Fyrsta skrefið er að lesa.

Þegar dvalið er á lítilli eyju norður í Atlandshafi, án tíðra ferðalaga til annarra landa, þá er hætt við að sjónarhornið verði helst til of þröngt.

Í þessháttar aðstæðum, hættir fólki til, að telja ástandið betra í öðrum löndum og að hér á landi ríki ekkert nema spilling, heimska og fáfræði.

Þá getur verið gott að grípa til kunnáttu þeirrar, sem byrjað var að leggja drög að strax í sex ára bekk, þ.e.a.s. raða saman stöfum þeim er birtast á tölvuskjám og pappír og átta sig á merkingu orðanna sem þeir mynda.

Oft er orðunum raðað saman í samræmi við þekkingu þess er á takkaborðið leikur, í þeim tilgangi að uppfræða íbúa þessa heims.

Þetta virðist einfalt, en er fyrir suma óskaplega flókið.

En ef fólk nennir að hugsa og notfæra sér leskunnáttuna, þá gæti opnast alveg nýr heimur.

Hér á landi lifum við sambærilegu lífi og fólk í öðrum vestrænum löndum. Ergelsi út í stjórnmálamenn er alþjóðlegt fyrirbæri, stundum er innistæða fyrir því og stundum ekki. Bankahrun átti sér stað víðar en hér á landi, ef marka má heimsfréttirnar, þannig að hrunið okkar er ekki einstakt fyrirbæri.

Ekki hef ég lesið um erlenda stjórnmálaleiðtoga sem dregið hafa fyrrum forsætisráðherra fyrir dóm, fyrir óljósar sakir, með sorg í hjarta því forsætisráðherran fyrrverandi er jú, að mati ákærandans heiðarlegt góðmenni.

En það kann að vera misskilningur, ég hélt að hvergi á byggðu bóli fyndust eins vitlausir háskólakennarar og þeir Þórólfur Mathíasson og Þorvaldur Gylfason.

En ágætur maður sem þvælst hefur í háskóla flestra landa sagði mér, að flest vestræn ríki hefðu háskólamenn á borð við  fyrrgreinda menn.

Þótt við höfum það ekki verra, en fólk almennt í vestrænum ríkjum, þá er ekki þar með sagt að engu megi breyta, við eigum stöðugt að huga að breytingu og þróun.

En gera þarf það á yfirveguðum nótum, án sleggjudóma.

Í aldanna rás hefur verið rituð ágæt speki, sem kennir okkur að hugsa rétt. Ef við stöndum saman og virðum hvert annað, þá er fyrsta stkrefið stigið.

Svo má huga að samkenndinni; "allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, skuluð þér og þeim gjöra", þetta var ritað fyrir ansi mörgum árum, en margir hafa ekki enn skilið þessi orð.

Ef við hættum að hugsa "ég" og förum að hugsa "við", þá er annað skref stigið í endurreisninni.

Ef ég hugsa um hag náunga míns og hann hugsar um minn hag, þá hlýtur vandamálunum að fækka umtalsvert.

En það er aðeins fyrsta skrefið að lesa, næsta skrefið er að skilja og við fullkomnum það, með því að framkvæma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband