Af hverju er þeim svona illa við staðreyndir?

Það virðist ekki nægja VG að berjast fyrir stefnu sem hvergi hefur gengið upp, heldur þurfa þau að snúa öllu á hvolf. Það er eins og þeim sé ákaflega illa við allar staðreyndir.

Því er haldið fram af þeim, að meginorsök húsnæðisbólunnar sé sú, að Verkamannabústaðir voru aflagðir.

Vitanlega hentar þeim ekki að minnast á þátt þeirra í því, að húsnæðisverð snarhækkaði, en vitaskuld átti R-listinn stóran þátt í því, þegar byrjað var með uppboð á lóðum í Grafarholti og þá fóru nokkrir verktakar á hausinn. Það er eflaust ágætis forvörn að þeirra mati, því þá fækkar þeim væntanlega sem verða ofsaríkir hér á landi.

Meginástæða húsnæðisbólunnar er vitanlega hækkun lánshlutfalls hjá Íbúðarlánasjóði upp í 90%.

Innanríkisráðherran hefur væntanlega gleymt því sem hann sagði í viðtali við Viðskiptablaðið 2. apríl árið 2007, en þá sagði hann 90% lánin vera til góðs fyrir íbúðarkaupendur.

Svo eru vitanlega fleiri ástæður fyrir húsnæðisbólunni, ofgnótt lánfjár á markaði, alþjóðleg húsnæðisbóla sem fór um heiminn, 100% lán bankanna osfrv.

En vinstri menn eru sjálfum sér líkir, þeir grípa eitthvað sem gælir við eyrun á þeim, Verkamannabústaðir hljóma vissulega notalega í þeirra eyrum, þess vegna hentar vel að segja að afnám þess kerfis hafi orsakað bóluna.

Sennilega vita VG liðar innst inni, að staðreyndir afhjúpa sjálfsblekkinguna hjá þeim og fólk sem lifað hefur í blekkingu lengi, á vont með að horfast í augu við raunveruleikann.


mbl.is Ríkið komi inn á fasteignamarkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Staðreyndiir geta stundum verið vandmeðfarnar. Það stenst enga skoðun að 90% lán Íbúðarlánstofnunnar hafi verið stór orsakavaldur varðandi húsnæðisbólu.  Á sama tíma og heimild var að veita 90% lán var 16 milljóna króna þak á lánum. 'i reynd var það í undantekningatilfellum sem reyndi á 90% regluna.

Ég hef hinsvegar tekið eftir því að ef rangfærslur eru nógu oft endurteknar þá verða þær að "staðreyndum"

 Annað í færslunni er hinsvegar rétt og Verkamannabústaðaskýringin er brandari.

Stefán Örn Valdimarsson 29.8.2011 kl. 18:09

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Það eru til tvær hliðar á öllum málum og stundum fleiri.

Það má færa rök fyrir því, að 90% lánin hafi verið góð, ein og sér. En miðað við það sem sérfræðingar hafa bent á, þá fylgdu í kjölfarið 100% lán bankanna og þegar auðvelt er að nálgast fjármagn, þá verður fólk kærulausara, þannig að seljendur gátu þá hækkað verðið næstum því ein og þeim sýndist.

Bent var á það, þegar bankarnir byrjuðu að bjóða upp á 100% lánin, þá var fólk í reynd, að fjármagna íbúðir með 100% lánum, tekin voru lán hjá Íbúðarlánasjóði, lýfeyrissjóðum og í bönkum, fengin voru veð að láni hjá foreldrum, uppáskriftir osfrv.

Að mínu mati voru hvorki 90% lánin né heldur 100% lánin endilega slæm ein og sér, en þau hentuðu illa í því umhverfi sem við bjuggum og búum við, kaupendur eru of sofandi gagnvart seljendum á markaði, en það er önnur umræða sem hægt væri að taka síðar.

Kjarninn í þessum pistli er, og ég býst við að þú hafir skilið hann rétt, að VG liðar eru því miður ekki alveg með á nótunum, eiginlega eru þau út úr kú, eins og þar stendur.

Jón Ríkharðsson, 29.8.2011 kl. 18:17

3 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Það væri gaman að komast að númeri frumvarps og ártali á því frumvarpi sem heimilaði 90% og sjá hverjir greiddu með því atkvæði og hverjir ekki.

 En eitt veit ég, að núverandi forsætisráðherra, bölvaði Sjálfstæðisflokknum fyrir að traðka svo á Framsóknarflokknum, að hlutfallið yrði bara 90% og hámarks lánsupphæð ekki hærri..............

Reyndar þyrfti að grafa upp fleiri mál, er talin eru krítísk, frá árunum fyrir hrun.  Skoða umræður um þau mál og hvernig atkvæði skiptust.  Mér segir svo hugur, að ýmsir hafi sagt já við ýmsu, sem þeir vilja ekki kannast við í dag.

Kristinn Karl Brynjarsson, 29.8.2011 kl. 20:19

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Já Kalli minn, það þarf að rifja ýmislegt upp og verst þykir mér hvað okkar kjörnu fulltrúar eru tregir til að tjá sig.

Það þarf að rifja upp allt sem vinstri menn hafa gert og halda því til haga.

Þá er kannski von til þess, að fólk kjósi ekki vinstri stjórn yfir sig á næstu áratugum.

Það liðu átján ár síðast, vonandi verða þau fleiri næst.

Jón Ríkharðsson, 29.8.2011 kl. 21:13

5 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Það er ekki rétt skýring að 90% lánin hafi á einhvern hátt orsakað verðbóluna á íbúðamarkaðnum hér.  Líkast til voru það bankarnir, sem ýttu hvað mest undir þá skýringu og héldu henni á lofti.

Á höfuðborgarsvæðinu var útilokað að 90% lán hefðu nokkur áhrif, nema etv á verð ódýrustu stúdíóíbúða, vegna krónutöluhámarksins á lánin, víðast hvar á landsbyggðinni hefðu áhrifin orðið lítil.

90% lánin voru lögfest nokkru áður, man ekki hvort það var á vorþingi 2004 eða haustþingi 2003, en þau tóku ekki gildi fyrr en um tveimur mánuðum  eftir að bankarnir hófu sínar lánveitingar, sem var í lok ágúst 2004.

Kaupþing reið á vaðið. Ég fór á fréttamannafund þeirra þar sem lánin voru kynnt. Ég man ég spurði þá Hreiðar Má hvort hann óttaðist ekki að lögmálið um framboð og eftirspurn yrði virkjað, þannig að þegar svo mikið framboð yrði af krónum, félli myntin í verði. Með öðrum orðum, að íbúðaverð mundi hækka hressilega. Hann svaraði því til að engin hætta væri á því, kannski svona eitt til eitt og hálft prósent. Við vitum hvernig sú spá rættist.

Sumir hafa reynt að skýra innkomu bankanna á íbúðalánamarkaðinn með því að 90% lán ÍLS hafi tekið af þeim markaðinn fyrir hin svonefndu brúarlán, þ.e. að lána fyrir mismuninum á lánum ÍLS og kaupverði. Sú skýring stenst illa. Í fyrsta lagi voru þau umsvif fremur lítill hluti, jafnvel örsmár hluti, af viðskiptum bankanna. Í öðru lagi höfðu bankarnir fengið greiðan aðgang að erlendu lánsfé á mjög lágum vöxtum sem hægt var að endurlána hér og í þriðja lagi hafði Seðlabankinn skömmu áður lækkað bindiskyldu bankanna þannig að þeir höfðu skyndilega fullar hirslur fjár sem þeir þurftu að lána. Einn bankamaður orðaði það þannig þegar ég ræddi við hann á árinu 2005 að bönkunum hefði í rauninni verið smalað út á íbúðalánamarkaðinn.

Munurinn á lánum Íbúðalánasjóðs og bankanna fólst í þessu: Íbúðalánasjóður hafði tvöfalt hámark, þ.e. 90% annars vegar en krónutölu hins vegar og auk þess afar formlegt lánshæfismat og strangar reglur um hvaða kröfur lántakinn þyrfti að standast. Bankarnir höfðu ekkert hámark, hvorki hlutfall né krónutölu (þeir sögðust reyndar vera með 100% hámark, en fjölmörg dæmi voru um að lánað var umfram það hlutfall) og lánshæfismat þeirra virtist fyrst og fremst þjóna þörf þeirra til að lána.

Menn kepptust við á þessum tíma að kenna Íbúðalánasjóði og virkjunar- og álversframkvæmdum á Austurlandi um þensluna á árunum 2003 fram á 2007. Frá hausti 2004 lækkaði heildarfjárhæð lána Íbúðalánasjóðs. Allan framkvæmdatíma virkjunar og álvers komu á bilinu 25-40 milljarðar samanlagt inn í íslenska hagkerfið vegna þeirra. Á sama tíma sprautuðu bankarnir um 600 milljörðum króna af erlendu lánsfé yfir hagkerfið. Hvað skyldi hafa viktað mest?

Þórhallur Birgir Jósepsson, 29.8.2011 kl. 21:26

6 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Úr því talið hefur borist að vinstri-hægri pólitík má rifja upp að fyrir kosningarnar 2007 kepptust allir - segi og skrifa ALLIR, flokkarnir um að yfirbjóða Sjálfstæðisflokkinn í skattalækkunartillögum. Þeirra á meðal voru VG.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 29.8.2011 kl. 21:29

7 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir Þórhallur, ég get fallist á að það var of sterkt til orða tekið að segja 90% lánin höfuðorsök húsnæðisbólunnar, en væntingarnar sem sköpuðust í aðdraganda þeirra höfðu engu að síður áhrif.

Í góðærinu starfaði ég sem verktaki í húsasmíði og ég man vel eftir atviki sem gerðist í Grafarholti árið 2004.

Við vorum að vinna við blokk sem var í smíðum. Verktakinn ákvað að setja strax í sölu, en félagi hans sem var að byggja næstu blokk ákvað að bíða með að selja, hann var sannfærður um að verðið myndi hækka vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar varðandi lánin.

Ég man að sá sem ég vann fyrir varð ægilega svekktur, því hinn náði að selja á talsvert hærra verði, með því að bíða í nokkra mánuði.

Sumarið 2004 stóð mér til boða að kaupa nokkrar lóðir í Norðlingaholti, eftir að hafa ráðfært mig við félaga mína, þá ákvað ég að kaupa ekki, okkur fannst verðið frekar hátt.

Ef ég hefði keypt allar lóðirnar og beðið í, að mig minnir ellefu mánuði, ég man það ekki nákvæmlega, þá hefði ég getað hagnast um helming, án þess að gera nokkuð annað en að bíða.

Ég man að menn í byggingabransanum töluðu mikið um það, þegar stóð til að bjóða upp á 90% lánin, að verðið myndi hækka verulega og þær væntingar stóðust algjörlega, menn voru hissa á hvað þeir græddu mikið.

Margir eru á því að 90% lánin og 100% lánin í framhaldinu hafi verið höfuðorsökin, en sennilega hafa orsakaþættirnir verið mikið fleiri og vissulega er það rétt sem þú bendir á, húsnæðisbólan og Kárahnjúkavirkjunin höfðu lítið vægi í fjármálahruninu þegar á heildina er litið.

En ég þakka þér fyrir ábendinguna Þórhallur, hún var málefnaleg, ég kannaði það sem þú sagðir og sá að það var rétt.

Jón Ríkharðsson, 29.8.2011 kl. 22:33

8 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Þessi sami maður var að stinga upp á því að hækka fjármagnstekjuskatt úr 20 í 30%.  Húsaleigutekjur eru skattlagðar sem fjármagnstekjur þannig að skattahækkun myndi draga úr framboði á leigumarkaðnum og hækka verð.  VG virðist alveg úti að aka í öllu sem heitir almenn skynsemi og að skilja orsakir og afleiðingar.

Lúðvík Júlíusson, 30.8.2011 kl. 00:28

9 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Það er rétt hjá þér Lúðvík.

Núna tel ég að við ættum að vinna hratt að afnámi gjaldeyrishafta, halda stýrivöxtum eins lágum og mögulegt er, til að örva fjárfestingar og alls ekki hugsa um skattahækkanir, frekar að lækka þá ef eitthvað er.

Á tímum sem þessum er nauðsynlegt að koma fjármagni á hreyfingu í stað þess að pína hverja krónu út úr einstaklingum og fyrirtækjum.

Jón Ríkharðsson, 30.8.2011 kl. 09:51

10 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Rétt er að leggja áherslu á það sem þú nefnir, Jón, að margar skýringar eru á því hvernig verðbólan blés upp á íbúðamarkaðnum á fyrsta áratug aldarinnar.

Ég ætla að nefna hér nokkur atriði, eftir minni, og tek fram strax að ég hef ekki á takteinum nákvæmar tölur, þetta byggist meira á því sem ég man af athugunum sem ég gerði þegar ég vann fréttir og fréttaskýringar um þetta hjá Útvarpinu.

Það var alls ekki offramboð af nýbyggðu húsnæði frameftir áratugnum, öðru nær, vantaði bæði íbúðir og lóðir til að byrja með.

Mikið misræmi var orðið á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs íbúða á höfuðborgarsvæðinu. Lætur nærri að markaðsverð hafi verið á bilinu 50-100% hærra en byggingarkostnaður. Þarna var því orðinn til sterkur hvati til að byggja og selja.

Þetta sáu sveitarfélögin og fóru að bjóða upp lóðirnar, hin takmörkuðu gæði, í stað þess að selja á föstu verði eða jafnvel afhenda gegn gatnagerðargjaldinu og byggingarleyfinu einum saman. Lóðaverð undir fjölbýli í Norðlingaholti fór yfir sex milljónir - SEX MILLJÓNIR - á íbúð. Það var í byrjun lóðauppboða og átti svo eftir að hækka. Man ekki nákvæmlega tímasetninguna á þessu, sennilega 2004-2005.  Með þessum lóðauppboðum náðu sveitarfélögin til sín hluta af hagnaðinum,því lóðaverðið virtist ekki hafa bein áhrif á íbúðaverðið, hagnaðurinn fluttist að hluta frá byggingarverktakanum til sveitarfélagsins.

Eftir að bankapeningarnir fóru að flæða liðugt, svo vægt sé til orða tekið, fór allt úr böndunum. Allt í einu átti allur almenningur kost á að fá nánast ótakmarkað lánsfé til að kaupa íbúð. Þessa fór að gæta á fyrri hluta árs 2005, fór síðan á fullt seinni hluta þess árs fram á árið 2007. 

Þetta var ekkert einstakt hér á landi, þótt etv megi færa rök fyrir því að við höfum farið af meiri krafti í vitleysuna heldur en aðrar þjóðir, ég er samt ekki viss. Þetta er nákvæmlega sama og gerðist í Bandaríkjunum.

Væntingar um 90% lán frá ÍLS geta ekki skýrt nema örlítið brot af þróuninni. Og, ég held að þú hafir gert rétt með því að kaupa ekki lóðirnar í Norðlingaholtinu. Á þeim tíma var engin leið að sjá fyrir þá geggjuðu þróun sem varð næstu 2-3 árin og hefði verið hreint ábyrgðarleysi að kaupa, nema því aðeins að byggja strax og selja. Það er nefnilega svo, að við sjáum ekki framtíðina. Sumir veðja á hana, stundum vinna þeir, jafnvel stórt eins og byggingaverktakinn í Borgarholtinu, stundum tapa þeir, jafnvel aleigunni og meira til, eins og svo sannarlega gerðist á árunum 2007 og síðar þegar menn höfðu í einfeldni og/eða græðgi trúað því að vöxturinn og verðhækkanirnar mundu vara endalaust.

Kannski er bara affarasælast að haga sér í viðskiptum eins og Björn í Brekkukoti. Hann seldi rauðmagann alltaf á sama verðinu, hvernig sem allt lét. Aðrir fisksalar hækkuðu verðið þegar lítið fiskaðist, lækkuðu þegar offramboð var, en hann Björn í Brekkukoti haggaðist aldrei í sveiflum markaðarins, hélt alltaf sinni ró hugans og hélt sínu striki.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 30.8.2011 kl. 10:27

11 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Og þá að hagstjórninni. Hér er gríðarlega mikið fjármagn aðgerðarlaust við litla ávöxtun, jafnvel rýrnun, á bankareikningum eða jafnvel í bankahólfum.

Lífeyrissjóðir og aðrir fagfjárfestar eru í fjárfestingarþröng vegna gjaldeyrishafta og lömunar á fyrirtækjamarkaði. Ráðamenn leyfa þessu fé að liggja og rotna í stað þess að nota það.Þetta er innlent fé og engin gengisáhætti bundin því.

Í stað þess að einblína á ríkissjóðshalla og skattahækkanir á ríkisstjórnin að sjálfsögðu að koma þessu gríðarmikla fjármagni í vinnu með því að taka að að láni og nota til arðbærra framkvæmda, í innviðum samfélagsins, eins og að byggja upp samgöngukerfi, heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Þannig náum við að vinna okkur út úr kreppunni, ekki með því að minnka stöðugt kaupmátt almennings og fyrirtækja.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 30.8.2011 kl. 10:37

12 Smámynd: Jón Ríkharðsson

 Mikið er ég sammála þér Þórhallur, gjaldeyrishöftin ber vitanlega að afnema sem fyrst, höft eru aldrei til góðs, nema þá tímabundin aðgerð í mjög stuttan tíma, þó er ég ekki algerlega sannfærður um að svo sé.

Höftin takmarka möguleika efnahagslífsins að blómstra á eigin försendum, það gera öll höft. Ég veit að þú þekkir vel söguna og veist rökin sem voru notuð til að réttlæta höftin á fyrri hluta síðustu aldar.

Það varð engin framför fyrr en höftin voru afnumin.

Vitanlega á að snarlækka stýrivexti og dæla fjármagni inn í hagkerfið, það er skortur á fjárfestingum sem er að skaða okkur ansi mikið.

Það er erfitt að skilja hækkun stýrivaxta á þessum tímapunkti, en það er erfitt að skilja flest í stjórnsýslunni um þessar mundir.

Jón Ríkharðsson, 30.8.2011 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband