Færsluflokkur: Bloggar

Sungið Guði til dýrðar.

Ég ákvað það eftir að ég söng fyrst fyrir bloggheima að annað slagið skyldi ég lauma inn lagi. Bak við fyrsta lagið var enginn sérstök hugsun, mér finnst bara gaman að syngja það.

En nýjasta lagið "Amaising grace" hef ég ekki sungið nógu oft né önnur lög sem vegsama Drottinn. "Amaising grace" þýðir að ég tel "hin undursamlega náð". En það er hugsun á bak við þann söng og það er sungið af mikilli tilfinningu og einlægu þakklæti til guðs. Hann hefur lengi verið mér góður, þótt ég hafi ekki alltaf átt það skilið, en svona er Drottins náð, hún er ekki alltaf verðskulduð.

Ég þyki fremur sérstæður í augum margra og sjálfum finnst ég vera óttalegur sérvitringur stundum. Ég hugsa að guði finnist það líka. Oft held ég að hann veiti mér þessa miklu náð af því að hann hafi gaman af mér. Mér finnst ég stundum skynja það án þess að geta útskýrt það. Oft í bænum mínum tala ég við hann eins og hann væri maður, nöldra yfir hinu og þessu sem ergir mig osfrv. Þá á einhvern undarlegan hátt skynja ég einhverskonar þægilegan hlátur og ég verð mjög glaður.

Ég geri ráð fyrir að "Vantrúarmenn" glenni upp augun fyrst þeir sjá guð nefndan á nafn, þeir eru einstaklega áhugasamir um allt sem við kemur trúmálaumræðu á netinu. Við þá vil ég segja, að ef þeim finnst vera truflaður maður hér á ferð, þá skal þeim svarað á þann veg, að þessi "truflun" hefur veitt mér það mikla gleði að ég vil alls ekki losna við hana. Ég álít þetta vissulega ekki truflun.

Þetta lag er þakklætisvottur frá mér til hans, einnig sungið í þeirri von að trúaðir geti notið þess líka.

Af virðingu minni við Drottinn vil ég taka það fram, að þótt ég sé alla jafna áhugasamur um þvarg í netheimum og hafi gaman af skrítnum þvörgurum, þá mun öllum þeim ummælum sem túlka má sem gagnrýni á guðstrú eytt.

Ég geri það bara í þetta skipti, því þessi pistill sem er órjúfanlegur hluti af laginu er lofgjörð til guðs. Hana má ekki skemma með óguðlegum ummælum.

Hugsum svo til Drottins og lofum hann fyrir fegurð lífsins.

Smellið svo á spilarann og njótið vel.


Meira ESB þvarg.

 Þegar maður er í þvargstuði, þá liggur beinast við að þvarga um ESB, það er ósköp vinsælt um þessar mundir.

Ýmislegt bendir til þess að sambandsaðild hafi í för með sér nokkurs konar viðskiptahöft. Ef við höfum áhuga á viðskiptum við þjóðir utan sambandsins, þá gerum við samninga á okkar forsemdum. En ef við erum aðilar að því, þá erum við háð þeirra samþykki og samningar verða gerðir á þeirra forsemdum.

Sumum kann að þykja það smámunasemi eða sérviska að þykja betra að þjóð geti gert samninga á sínum forsemdum og með sína hagsmuni í huga, en það er engu að síður mín skoðun.

Það er annars merkilegt hvað aðildarsinnar hér á landi eru duglegir við að dásama sambandið. Einn úr þeirra hópi var m.a. að rökræða við mann á you to be vefnum. Útlendingurinn var íbúi í ESB ríki og honum fannst það nú ekki hafa gert þjóð sinni mikið gagn. Aðildarsinninn íslenski var á fullu við að sannfæra útlendinginn um ágæti ESB, en tókst samt ekki að sannfæra manninn.

Fyrir rúmlega einu og hálfu ári fórum sigldum til Bremerhaven með fisk. Þar sem ég er forvitinn að eðlisfari, þá spurði ég þá þýsku um þeirra álit á þessu ágæta sambandi. Enginn var neitt tiltakanlega hrifinn af því, þeim fannst hafa gengið margfalt betur að vinna fyrir fjölskyldu fyrir daga evrunnar. Þeir vildu meina að ESB væri ekki hagstætt fyrir hinn almenna launamann og komu með hið alþjóðlega sjónarmið alþýðumanna varðandi spillingu stjórnvalda. Þeir töldu ESB ekki ósnortið af henni.

Fulltrúar íslenskra bænda ræddu við kollega sína í Finnlandi. Þeir könnuðust ekki við að ESB hafi komið með góðar lausnir fyrir sinn landbúnað, jafnvel þótt íslenskir aðildarsinnar hafi haldið öðru fram. Kannski þekkja hinir íslensku ESB aðildarsinnar finnskan landbúnað betur en bændur þar í landi? 

Svo virðist ekki vera mikil ánægja í Bretlandi, en margir þar vilja segja sig úr sambandinu. Hvers vegna skyldi það vera? Eflaust hafa þeir ekki kynnt sér kosti sambandsins eins vel og aðdáendaklúbburinn íslenski.

Ég þyki fremur einfaldur og trúgjarn maður, en mér finnst hálf undarlegt að ESB skuli leggja svona mikið á sig við að kynna íslendingum kosti sína. Fjölmiðlamenn hliðhollir sambandinu fengu boðsferð út til að skoða hvað ESB hefði upp á að bjóða, sjálfur stækkunarstjórinn vill koma hingað til að sannfæra lýðinn. Til hvers? Hvað getur sambandið grætt á aðild okkar?

Það skyldu þó ekki vera auðlindirnar?


Það er erfitt að dæma mannanna verk.

Fyrirsögnin speglar ágætlega mína skoðun varðandi hæfileika manna til að dæma sjálfa sig og aðra.

Fyrir hartnær tvöþúsund árum lifði og starfaði maður í Mið-austurlöndum sem gefið var nafnið Jesú og hlaut heiðursnafnbótina Kristur þegar líða tók á hans annars stuttu æfi. Góðir menn hafa bent á þá staðreynd að hann hafi verið eingetinn sonur guðs og hef ég enga ástæðu til að draga það í efa, enda er ég kristinnar trúar og mjög einarður í þeirri afstöðu.

Sá góði maður var algerlega gallalaus, en hann fékk nú að líða fyrir það, enda vissum hluta mannkyns afar illa við gáfaða menn, þeir sem fara með völd tilheyra gjarna þessum parti mannlífsins. Hann var nefnilega krossfestur eftir að hafa þolað hinar ýmsu kvalir af völdum óvandaðra manna.

Þar sem Jesú var fullkominn í alla staði þá var hann mjög glöggur á mannlegt eðli. Í einni af sinni frægu ræðum, "fjallræðunni" benti hann okkur á þá staðreynd, að við eigum ekki að dæma hvert annað.

En einhverja leið þurfum við að hafa til að geta lifað saman í þokkalegri sátt. Fyrir daga frelsarans höfðu menn reyndar komið sér upp ágætis aðferð til að tryggja öryggi manna. Þeir bjuggu til það sem við þekkjum sem lög og reglur, til að gæta sín á rangtúlkunum tóku menn upp á að skrásetja lög. Síðan þróaðist réttarríki, dómsstólar osfrv. Að mínu viti þá eru dómsstólar hæfastir til þess að dæma, eftir að þar til bærir einstaklingar hafa eytt miklum tíma í að rannsaka málin.

Engum dettur til hugar að segja að dómsstólar komist alltaf að réttri niðurstöðu, þeir eru nefnilega samansettir af mönnum. Allir menn hafa þann djöful að draga að geta gert mistök, heimurinn er ekki fullkominn.

Mörgum kann að þykja það undarlegt að skrifa á þessum nótum, þetta ættu að vera svo augljósar staðreyndir. Já, þótt Jesú hafi varað okkur við á sínum tíma, þá er eins og sumir skilji þetta ekki enn jafnvel þótt langt sé um liðið. Enn þann dag í dag er verið að fella harða dóma yfir einstaklingum, bæði hér í bloggheimum sem og annarsstaðar. Dómstóll götunnar dæmir menn sem glæpamenn, landráðamenn, þjófa osfrv. Það er hægt að gruna marga um fyrrgreinda glæpi, en samkvæmt fornum venjum þá hljóta menn ekki þann vafasama titil að vera glæpamenn nema að dómur að undangenginnni rannsókn hafi farið fram.

Dómstóll götunnar byggir fyrst og fremst á tilfinningum en nánast engum rannsóknum, í það minnsta mjög takmörkuðum. Menn hljóta hina þyngstu dóma í kjölfar grunsemda og gleymist þá oft, að ekki er verið að dæma viðkomandi einstakling eingöngu, heldur einnig hans nánustu. 

Hægt er að gera sér í hugalund sálarstríð barns sem les það í fjölmiðlum að faðir þess sé glæpamaður. Þá hefur dómstóll götunnar valdið saklausu barni óþarfa vanlíðan, sem oft getur verið ansi sár.

Þess vegna legg ég til að menn segi upp störfum í dómstóli götunnar og láti fagmenn sjá um verkin.

 


Sögur af sjónum.

Mig langar til að hvíla mig aðeins á hinu pólitíska þvargi um stund. En ég er í sagnastuði núna, sögur af sjónum hafa ekki mikið sést hér í bloggheimum.

Það er svolítið sérstakt umhverfi sem menn lifa í úti á sjó, lítið við að vera, sömu kallarnir og sama vinnan. Til að þola þetta umhverfi dunda menn sér við ýmislegt sér til gamans. Eitt af okkar áhugamálum er að gera örlítið grín að byrjendum. Það er einnig ágætis uppeldisaðferð og herðir þá upp. Til að geta verið til sjós þurfa menn að koma sér upp ákveðinni hörku.

 Einum nýliða var ég með sem var mikið snyrtimenni og þótti gott að ilma vel eftir sturtuna. Ég kom að honum þar sem hann var ný rakaður með rakspíraglas í hendi. Á glasinu stóð "Pour 'homme" á frönsku, en það þýðir víst"fyrir karlmenn". Ég spurði hann hvort hann vissi hvað þetta þýddi. Hann yppti öxlum og ég benti honum á þessi orð og sagði að þetta þýddi púra hommi. Hann taldi sig ekki af þeirri gerð, þannig að hann bölvaði móður sinni mjög fyrir að hafa gefið sér glasið. Vitanlega tóku allir undir þessa þýðingu mína, þannig að móðir hans hefur eflaust fengið það óþvegið er hann kom í land. 

Þessi skemmtilegi siður er ekki nýr af nálinni. Einn af gömlu árabátasjómönnunum var kallaður Stjáni blái. Hann þótti með afbrigðum handsterkur maður. Oft gerði hann sér það til gamans að klípa hraustlega í handlegg yngri sjómanna, þegar þeir veinuðu sagði hann gjarna; "ég hélt að vöðvarnir hafi styrkst af árinni lagsi, en það er víst spauglaust með meyjarholdin". Hægt er að ímynda sér að menn hafi ekki verið glaðir með athugasemd Stjána.

Svo er sagt frá því í einum stað í bókaröðinni "Íslenskir sjávarhættir eftir Lúðvík Kristjánsson að ungir menn og nýtrúlofaðir tálguðu gjarna þvottaklemmur fyrir unnustur sínar. Þeir vönduðu sig mjög við verkið, því ef það var óhönduglega gert sögðu hinir eldri að þeir ættu ólögulegar unnustur.

Strákagreyin gátu ekkert sagt því á átjándu öldinni voru engar myndavélar og þeir voru oftast langt frá heimahögum.

Það er gaman að velta því fyrir sér hvað margir hlutar mannlífsins breytast lítið í aldanna rás. Enn þann dag í dag dunda menn sér við að grínast við nýliða. Ég fékk einnig aðeins að finna fyrir svona móttökum þegar ég byrjaði til sjós. Það sleppa fáir.


Skrítin hagfræði.

Ég skal fúslega játa það, að þekking mín á hagfræði er nú bara til heimabrúks. Ef ég er blankur þá leitast ég við að vinna meira. Vissulega nota sumir sem fyrir heimilum sjá þá aðferð að föndra í lánum með skuldbreytingum og stundum aukinni lántöku. En hafa oft ekki áhuga á að vinna meira. Svoleiðis heimili geta oft gengið, en það kostar óþarfa streð.

Sama er með landsstjórnina. Til að vel fari, þá þarf að skapa nýjar tekjur. Það þýðir ekki að föndra alltaf með sömu peningana eins og hefur verið gert. Einnig þýðir ekki endalaust að treysta á lágt gengi.

 


Heilræði handa hinni tæru vinstri stjórn.

"Hin tæra vinstri stjórn" hefur bent á þá staðreynd að það þurfi að skapa samstöðu og frið í samfélaginu. Ég er sammála því, enda mikill friðarsinni. Þess vegna langar mig til að rita nokkur heilræði stjórnarliðum til handa, svona í mestu vinsemd. Ekki geri ég ráð fyrir að hin háttvirta "tæra vinstri stjórn" geti gefið sér tíma frá erfiðum verkum til að lesa bloggið mitt. En ég veit að margir í bloggheimum styðja hana og eru henni hliðhollir. Þeir gætu kannski komið þessu til skila?

Í fyrsta lagi, þá er nú ágætt að kunna skil á hinum, ýmsu stjórnmálastefnum ef maður vill starfa í pólitík. "Hin tæra vinstri stjórn" heldur að frjálshyggjan hafi valdið hruninu. Annað hvort er þreytu um að kenna eða vanþekkingu. Frjálshyggja hefur aldrei verið framkvæmd á Íslandi. Það hafa verið skrifaðar margar bækur um frjálshyggjuna og hægt er að nálgast þær á bókasöfnum og glugga í þær, svona aðeins til að átta sig á hvað frjálshyggja er.

Svo þarf að passa sig á hvað maður segir á opinberum vettvangi. Ef maður er í stjórnarandstöðu þá skiptir það ekki eins miklu máli og ef maður er í ríkisstjórn. Elskurnar mínar, þið hefðuð átt að passa ykkur á að tala minna um gegnsæi þegar þið voruð í stjórnarandstöðu. Þetta er allt að koma í bakið á ykkur núna. Þið skömmuðust líka yfir pólitískum mannaráðningum, svo lendið þið í því að ráða mann í embætti umboðsmanns skuldara og ganga framhjá konu með meiri starfsreynslu á þessu sviði.

Ókey, ég veit að Runólfur hefur verið góður við ykkur, hann reddaði jobbinu fyrir, æ ég man ekki hvað hún heitir, en hún sat á þingi fyrir Samfylkinguna. Það þurfti að rýma sæti fyrir Ingibjörgu á þessum tíma. Þetta var fallega gert af honum, ég veit það. En þið hefðuð átt að tékka aðeins betur á bakgrunni umsækjandans. Maður gerir það alltaf þegar maður er að ráða einhvern í vinnu. Ókey ég skil, þið voruð þreytt og illa sofin.

Svo er líka gott að kunna að lesa þjóðina eins og hún er. Steingrímur minn Joð, auðvitað væri betra fyrir þig ef íslendingar væru líkari Svíum og hefðu gaman af að borga skatta. En þetta áhugamál ykkar Indriða að hækka skatta, þið eruð voðalega einangraðir í þessu máli. Ég get alveg skilið að þér finnist gaman af að hækka skatta. Það er ekkert skrítnari þráhyggja heldur en gengur og gerist. En maður þarf að hafa hemil á sér vinur.

Það er eðlilegt að vera hræddur stöku sinnum, en það má ekki láta óttann ná tökum á sér. Bretar og hollendingar eru ansi frekir og ég veit að þið mætið illa andstöðu. Ykkur finnst þægilegra að allir séu sammála ykkur. Ég skil það, margir eru þannig. En þegar maður er í ríkisstjórn þá verður maður að standa með landinu sínu.

Svo varðandi ESB. Það hefði nú verið betra að bíða aðeins og athuga vilja þjóðarinnar í svona stóru máli. Össur minn, þú mátt ekki vera svona óþolinmóður. Ég veit það vel að þetta er svona þráhyggja hjá þér, þetta ESB mál. En það er til fullt af góðum sálfræðingum sem hjálpa mönnum sem eru haldnir svona vandamálum. Þú og Steingrímur Joð gætuð kannski fengið afslátt hjá sama sálfræðingnum, ég held að þið þurfið ansi marga tíma, hann með skattahækkanaþráhyggjuna og þú með ESB. En þið getið örugglega sigrast á þessu, það er bara að viðurkenna vandann.

Fyrst við sitjum uppi með ykkur greyin mín, þá væri gott ef þið mynduð huga að hagsmunum þjóðarinnar. Ég veit að þið rugluðust aðeins með skjaldborgina sem átti að vera handa heimilunum. Vegna þreytu þá slóguð þið henni utan um fjármálastofnanir. Það er alveg hægt að leiðrétta það með góðum vilja.

Elskurnar mínar, kæru stjórnarliðar. Ég ákvað að vera blíðmáll við ykkur núna í þeirri von að þið gætuð lært eitthvað af þessum heilræðum. Við þurfum nefnilega að standa saman.


Sungið fyrir bloggheima!!

Forsaga málsins er sú að ég ákvað að heimsækja bróður minn í dag, en þar sem ég er mikið úti á sjó þá hef ég frekar lítinn tíma til að hitta ættingja mína.

Við bræðurnir erum ekki sammála í pólitík, þannig að við ræðum þá um allt annað. Drengurinn hefur alltaf verið áhugasamur um allt sem snýr að tækni og hefur komið sér upp ágætis hljóðveri heima hjá sér. Hann man vel eftir því að í æsku hafði ég gaman af að raula og það hefur fylgt mér alla tíð.

Fyrsta skiptið sem ég söng varð ljósmóðirin sem tók á móti mér dauðskelkuð, hún tjáði móður minni það, að önnur eins hljóð hafi hún aldrei heyrt í ungabarni. En á þeim tíma hafði ég ekkert verið búinn að læra að tempra röddina, enda nýskriðin í þennan heim. Eflaust hefur söngurinn verið óbeislaður og ég í talsverðu uppnámi, nýkominn úr þeirri hlýju og öryggi sem ég hafði notið í líkama móður minnar, ég var ekki viss hvernig ég ætti að taka þessum nýju vistaskiptum, þannig að ég var að reyna að róa mig með því að syngja.

Síðan hef ég alltaf haft gaman af að raula og aðeins lært að tempra röddina frá því að ég leit þessa veröld fyrst augum.

En við bræður ákváðum að ég skyldi syngja aðeins, við fundum eitthvað karaókí dæmi á you to be. Ég valdi Green green grass of home því mér hefur fundist ágætt að raula það annað slagið. Við ákváðum að hafa þetta eitt "take up" eins og sumir gömlu músíksnillingarnir gerðu, en eftir á að hyggja hefðum við tekið aðeins oftar upp. En þetta var sem sagt fyrsta tilraun ,ekki fullkomin en sleppur fyrir horn.

Það er búið að þvarga svo mikið í bloggheimum upp á síðkastið, þannig að í stað þess að lesa pólitískan pistil eftir mig ætla ég að syngja fyrir ykkur. Smellið á spilarann og njótið vel, en munið að ég er sjómaður en ekki atvinnu söngvari.


Er hrunið EES og Samfylkingunni að kenna?

Er hrunið EES og Samfylkingunni að kenna? Það má draga þá ályktun af úrdrætti úr ræðu Ingibjargar Sólrúnar sem birtist í Herðubreið árið 2003, þar segir m.a.:

"En svo skall á frostaveturinn mikli með fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddsonar árið 1991 og þessi krafa um endurnýjun varð hálft í hvoru úti. Ef frá eru taldar breytingar í efnahags og viðskiptalífi sem urðu til vegna EES samningsins undir forystu Jóns Baldvins og Jóns Sigurðssonar, og einkavæðing ríkisbanka, hefur harla lítið borið til tíðinda í íslenskum stjórnmálum í tíð Davíðs Oddsonar".

Það er vitað að EES þrýsti mjög á um einkavæðingu banka. En ræða Ingibjargar er lituð af hennar skoðunum og ber að skoða sem slíka. Árið 2006 að mig minnir kom hingað formaður eða framkvæmdastjóri samtaka evrópskra smáfyrirtækja. Var hann að boða stefnu ESB? Nei, hann var að kynna sér það sem hann kallaði "Oddsonisma", hann taldi þá stefnu hafa skilað miklu betra umhverfi smáfyrirtækja heldur en ESB.

Fyrri hluti pistilsins var skrifaður til að hvetja menn til að gæta sín á þvargi í þessari flóknu umræðu, heldur að kynna sér staðreyndir. Mér dettur ekki til hugar að kenna Samfylkingunni um hrunið né Ingibjörgu Sólrúnu. Það var græðgi nokkurra manna og vankunnátta í fjármálum sem orsakaði það. En því er ekki að neita, að EES samningurinn veitti þeim dygga aðstoð.

Margir halda að það hafi verið okkur lífsnauðsyn að ganga í EES. Fátt bendir til þess því það var ágætt að lifa á Íslandi áður en hann kom til. Ég mynnist alla vega ekki tiltakanlegra vandræða við að draga fram lífið á árunum fyrir 1991, en þó var ég kominn með fjölskyldu og farinn að vinna fyrir mér talsvert fyrir þá tíð.

Auðvelt er að draga þá ályktun að EES samningurinn hafi verið til talsverðra vandræða. Ef svo hefði farið, að við hefðum ekki tekið upp regluverk þeirra, ekki einkavætt banka né farið í útrás, hver væri staðan þá?

Við værum ekki að takast á við hrun bankakerfis af þessari stærðargráðu þannig að samdrátturinn væri mun viðráðanlegri, ímynd okkar erlendis væri mun betri osfrv.

En það þýðir ekki að gráta mistökin, heldur að læra af þeim. ESB býður upp á ýmsa möguleika en hvers virði eru þeir á heildina litið? Við eigum kost á að reka hér öflugt samfélag áfram utan Evrópusambandsins. Nauðsynlegt er að eiga viðskipti við sambandið sem og önnur ríki utan þess. Sem lítil þjóð með marga vel menntaða einstaklinga getum við tileinkað okkur margt gott frá öðrum þjóðum. En að múlbinda sig við einn hluta heimsins, sem er eins ófullkominn og raun ber vitni, það getur ekki talist vænlegt til árangurs. En vissulega er hægt að fá húsaskjól, mat og einhverja aura með því að vera í ESB. Það er sem sagt vel hægt að lifa þar inni. En erfitt að þróa metnaðarfullt samfélag á eigin forsemdum.

Við ættum að taka frumherjana til fyrirmyndar. Forfeður okkar stofnuðu hér alþingi, eitt það elsta í heiminum og ástunduðu merkilega lýðræðis stjórnskipun. Þeir voru einna fyrstir í heiminum til að koma með samhjálp, þ.e.a.s. menn bættu hver öðrum ýmsan skaða sem hlaust af völdum ýmissa búsifja. Eða viljum við vera svo út þynntir af alþjóðahyggju að við viljum ekki hlúa að þeim eiginleikum og rækta sem forfeðurnir sáðu?


Misvísandi túlkun laga.

Umræðan um innistæðutryggingar hefur staðið lengi. Virtir fræðimenn í lögum hafa tjáð sig um þetta mál og komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkinu beri ekki að borga. Einnig hafa útlendingar sem vel þekkja til laga sambandsins verið sammála okkar hámenntuðu og reyndu lögspekingum, nægir þar að nefna Evu Joly og Alain Liepitz, menn hljóta að vera sammála um að þau hafi góða þekkingu á löggjöf sambandsins.

Framkvæmdastjórn ESB segir einnig að ríki á EES svæðinu beri ekki ábyrgð á innistæðum í föllnum bönkum.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) er nú samt að þvarga um þetta mál og bendir á að í ljósi þess að íslendingar veittu fé inn í bankanna til að verja kerfið í heild sinni þá beri okkur að borga. Eftirlit með fjármálakerfi ESB ríkja brást, það er hægt að segja að eftirlit nær allra ríkja hins vestræna heims hafi brugðist. Þess vegna eru flest lönd búin að dæla stórfé í sína banka til að halda andlitinu.

Þetta bendir til þess að túlkun á reglum innan sambandsins getur verið mjög snúin, enda er það eðli lögfræðinnar að finna rök með og á móti.

Styrkur þjóða felst í samstöðu. Það er ekki heppilegt þegar íslendingar sem hlustað er á í útlöndum taka undir sjónarmið andstæðinganna. Hefur það nokkurn tíma gerst í stríði að einhver snúi sér við og fari að skjóta niður eigin hersveit vegna þess að þeim finnst eigin her svo þröngsýnn og leiðinlegur?


mbl.is Bera ekki ábyrgð á innstæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingja Össur.

Stefan Fülle stækkunarstjóri ESB vill að íslendingar fái fræðslu um sambandið sem byggir á staðreyndum. Vitanlega er það rétt hjá honum, það er betra að fræða fólk með staðreyndum.

Utanríkisráðherra vorum vafðist tunga um tönn er hann var spurður um afstöðu þjóðarinnar. Hann benti á þá staðreynd að stuðningur við ESB aðild hafi minnkað á seinni árum og tengir það við þá áráttu þjóða að leita inn á við þegar vandi steðjar að.

En Össur skynjar aukinn stuðning hjá íslenska þinginu, hann þekkir það svo vel að eigin sögn. Hann býður einnig þolinmóður eftir að íslendingar sjái ljósið hans. En hann hefur beðið og beðið og beðið.

Samfylkingin hefur haft ESB aðild á sinni stefnuskrá lengi og Össur hefur verið mikill áhugamaður innlimunar lengur en elstu menn muna. Þessi ágæti flokkur hefur gefið út bækur um efnið með aðstoð hámenntaðra prófessora. Frá stofnun flokksins hafa þau beðið eftir því í öllum kosningum að nú væri ESB aðild heitasta málið. En það hefur ekki gengið eftir.

Þau hafa notað öll tækifæri sem gefist hafa til að vekja athygli á þessu áhugamáli sínu. Þegar halla tók undan fæti í efnahagslífinu meðan Björgvin G. var viðskiptaráðherra þá kom hann því á framfæri, að það eina sem þyrfti væri að sækja um aðild, þá færu hjólin að snúast. Nú er búið að sækja um aðild, en hjólin ennþá föst.

Eftir allar þessar umræður lærðra manna og leikna í þessum ágæta flokki að meðtöldum fjölda bóka og ritgerða er stækkunarstjóri ESB á því að það vanti staðreyndir í umræðuna.

Er flokki sem illa tekst að sannfæra sína eigin þjóð um einn málstað, þrátt fyrir mikla vinnu eins og að framan greinir, treystandi til að koma sjónarmiðum þjóðar sinnar á framfæri í útlöndum?


mbl.is Umræðan byggist á staðreyndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband