"Þagnið dægurþras og rígur"!!!

Fyrirsögnin er fengin að láni úr ljóði Hannesar Hafstein, er hann samdi í tilefni hundrað ára afmælis Jón Sigurðssonar, sjálfstæðishetju þjóðarinnar.

Það er ekki að tilefnislausu, að ég fékk þessi merku orð að láni frá fyrsta ráðherra Ísland. Um þessar mundir virðist eins og þjóðernisvitund manna fari þverrandi, sem og þjóðarstolt.Dægurþras og rígur er að verða allsráðandi hér í bloggheimum. Hollt er að minnast baráttumannsins Jón Sigurðssonar, sem barðist fyrir sjálfstæði þjóðarinnar af mikilli elju og fékk loks sigur; "sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér" þetta voru orð í tíma töluð og eiga sjaldan eins mikið erindi við okkur og nú.

Íslendingar eiga að bera höfuð hátt og vera stoltir af þjóðerni sínu. Þegar við stofnuðum lýðveldið 1944, þótti mörgum útlendingum hæpið að við stæðum undir því. Ólafur Thors sagði frá því í ræðu, að útlendur ráðherra hefði sagt við hann, að við myndum kafsigla okkur, við værum allt of fá, til að standa undir sjálfstæðinu. En Ólafur vissi betur, enda hefur það komið á daginn. Núna tæpum sextíu og sex árum seinna stöndum við enn í lappirnar og gerum áfram, ef við eyðileggjum okkur ekki innanfrá.

Í bloggheimum og fjölmiðlum hafa menn geyst fram á ritvöllinn í þeim tilgangi að koma höggi á sína eigin þjóð. Ekki þekki ég þær annarlegu hvatir sem að baki búa, ein eitt er ég fullviss um, ef sundurlyndisfjandinn festir hér rætur, munum við fella okkur sjálf .

Við Íslendingar eigum í deilum við Breta og hollendinga, þeir eru andstæðingar okkar. Sem þjóð verðum við að standa saman. Mér er það fullkunnugt, að í deilum eru til málsbætur báðum til handa. En að Íslendingar skuli sitja bullsveittir við tölvuna sína, að berjast við að styðja málstað andstæðinganna, það skil ég ekki. Margir virðast koma með fleiri rök til stuðnings andstæðingum okkar, en þeir gera sjálfir. Það eru reyndar ekki gáfuleg rök, en rök engu að síður.

Hollusta og tryggð fer þverrandi í samfélaginu, það er miður. Allt of fáir Íslendingar deila með mér mínu mikla þjóðarstolti. Ef einhver lætur í ljós, að hann sé stoltur af sinni þjóð, er hann af grunnhyggnum mönnum, sakaður um "þjóðrembu". Ég er alls ekki haldinn þjóðrembu, langt í frá.

Mér finnst að allir eigi að vera stoltir af sinni þjóð. Þjóðverjar eru mjög stoltir af sinni og eiga að vara það. Þeir eru framúrskarandi þjóð og ég ber mikla og djúpa virðingu fyrir þeim, einnig er ég mjög hrifin afmörgum öðrum þjóðum. En vænst þykir mér um mína, eins og ég sýni konu minni fulla tryggð, því hún býr hjarta mínu næst. Jafnvel þó ég dáist að fegurð og andlegu atgervi margra annarra kvenna.

Við verðum að standa saman í Ice save deilunni, andstæðingar okkar fylgjast með umræðunni hér á landi og við færum þeim vopn í hendur með því að taka þeirra málstað. Einnig hafa komið fram góð rök máli okkar til stuðnings, á lagalegum grundvelli. Berjumst ekki heldur á móti erlendum stuðningsmönnum okkar, heldur skulum við sýna þeim þakklæti og vinsemd.

Að lokum langar mig að vitna í ræðu sem Ólafur Thors flutti að mig minnir, þann 17/6 19.54, á tíu ára afmæli lýðveldisins; "skyldi nokkrum manni í dag, koma til hugar að við afhentum útlendingum eða vinaþjóðum okkar, umboð til að sjá um okkar utanríkismál?"

Sem betur fer lifði ættjarðarvinur þjóðholli ekki, að heyra bullið um ESB.

Es., taka skal fram, að þessi pistill er ekki sagnfræðilegs eðlis. Ég fann engar ritaðar heimildir þannig að allar tilvitnanir hér að ofan, eru eftir minni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband