Miðvikudagur, 9. janúar 2013
Af gefnu tilefni.
Þótt mér sé það óljúft að hefta tjáningarfrelsi fólks, þá hef ég neyðst til að loka á tvo einstaklinga sem eru báðir mjög orðljótir og ómálefnalegir. Ég get hvorki boðið sjálfum mér né lesendum mínum upp á slíkan lestur.
Báðir þessir annars ágætu menn hafa sakað mig um sögufölsun, annar sagði mig hafa skítlegt eðli og hinum þótti sniðug hugmynd að grilla mig á Þingvöllum, auk annarra ósmekklegra ummæla.
Ég hef athugasemdarkerfið opið til þess að gefa fólki færi á að tjá sínar skoðanir og einnig leiðrétta mig, fari ég með rangt mál.
Sögulegar heimildir geta oft verið óáræðanlegar og það kostar mikla vinnu að rannsaka hvert mál ofan í kjölinn. Ég leita sannleikans í öllum málum og er opinn fyrir leiðréttingum, því ekki er ég óskeikull frekar en aðrir menn.
Oft hef ég lent í þrasgjörnum mönnum sem vilja hanka mig á einhverju og gera mig tortryggilegan. Það hefur farið mikill tími í samræður við þannig menn, því oft þarf ég að leita víða eftir heimildum til að geta svarað. Þess vegna bið ég menn um að vera nákvæmir ef þeir telja mig fara með rangt mál.
Héðan af mun ég loka á þá sem eru með ósæmilegan málflutning og dylgjur um mína persónu. Þessi síða á að vera vettvangur fyrir opnar og lýðræðislegar umræður og allar skoðanir hafa jafnt vægi. Öllum er velkomið að tjá sínar stjórnmálaskoðanir í athugasemdarkerfinu, jafnvel þótt þær hugnast mér ekki.
Ég hef ekki endilega réttu skoðunina, en ég fylgi minni sannfæringu því ég get ekkert annað.
Sumir tala um sögufölsun, ég get ekki túlkað söguna öðruvísi en með mínum augum. Það túlka hana ekki allir eins, vitanlega eru allir litaðir af sínum lífsskoðunum, við erum jú ólík.
En vonandi þarf ég ekki að loka á fleiri, mér þykir það leiðinlegt og fátt er hryggilegra en að standa í deilum við fólk, sem er þjakað af hatri og reiði.
Ég hef hvorki tíma né löngun til að lesa athugasemdir hugsjúkra einstaklinga, þeir verða þá að hatast út í mig á sínum síðum og það mun ég láta afskiptalaust.
Oft hefur fjölskyldan mín þurft að horfa á mig, sitja við tölvuna, pirraðan út í ómálefnalega kjána, heilu inniverurnar en þær eru ekki lengi að líða. Þá hef ég ekki getað sinnt þeim sem ég elska mest.
Fjölskyldan mín á betra skilið, hún á ekki að líða fyrir hatursskrif á þessari síðu. Þess vegna verður þeim snarlega eitt, því þær gefa engum neitt, hvorki þeim sem rita þær né þeim sem þær lesa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 8. janúar 2013
Forðumst múgæsing og reiði.
Í síðasta pistli sagði ég frá manni, sem sýndi einstaka ósvífni í sínum athugasemdum og lét þess getið að hann starfaði við kennslu barna.
Það tók mig langan tíma að skrifa þann pistil, ég komst að þessu með manninn fyrir nokkru síðan en ákvað að fjalla ekki um það, á meðan ég var reiður út í hann. Ég tel mig hafa valið skásta kostinn, eftir talsverða umhugsun, til þess að koma þeim skilaboðum áleiðis að ég vissi hver hann væri í þeirri von að hann léti það eiga sig að rita athugasemdir á síðuna mína í framtíðinni.
Það tók mig talsverðan tíma að fullvissa mig um hver maðurinn raunverulega væri, en með góðra manna hjálp tókst það að lokum.Ég hef myndað góð tengsl við marga í netheimum sem eru á öndverðum meiði við mig í pólitík. Mörgum andstæðingum Sjálfstæðisflokksins blöskraði þessi athugasemd mannsins, tveir þekktu til hans og sögðu mér hver hann væri, ég googlaði mig líka áfram.
Annar þessara manna hvatti mig til að nafngreina manninn, en ég ákvað að gera það ekki og ég hvet alla til að hætta að hugsa um þennan mann. Ef hann lætur vera að tjá sig á síðunni minni, þá fyrirgef ég honum að sjálfsögðu og hvet alla til hins sama.
Margir urðu fórnarlömb reiðinnar í kjölfar hrunsins og þeir hata Sjálfstæðisflokkinn meira en allt annað. Sá sem er illa haldinn af hatri og reiði þarf ekki á meiri skaða að halda. Við munum öll eftir umfjöllun DV, um mann á Ísafirði sem framdi sjálfsvíg.
Við þekkjum það flest, að láta reiðina hlaupa með okkur í gönur og segja margt sem hefði betur ósagt verið. Þessi ágæti maður er blindaður af hatri, en getur verið prýðiskennari og sýnt öllum vinsemd og virðingu, sem ekki tengjast Sjálfstæðisflokknum.
Það er hlutverk okkar sjálfstæðismanna að lagfæra okkar ímynd, með því að hefja einlægt samtal við þjóðina.
Við þurfum að sefa reiðina, forðast múgæsing og læra að fyrirgefa hvert öðru. Ef við sýnum svona fólki reiði, þá fáum við meiri reiði í okkar góða samfélag og í versta falli, getur þetta fólk skaðað sjálft sig eða aðra og valdið sínum fjölskyldum óbætanlegan skaða.
Við eigum að bæta mannlífið en ekki skaða það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 8. janúar 2013
Barnaskólakennari og netdóni.
Meirihluti þeirra sem heimsækja þessa síðu eru ósköp kurteisir og skynsamir einstaklingar og mörgum hef ég náð að kynnast, mér til mikillar gleði.
Vitanlega eru ekki allir sammála mér, en það tek ég ekki nærri mér. Margar skrítnar athugasemdir hef ég fengið, en aldrei eins óhugnanlega og þá sem ég ætla að fjalla um.
Fyrir tæpu ári síðan birtist argasti netdóni sem ég hef kynnst. Hann hafði í flimtingum hið hræðilega slys á Þingvöllum, þegar Bjarni heitinn Benediktsson brann inni ásamt eiginkonu sinni og ungu barnabarni. Svo kórónaði hann óþverraskapinn með því að segja það sniðuga hugmynd að grilla mig bara líka á Þingvöllum. Ekki var ég að ergja mig mikið á þessum ummælum, þau voru mjög ósmekkleg, en ég taldi andlega vanheilan mann á ferð, sem vissi ekkert um hvað hann væri að tala.
Svo birtist kvikindið aftur og þykist vilja þagga niður í mér og þeim sem hafa sömu stjórnmálaskoðanir og ég. Þá fór hann að vekja forvitnin mína og með góðra manna hjálp fann ég út hver maðurinn raunverulega er.
Hann starfar við kennslu barna og það er alvarlegt mál þegar menn í slíkri stöðu haga sér með þessum hætti. Ég ætla ekki að birta nafn hans og vinnustað, að svo stöddu, heldur gefa honum tækifæri til að skammast sín og koma ekki nálægt athugasemdarkerfinu hjá mér framar.
Áður en ég ritaði þennan pistil skrapp ég upp á Krókháls og gaf rannsóknarlögreglunni upplýsingar um þennan mann, ef ske kynni að hann héldi áfram að áreita fólk í netheimum og gerði jafnvel eitthvað verra af sér. Rannsóknarlögreglan hefur mynd af honum, sem ég prentaði af heimasíðu skólans sem hann starfar og afrit af blogginu sem hann gerði athugasemdir við.
Ég ákvað að leggja ekki fram kæru, því þessi maður á konu og börn, ekki vil ég skaða saklaust fólk nema í ýtrustu neyð.
En þessi maður þarf víst að lifa við það, að ef eitthvað óhapp hendir mig, þá verður hann efstur á lista grunaðra, jafnvel þótt hann sé ekki ofbeldishneigður að eðlisfari. Tjáningarfrelsið er dýrmætt en því fylgir líka mikil ábyrgð og það ættu kennarar að vita manna best, því þeir starfa jú við að uppfræða kynslóðir framtíðarinnar.
Sjálfur hef ég til þessa sloppið við beinar hótanir, en ég veit mörg dæmi um hægri menn sem hafa fengið hótanir um líkamsmeiðingar og fleira, fyrir það eitt að tjá sínar skoðanir á netinu. En lögregluþjónninn sem ég ræddi við, tjáði mér að þau væru með upplýsingar um þá sem stunduðu hótanir á netinu og sem betur fer, þrátt fyrir þröngan stakk, þá höfum við hæfa einstaklinga í lögreglunni.
Að lokum óska ég þess að kennarinn dónalegi sjái að sér og láti fólk í friði. Hægt er að virða andúð á Sjálfstæðisflokknum en það getur enginn sætt við við og það á enginn að sætta sig við, óþverralegan og rætin ummæli frá manni, sem treyst er fyrir kennslu ungra barna. Næsta skref hlýtur að vera að ræða við skólastjórann hans, ef hann lætur ekki segjast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Fimmtudagur, 27. desember 2012
Hinir virku í athugasemdum.
Fyrir allnokkru síðan skrifaði kona grein þar sem hún fjallaði um vissan hóp fólks sem tjáir sig oft í netheimum. Hún benti á það, að fyrir daga internetsins hafi þessi þjóðfélagshópur setið við eldhúsborðið heima hjá sér, einnig á kaffistofum vinnustaða og tjáð sínar skoðanir sem byggja ekki á neinum rökum heldur fyrst og fremst tilfinningum.
Það eru þessir sem kallast "virkir í athugasemdum". Stærstur hluti þessa ágæta fólks hefur ekki hundsvit á því sem það tjáir sig um og engan áhuga á staðreyndum. Á tímum internetsins, þar sem hægt er að googla allar upplýsingar og fá svör við öllum spurningum á örskotsstund, þá er það undarlegt að vanþekkingin skuli vera svona mikil.
Sjálfur fæ ég reglulega heimsóknir frá þessu ágæta fólki og þykist það gjarna geta annaðhvort leitt mig á "rétta braut" sem það kallar svo. Þetta er undarleg árátta og áhugaverð sérviska, því sjaldgæft er að það takist að breyta skoðunum fólks, en það er vel þess virði að reyna.
Sjálfum dettur mér aldrei til hugar að setja athugasemdir á síður þeirra sem eru á öndverðum meiði, því ég veit að það kostar bara óþarfa leiðindi og þras.
Ég fór að spekúlera í, hvað væri skemmtilegasta athugasemdin sem ég hef fengið, síðan ég byrjaði að blogga seinni hluta árs 2009. Það er erfitt að velja, en ætli það sé ekki athugasemd sem ég fékk þann 26. júlí árið 2011, en þá ætlaði góður maður að reka allt þveröfugt ofan í mig og gera mig heimaskítsmát.
Í pistlinum nefndi ég þá sögulega staðreynd, að Nýsköpunarstjórnin, undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafi eytt hluta stríðsgróðans í kaup á togurum, sem nefndir voru "Nýsköpunartogarar".
Þá kom athugasemd frá Guðbirni nokkrum Jónssyni, sem hefur oft verið áberandi í umræðunni og hann sagði m.a. um það sem ég sagði um kaupin á togurunum: "Afar athyglisverð söguskýring hjá þér og sýnir vel hve nákvæmt pólitíska uppeldið er hjá Sjálfstæðisflokknum".
Þarna ritar maður sem er þjálfaður í þrætubókarlistinni, en slíkir einstaklingar fara oft framúr sér. Ég hef ekkert uppeldi fengið hjá Sjálfstæðisflokknum heldur foreldrum mínum sem tengjast ekki Sjálfstæðisflokknum á neinn hátt. Ég var kominn talsvert yfir fertugt þegar ég fór að beita mér fyrir Sjálfstæðisflokkinn og það er hæpið að hægt sé að ala upp fólk á þeim aldri.
Svo segir Guðbjörn orðrétt; "Það eru nú afbakaðar upplýsingar sem þú hefur fengið að tala um stríðsgróða sem við eigum að hafa notað til atvinusköpunar. Það var nú ekki stríðsgróði heldur styrkur sem okkur var veittur".
Þarna segir þessi þjálfaði þrætumaður að við hefðum fengið styrk til kaupa á togurunum, en styrkurinn sem Nýsköpunarstjórnin fékk, þjóðinni til handa nefndist Marshallaðstoðin og var kennd við Marshall sem var utanríkisráðherra Bandaríkjanna á þessum tíma, að mig minnir.
Hann lagði styrkinn til árið 1947 en togararnir voru keyptir fyrir þann tíma. Þeir sem nenna að lesa sér til vita að það söfnuðust upp miklir peningar í stríðinu og einum þriðja af þeim var eytt í atvinnusköpun.
Þessi maður hefur ekki sést aftur á síðunni minni, þannig að hann kann þá að skammast sín.
En flestir hinna virku í athugasemdunum eru eins og Martein Mosdal, koma aftur og aftur og aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Fimmtudagur, 27. desember 2012
Vill þjóðin nýja stjórnarskrá?
Erfitt er að færa rök fyrir því að þjóðin vilji nýja stjórnarskrá, en augljóst er að hluti þjóðarinnar vill það.
Í stað þess að staldra við og hugsa, þá er skammast út í Sigurð Líndal sem er manna fróðastur um eðli og hlutverk stjórnarskrárinnar.
Tillögur stjórnlagaráðs eru að sumu leiti of pólitískar og taka mið af stemmingunni sem ríkir í þjóðfélaginu um þessar mundir. Auðlindarákvæðið er gott dæmi um það.
Enginn stjórnmálamaður hefur lýst því yfir að hann vilji ekki að fiskveiðiauðlindin sé í þjóðareigu, það ríkir þverpólitísk samstaða um það, en á það endilega erindi í stjórnarskrána?
Og þurfa allar auðlindir að vera í þjóðareigu, sem ekki eru nú þegar í einkaeigu? Talað er um að þjóðin eigi að taka fullt gjald fyrir nýtinguna en er það endilega til góðs?
Íslenskir stjórnmálamenn, þvert á flokka, hafa ekki ráðstafað opinberu fé með ábyrgum hætti. Núverandi ríkisstjórn hefur lofað því, berum orðum, að setja tuttugu og sex milljarða í atvinnuskapandi verkefni. Er það vilji þjóðarinnar að ríkisstjórnin setji peninga í áhættusöm verkefni á meðan skuldir og vextir af þeim eru illviðráðanlegir?
Vitanlega er það betra fyrir þjóðarhag, að útgerðin njóti hagnaðar af fiskveiðunum. Það hækkar laun sjómanna og gerir útgerðinni kleyft að endurnýja flotann og safna í digra sjóði til að mæta erfiðum tímum sem koma alltaf með reglulegu millibili sökum lækkandi verðs á mörkuðum og aflabrests.
Hvað þýðir það svo fyrir dómstóla landsins að fá fjöldan allan af nýjum ákvæðum til að dæma eftir? Bent hefur verið á það, af lögfróðum mönnum að slíkt geti reynst dómstólum afar dýrt og það er óábyrgt að skella skollaeyrum við því.
Stjórnarskrá á að vera einföld og skýr. Hvað táknar það að allir eigi rétt til að lifa með reisn? Er þá ríkið bótaskylt ef einhver getur ekki lifað með reisn? Það tekst því miður ekki öllum.
Einnig benti einn stjórnlagaráðsmaður á það í blaðagrein, að auðlindaákvæðið myndi ekki binda hendur stjórnvalda varðandi fiskveiðistjórnunarkerfið sem þau kjósa að notast við. Samt hefur stjórnmálaflokkur verið stofnaður og hann berst fyrir nýrri stjórnarskrá á þeim forsendum m.a. að þá fáum við réttlátt kerfi í fiskveiðimálum. Er þá verið að boða markleysu til að veiða atkvæði?
Allir flokkar á þingi eru tilbúnir til að skoða beint lýðræði og þeir vilja að nýtingarrétturinn á sjávarauðlindinni sé í þjóðareign. Það eru þessi tvö mál, aðallega sem fylgisfólk stjórnlagaráðs virðist vilja berjast fyrir.
Augljóst er að það er auðvelt að ná þverpólitískri samstöðu um þessi tvö mál á þingi, þannig að í ljósi þess ætti þingið að geta sinnt sínu hlutverki, sem er að breyta stjórnarskránni með þeim hætti sem hún sjálf boðar.
Kostnaðurinn í kring um samningu tillagnanna hleypur á hundruðum milljóna, á sama tíma treystu stjórnvöld sér ekki til að kaupa nauðsynlegt tæki fyrir krabbameinssjúka.
Í ljósi alls þessa, þá er það nokkuð ljóst að allur kostnaðurinn við vinnu stjórnlagaráðs er til einskis, líklegt er að næsta ríkisstjórn vilji ekert með þær hafa. Þjóðin sem slík hefur aldrei kallað eftir nýrri stjórnarskrá. Það eru ekki allir netmiðlar fullir af greinum eftir fólk sem kallar á nýja stjórnarskrá, heldur virðist þetta frekar fámennur en afskaplega hávær hópur.
Reynt að tefja og snúa út úr | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 26. desember 2012
Áhrifaríkasta lygi Íslandssögunnar.
Í kjölfar þess hruns, sem varð á fjármálamörkuðum heimsins fóru spunameistarar vinstri flokkanna á fullt að semja sannfærandi lygi, til þess að SF og VG kæmust loksins til valda, en þjóðin hafði að sjálfsögðu hafnað þessum flokkum eftir að hún fékk að kynnast því hvernig sjálfstæðisstefnan virkar í raun.
Það er afrek út af fyrir sig, að takast að blekkja stóran hluta þjóðarinnar þegar flestir hafa netaðgang og kunna að slá inn "Google" og lesa þær upplýsingar sem birtast þar. En leti fólks og trúgirni gerir það að verkum, að spunameistarar hafa frítt spil og segja má að forverar þeirra hafa dyggilega náð að sverta Sjálfstæðisflokkinn, þannig að eftirleikurinn er ekki flókinn.
Samfylkingin t.a.m. hefur náð að fela það nokkuð vel, að sá ágæti flokkur tók fullan þátt í því sem þau kalla "nýfrjálshyggju" í dag og þar kom Sjálfstæðisflokkurinn hvergi nærri. Á landsfundi SF árið 2007 var m.a. gerð ályktun sem ber yfirskriftina "Traust og skapandi atvinnulíf".
Í 9. grein segir orðrétt: "Skapa hagstætt rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki í fjármálaþjónustu sem standist fyllilega samkeppni við það sem best gerist í öðrum löndum". Það er erfitt að skilja hvað jafnaðarmannaflokkur er að fara, þegar hann setur sér þá stefnu að vilja skapa hagstæðara rekstrarumhverfi fyrir fjármálafyrirtæki á tímum, þar sem fjármálageirinn skilaði methagnaði ár eftir ár. Nýfrjálshyggjan er nærtækasta skýringin, en samfylkingarfólk boðaði hana af meiri krafti árið 2007 en innblásinn trúboði boðar kristna trú.
Ráðherra bankamála dásamaði bankanna og útrásina í viðtölum, en hann kom úr vinstri armi flokksins, þannig að ekki fer á milli mála hvað nýfrjálshyggjan hafði sterk ítök í flokki jafnaðarmanna árið 2007.
Svo hrundu allir bankar árið 2008 og sparisjóðir flestir hrundu líka. Trúgirni fjöldans var slík, að spunameisturunum tókst að sannfæra marga um að hægt væri að kenna einkavæðingunni um. Ef einkavæðingin hefði valdið hruninu, þá er líklegt að eingungis tveir bankar á Íslandi hefðu hrunið.
En hverjar eru þá orsakir hrunsins?
Sagt er ágætlega frá því í skýrslu Rna, sem allir dásama en fáir hafa lesið. Ef flett er á bls. 58. í fyrsta bindi skýrslunnar, þá er auðvelt að átta sig á þeim. Gríðarlegt magn af fjármagni hafði myndast víða og leitaði ávöxtunar. Á sama tíma ríkti ofurtraust á mörkuðum því enginn stór banki hafði fallið ansi lengi. Í framhaldinu komu nýjar og áður óþekktar fjármálaafleiður ásamt undirmálslánunum í USA.
En er þá ábyrgð sjálfstæðismanna þá engin? Jú, hún er sannarlega mikil og því miður veru gerð mörg mistök, bæði afdrifarík og stór.
Frá árinu 1991 höfðu ríkisútgjöld aukist um hundruðir milljarða, hjá ríki og sveitarfélögum, báknið þandist út og opinberum störfum fjölgaði meira en góðu hófi gegndi. Flokkurinn stór ekki nógu vel við sína stefnu og lærði ekki af sínum merku frumherjum, sem þekktu lífið og heiminn í sínum tærustu myndum. Þeir gleymdu þeirri staðreynd, að þegar kemur mikil uppsveifla, þá kemur alltaf mikil kreppa, fyrirhyggjan var af skornum skammti.
En alltaf þegar sagan er skoðuð, þá standa sjálfstæðismenn sig ávallt best. Skuldir voru greiddar niður og það kom sér vel, einnig framkvæmdu sjálfstæðismenn, í samstarfi við marga, þá miklu snilld sem í neyðarlögunum felst. En það var ekki sjálfgefið að þau myndu standast en oft þarf að taka áhættu og hjá skynsömum mönnum heppnast áhættan oftast eins og síðar kom í ljós. Hægt er að segja að betra hefði verið að hafa ákveðið hámark á innistæðum sem tryggðar voru af ríkinu, en það gengur bara betur næst. Fáir eru svo lánsamir að geta tekið kórréttar ákvarðanir í óþekktum aðstæðum, sjálfstæðismenn eru jú mannlegir eins og hinir, en þeir hafa stefnuna framyfir aðra.
Ef aðferðir Jóns Þorlákssonar hefðu verið teknar til fyrirmyndar, en hann var einn af höfundum sjálfstæðisstefnunnar og hún var hans lífsstefna, þá stæðum við mun betur að vígi í dag.
Þegar Jón Þorláksson var fjármálaráðherra, þá skar hann niður í góðæri og fækkaði opinberum störfum. Þegar kreppti að var hægt að setja opinbert fé í framkvæmdir til að verja hagvöxt. Það er sjálfstæðistefnan í efnahagsmálum og óskandi að henni verði fylgt um ókomna tíð.
Þá þarf þjóðin engu að kvíða.
Kjósendur verða að lesa sér til og kynna sér staðreyndir. Um leið og þeir ná að sannfæra fólk um lygina, þá kemur vinstri stjórn og þjóðin hefur varla efni á að búa við fleiri ár með vinstri flokkanna í valdastólum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
Sunnudagur, 16. desember 2012
Græðgin gerir fólk að þrælum.
Setningin "græðgi er góð" var skrifuð í handrit að bíómynd sem ber heitið "Wall street" og tilbúin persóna sem átti að vera blinduð af græðgi var látin mæla hana af vörum.
Ekki er að spyrja að heimskunni í þeim sem mest tjá sig um frjálshyggju, þeir trúa því að þetta sé æðsta boðorð frjálshyggjumanna.
Sá sem að þjáist af græðgi getur tæpast talist frjálshyggjumaður, því þeir sem aðhyllast frjálshyggju vilja búa við frelsi.
Raunar má segja að lesskilningur andstæðinga frjálshyggjunnar sé ekki upp á marga fiska, stundum tjá frjálshyggjumenn sig klaufalega og segja að græðgi sé góð. Ef heildarmyndin er skoðuð, þá er auðvelt að átta sig á hvað átt er við.
"Græðgi" táknar raunverulega metnað í skrifum margra frjálshyggjumanna.
Sá sem að þráir peninga heitast af öllu, hann getur ekki verið frjáls. Hann þarf stöðugt að hugsa um peninga og að lokum missir hann af öllu því fallega og góða sem lífið hefur upp á að bjóða.
Þeim sem langar til að kynna sér staðreyndir ættu að telja auðmenn í röðum frjálshyggjumanna, þeir eru ekki margir. Í USA er flokkur frjálshyggjumanna til og hann telst áhrifalítill jaðarflokkur.
Á Íslandi er til félag frjálshyggjumanna og þar eru m.a. ég sem hef verið verkamaður á sjó megnið af starfsævinni og ungir menntamenn.
Við frjálshyggjumenn viljum forðast græðgina því hún eyðileggur það sem er okkur svo dýrmætt.
Frelsið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sunnudagur, 16. desember 2012
Sögufölsun?
Sagnfræðinemar sem tilheyra félaginu Fróða virðast ekki mjög fróðir um væntanlegt starfsvið sitt, ef tekið er mið af ummælum þeirra varðandi "sögufölsun" hjá Sjálfstæðisflokknum. Í hverju var svo þessi sögufölsun fólgin?
Jú, tekin var út klausa þar sem fjallað var um aðdáun sjálfstæðismanna á útrásinni á hinum svokallaða góðæristíma sem ríkti fyrir hrun. Vitanlega var rétt að taka klausuna út, enda er hún klaufaleg og vitlaus, ekkert athugavert við það að laga til á heimasíðu flokksins til að gera hana áferðarfallegri.
Það vita það allir að sjálfstæðismenn flestir eins og fleiri voru staurblindir á raunveruleikann á meðan dansað var í kring um gullkálfinn og flestir voru á því að fjárstreymið mikla tæki engan enda.
Hægt er að finna mörg klaufaleg ummæli sjálfstæðismanna ef að er gáð, m.a. sagði fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins; "sjáið þið ekki veisluna drengir?". Ekki er þetta sagt honum til hnjóðs, heldur verið að benda á blinduna sem ríkti á þessum tíma.
Sjálfstæðismenn gerðu fjölmörg mistök sem við könnumst fyllilega við. Hækkun á lánshlutfalli íbúðarlána Íbúðarlánasjóðs var snargalin, mér og fleirum sjálfstæðismönnum þótti það bara flott á sínum tíma.
Hægt er að finna pistil á Pressunni sem Þorgerður Katrín skrifaði þann 17. apríl árið 2010, en þar lýsir hún ágætlega heimskunni sem ríkti í flokknum á þessum tíma og hún dregur ekkert undan.
Við sjálfstæðismenn vitum mjög vel að heimskan heltók okkur algerlega á þessum tíma, en heimskan er lævís bæði og lipur, hún leggst á alla jafnt ef fólk gleymir sér eitt andartak.
Að sjálfsögðu viðurkennum við ekki að hafa valdið hruninu, enda væri það út í hött. Hrunið var óhjákvæmileg afleiðing þess ástands sem ríkti og má lesa um í fyrsta bindi rannsóknarskýrslunnar.
Ef að heimasíða Sjálfstæðisflokksins er orðin aðalheimild sagnfræðinga framtíðarinnar, þá er illa komið fyrir þeirri stétt. En á þeirri síðu er engin fölsun á sögunni og heldur engar markverðar heimildir fyrir sagnfræðinga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 29. nóvember 2012
Í hverju er vígamennskan fólgin?
Í kjölfar prófkjörs sjálfstæðismanna í Reykjavík sem fram fór um síðustu helgi birti DV umfjöllun um vígaferli Jóns Magnússonar gegn Illuga Gunnarssyni og var Jón talinn einn helsti stuðningsmaður Guðlaugs Þórs.
Mér þótti undarlegt að sjá þessa umfjöllun í DV í ljósi þess að við Jón Magnússon tölum oft saman enda góðir vinir til fjölda ára.
DV hefur verið hrósað fyrir vandaða rannsóknarblaðamennsku og í ljósi þess fór ég að hafa áhyggjur af nafna mínum og vini. Þar sem enginn getur flúið aldurinn sem kemur með árunum, þá datt mér í hug, hvort minn góði vinur væri orðinn geðstirt gamalmenni sem hefði þörf fyrir að ráðast á flokksfélaga sína. Ég ákvað að hringja í hann og athuga hvort geðillska og þörf til mannvíga væri farinn að hrjá hann, en sem betur fer kom í ljós að Jón Magnússon var mjög jákvæður og hress, eins og hann er alla jafna. Sökum fjarvista og anna, þá höfum við nafnar lítið talað saman lengi en ég var ánægður að komast að því að minn góði vinur er ennþá nokkuð heill til líkama og sálar.
Það kom honum mjög á óvart að DV skuli hafa haldið þessu fram, því hann hefur alltaf brugðist hart til varnar fyrir Illuga, m.a. þegar á hann var ráðist vegna stjórnarsetu hans í sjóði 9.
Ekki kannaðist nafni við að hafa barist gegn Illuga í prófkjörinu og heldur ekki við að hafa verið í bandalagi með Guðlaugi Þór.
Gaman væri ef sá sem að skrifaði þessa frétt í DV myndi útskýra nákvæmlega í hverju þessi vígaferli eru eiginlega fólgin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Miðvikudagur, 7. nóvember 2012
Getur Sjálfstæðisflokkurinn samþykkt aðild að ESB?
Sumir segja það rangt af okkur sjálfstæðismönnum að hafna alfarið aðild að ESB. Máli sínu til stuðnings nefna þeir að slíkt geti útilokað flokkinn frá samstarfi við aðra flokka og einnig að það geti skaðað ímynd Sjálfstæðisflokksins og fælt marga sjálfstæðismenn þaðan.
Eindregin afstaða gegn ESB aðild er samkvæmt upprunalegu stefnu Sjálfstæðisflokksins og sjálfstæðsstefnan stendur enn óhögguð, öflug og sterk, þrátt fyrir ýmis feilspor þeirra sem kjörnir hafa verið til að fylgja henni.
Sjálfstæðisstefnan gerir þær kröfur á okkur sjálfstæðismenn, að við berjumst fyrir sjálfstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar. Aðild að ESB skerðir bæði fullveldi og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar og ekki er sjálfgefið að það verði okkur til heilla.
Ef að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að sveigja sína stefnu í áttina að dægursveiflum og tískustraumum, þá er hann ekki lengur sá flokkur sem stofnaður var í upphafi. Eini flokkurinn sem kallast getur stjórnmálaflokkur (hinir flokkarnir voru stofnaðir sem hagsmunabandalög verkafólks) þarf að standa í lappirnar og fylgja þeirri stefnu sem hann var stofnaður til að boða.
Þótt margir kalli það öfgamennsku að vilja ekki aðild að ESB og túlki jákvætt hugarfar með aðild sem frjálslyndi, þá eigum við ekki að láta það slá okkur út af laginu.
Vitanlega óska þess allir að ESB nái sér á strik, vandræðin þar bitna illa á okkur, mjög illa.
Flets bendir til þess að ESB verði eitt sambandsríki, sameiginleg mynt kallar á sameiginlega hagstjórn. Þegar ESB verður farið að stjórna skattheimtu og opinberum útgjöldum sinna aðildarríkja þá er orðið lítið eftir af sjálfstæði þeirra.
ESB er ekki fullkomið, Ísland er heldur ekki fullkomið, við búum í ófullkomnum heimi. En við eigum mikla öguleika ef við nýtum þá. Auðlindir okkar munu sennilega hækka í verði, því sífellt verður meiri skortur á náttúrlulegum matvælum og vatni. Orkan er dýrmæt því hún er umhverfisvæn.
Það er á okkar valdi, hvernig til tekst í efnahagsmálum framtíðar. Við eigum að berjast fyrir okkar þjóð á okkar forsendum.
Það er ekkert annað en uppgjöf að hætta við hálfklárað verk þótt stundum gangi hægt. Við höfum byggt okkur upp á skömmum tíma og það hefur verið dýrt. Einnig er það dýrara að lifa fyrir fámenna þjóð en fjölmenna, það segir sig sjálft.
En þjóðarstolt, sjálfstæðishugsjón, bjartsýni og þor. Það á að vera boðskapur Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda næstu kosninga.
Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki samþykkt aðild að ESB án þess að svíkja sína upprunalegu stefnu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)