Auðmýkt er góð leið til þroska.

Það sem helst skortir í samfélagsumræðunni er auðmýkt. Við mennirnir eigum það allir sameiginlegt að vita ósköp lítið. Sókrates átti að hafa sagt eitthvað í þessa átt;"ég veit ósköp lítið en veit það þó, því til eru menn sem telja sig vita mikið en vita þó ekki neitt".

Kannast nokkur við einstaklinga hér í bloggheimum sem ausa úr sínum "viskubrunni" og láta skiljast svo, að þeir séu nær alvitrir? Oftast þegar betur er að gáð, virðist viskubrunnurinn ansi tæpur af vatni, nánast þurr. En það breytir því ekki, þeim finnst samt vera nóg vatn til að skvetta yfir saklausa gesti bloggheima, hvort sem þeim líkar það betur eður ei.

Stutt er liðið frá því að fjármálakerfi heimsins hrundi, þannig að ágætt er að staldra aðeins við þá atburði. Eftir hrunið komu margir fram og sögðust hafa séð þetta allt fyrir. En staðreyndin var sú, að misvísandi skilaboð komu frá hinum ýmsu fræðimönnum. Margir voru svartsýnir á ástandið og aðrir bjartsýnni. En enginn gat sagt til um það með óyggjandi hætti hvað átti eftir að gerast. Líkur eru ekki það sama og staðreyndir.

Gaman er að lesa greinar eftir greinda menn, en einn slíkur Breskur að uppruna ritaði ágæta grein í Morgunblaðið í gær. Hann heitir Adair Turner og er forstjóri Breska fjármálaeftirlitsins og situr í lávarðadeild þingsins þar í landi. Hann fjallar aðeins um AGS, en sú stofnun telur sig hafa öll svörin við okkar efnahagsvandræðum.

Í apríl árið 2006 sendi AGS frá sér Hnattrænt yfirlit yfir fjármálastöðugleika. Skýrslan gaf til kynna mikla ánægju með hið góða fjármálakerfi heimsins, átján mánuðum síðar var það hrunið.

Hægt er að nefna fjölmörg dæmi sem sýna ófullkomleika og vanþekkingu mannkynsins, samt er eins og alltaf séu til menn sem telja sig vita mikið.

Gott getur verið að leggja eigin skoðanir til hliðar og hlusta eftir staðreyndum. Það krefst þolinmæði og tekur tíma, en skilar sér ávallt í auknum þroska. Menn sem loka sig af í eigin hugarheimi geta orðið prýðis skáld en afleitir í að skilja raunveruleikann. Enda er hann margslunginn og getur verið breytilegur frá manni til manns.

Margir hengja sig á lagabókstafi og tölur sem þeir nota í tíma og ótíma. Lagabókstafir og tölur eru prýðis góð tæki, en það þarf heilmikla og djúpa hugsun til að skilja hvort tveggja. Í hraða nútímans gefa sér fáir tíma til að hugsa.

Þess vegna er allt þetta tilgangslausa þvarg sem engu skilar.

Það þarf að temja sér auðmýkt og þekkja sín takmörk til að geta þroskast.

Gott er að sitja hljóður og finna hjartslátt augnabliksins, þar leynist hin sanna þekking.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband