"Stétt með stétt".

Hvað þýðir slagorðið stétt með stétt?

Eins og flestir þekkja, þá er maðurinn ákaflega sjálfhverf skepna og á vont með að skilja þá sem tilheyra öðrum stéttum. Þess vegna hafa mynda átök á milli þeirra. Samt vitum við það að öll hugsum við á sama veg, við hugsum um okkar eigin hag.

Atvinnurekandinn vill borga eins lítil laun og hann mögulega getur því hann vill græða sem mest, verkamaðurinn vill hins vegar fá eins mikið kaup og mögulegt er, án þess að hugsa um hag atvinnurekandans. Þetta eru augljósar staðreyndir, en þær valda ákveðnum vandamálum í samskiptum þessara aðila.

Þótt maðurinn sé ákaflega sjálfhverfur í eðli sínu, þá fer honum ósjálfsrátt að þykja vænt um það fólk sem hann kynnist vel og þá um leið, hugsar hann um hag þes sem hann tengist, þótt hann hugsi vitanlega alltaf fyrst og fremst um sjálfan sig.

Um leið og atvinnurekendur og launþegar fara að tengjast hver öðrum, þá skapast ákveðin tengsl og samkennd kemur í kjölfarið. 

Þá er í framhaldinu orðin raunhæfur möguleiki á því, að atvinnurekandinn verði tilbúinn til að leyfa launþeganum að njóta stærri hluta af innkomu fyrirtækisins, innkoman vitanlega eykst þegar launþeginn fer að hugsa meira um hag fyrirtækisins.

Allar stéttir samfélagsins eiga að þroska með sér sameiginlegan skilning á þörfum allra, þá skapast sátt sem smitar svo út í samfélagið allt. Sáttin eflir svo nýsköpun á meðan deilur drepa hana niður.

Vinstri flokkarnir hafa mjög ólíka sýn á þetta atriði, þeir vilja frekar stríð á milli stétta með tilheyrandi verkföllum, aukinni verðbólgu osfrv.

Þeirra eðli er að skipa í fylkingar og stríða á móti þeim sem þeir halda að séu óþarflega ríkir fyrir þeirra smekk.

Til þess að endurreisnin geti farið fram og hér á landi geti verið þokkalegt efnahagsástand, þá verður að skapa sátt á milli stétta.

Sátt á milli hægri og vinstri getur aldrei orðið, því það er himin og haf á  milli grundvallarhugsjóna þessara flokka.

Kjósendur verða að gera það upp við sig, hvort þeir kjósa sátt eða sundurlyndi í næstu kosningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er mikið til í þessu hjá þér Jón.

Ég vann um árabil hjá Íslenska Járnblendifélaginu. Þar sömdu starfsmenn beint við forstjóra fyrirtækisins, án aðkomu stéttarfélaga eða félaga vinnuveytenda. Þetta var án efa besti tími starfsmanna þess fyrirtækis og fyrirtækisins sjálfs.

Aldrei komu þessir samningar eða vinna við þá til fjölmiðla, enda engar fréttir af þeim, þeir einfaldlega gengu vel fyrir sig. Á sama tíma voru stöðugar fréttir af samningsgerð starfsmanna Ísal við sína yfirmenn. Þeim samningum var stjórnað af stéttarfélögum þeim er starfsmenn voru í.

Svo stöðugt var þetta ástand á Grundartanga og svo mikil virðing borin milli aðila, að oftar en ekki var handsalað eitt og annað. Það þurfti aldrei að óttast að slíkt handsalað samkomulag yrðri brotið.

Þegar svo ríkið gaf sinn hluta í verksmiðjunni til Elkem og Norðmenn eignuðust fyrirtækið að fullu varð mikil breyting á. Þá tók nýr forstjóri upp nýja stefnu og vann að kjarasamningum við starfsmenn undir handleiðslu Vinnuveytendasambandsins, forvera SA. Starfsmenn voru þá komnir í þá stöðu að verða að leita á náðir sinna stéttarfélaga. Síðan hefur hver samningurinn orðið þeim fyrri erfiðari og nú í vetur kom upp, í fyrsta sinn í sögu fyrirtækisins, sú staða að virkilega væri hætta á verkfalli, einkum vegna afstöðu ASÍ.

Hagur fyrirtækja og starfsmanna þeirra fer alltaf saman. Því er best að þessir aðilar fái að gera sína samninga sín á milli, án afskipta annara.

Fyrrum forstjóri Íslenska Járnblendifélagsins, Jón Sigurðsson, sagði eitt sinn að fyrirtæki væri starfsmenn þess, húsnæði og búnaður væri einungis járnadrasl sem starfsfólk síðan notaði til að skapa verðmætin!

Gunnar Heiðarsson, 11.9.2011 kl. 20:01

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég hafði einmitt oft heyrt um þetta, hjá Járnblendifélaginu, þar var starfræktur skemmtilegur kór ef ég man rétt og mikið félagslíf í gangi.

Ég lærði einu sinni húsasmíði, þannig að ég hef unnið aðeins í landi. Alltaf þegar ég sótti um vinnu, þá var byrjað að semja um kaup og kjör, en það var alltaf langt fyrir ofan alla taxta.

Aldrei man ég eftir að hafa verið ósáttur í vinnu, ég fékk alltaf mínum kröfum fullnægt og vinnuveitandinn líka.

Þetta snýst um það, eins og allt annað í lífinu, að gefa og þiggja í jöfnum hlutföllum.

Jón Ríkharðsson, 11.9.2011 kl. 20:56

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Kórinn lifir enn, Jón. Hann var stofnaður fljótlega eftir að verksmiðjan hóf störf. Í tíð Jóns Sigurðssonar voru félagsmál meðal starfsmanna mikil, enda lagði hann mikla áherslu á slíkt og veitti miklu fjármagni til stuðnings þess. Kórinn var í séstöku uppáhaldi hjá honum.

Ég kynntist Jóni Sigurðssyni nokkuð vel, þar sem ég var trúnaðarmaður ofngæslumanna um tíma og síðan verkstjóri einnar vaktarinnar í tíu ár.

Einn sið hafði Jón Sigurðsson, sem fleiri forstjórar ættu að taka upp. Hann mætti alltaf til vinnu á undan öðrum starfsmönnum og tók göngutúr um verksmiðjuna. Þar hitti hann þá menn sem voru á næturvakt og spjallaði við þá um heima og geima. Sérstaklega þótti honum gaman að spjalla um veiði. Þetta myndaði sérstakt samband milli starfsmanna og forstjóra fyrirtækisins. Þá hafði hann alltaf skrifstofu sína opna og tók hverjum þeim er vildi koma og spjalla, vel.

Gunnar Heiðarsson, 11.9.2011 kl. 21:22

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Það væri gott ef allir tækju Jón Sigurðsson til fyrirmyndar í þessum málum.

Ég þekki hann ekki neitt, en hef lesið ágætis greinar eftir hann.

Allavega hef ég aldrei skilið það sjónarmið að atvinnurekendur væru að fara illa með verkafólk.

Sjálfur hef ég stundað verkamannastörf, aðallega til sjós í þrjátíu ár og aldrei orðið var við að einhver vildi hlunnfara mig.

Eflaust eru til atvinnurekendur sem hlunnfara fólk, launþegar svíkjast líka um, en meirihlutinn er ósköp heiðarlegur að mínu mati.

Það þarf nauðsynlega að taka á þessum málum og skapa ama andann og ríkti eða ríkir hjá Járnblendifélaginu.

Jón Ríkharðsson, 11.9.2011 kl. 21:47

5 identicon

"Stétt með stétt" var eitt helsta slagorð Nasistaflokks Hitlers. Ætli Göbbels hafi fundið það upp? Þetta er eitt af þeim slagorðum sem kom Hitler til valda í Þýskalandi.

Af einhverjum óljósum ástæðum tók Sjálfstæðisflokkurin þetta slagorð upp á sína arma. Meðal annars notaði Guðlaugur Þór mikið þetta slagorð Nasista í prófkjöri sínu fyrir síðustu þingkosningar.

Ég held að við eigum að grafa þessa gömlu slagorð Nasistanna.

SS hersveitir Nasista með eintómum Norðurlandabúum eins og "Viking" og "Div. Nord" verða ekki stofnaðar aftur svo Jón svo gleymdu þessu slagorði.

Gummi gamli 11.9.2011 kl. 21:49

6 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Við skulum kalla þetta "Fólk með Fólki"

Ef fólk er ekki með fólki- þá myndast einangrun- Fólk vinnur saman að sameiginlegum markmiðum. Ef sameiginleg markmið nást, þá er tilgangnum náð.

Eggert Guðmundsson, 11.9.2011 kl. 22:18

7 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Gummi gamli, þótt það sé oftast gott sem gamlir kveða, þá verð ég að vera ósammála þér í þessu máli.

Stétt með stétt er göfugt markmið, hvort sem Nasistar hafi notað það eður ei. Þekkt er að öfgamenn og óþverrar notast við falleg orð til að blekkja fólk og ef við ætluðum að sleppa því að nota eitthvað bara vegna þess að illmenni hafi misnotað það, þá verður fátt um fína drætti í þeim efnum.

Það var drepið í nafni kristinnar trúar, konum hefur verið nauðgað í hennar nafni osfrv., samt aðhyllist ég kristna trú ásamt ansi mörgum.

Mér finnst þetta eiginlega vera hártogun hjá þér, því þessi hugsun sem grundvallast í slagorðinu var fyrst framsett árið 1929, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður, en þá var sagt að hann ætti að hafa hagsmuni allra stétta að leiðarljósi.

Svo var það Thor Thors sem orðaði þessa hugsun á þennan veg, ekki veit ég hvort hann fór í smiðju Nasista, en það er ólíklegt því þeir bræður, hann og Ólafur voru lítt hrifnir af Nasistum.

Jón Ríkharðsson, 11.9.2011 kl. 22:20

8 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Stétt með stétt og fólk með fólki, það er enginn munur þar á, því stéttir samanstanda af fólki.

Annars er mér alveg sama um orðalagið, það er hugsunin og framkvæmdin sem máli skiptir.

Jón Ríkharðsson, 11.9.2011 kl. 22:22

9 identicon

Heill og sæll Jón minn; æfinlega  - sem og, aðrir gestir, þínir !

Jón !

Útilokað; og út í hött, ágæti drengur.

Stjórnmála stéttinni; verðum við að ÚTRÝMA, eftir hryðjuverk hennar - og Banka hyskisins, á hendur Íslendingum, fornvinur góður.

Varanlegir ÚTLEGÐAR dómar, eiga að bíða þessa packs - og Byltingarráð vinnandi stétta - og verðmæta skapandi, taki við - helzt; vopnað.

Alþingis kumbaldann; mætti leggja í rústir einar, mín vegna.

Með Byltingar- og baráttu kveðjum, úr Rykmistri (af Eyfellinga jökli og úr Grímsvötnum, kynjað) Árnesþings /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason 11.9.2011 kl. 23:49

10 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Heill og sæll fornvinur góður, Óskar Helgi byltingarleiðtogi.

Þar sem að ég er óskaplega friðsamur og latur að eðlisfari, þá hugnast mér byltingar, með öðrum aðferðum en tungu og penna, ákaflega illa.

Þess vegna þráast ég við íhaldsemina, þótt hún sé ekki gallalaus, en það fylgja henni meiri rólegheit, sem eru mér að skapi.

En fjölbreytnin í skoðanaflórunni er nauðsynleg og ég styð þig í því, að berjast fyrir byltingarráðinu, þótt ég verði seint þátttakandi í því. En hugmyndin er athyglisverð og gaman væri að fylgjast með framgangnum úr hæfilegri fjarlægð.

Kveðja úr Grafarvogssókn austur fyrir fjall,

Jón Ríkharðsson.

Jón Ríkharðsson, 12.9.2011 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband