvað þá að kvarta við hans yfirmann. Þetta góða fólk, sem þarf að lifa við ákveðna fötlun, á heimtingu á því að við sem teljum okkur státa af heilbrigði höfum skilning á þeirra takmörkunum.
Þeir sem ekki eru þroskahamlaðir hafa a.m.k. viku uppsagnarfrest. Ef eitthvað alvarlegt kemur upp á þá er rætt við starfsmanninn og stundum við stéttarfélag viðkomandi. En það er hringt í þann sem um ræðir aðeins tíu mínútum áður en hann átti að mæta í vinnuna. Hætt er við að heilbrigðu fólki þætti þetta slæm framkoma, á þá ekki að sýna þroskahömluðum sömu virðingu og hinum?
Í mínum huga snýst þetta fyrst og fremst um grundvallarmannréttindi sem allir eiga að fá að njóta.
Og flestir tel ég, ef vel er að gáð, stríða við þroskahömlum af einhverjum toga.
Birtingamynd hennar er missterk eftir einstaklingum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 18. október 2010
Hver þarf áfallahjálp?
Fyrir mann eins og mig sem dvalið hefur í verbúðum og horft upp á menn í annarlegu ástandi ganga berserksgang oftar en einu sinni, er skrítið að heyra af opinberum starfsmönnum þiggja áfallahjálp sökum þess að bugaður maður sem þurft hefur að þola hrokafullt viðmót af þeirra hálfu missti stjórn á skapi sínu. Ég tel að maðurinn sem bugaður er af vonleysi og kvíða þurfi frekar á áfallahjálp að halda en opinberir starfsmenn í tryggri vinnu.
En svona er hugarfar fólks á þessum undarlegu tímum, þeim er hjálpin veitt sem síst hana þurfa.
Starfsmenn umboðsmanns skuldara eru greinilega ekki starfi sínu vaxnir, þeim skortir alla þá næmni sem þarf, þegar átt er við bugaða einstaklinga. Ef vit hefði verið í viðkomandi starfsmanni sem reytti manninn svona til reiði þá hefði hann ekki gert mál úr því, að maðurinn hefði nýlega fengið vinnu, en fyrst svo var þá átti að hirða af honum þær krónur sem bættust við heimilisreksturinn hjá honum.
Ef viðkomandi starfsmaður hefði þann þroska til að bera sem nauðsynlegur er í svona starfi, hefði hann að sjálfsögðu óskað manninum til hamingju með starfið og leitað leiða til að maðurinn fengi tækifæri til að njóta þess að hafa örlítið fjárhagslegt svigrúm um stund. En illskan virðist slík um þessar mundir, að menn eru blóðmjólkaðir til hinsta dropa.
Ef einhver eðlileg hugsun er til í þessu kerfi ætti að vera ljóst, að enginn hefði tapað þótt forsemdum hefði ekki verið breytt þrátt fyrir nýfengið starf hins bugaða manns. Það er þungt að vera án atvinnu mánuðum saman og vita ekki hvaða þrautir morgundagurinn býður upp á.
Þessi ríkisstjórn hefur slegið trausta skjaldborg utan um auðmenn þessa lands en reynt að ná öllu sem hægt er að ná frá almenningi þessa lands.
Þótt ekki sé æskilegt að missa svona stjórn á skapinu, þá er erfitt að dæma þennan mann fyrir það. Eftir að hafa þolað hrokafulla framkomu opinbers starfsmanns á svona augnabliki, þá getur verið erfitt hverjum manni að hafa taumhald á sínum tilfinningum.
Það þarf að kenna starfsmönnum Umboðsmanns skuldara að fylgja heilræðum Einars Ben sem hann setti fram í einræðum Starkaðar; "aðgát skal höfð í nærveru sálar".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Mánudagur, 18. október 2010
Rétt hjá Sigurði Líndal.
Hinn aldni lögspekingur Sigurður Líndal þekkir lögfræði betur en flestir. Hann kom með ágætan punkt varðandi stjórnlagaþingið, en þar deilum við Sigurður sömu áhyggjunum, það verða örugglega einhverjir þvargarar sem einoka umræðuna og væntanlega ef vinstri stjórn verður þá enn við völd, verður tekið mark á þessum þvörgurum.
Ísland þarf ekki að breyta stjórnsýslunni, það þarf að framkvæma hana betur. Flestir eru reyndar búnir að gleyma því sem Fréttablaðið hafði eftir umsagnarnefnd ESB, en hún kvað íslenska stjórnsýslunni vera í meginatriðum í ágætu standi, reyndar þurfti að lagfæra skipanir í dómarastöður.
Í stað þess að borga fólki fyrir að þræta um stjórnarskrána og framkvæma hinar og þessar stöðuveitingar sem ekki teljast aðkallandi, ætti að þjappa fólki saman og vinna að því sem máli skiptir, afla tekna fyrir landið. Það ætti að vera efst á forgangslista ríkisstjórnarinnar.
En þau eru róleg meðan hægt er að væla út lán frá AGS, þá telja þau okkur í skjóli, en það er skammgóður vermir.Þau virðast ekki skilja það, að lán eru dýr og það þarf að endurgreiða þau.
Öll viðleitni í þá átt að hjálpa heimilum landsins út úr skuldavandanum virkar ekki meðan fjármagn er ekki til staðar.
Hvað þarf að verða til þess að fá þessa ríkisstjórn til að hverfa úr draumheimum inn í veruleika okkar hina?
![]() |
Líst ekkert á stjórnlagaþing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. október 2010
Mikið er gott að vera ekki í ESB.
Eftir að hafa lesið um hagvöxtinn í Svíþjóð er varla hægt annað en að samgleðjast þeim. Til að bæta sinn hag hafa þeir einmitt kosið hægri sjórn sem lækkar skatta, en það mun vera ágæt aðferð til þess að auka vinnugleði manna og í kjölfarið koma hærri tekjur í ríkiskassann.
Íslendingar hafa í gegn um tíðina tekið upp eftir frændum sínum í Svíaveldi ýmislegt sem þeir hafa gefist upp á að nota. Nefna má hinar ýmsu aðferðir í kennslumálum og núna síðast jafnaðarstefnuna. Svíar hafa notast við jafnaðarstefnuna í marga áratugi og hún hefur oft verið að því komin að sliga samfálagið. Núna sjá þeir að hægri stefnan virkar betur og hætta með jafnaðarstefnuna.
Þá er eins og við manninn mælt, íslendingar þurfa þá endilega að taka upp jafnaðarstefnuna og allir hljóta að sjá hvaða afleiðingar það hefur haft fyrir okkur.
Núna sjá svíar það að ESB aðildin hefur í för með sér aukakostnað og örlítið mini hagvöxt en ella hefði orðið. Þá væri það alveg eftir íslendingum að fara í ESB þegar svíar eru farnir að sjá að aðildin virkar ekki eins vel og þeir töldu.
Það að sameina ólík ríki í eitt stórt bandalag er ekki farsælt til frambúðar. Ísland er ekki eina landið í heiminum sem fór illa út úr fjármálakreppunni, nokkur ESB ríki hafa farið flatt á henni. Sumir grikkir t.a.m. hafa þráð sinn gamla gjaldmiðil aftur og eru ekkert of hrifnir af sambandinu.
Þótt margir aðildarsinnar telji ESB vera góða lausn á mörgum vandamálum þá segja þeir nú nokkrir að við þurfum samt að vinna okkur sjálf út úr vandanum.
Það er rétt hjá þeim, við eigum einnig að stjórna okkur sjálf, því þrátt fyrir breyskleika íslenskra ráðamanna þá hef ég trú á að þeir hafi betri þekkingu á högum þjóðarinnar en höfðingjarnir í Brussel.
Það er líka þægilegri tilfinning að vera hluti af lítilli þjóð heldur en íbúi í smáþorpi Evrópusambandsins, en sambandið virðist vera að feta sig í þá átt að verða eitt ríki, þótt það þurfi endilega ekki að verða þannig.
Allavega eru þeir of reglugerðarglaðir fyrir minn smekk.
![]() |
Spá 4,8% hagvexti í Svíþjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 5. október 2010
Þjóðkirkja til hvers?
Vitanlega eru til rök bæði með og á móti hinni ágætu þjóðkirkju, en á tímum sem þessum þarf að líta til hagkvæmnisjónarmiða fyrst og fremst. Hver er tilgangur þjóðkirkjunnar?
Hann er vitanlega sá hinn sami og annarra safnaða í grunninn, að boða Guðsorðið og predika það. Einnig að veita sáluhjálp þeim til handa sem á þurfa að halda.
En það er til fullt af kristnum söfnuðum sem rækja þetta hlutverk með stakri prýði. Erfitt er að réttlæta allan þann fjáraustur sem fer í kirkjuna, þá peninga má nýta betur á öðrum sviðum án þess að ergja himnafeðgana að nokkru leiti, en meginmarkmið kristins safnaðar hlýtur að vera að þóknast þeim Guði og Jesú Kristi.
Ég hef ekki trú á öðru en að Drottinn bæði og Kristur verði sáttir við ríkisstjórnina þótt hún leggi þjóðkirkjuna af. Jesú var nú ekki par hrifinn af hégóma og óþarfa prjáli meðan hann lifði á jörðinni. Hann var nefnilega fullkominn sonur Guðs og vissi fullvel hvað veraldlegir hlutir skipta litlu máli í óendanleika alheimsins. Hvers vegna halda menn að hann hafi ákveðið af fæðast úr skauti fátækrar móður í jötu og deila kjörum með hinum almenna borgara? Hann hefði alveg eins getað fæðst hjá einhverjum auðmanni, jafnvel konungi og haft það mjög gott á okkar mælikvarða, sem nú ekki alltaf er réttur.
Ef sanngirni er gætt þá er hægt að segja að prestar hafi hjálpað mörgum og séu prýðismenn upp til hópa. Taka ber fram að þeir sem hafa óeðlilegar kenndir eru í miklum minnihluta og ekki er hægt að dæma heila stétt eftir sjúkum einstaklingum sem tilheyra henni. En þeir eru ekki nauðsynlegir, við eigum fullt af góðum sálfræðingum og félagsfræðingum, einnig starfa prýðis sálusorgarar hjá hinum ýmsu söfnuðum sem geta séð um allar kirkjulegar athafnir.
Fyrir utan hagsmuni starfsmanna hennar, þá er enginn hagur fyrir samfélagið í heild að halda þjóðkirkjunni uppi. Þess vegna þarf að leggja hana niður, því við verðum að lágmarka allan kostnað meðan við erum að komast út úr kreppunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 5. október 2010
Að hreykja sér af engu.
Forsætisráðherra hefur náð undraveðri leikni í því að hreykja sér af engu, það getur verið ágætis eyrnakonfekt fyrir suma en gagnast samfélaginu ekki á nokkurn hátt.
Ríkisstjórn sem stendur í vegi fyrir dugandi fólki ætti að skammast sín duglega.
Ragnheiður Elín Árnadóttir kom með sláandi frásögn af getuleysi ríkisstjórnarinnar.
Eins og þekkt er þá hafa stjórnarliðar beitt sér gegn hinum ýmsu tækifærum af óskiljanlegri hörku og notað fáránlegar röksemdir.
Álver fæst ekki byggt í Helguvík vegna þess að vinstri menn eru á móti álframleiðslu. Samt er það svo að í Straumsvík hafa verkamenn oftast mjög háan starfsaldur vegna góðra kjara sem þeir njóta ekki annars staðar. Einnig skapa álver góðar tekjur í formi skatta. Ekki veit ég hvað mælir gegn gagnaveri, kísilveri og sérhæfðu einkasjúkrahúsi, einhver fáránleg draumórarök býst ég við. Og ECA flugverkefnið, það er vegna þess að þeir eru í verkefnum tengdum stríðsrekstri.
Því miður er heimurinn ógurlega ófullkominn og meingallaður. Stríðsrekstur og vopnaframleiðsla hafa ákveðna vigt í hagkerfi heimsins. Ef menn vilja að sú vigt hverfi þá þarf eitthvað að koma í staðinn, einnig þarf þá að breyta heimsmyndinni eins og hún er. Það er fáum gefið eins og dæmin sanna.
Að sögn Ragnheiðar og enginn hefur enn mótmælt hennar rökum, þannig að ég trúi þeim, enda er þetta öndvegis kona, þá hefðu ofangreindar framkvæmdir nú þegar verið búnar að skapa 2710 störf, ef það hefði verið byrjað strax og árstekjur hins opinbera hefðu aukist um 16. ma. á næstu 2-3. árum.
Þetta sýnir fram á algert getuleysi í landsstjórn.
Jóhanna benti á að matsfyrirtæki væru farin að líta okkur jákvæðari augum, en það róar mig ekki mikið, vegna þess að þetta voru fyrirtækin sem veittu íslensku bönkunum hámarkseinkunn þegar þeir voru raunverulega að hruni komnir.
Staðreyndin er nefnilega sú að það eru ekki tölur á blaði og skoðanir útlendinga sem meta ástandið hvað best. Heldur er það framleiðslan sem sker úr um hvort við erum á réttri leið eða ekki.
Ef það eru ekki aukning á tekjustreymi nýrra peninga vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, þá er enginn raunhæfur bati á ferðinni.
Það þýðir ekki að hugsa alltaf eins og útrásarvíkingarnir, að halda að allt sé í lagi ef maður getur fengið nóg af lánum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. október 2010
Hressandi sósíalismi hjá Merði Árnasyni.
Mörður Árnason þingmaður sagði í pistli á eyjunni m.a.;"að auki legg ég til að bankarnir verði þjóðnýttir hið fyrsta", ég verð að viðurkenna að ég gladdist við að sjá þetta, þótt ekki sé ég samála þessu sjónarmiði Marðar. Enda hefur það margsýnt sig að það er ekki að ástæðulausu að flestöll vestræn ríki hafa einkavætt banka.
Það sem mér fannst skemmtilegt við þessa skoðun Marðar er að flestallir vinstri menn hafa ekki viljað viðurkenna sína raunverulegu stefnu, þeir eru svo hræddir við almenningsálitið.
Samt sem áður vinna þeir samkvæmt þessari stefnu sem Mörður boðaði, ríkisvæðingarstefnunni, í felum. Í þeirra tíð er ríkið orðinn einn umsvifamesti atvinnurekandi þjóðarinnar og ég er sannfærður um að það gleður margt sósíalistahjartað.
Mörður er einlægur í því sem hann segir þarna og það ber að virða hann fyrir það. Vinstri menn eru nefnilega hættir að þora að boða sína réttu stefnu þótt þeir vinni henni brautargengi og noti hrunið sem afsökun fyrir öllum ríkisrekstrinum.
Það er alltaf gott og hressandi að heyra í mönnum sem eru trúir sínum uppruna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. október 2010
Um fordóma.
Oft hefur mér verið hugsað til ýmissa er þeysa út á ritvöllinn vopnaðir sterkri réttlætiskennd og réttlátri reiði út í heiminn. Þetta eru oftar en ekki einstaklingar sem segjast berjast á móti fordómum hvaða nafni sem þeir nefnast.
Á mjög áleitin hátt læðist í huga mér gömul staðreynd sem segir "hæst gellur í tómri tunnu" þegar ég les margt sem þetta fólk hefur fram að færa.
Á sama tíma get ég vel fallist á að þetta sé prýðisfólk sem er að túlka sínar skoðanir, það gerir engan að verri manni þótt hann hafi ekki sömu lífssýn og ég.
Í þessum hópi er gróft og alvarlegt brot á mannréttindum að tala illa um samkynhneigða og litaða einstaklinga, ég get fallist á þau góðu speki Einars Ben. sem hann setti fram í "Einræðum Starkaðar"; "aðgát skal höfð í nærveru sálar", við eigum að leitast við að fara varlega í okkar dómum.
Í þessum sama hópi þykir góður siður að fullyrða að allur Sjálfstæðisflokkurinn sé gjörspilltur, óalandi og óferjandi, þeir sem styðja hann eru ýmist nytsamir sakleysingjar og strengjabrúður Valhallar sem hafa enga sjálfstæða hugsun eða menn í leit að bitlingum.
Þessar fullyrðingar eiga ekki við nein rök að styðjast.
Af einhverjum ástæðum finnst mér stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins ekki eins fordómafullir og dómharðir út í sína pólitísku andstæðinga. Sjaldan sést skrifað á bloggsíðu sjálfstæðismanns að kjósendur vinstri flokkanna séu viljalaus verkfæri í höndum forystunnar og séu jafnvel beinlínis ábyrgir fyrir vandræðagangi ríkisstjórnarinnar með því að kjósa þessa flokka.
Þetta ásamt mörgu öðru gerir það að verkum að ég styð Sjálfstæðisflokkinn og hef alltaf gert. Einnig má nefna annan góðan kost við hægri menn, ekki man ég til þess að hægri menn hér á landi hafi staðið fyrir mótmælum sem fela í sér ofbeldi og aðför að þinghúsinu.
Ekki ber að skilja þennan pistil sem einhvers konar viðkvæmni eða vörn af minni hálfu. Það skiptir mig akkúrat engu máli hvað ókunnugum bloggurum finnst um mig og mína persónu. Öllum er guðvelkomið að nýta sér sinn lýðræðisrétt að telja mig það vitlausasta fyrirbæri sem rölt hefur á þessari jörð frá upphafi mannkynsins.
Mér finnst oft æði fyndið að lesa margar lýsingar sem settar eru fram um mína pesónu, þannig að þvaragar, ekki vera að taka þennan pistil hátíðlega, þið missið allan sjarma ef þið farið að tileinka ykkur staðreyndir í málflutningi. Bullarar eru yfirleitt öðrum til mikillar skemmtunar.
Þetta eru engu að síður fordómar því þetta blessaða fólk þekkir mig ekki neitt.
Ég er aðeins að benda á það, að ef fólk þykist vera á móti fordómum, þá þarf að sýna það í verki og ekki ástunda fordóma sjálft.
Annars verður það líkt og maður sem stígur blindfullur á stokk og boðar áfengisbindindi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 4. október 2010
Er AGS illa við íslenskan almenning?
Heyrst hefur af afskriftum á 2. ma. skuld útgerðarfyrirtækis á Austfjörðum, einnig hefur blessuð ríkisstjórnin verið óskaplega dugleg við að styðja við bakið á auðkýfingum þjóðarinnar. Og af einskærri tillitssemi við styrktaraðila sína hefur samfylkingarfólkið ekkert verið að núa auðmönnum því um nasir, að þeir eigi nú einhvern þátt í bankahruninu og kreppunni sem kom í kjölfar hennar.
AGS hefur ekki svo ég viti verið að biðja ríkisstjórnina að hætta að afskrifa skuldir auðmanna.
En þegar kemur að heimilunum í landinu sem eiga vart til hnífs og skeiðar, AGS mönnum þykir það vel við hæfi að senda saklaust fólk út á guð og gaddinn.
Ríkisstjórnin, sem kennir sig við velferð og þykist fylgja einhvers konar stefnu sem á að ganga út á hag almennings í landinu, hún hefur sennilega slegið heimsmet í lygi.
Þótt margir stjórnmálamen hafi gerst sekir um að ljúga að þjóð sinni , þá held ég að þetta met verði seint slegið.
Kommúnistarnir máttu þó eiga eitt, þeir voru ekki að hygla auðvaldstéttinni í sinni byltingu, þótt ekki vilji ég leita fyrirmyndar hjá þeim.
En að þessu leiti voru þeir þó skárri en okkar vinstri stjórn, þeir sýndu þó allavega viðleitni í því að hugsa um lýðinn og sáu til þess að almenningur hafði þó allavega nóg að bíta og brenna.
![]() |
Engin fleiri úrræði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 3. október 2010
Að forgangsraða rétt.
Ég er mikill aðdáandi hinna ýmsu lista og nýt þess mjög að skoða fögur málverk, fara á tónleika og þá helst sinfóníutónleika ásamt því að gera mikið af því að lesa góðar bókmenntir.
Listin finnst mér auðga andann og líf án listar gæti ég varla hugsað mér.
Samt hefur það verið svo á þeim tímum sem ég hef haft minna fé handa á milli, þá hef ég ekki eytt krónu í list eða aðra afþreyingu. Ég get nefnilega lifað án þess tímabundið og einnig get ég gluggað í gamlar bækur og hlustað á geisladiska, það kostar ekki neitt.
Það sem skiptir mig mestu máli er að hafa nóg að borða handa mér og mínum sem og brýnustu nauðsynjar eins og húsnæðisafborganir, læknisþjónusta osfrv.
Heilsan er það mikilvægasta af öllu og eitt sinn eyddum við hjónin síðustu peningunum í lyf handa barninu okkar, við áttum ekki krónu í nokkra daga, þá var bara lifað á kartöflum og fiski.
Núna hefur ríkisstjórnin boðað niðurskurð í opinberum gjöldum.
Það heyrist mest af niðurskurði í heilbrigðiskerfinu, en ekkert er skorið niður í listum og menningu og ekki hefur heldur heyrst um niðurskurð í utanríkisþjónustunni, sem þó hefur bólgnað of mikið út á síðustu árum.
Fjölmiðlastofa sem er okkur ekki eins mikilvæg og heilsa landsmanna er ekki lögð niður, þrátt fyrir að hafa verið fjármögnuð með lánsfé, ekki er heldur verið að fækka í þeim störfum sem bætt hefur verið við í tíð þessarar ríkisstjórnar.
Sú ríkisstjórn sem getur haldið áfram óþarfa bruðli á ýmsum sviðum og á sama tíma skorið niður heilbrigðisþjónustu hefur ekki hjarta sem slær í takt við hinn almenna borgara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)