Föstudagur, 18. febrúar 2011
Lágir skattar virka best.
Lágir skattar eru vinstri mönnum mikill þyrnir í augum og sumir ganga svo langt, að segja skattalækkanir hafa orðið ein af orsökum hrunsins, Björn Valur tjáði Bjarna Benediktssyni það sjónarmið sitt í Kastljósi fyrir nokkru síðan. Þetta er vitanlega kolrangt.
Hægt er að velja um þenslu í opinbera geiranum eða í einkageiranum.
Þensla í opinbera geiranum er slæm, vegna þess að þá hættir stjórnmálamönum til að eyða í ónauðsynlega hluti, eins og dæmin hafa sannað. Það er nefnilega vandasamt að fara vel með annarra manna fé.
Aftur hefur þensla í einkageiranum þau áhrif, að fólki líður betur og það vitanlega bætir samfélagið umtalsvert. Einnig veldur það meiri einkaneyslu sem kemur sér vel fyrir hinar ýmsu þjónustu og framleiðslugreinar.
Stjórnmálamenn eiga að hugsa vel um hverja einustu krónu sem þeir höndla með. Það eru settir heilmiklir fjármunir í menntakerfið, samt virðist það ekki vera að skila sér sem skildi. Það hlýtur að kalla á hagræðingu.
Of mikið hefur verið um, að fólk komist á "spenann" og þá þarf oft lítið að vinna til þess að hafa það þokkalega gott. Lítil þjóð hefur engin efni á "spariköllum" eins og við sjómenn köllum þá sem vina ekki fyrir kaupinu sínu, hér á landi verða allir að sýna hámarks framleiðni til að hlutirnir gangi upp.
Til þess að þetta sé mögulegt, þá þarf sterka stjórnmálamenn. Við getum ekki leyft okkur neinn óþarfa í opinbera geiranum, besta aðhaldið á stjórnmálamenn er, ef þeir hafa úr litlu að spila. Neyðin kennir nefnilega naktri konu að spinna, en ekki má skilja þetta á þann veg, að átt sé við óeðlilega lága upphæð. Það er einnig mjög slæmt.
Það þarf að leggja niður allar stöður sem eru gagnslitlar, sameina stofnanir eins mikið og hægt er, þá sparast yfirstjórnin. Ef einkageiranum gengur vel, þá ættu allir að fá vinnu við hæfi.
En til þess að ofangreind atriði verða að raunhæfum valkosti, þá þarf að efla útflutning eins og hægt er. Útflutningsgreinarnar eru meginforsendur þess, að við getum lifað sómasamlegu lífi.Lítil þjóð í vandræðum verður að taka því sem að höndum ber, jafnvel þótt það þýði fórnir að einhverju leiti.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.