Nú verður Össur alveg snarbrjálaður.

Líklegt er að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra muni brátt hella sér yfir forystu ESB, því á landsfundi Samfylkingarinnar var samþykkt að flokkurinn yrði jafnaðarmannaflokkur.

Nýkjörinn formaður hefur slegið tóninn og ekki á að láta forkólfa ESB valta yfir flokk, sem tekið hefur einarða afstöðu um að verða jafnaðarmannaflokkur. Hann sagði m.a. um kröfur íslendinga varðandi ESB aðild: "við viljum ekki taka upp Evrópskar reglur ef þær henta ekki íslenskum hagsmunum".

Þá vitum við það og eins gott að jafnaðarmenn íslenskir tilkynni þeim í Brussel, að nú skal boðuð ný aðferð í viðræðuferlinu. Til þessa hafa ríki sem sækja um aðild þurft að ganga að skilyrðum ESB, en hinir gallhörðu jafnaðarmenn vilja að ESB aðlagi sig að Íslandi. 

Eins og allir vita, þá berjast íslenskir jafnaðarmenn hart fyrir því, að skattbyrðinni sé dreift þannig að þeir sem hafa háar tekjur borgi hærri skatta en þeir tekjulægri.

Nú, fyrst Samfylkingin hefur ákveðið að verða alvöru jafnaðarmannaflokkur, þá hlýtur hinn nýkjörni formaður að setja fyrirvara við það, að ESB skuli láta embættismenn á ofurlaunum borga mjög lága skatta til Brussel en ekki heimalandsins.

Og þar sem Össur er mikill jafnaðarmaður hlýtur hann að verða snarbrjálaður yfir þessu óréttlæti og hundskamma ESB. 


mbl.is Með lægri laun en embættismenn ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hárrétt hjá Steingrími J. Sigfússyni.

Steingrímur J. Sigfússon benti á þá staðreynd, að nauðsynlegt sé að horfa á heildarmyndina þegar rætt er um Icesave og skoða málið frá a-ö. En þar sem hann hefur ekki tíma til að skoða þetta mál nema frá þ-ö, þá er það annarra að klára verkefnið fyrir hinn örþreytta og önnum kafna ráðherra.

Ef heildarmyndin er skoðuð, þá er nauðsynlegt að skoða aðstæður sem ríktu þegar bankarnir voru einkavæddir. Í rannsóknarskýrslunni kemur fram að ofurtraust ásamt gríðarlegu fjármagni, sem leitaði ávöxtunar varð til þess að auðvelt var fyrir banka að fá ótakmarkað lánsfé. Einnig er vert að geta þess, að sökum þess að sjálfstæðismenn höfðu frumkvæði að því að greiða niður skuldir og íslenska ríkið hafði gott lánshæfismat, þá treystu útlendingar íslenskum bönkum mjög vel.

Þeir sem telja þetta allt heimatilbúinn vanda eru á villigötum. Bankarnir hefðu aldrei vaxið svona mikið ef útlendingar hefðu ekki verið tilbúnir til að lána þessar stóru fjárhæðir og ekki má gleyma því að útrásarvíkingarnir nutu trausts á árunum fyrir hrun, á alþjóðavettvangi.

Stofnun Icesave reikninganna þótti, af langflestum, mjög góð hugmynd, því hagstæðara var fyrir Landsbankann að fjármagna sig með innlánum en vissulega var það undarlegt að íslenskur banki gæti boðið svona góð kjör, það hefði átt að vekja grunsemdir í upphafi, hjá þeim sem lögðu peninga á Icesave reikninga. En heimurinn var víst ansi dofinn á þessum tíma og traust á bönkum meira en efni stóðu til.

Þeir sem halda að íslensk stjórnvöld hefðu getað gert eitthvað á þessum tíma hafa ekki lesið skýrslu Kaarlo Jäänari, en AGS og stjórnvöld ákváðu að fá hann til að skoða aðdraganda hrunsins í kjölfar þess. Á bls. 37. segir að hið almenna stolt þjóðarinnar yfir velgengni bankanna hafi gert það að verkum að það hafi verið vonlaust að reyna að hafa áhrif á þróunina á meðan allt lék í lyndi. Svo segir Jäänari orðrétt; "Þegar svo fór að fjara undan, var það of seint (að hafa áhrif á stærð bankakerfisins) og það var of lítið sem hægt var að gera til að komast hjá hamförunum".

Þegar allt hrundi á Íslandi, þá voru flest ríki að komast í vanda. Gordon Brown átti í miklum vandræðum, en hann sá að íslensk stjórnvöld lágu vel við höggi, sjokkið var svo mikið á Íslandi. Til að leitast við að bæta sína ímynd, hjá kjósendum í Bretlandi, setti hann á hryðjuverkalögin og þrýsti mjög á okkur, að greiða skuld, sem okkur ekki bar. Sama má segja um stjórnvöld í Hollandi, þau gátu ekki annað en sýnt sambærilega hörku til að líta ekki illa út í augum kjósenda þar í landi.

Það var þeirra ákvörðun að borga innistæðueigendum meira en þeim bar.

Minnisblaðið sem Steingrímur hefur notað sem réttlætingu á eigin klúðri var fallið úr gildi þegar hann komst til valda. 

Landsómur hefur fellt sinn dóm og komist að þeirri niðurstöðu að ekkert var raunverulega hægt að gera til að afstýra hruninu, þess vegna var ákveðið að sýkna Geir H. Haarde.

Heildarmyndin sem Steingrímur þykist hafa áhuga á, bendir til þess að við vorum í fordæmislausum aðstæðum og á þeim tíma var ekkert hægt að gera til að afstýra hruninu, en það hefði verið hægt að afstýra deilunum og öllu klúðrinu, varðandi Icesave.

Brusselviðmiðin kváðu á um að komu stofnanna ESB að deilunni. Strax í upphafi hefði átt að ræða málið á svipuðum nótum og EFTA dómstóllin gerði, það leiddi til þess að við vorum sýknuð af öllum kröfum.

Ef Steingrímur hefði strax í upphafi, fengið færustu lögmenn til að semja um málið,þá er líklegt að við hefðum fengið sýknudóminn miklu fyrr og vitanlega hefðu stjórnvöld átt að halda okkar málsstað á lofti og fá til þess færasta PR lið sem völ er á. Það kom líka í ljós að margir útlendingar voru á okkar bandi, m.a. sá sem að tók þátt í að endurskoða lög um innistæðutryggingar.

Niðurstaðan, eftir að hafa skoðað heildarmyndina frá a-ö hlýtur alltaf að vera sú, að stjórnvöld sýndu fordæmislausan aumingjaskap, á alheimsvísu, og viðhöfðu fáránlegt fúsk, m.a. með því að skipa einstakling í forystu samninganefndarinnar, sem hafði og hefur takmarkaða þekkingu á lögum og enga reynslu af stórum milliríkjadeilum.


Sagan sem ekki má gleymast.

Í ljósi ásakanna á báða bóga, varðandi sögufölsun fólks, þá er vert að minnast þess sem virtur fræðimaður sagði eitt sinn. Hann sagði að engin saga væri til, aðeins sögulegar túlkanir og að hver kynslóð túlki sín eigin sjónarmið. Í raun taldi hann að engin mannkynssaga væri til, heldur margar sögur um ólík efni mannlífsins.

Þetta eru orð að sönnu, enda erum við öll mörkuð af okkar eigin upplifun sem einkennist af okkar skoðunum á viðkomandi málefnum hverju sinni. En það eru sem betur fer til skrifaðar heimildir og mál eins og Icesave, sem er mjög ungt í sögunni, er auðvelt að fjalla um því það er flestum í fersku minni.

Samt reyna stjórnarliðar að þyrla upp ryki til að blekkja fólk með dyggri aðstoð þeirra sem þiggja blekkinguna glaðir, því þeim er illa við Sjálfstæðisflokkinn. 

Einn hinna blekktu heimsótti síðuna mína í gær og hann gerir betur en Jóhanna og Steingrímur, þiggur glaður alla lygina og lýgur svo meira að sér til að lifa í algjöru myrkri. Já smekkur fólks er misjafn og það ber að virða.

Hann hélt því fram að forsetinn hefði skrifað undir samning þann sem fyrri ríkisstjórn gerði seinni hluta árs 2008. Það var ekki samningur heldur minnisblað og ólíklegt er að forseti skirfi undir slíkt. 

Staðreyndin er, að Jóhanna og Steingrímur, af einhverjum óþekktum ástæðum reyndu allt til að knésetja þjóðina og þvinga okkur til að borga skuld sem við áttum aldrei að borga.

Ofangreint minnisblað féll úr gildi þegar samið var um hin svonefndu Brusselviðmið. Saga þeirra er í stuttu máli sú, að í nóvember árið 2008 náði viðræðunefnd Íslands, Hollands, Bretlands og Þýskalands, undir forystu Frakklands samkomulagi um stuttan texta þess efnis, að ríkin létu af tafaraðgerðum AGS, féllu frá niðurstöðu gerðardóms og ákváðu að hefja viðræður á grundvelli EES réttar, með aðkomu stofanna ESB og með hliðsjón af sérstaklega erfiðri stöðu íslensku þjóðarinnar.

Í stað þess að vinna í nánu samráði við stofnanir ESB, á grundvelli EES réttar, þá ákvað ríkisstjórnin að senda Svavar og félaga til að semja við andstæðinga okkar. Ef farið hefði verið eftir Brusselviðmiðunum í upphafi og málið unnið á grundvelli EES réttar, þá er ekki ólíklegt að niðurstaða sú sem fékkst í byrjun vikunnar hefði komið fram mun fyrr.

Stjórnvöld reyndu lítt að halda hagsmunum okkar á lofti, málsmetandi einstaklingar töluðu á þeim nótum að okkur bæri siðferðisleg skylda til að borga og vitanlega notfærðu viðsemjendur okkar sér þennan undarlega veikleika.

Blekkingum Steingríms má heldur ekki gleyma. Þann 3. júní árið 2009 spyr Sigmundur Davíð um framgang Icesave málsins og spurði Steingrím hvort til stæði, næstu daga, að undirrita samning. Steingrímur fullvissaði Sigmund Davíð um, að það væru könnunarviðræður í gangi og hét því, að alþingi yrði haldið upplýstu um málið. 

Daginn eftir, þann 4. júní árið 2009, bárust fréttir um að samningar um Icesave væru að fæðast og þeir voru samþykktir af ríkisstjórninni þann 5. júní. 

Í viðtali við Morgunblaðið örfáum dögum síðar var fjallað um samninganna og sagt að aðilar málsins hafi fundað stíft 3-5. júní og að samkomulag ætti að nást að kvöldi þess fimmta.

Augljóst er að Steingrímur laug að formanni Framsóknarflokksins.

Icesave málið er saga ræfildóms ríkisstjórnarinnar, hálfsannleika, blekkinga og lyga.

Hin tæra vinstri stjórn á engan heiður af þessari farsælu niðurstöðu sem á endanum náðist fram.

Það er meirihluti íslensku þjóðarinnar ásamt forsetanum sem á þann heiður, ríkisstjórnin og taglhnýtingar hennar eiga ekkert nema skömm í þessu máli. 


Við þurftum aldrei að óttast Icesave-dóminn.

Steingrímur J. Sigfússon og fleiri ættu að leita sér sálfræðihjálpar til að takast á við kvíðann. Það má teljast kraftaverk að hæstvirtur atvinnuvegaráðherra skuli þora að sitja í bíl, því það er jú meiri möguleiki á að lenda í slæmu bílsslysi en að tapa Icesave málinu fyrir EFTA dómsstólnum.

Allan tímann hefur það verið vitað að okkur bæri ekki skylda til að borga Icesave þannig að dómsstólar geta ekki dæmt neinn til greiðslu nema að einhver lög leggi greiðsluskyldu á viðkomandi.

Stjórnvöld klúðruðu málinu frá upphafi og kenna má þeim um allan vandræðaganginn í þessu máli.

Fyrstu og stærstu mistökin voru að sjálfsögðu þau, að skipa Svavar Gestsson til að veita samninganefndinni forystu.

Vitanlega hefði átt, strax í upphafi, að leita að og ráða harðsnúinn lögfræðing sem hefði reynslu af sambærilegum samningum og íslensk stjórnvöld hefðu aldrei átt að ljá máls á því að borga.

Það er alveg sama hvernig stjórnvöld reyna að klóra í bakkann, þau klúðruðu þessu máli algerlega og ættu að skammast sín.

Flestir vissu að það var ekkert að óttast, það er orðið skrítið þegar almenningur hefur vit fyrir stjórnvöldum og þau sitja sem fastast án þess að láta að því liggja að þau hafi gert eins stór mistök og raun ber vitni. 

Sá sem fallast myndi á að borga himinháar greiðslur, án þess að honum bæri skylda til, nyti örugglega lítillar virðingar samborgara sinna.

Hvað má þá segja um æðstu ráðamenn landsins og jafnvel hámenntaða fræðimenn á sviði hagvísinda? 

 


Nei, ég er ekki í framboði til alþingis.

Í afar sérstæðum deilum, sem ég er ekki lengur þátttakandi í þótt andstæðingur minn haldi ótrauður áfram, kom m.a. fram að ég væri væntanlegt þingmannsefni Sjálfstæðisflokksins. Það er eðlileg ályktun, þar sem ég hugðist fara í framboð og gaf það út á síðasta landsfundi, þar sem ég flutti tilkynningu þess efnis.

Ástæðan fyrir framboðinu er ekki sú að ég hafi svo mikla löngun til að setjast á þing, þvert á móti þá finnst mér það hræðileg tilhugsun. Umræðuhefðin á Íslandi er þess eðlis, að það þykir voða fínt að rangtúlka allt sem sagt er, til þess að gera fólk sem er á annarri skoðun eins tortryggilegt og mögulegt er. Ég hef fengið einn og einn í athugasemdarkerfið hjá mér, sem hefur þennan leiðinda kæk, en það sem heldur mér gangandi í blogginu eru þeir góðu gestir sem hafa sýnt mér mikla tryggð og ég hef myndað jafnvel góð vináttutengsl við suma þeirra. Það er mér mikils virði.

Ef ég væri á þingi, þá væri ég með heila stjórnmálaflokka sem myndu snúa út úr mínum orðum, auk þess að hafa fjölmiðla og alla hina virku í athugasemdum á móti mér líka. Mörgum þykir þetta eflaust ansi bratt, að segja þetta, en ég tala alltaf hreint út og stuða mína pólitísku andstæðinga ansi mikið af þeim sökum.

Ástæðan fyrir þessari ákvörðun var sú, að margir hvöttu mig til að taka þetta skref og eftir að þekktur þungavigtarmaður innan Sjálfstæðisflokksins ræddi við mig drjúga stund og sannfærði mig um, að ég gæti orðið til gagns, þá ákvað ég að slá til.

En ég fór óhefðbundnar leiðir í minni kosningabaráttu, sem hófst mjög snemma og hætti áður en prófkjörsbaráttan formlega hófst. Ég kynnti mínar áherslur helst á Facebook og þar sagði ég m.a. að ef ég næði kjöri, þá væri ég sá fyrsti sem yrði kosinn út á það að lofa helst engu öðru en niðurskurði í ríkisútgjöldum, mér er illa við fjáraustur í vasa heilbrigðs fólks en vill að sjálfsögðu hjálpa þeim sem geta ekki hjálpað sér sjálfir. Ég ólst upp við lítil efni og veit að blankheit gera engum illt, þau geta hvatt fólk til mikilla afreka eins og sagan hefur sýnt, ef metnaður er til staðar.

Svo ákvað ég að tryggja mig mjög vel, gegn öllum mögulegum hættum er geta steðjað að stjórnmálamönnum, ef þeim gengur vel. Ef svo færi að ég yrði vinsæll og jafnvel virtur, það veit enginn sína æfi fyrr en öll er, þá gæti sú hætta verið til staðar að ég færi að ofmetnast. 

Ég gaf m.a. skipstjóranum mínum eina skipun og hann tók henni mjög vel. Hann verður ansi reiður ef ég geri mistök, sem eðlilegt er, þá á ég það skilið. 

Ég skipaði honum að hringja í mig og hundskamma mig, ef ég færi að gleyma því sem ég var kosinn út á. Skipstjórinn var ekki sá eini, allir mínir vinir fengu þessi sömu fyrirmæli og þeir hefðu allir hlýtt þeim. Stjórnmálamenn verða að fá aðhald.

Satt að segja var ég orðinn ansi kvíðinn fyrir því að verða jafnvel kosinn, en ég beit á jaxlinn því maður þarf að klára þau verkefni sem byrjað er á. Ég myndi þá klára kjörtímabilið og sjá svo til, hvort umræðan hafi skánað að einhverju marki. En svo fékk ég gullið tækifæri, var kosinn formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins og þar sem ég hef engan metnað til að sitja á þingi eða verða ráðherra, þá kem ég til með að gera meira gagn á vettvangi verkalýðsráðsins.

Við sem veitum því forystu ætlum að finna efnilegt fólk, sem hefur áhuga, vilja og getu til að sitja í sveitastjórnum og á þingi. Við viljum byggja upp Sjálfstæðisflokkinn og hafa hann sem leiðandi afl til framtíðar.

Sumir hafa nefnt þann möguleika við mig, að ég gæti þá tekið þátt í prófkjöri eftir fjögur ár. Það er ólíklegt að ég nenni því.

Ég hef unnið mjög mikið alla tíð og verið í litlum samskiptum við þá sem ég elska mest. Ég skulda sjálfum mér og þeim meir tíma. Þess vegna er það á stefnuskránni hjá mér að minnka við mig vinnu, smátt og smátt til sextugs og þá geri ég ráð fyrir að hætta að mestu leiti að vinna ef ég hætti þá ekki alveg. Að sitja á þingi er sólahrings vinna, ef maður vill sinna sínum störfum af heilidum. Það gefst þá lítill tími fyrir fjölskyldu og vini.

Sjómennskan þýðir vissulega miklar fjarvistir, en það eru ágæt frí annað slagið. Ég er feginn því að þurfa ekki að sitja á þingi, þeir sem fórna sér í það vanþakkláta og erfiða starf eiga heiður skilinn. 


Hvernig á að losna við uppáþrengjandi netdóna?

Forsaga þessa leiðindamáls er sú, að þann 28. febrúar á síðasta ári birtist í athugasemdarkerfið á þessari síðu, grunnskólakennari að nafni Hilmar Hafsteinsson og hafði í flimtingum hið hræðilega slys sem gerðist á Þingvöllum, þegar Bjarni Benediktsson brann inni í sumarbústað ásamt eiginkonu sinni og ungu barni. Til þess að kóróna hryllinginn ákvað kennarinn að tjá þá skoðun sína, að sniðugt væri að "grilla" mig á Þingvöllum eitthvert vorkvöldið.

Þetta þóttu mér vægast sagt hryllileg athugasemd, en þar sem hann kom ekki aftur þá ákvað ég að gleyma þessu því ég er lítið fyrir það að standa í illindum við fólk. Ég leit svo á að kannski hafi hann verið drukkinn og verið að fíflast eitthvað.

En svo fór hann að mæta aftur á síðuna mína með leiðinda athugasemdir og ég ákvað að loka á hann. Þá birtist hann enn á ný með sama hætti og þeir sem ekki hafa bloggsíður gera. Ég lokaði á þá ip tölu, ekki dugði það, hann birtist með nýja og ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem ég hef lokað á hann, alltaf kemur ný ip tala og hann heldur áfram að tjá sig.

Netsambandið úti á sjó er ekki alltaf gott, þannig að ég get ekki framkvæmt allar aðgerðir í tölvunni um borð. Þess vegna hef ég ekki náð að þurrka út síðustu athugasemdir hins uppáþrengjandi grunnskólakennara og nú er svo komið, að ég kann engin ráð til að losna við þennan undarlega mann.

Ef einhver kann ráð til að útiloka svona menn, hvort það er hægt að fá einhverskonar úrskurð þess efnis, að viðkomandi sé einfaldlega bannað að tjá sig á minni síðu þá eru öll ráð vel þegin. Ég einfaldlega þoli ekki þennan mann og kæri mig ekkert um að sjá athugasemdir frá honum.

Hann heldur úti bloggsíðu og þar er honum frjálst að rakka mig niður að vild, einnig getur hann stofnað hóp á Facebook sem hefur það markmið að skíta mig út. Það ergir mig ekki hið minnsta, ég myndi einfaldlega sleppa því að lesa þannig síður.

Ég nenni ekki að standa í illindum við nokkurn mann, en hinsvegar kæri ég mig ekki um að einstaklingur sem ég þoli ekki og vill ekkert með hafa, komi stanslaust á síðuna mína með athugasemdir, þrátt fyrir ítrekaðar lokanir á hinar ýmsu ip tölur.

Vonandi losna ég við hann hið fyrsta, ég nenni ekki að hugsa meira um þennan sérstæða kennara og verði ég laus við hans athugasemdir, þá verð ég sáttur.


Berjumst fyrir bættri umræðuhefð.

Við höfum ólíkar skoðanir á flestum málum, sum okkar aðhyllast jafnaðarstefnu, frjálshyggju osfrv. Öll höfum við að sjálfsögðu rétt til að vinna okkar skoðunum fylgis og nota netið til þess.

Einnig er nauðsynlegt að við sýnum hvert öðru aðhald. Ef einhver er að boða sína stefnu og hallar réttu máli þá er ekkert athugavert við það, að leiðrétta viðkomandi.

En kurteisi ber okkar stöðugt, í hávegum að hafa.

Stjórnmálaskoðanir fólks segir ekkert um persónuleika, atgervi eða greind. Af þeim sökum er það grófasti ruddaháttur að dylgja um vafasaman tilgang fólks, sem maður þekkir ekki neitt.

Því miður hafa komið fram einstaklingar á þessum ágæta vef, sem kunna enga mannasiði. Þeir tala vefinn okkar niður og gera hann óþægilega líkan DV.is, en flestir þekkja athugasemdirnar þar á bæ.

Vissulega er erfitt að komast hjá því að narta örlítið í pólitíska andstæðinga í hita og þunga leiksins, en það á enginn það skilið að vera rakkaður niður og þá á enginn skilið að þola ómakleg ummæli um sína persónu.

Lokum á verstu netdónanna og berjumst fyrir bættri umræðu í þjóðfélaginu, þá mun vefurinn okkar stórbatna og loksins verður þá hægt að ræða pólitík af viti og færa umræðuna upp á hærra plan.


"Græða á daginn og grilla á kvöldin"

Margir vitna í ummæli Hannesar Hólmsteins, er hann sagði að sjálfstæðismenn vildu frekar græða á daginn og grilla á kvöldin til þess að sverta ímynd Sjálfstæðisflokksins.

Þeir sem vitna í þessi ummæli og segja þau lýsa græðgi sjálfstæðismanna, saka sjálfstæðismenn gjarna um að vilja falsa söguna. En með túlkun sinni á ummælum Hannesar falsa þeir sjálfir söguna.

Hannes sagði þetta í þætti hjá Sigmundi Erni, þeir sem leita sannleikans geta farið á Youtobe og fundið þáttinn. Staðreyndin í þessu máli er sú, að Hannes var að lýsa muninum á hægri og vinstri mönnum.

Hann sagði vinstri menn hafa mikinn áhuga á að ræða öll mál og þræta, væru mikið pólitískari í eðli sínu en hægri menn. Hann hugsaði sig aðeins um og sagði í hálfkæringi að hægri menn vildu frekar "græða á daginn og grilla á kvöldin".

Þeir sem vilja leita sannleikans gætu skoðað Hannes og hans lífshlaup, það er aðgengilegt á netinu og víðar. Hefur hann , þrátt fyrir öll sín tengsl við hina ýmsu menn auðgast mikið? Hefur hann verið í hópi hæstu skattgreiðenda landsins eða sópað til sín miklum eignum?

Ef hann væri mjög fégráðugur væri á líklegt að hann veldi sér kennslu að aðalstarfi og þvældist út um allan heim í ýmiskonar fræðagrúski. Er fræðimennska líkleg til auðsköpunar þeirra sem ástunda hana?

Ég held að flestir í hópi þeirra sem saka sjálfstæðismenn um sögufölsun ættu að skammast sín, þeir falsa söguna eins og þessi pistill sannar með óyggjandi hætti.

Þegar Hannes sagði þessi orð, þá átti hann við áhugaskort hægri manna á pólitískri þátttöku og ef menn kunna að lesa á milli línanna, þá þýðir hugtakið "að græða" í þessu samhengi "að vinna dagleg störf" og "grilla á kvöldin" þýðir einfaldlega að slaka á eftir vinnudaginn með fjölskyldunni.


"Lygi, bölvuð lygi og tölfræði".

Jón vinur minn Magnússon ritaði góða grein í Morgunblaðið, þar sem hann m.a. vitnaði til orða fyrrum forsætisráðherra Breta, Benjamin Disreli: "lygi, bölvuð lygi og tölfræði".

Samkvæmt tölfræði þeirri sem vinstri flokkarnir setja fram, með dyggri aðstoð Stefáns Ólafssonar þá hefur jöfnuður aukist og kaupáttur lægstu tekna batnað til muna.

En finna hinir lægst launuðu það á eigin skinni? 

Fyrir hrun sýndi Stefán Ólafsson það með tölfræði að fátækt færi vaxandi, en hvað sagði raunveruleikinn?

Vissulega vitum við í dag, að góðærið var að mestu byggt á froðu, en froðan virkaði á þeim tíma sem raunveruleg verðmæti. Það vantaði allstaðar fólk í vinnu og möguleikar fyrir dumikla verkamenn voru óþrjótandi.

Á þessum tíma vann ég við húsbyggingar og góðir verkamenn gátu krafist hærri launa en nokkru sinni fyrr.

Að fátækt skuli aukast á tíma sem eftirspurn eftir vinnuafli var í hámarki, það stenst enga skoðun.

Stefán hefur eining bent á það í tölfræðinni að skattar hafi hækkað. Á launaseðlum mínum kemur fram að skattarnir mínir lækkuðu á þessum tíma og hagur minn stórbatnaði. Ég hafði meiri tekjur í landi en á sjó, það hafði aldrei gerst áður.

Allavega var það þannig, að á meðan tölfræði Stefán sýndi versnandi hag alþýðunnar, þá batnað hagur hennar í raunveruleikanum. Best er að skoða fréttir frá þessum tíma og rifja hann upp, til að átta sig á sannleiksgildi orða Benjamins Disreli, tölfræðin getur verið mesta lygin. 


"Það er best að við skrifum söguna sjálfir".

Hinn vitri leiðtogi Bjarni Benediktsson sagði eitt sinn þessi fleygu orð; "það er best að við skrifum söguna sjálfir". Hann þekkti þá áráttu andstæðinga okkar sjálfstæðismanna, að nota lygina til að sverta okkar ímynd.

Varla telst ég í hópi þekktustu talsmanna Sjálfstæðisflokksins, engu að síður hef ég ekki farið varhluta af lyginni sem beinist að persónum þeirra sem fylgja sjálfstæðisstefnunni. Þess vegna ákvað ég að segja mína sögu sjálfur. Að sönnu nær sannleikurinn ekki eyrum allra, en vonandi eru þeir fleiri sem vilja hann fremur en lygina.

Ég ólst ekki upp í pólitísku umhverfi, eina pólitíkin sem ég heyrði í æsku var hatur á "helvítis íhaldinu". Forfeður mínir voru allir sjómenn, verkamenn og bændur, faðir minn stundaði láglaunavinnu alla tíð. Ungur að árum kynntist ég Jóni Magnússyni, sem flestir þekkja deili á.

Árið 1986 tók hann þátt í prófkjöri og ég skráði mig í Sjálfstæðisflokkinn til að kjósa hann en hafði enga sérstaka hugsjón. Þó geri ég ráð fyrir að hafa alltaf verið hægri sinnaður í lífsskoðunum, ég hafði bara um margt annað að hugsa. Vitanlega varð ég var við jákvæða stemmingu þegar Davíð tók við, árið 1991 þannig að hann varð fljótt í miklum metum hjá mér. Ég hef verið mest á sjónum, frá unglingsaldri, þannig að ég hef ekki alltaf mætt í kjörklefann. Ég spáði aldrei neitt í þjóðfélagsmál á yngri árum og var alveg sama hvort ég kysi eður ei.

Svo varð ég reiður út í Sjálfstæðisflokkinn vegna framsalsins og kvótans, gekk í Frjálslynda flokkinn. Mér líkaði ekki stemmingin þar, hún var of neikvæð fyrir minn smekk þannig að ég gekk til liðs við Nýtt afl og var í stjórn þess um hríð. Svo þegar ákveðið var að sameinast Frjálslynda flokknum þá leist mér ekki á það.

Ég hitti vin minn, sem lengi hefur verið virkur í Sjálfstæðisflokknum. Hann bað mig að gefa flokknum tækifæri, ég gerði það og fór að mæta á fundi í Grafarvoginum. Mér líkaði stemmingin þar, hún var jákvæð og skemmtileg. Svo var ég tilnefndur í stjórnina þar og sat sem óvirkur stjórnarmaður til ársins 2008, þegar allt hrundi. Þá gerðist eitthvað innra með mér, það kviknaði neisti sem varð að miklu báli er logar enn.

Ég gat ekki skilið það, að Sjálfstæðisflokknum var kennt um allt sem miður fór. Mér fannst Samfylkingin koma mjög ódrengilega fram við sinn fyrrum samstarfsflokk. Svo fór ég að grúska og lesa mér til, um stjórnmálasögu lýðveldistímans.

Þá sá ég jú, að Sjálfstæðisflokkurinn hafði oft gert mistök og stundum gleymt sinni stefnu. En það var áberandi hversu mikla yfirburði hann hafði og hefur alltaf haft yfir vinstri flokkanna. Ég sá að forystan var lömuð og fáir til að verja flokkinn. Þá ákvað ég að gera það sjálfur, byrjaði haustið 2009 og er enn að.

Vitanlega er þessi frásögn einföldun, því ég hef alltaf lesið talsvert og var fyrir löngu búinn að kynna mér stefnur allra flokka. Á tímabili var ég ekki viss hvort ég væri sjálfstæðis eða framsóknarmaður, en Sjálfstæðisflokkurinn hafði vinninginn. Pólitískur áhugi hefur vafalaust verið til staðar alla tíð, en ég hafði ekki séð ástæðu til að rækta hann fyrr en á þessum tíma.

Af ofangreindum sökum á ég bágt með að skilja suma sjálfskipaða vitringa bloggheima, sem trúa því að þeir geti þekkt mig og mína sögu án þess að hafa hitt mig augliti til auglitis. Þeir taka sg til og ljúga því, hvar í kapp við annan, að ég sé heilaþveginn af Valhöll og jafnvel taglhnýtingur sérhagsmuna. Aldrei, ekki í eitt einasta skipti, hafa þeir hrakið neitt af því sem ég hef sett fram.

Enda styðst ég við skotheldar heimildir og gæti þess að fara ekki með fleipur. Ég hef enga þörf fyrir að hafa rétt fyrir mér, ég vill þá stefnu sem virkar best fyrir þjóðina í heild. Sagan hefur sýnt það með óyggjandi hætti að það er sjálfstæðisstefnan. Í stað þess að reyna að ljúga upp á saklaust fólk, þá væri andstæðingum Sjálfstæðisflokksins nær að búa til betri stefnu, það væri þá í áttina að framför.

Og að lokum tek ég fram, enn og aftur, ég bókstaflega þoli ekki fólk sem lýgur upp á mig og þeir sem vilja sverta mína persónu skulu gera það á öðrum síðum.

Þessi síða á að hafa fallega áferð, þeir sem eru á öndverðum meiði við mig mega gjarna tjá sig. En þeir sem ástunda þann ljóta leik, að sverta persónur, þeir verða umsvifalaust útilokaðir frá þessari síðu og hreinræktaðar lygar líð ég ekki heldur.

Ég hef verið umburðarlyndur til þessa, en núna er það "no more mr. nice gay" við lygalaupa og þá sem ástunda persónuníð, ég vill ekki sjá svoleiðis lið í athugasemdarkerfinu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband