Færsluflokkur: Bloggar

Eru vinstri menn friðarsinnar?

Vinstri menn hafa mótmælt hernaði og aðild okkar að NATÓ, en eru þeir endilega meiri friðarsinnar en hægri menn?

Þótt ekki sé verið að tala um alla vinstri menn, því vissulega eru til einlægir friðarsinnar í þeirra hópi, þá virðast hægri menn vera ólíkt friðsamari en þeir sem halla sér að vinstri hlið stjórnmálavængsins.

Þegar efnt hefur verið til blóðugra bardaga hér á landi, þá hafa vinstri menn verið þar í fararbroddi, Gúttóslagurinn, mótmælin vegna NATÓ inngöngunnar og búsáhaldabyltingin eru skýr dæmi um bardagagleði vinstri manna.

Þegar hægri stjórnin ríkti í aðdraganda hrunsins, (Samfylkingin var hægri flokkur þar til hrunið varð), þá studdi VG búsáhaldabyltinguna með ráðum og dáð, frést hefur af þingmanni þeirra, Álfheiði Ingadóttur, leiðbeina mótmælendum um, hvernig best væri að forðast lögregluna.

Ekki þurftu löghlýðnir mótmælendur að forðast lögregluna, því þeir höfðu ekkert að óttast.

Hvernig má það vera, að eftir allt sem á undan er gengið í tíð vinstri stjórnarinnar, þá hafa engin almennileg mótmæli verið?

Ætli það sé vegna þess, að Vinstri hreyfingin grænt framboð skipuleggur ekki mótmæli gegn eigin ríkisstjórn?

Einnig má benda á, að í opinberri umræðu, eru vinstri menn mun árásargjarnari en hægri menn, enginn af formönnum Sjálfstæðisflokksins hefur ráðist að andstæðingi sínum í pólitík og slegið hann þéttingsfast, eins og Steingrímur Joð gerði við Geir H. Haarde.

Benda má á, að hægt er að heyja stríð með orðum og þar eru vinstri menn skæðari en hægri menn og ósvífnari.

Engan hægri mann þekki ég, sem myndi vilja skaða vinstri menn á nokkurn hátt, við tölum aldrei um að setja stjórnarliða í fangelsi fyrir mistök í starfi, en vinstri mönnum þykir sjálfsagt að stuðla að því, þ.e.a.s. ef um er að ræða hægri menn.

Óhætt er að upplýsa orð sem féllu á fundi einum í Valhöll, þegar vinstri stjórnin var búinn að klúðra nokkrum málum.

Þá kom einn fundarmanna með þá hugmynd, að við myndum efna til mótmæla, en honum var þá strax bent á það, að svona höguðu sjálfstæðismenn sér ekki. Þá varð viðkomandi hálf skömmustulegur og viðurkenndi vitleysuna í sér.

Sannur hægri maður mun aldrei stuðla að eða standa fyrir því, að meiða nokkurn mann, þá er ég að tala um hægri menn hér á landi, því þvargarar til vinstri eru svo fyrirséðir, að ég veit að þeim dettur strax í hug að nefna Hitler og Mussolini, en það er ekki verið að vitna til annarra landa, svo það sé áhreinu.


Þau sveiflast til og frá, eins og strá í vindi.

Þingflokkur VG veit hvorki hvort hann er að koma eða fara.

Eftir höfðinu dansa limirnir, formaður flokksins er einn áttavilltasti stjórnmálamaður lýðveldisins, svei mér þá.

Hann var á móti því að borga Icesave, síðan var hann með því og nú virðist hann vera á því, að nú eigi ekki að borga. Hann hefur eflaust komist að því, eftir að efnahagsráðherran uppgötvaði hinn stóra sannleik, það hafði nefnilega ekki verið send nein rukkun.

Hann var á móti samstarfinu við AGS, en samt styður hann það heilshugar og er býsna glaður með þá AGS menn um þessar mundir.

Hann er svo andvígur aðild að Evrópusambandinu, að hann fór eiginlega yfir línuna og sótti um aðild.

Svo eru það náttúrulega loftárásirnar á Líbýju, VG fordæmir þær algerlega og styður þær svo í framhaldinu.

Steingrímur Joð er svo stefnufastur, að hann hefur látið öll prinsipp af hendi, í staðinn fyrir ráðherrastól sjálfum sér og félögum sínum til handa.

Það er óhætt að segja, að Vinstri hreyfingin grænt framboð sveiflist til og frá, eins og strá í vindi.


Ísland úr NATÓ?

Nú vilja þingmenn VG að Ísland gangi úr NATÓ, en slíkt er vitanlega glórulaus vitleysa.

Lítið land án varna er berskjaldað fyrir hverskyns árásum, þannig að við verðum að sinna öryggismálum af mikilli alvöru.

Hægt er að fallast á þá staðreynd, að líkurnar á að ráðist sé á Ísland séu ekki miklar um þessar mundir, en í víðsjárverðum heimi getur allt gerst.

Ekki er ýkja langt síðan að fólk hér á landi gladdist yfir því, að við værum laus við alvarlega glæpi og engin skipulögð glæpastarfsemi til staðar.

Fyrir ansi mörgum árum vorum við nokkrir æringjar um borð í togara að skipuleggja bankarán, það ætti að vera mjög auðvelt og ef illa færi, þá værum við svo vanir að vera innilokaðir um borð í togara, þannig að fangelsisvistina ættum við að þola nokkuð vel.

Við vorum sammála um að það erfiðasta væri, að sannfæra bankagjaldkerann um að okkur væri alvara, þótt einhver ræki byssu upp að andliti bankamanns, þá tæki hann ekkert mark á því, teldi þetta bara grín.

Okkur var engin alvara með þessu, enda óttalegegir sakleysingjar, þetta var á fyrstu árum videós um borð í togurum og við höfðum verið að horfa á mynd um bankarán, þannig byrjaði þesi fíflagangur.

Í dag, þá myndi engum detta til hugar að grínast með leikfangabyggu í banka, viðkomandi yrði strax meðhöndlaður ansi harkalega, því skipulögð glæpastarfsemi er staðreynd hér á landi og hún fer vaxandi, þrátt fyrir að hún hefði verið óhugsandi fyrir einhverjum árum.

Vegna þess hversu erfitt er að ráða í framtíðina, þá tryggir fólk sig fyrir hugsanlegum áföllum og sem betur fer, þá eru margir svo heppnir, að áföllin koma aldrei og tryggingafélögin græða.

Samt sem áður tryggir fólk sig, það þykir sjálfsagt og eðlilegt mál og sömu rökin gilda varðandi aðild að NATÓ.

Jafnvel þótt Ísland verði aldrei fyrir árás hryðjuverkasamtaka eða annarra ríkja, þáþurfum við að vera við öllu búin. Við höfum hvorki aðstæður né bolmagn til að byggja upp eigin her, þes vegna þurfum við að treysta á aðstoð annarra ríkja og það gerum við með aðild að Atlandshafsbandalaginu.


Aðför að frelsi fólks.

Það að banna Norskum herskóla að kynna sitt nám er ekkert annað en aðför að valfrelsi framhaldsskóla nema.

Ádögunum var viðtal við ungan mann, sem hafði lokið verkfræðinámi við herskóla í Noregi. Hann sagði að enginn væri skyldaður til að taka þátt í bardögum, þannig að ekkert samansem merki er á milli þess, að taka þátt í heræfingum og stunda nám í herskóla og að drepa á vígvellinum.

Þetta skilja stjórnarliðar ekki, fyrir þeim er heimurinn óskaplega einfaldur, þótt hann sé í eðli sínu margbrotinn og flókinn.

Mikið hefur verið rætt um agaleysi ungmenna hér á landi, vegna þess að við höfum ekki herskyldu.

Af þeim sökum ættu stjórnmálamen og íslendingar allir að fagna því, að ungmenni fái tækifæri til að læra þann aga sem kenndur er í hernum.

En að sjálfsögðu á íslenskum ungmennum að vera það frjálst, að ganga í herskóla og einnig að taka þátt í bardögum, sé það þeirra vilji.

Öll þessi forsjárhyggja gerir ekkert annað en að eyðileggja möguleika fólks til að þroskast á eigin forsendum.

 


mbl.is Herkynningar verði bannaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er leyndarhyggja ríkisstjórnarinnar hluti af aðlögunarferlinu?

Það skyldi þó aldrei vera, að leyndarhyggja ríkisstjórnarinnar sé hluti af aðlögunarferlinu, þótt ESB geri eflaust engar kröfur til þess.

En Jóhanna og Össur eru bæði mikla ákafamanneskjur og þau eru ákveðin í, að taka allan pakkann frá Evrópusambandinu.

Eflaust hefur þeim borist til eyrna, að þingmenn Evrópuþingsins séu tregir til að upplýsa málin og þar af leiðandi ákveðið að gera slíkt hið sama.

Erfitt er að finna aðrar skýringar á tregðu jóhönnu til að veita upplýsingar, því hún hefur nú þótt ansi opinská hingað til og viljað allar upplýsingar upp á yfirborðið.


mbl.is Evrópuþingmenn neita að upplýsa um risnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkalýðshreyfingin lærir seint.

Ein helsta ástæða þess, að ég gerðist sjálfstæðismaður er sú, að ég ólst upp í verkamannasamfélagi og við fundum það á eigin skinni, hvernig launahækkanir hafa farið með verkalýðinn.

Vinstri menn hafa stöðugt barist fyrir fleiri krónum, en minna hugsað um það sem máli skiptir, verðmæti peninganna.

Nú er sama hringavitleysan að endurtaka sig, verkalýðsforystan heimtar hærri laun, á sama tíma og það þrengir að fyrirtækjum landsins.

Það getur ekki endað öðruvísi en með verðbólgu, sem hækkar afborganir lána og verð á nauðsynjum.

Þess vegna hef ég aldrei verið hrifin af verkalýðsfélögum, þótt ég hafi stundað verkamannavinnu alla tíð, aðallega þó til sjós.

En ég er ánægður með sjómannaforystuna fyrir það, að hafa sagt sig úr ASÍ.


mbl.is Skriða hækkana vofir yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkrar staðreyndir um Sjálfstæðisflokkinn.

Þótt sumir leitist við að sannfæra sjálfa sig og aðra um það vafasama sjónarmið, að Sjálfstæðisflokkurinn sé rót alls ills hér á landi, þá tala staðreyndirnar sínu máli.

Enginn deilir þó um það, að í rúmlega áttatíu ára sögu flokksins hafa verið gerð mistök, en kosturinn er sá, að sjálfstæðismenn kannast við mistökin og vilja læra af þeim.

En vissulega er ekki hægt að útiloka það, að óheiðarlegir menn séu í Sjálfstæðisflokknum eins og í öllum öðrum flokkum.

Sjálfstæðisflokkurinn varð fljótlega jákvæður á að hafa hér á landi erlendan her. Það voru verulegar kjarabætur verkamönnum til handa og nauðsynleg viðbót við fábreytt atvinnulíf landsmanna á þeim árum. Vinstri flokkarnir mótmæltu hersetunni harðlega eins og allir vita.

Sökum velvilja sjálfstæðismanna í garð Bandaríska herliðsins, þá fengum við ríkulega Marshall aðstoð sem var veruleg búbót fyrir landið og skapaði fjölda starfa bæði til sjós og lands. Vinstri flokkarnir hefðu aldrei náð þessu, sökum afstöðu þeirra til herliðsins hér á landi.

Höft voru hér allsráðandi eftir að kreppan skall á, þau voru bæði íþyngjandi og sköpuðu talsverða spillingu. Sjálfstæðismenn stóðu vitanlega fyrir afnámi haftanna. Sumir vilja reyndar þakka Gylfa Þ. Gíslasyni það einum, en lesa má greinar eftir Ólaf Thors frá fjórða áratugnum, þar sem hann fordæmir bæði höft og ríkisrekið atvinnulíf, Jón Þorláksson talaði á sömu nótum.

Þó voru til sjálfstæðismenn, svo því sé til haga haldið, sem vildu höftin af ýmsum ástæðum, en formenn flokksins voru alla tíð andvígir þeim.

Svo var lagður grunnur að álveri í Straumsvík, vinstri menn voru á móti því, en fengu sem betur fer ekki að ráða í því máli.

Álverið braut blað í sögu verkalýðsmála, því íslenskir verkamenn höfðu aldrei haft eins góð laun og hlunnindi eins og þeir fengu í álverinu á sínum tíma. Nefna má einnig að álframleiðsla hefur veruleg áhrif á efnahag þjóðarinnar, bæði í formi útflutningstekna, skattgreiðslna og sköpun starfa, beinna og afleiddra.

Sjálfstæðisflokkurinn stuðlaði að EFTA samningum sem var veruleg búbót á sínum tíma og síðar að EES samningum. Sumir vilja eingöngu þakka Jóni Baldvin samninginn, en komið hefur fram hjá honum sjálfum, að Sjálfstæðisflokkurinn var sá eini sem vildi taka þátt í gerð hans á sínum tíma.

Svo má nefna, að þegar Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn árið 1991, kom í kjölfarið eitt lengsta hagvaxtarskeið lýðveldistímans.

Ef litið er framhjá  hruninu, þá voru það vitanlega skattalækkanir til fyrirtækja sem urðu til þess, að það varð meira svigrúm fyrir þau til að hagnast. Í framhaldinu nutu launþegar hagnaðaraukningarinnar í formi hærri launa.

Mörgum vinstri manninum dettur eflaust í hug, að þakka vinstri stjórn Steingríms Hermannsonar fyrir lága verðbólgu og nefna "Þjóðarsáttina" frægu til sögunnar.

Þjóðarsáttin var ekki ríkisstjónrinni að þakka, heldur voru aðilar vinnumarkaðarins orðnir þreyttir á víxlhækkun vöru og kaupgjalds, ríkisstjórnin gerði lítið annað en að hlýða samtökum atvinnurekenda og launþega á þessum tíma.

Eins og í öllu stórum málum er þjóðina varða, þá átti Sjálfstæðisflokkurinn vitanlega hlut þar að máli, þótt hann hafi ekki verið í ríkisstjórn þá. 

Þjóðarsáttin var "stétt með stétt" í verki, samvinna allra stétta, en það er eitt af slagorðum Sjálfstæðisflokksins og sá sem fékk viðurnefnið "bjargvætturinn" í þjóðarsáttinni var vitanlega sjálfstæðismaðurinn góðkunni, Einar Oddur kristjánsson heitinn.

Ef einhver efast um ofangreindar fullyrðingar og telur þær einhverskonar áróðursbragð "náhirðarinnar", þá skal viðkomandi bent á ágæta bók sem skrifuð var af vinstri manninum Illuga Jökulssyni, en hún heitir "Ísland í aldanna rás 1900-2000" og ætti að vera aðgengileg á flestum bókasöfnum landsins.

Í þeirri bók kemur flest fram sem að ofan er ritað, sem betur fer þá eru ritaðar samtímaheimildir sem aðgengilegar eru fyrir alla og þær er betra að styðjast við, heldur en að taka mark á bullukollum sem þvarga á netinu.

Sögulegar staðreyndir sýna það og sanna með óyggjandi hætti, að Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuð og herðar yfir aðra flokka.


Endurreisn Sjálfstæðisflokksins er í fullum gangi.

Við erum nokkrir trúnaðarmenn í Sjálfstæðisflokknum sem hittumst reglulega og förum yfir hin ýmsu mál tengdum flokknum.

Um nokkurt skeið höfum við farið yfir stjórnmálasögu lýðveldisins og leitast við að finna skýringar á, þeirri neikvæðu umræðu sem hefur verið um Sjálfstæðisflokkinn í gegn um árin, sumir vilja meina að meiri spilling sé í Sjálfstæðisfloknum en öðrum flokkum.

Eftir nokkuð ítarlegar athuganir, höfum við komist að raun um, að hægt er að saka alla flokka um sérhagsmunagæslu, því erfitt er fyrir stjórnmálamenn að bera slíkt af sér. Einnig er það undarlegt í ljósi umræðunnar, að hinir flokkarnir, jafnvel þeir sem saka flokkinn hvað mest um spillingu, hafa verið í stjórn með Sjálfstæðisflokknum alloft á lýðveldistímanum.

Höfum við helst komist að þeirri niðurstöðu, að vinstri menn séu ansi herskáir í sínum yfirlýsingum og sjálfstæðismenn hafa lengst af, nær ekkert svarað fyrir sig.

En erfitt er að vera dómari í eigin sök og ef flokkur vill leitast við að fara í alvöru sjálfsskoðun, þá þarf að hlusta á fleiri sjónarmið. Við sem höfum rætt þessi mál erum vitanlega allir sjálfstæðismenn og ósjálfrátt litar það umræðuna.

Þess vegna höfum við óskað eftir því við forystumenn hinna flokkanna, að þeir kæmu og segðu sína hlið á þessum málum.

Næstkomandi laugardag hefur Ögmundur Jónasson ákveðið að mæta til okkar niður í Valhöll og erum við þakklátir fyrir það.

Haldinn verður opinn fundur kl. 10:30 og allir velkomnir, því við köllum vitanlega eftir opinni og lýðræðislegri umræðu. Það er best að sem flest sjónarmið fái að komast að, því Sjálfstæðisflokkurinn vill þjóna þjóðinni allri og það hefur verið hans helsti styrkur, hversu mörg sjónarmið hann hefur rúmað í gegn um tíðina.

Ögmundur og Guðlaugur Þór munu ræða við fundarmenn og svara sem flestum spurningum sem á þeim brenna.

Þetta mun verða fyrsti fundurinn af mörgum, við viljum líka fá að heyra í fulltrúum Samfylkingarinnar og leitast við að skilja, hvað átt er við, þegar vinstri flokkarnir ásaka Sjálfstæðisflokkinn um spillingu og mútuþægni.

Sá flokkur sem múlbindur sig eingöngu við þröngan hóp fólks, á ekkert erindi í stjórnmál. Það þarf að skoða öll mál frá eins víðu sjónarhorni og mögulegt er og það viljum við sjálfstæðismenn sannarlega gera og það eru engar nýjar fréttir.

Það var jú fyrrum formaður flokksins sem skipaði óháða rannsóknarnefnd til að rannsaka eigin verk, enda höfum við sjálfstæðismenn ávalt sagt: "gjör rétt, þol ei órétt.


Hvar eru niðurrifsöflin?

Hæstvirtur fjármálaráðherra talar um að stjórnarandstaðan neiti að horfast í augu við, hversu gott ástandið er orðið fyrir tilstuðlan hans og annarra stjórnarliða.

Því verður ekki neitað, að fjármálaráðherrann hefur mikinn sannfæringarkraft, því hann trúir greinilega sjálfur, að allt sé á uppleið.

Staðreyndin er sú, að það sem gengur vel hér á landi, er ekki ríkisstjórninni að þakka.

Fjárhagur þjóðarinnar er ekki alslæmur, en það er ekki vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, heldur vegna lána frá AGS, en lán eru skammgóður vermir eins og við þekkjum, og svo hefur lágt gengi krónunnar hjálpað til.

Hin "jákvæða" skýrsla AGS, sem fjármálaráðherra vitnaði í, bendir á að efnahagur landsins sé brothættur, til þess að hann verði viðunandi, þarf stóriðju og erlendar fjárfestingar.

Ólíklegt er að VG stuðli að stóriðju hér á landi og tafir á erlendri fjárfestingu koma til, vegna pólitísks óstöðugleika hér á landi meðal annars, gjaldeyrishöftin spila þar líka stóra rullu.

Það ætti að vera hverjum manni ljóst, hvar niðurrifsöflin halda sig.

Þau eru vitanlega fyrst og fremst til staðar hjá ríkisstjórninni, þess vegna ætti hún að víkja hið fyrsta, til þess að hjólin fari að snúast á ný.


mbl.is Fordæmir niðurrifsöfl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verk hinnar "tæru vinstri stjórnar".

Ekki vantaði yfirlýsingarnar þegar fyrsta "tæra vinstri stjórn lýðveldisins" var stofnuð. Það átti nú aldeilis að byggja skjaldborg um heimilin, koma á fót stjórnlagaþingi og umbylta kvótakerfinu, Samfylkingin var hörð á því, að hin svokallaða fyrningarleið yrði farin.

Það þótti alger nauðsyn að koma á fót stjórnlagaþingi, einnig hafði Samfylkingin talað um, að þar sem við værum friðsöm þjóð, þá ættum við hið snarasta að taka okur af "lista hinna viljugu þjóða", þau vildu ekkert hafa með Íraksstríðið að gera. Ennfremur átti að draga stjórnmálamenn til ábyrgðar og láta þá svara til saka, varðandi meint mistök í aðdraganda hrunsins.

Svo kemur vanhæfni hennar alltaf betur og betur í ljós, það eins sem þessi ríkisstjórn hefur gert nokkuð skammlaust, það er að hlýða AGS í einu og öllu. Hlýðni þeirra við Alþjóða gjaldeyrissjóðin gerir það að verkum, að ýmsar tölur líta Þokkalega út á blaði, vitanlega hrósa þau sér mikið af því öllu saman, það er eins og með fyrri vinstri stjórn, þau hrósuðu sér af hlýðni við aðila vinnumarkaðarins, varðandi þjóðarsáttasamninganna, en vitanlega hrósa þau sér af því öllu, þótt vitað sé að aðrir eigi heiðurinn.

Ríkisstjórnin getur ekki, þrátt fyrir mikla elju spunameistara ýmissa, hrósað sér af skjaldborg um heimilin, hún var afhent erlendum vogunarsjóðum sem engin veit deili á, nema fjármálaráðherrann kannski.

Þótt fyrningarleiðin sé snargalin, þá var hún engu að síður eitt af kosningaloforðum Samfylkingarinnar og þau ætluðu að beita sér fyrir henni. Ríkisstjórnin getur ekki einu sinn komið með þokkalegt frumvarp um fiskveiðimál, þótt margt megi gagnrýna við lög um sama efni hjá fyrri ríkisstjórnum, þá var ekki eins mikill ágreiningur um þau, það er einfaldlega enginn sáttur við frumvörp þeirra um fiskveiðistjórnun, fyrir utan þá sem að þeim standa, en það eru náttúrulega ekki fréttir.

Svo þetta með stjórnlagaþingið, kosningarnar voru dæmdar ólöglegar, það mun vera einsdæmi í vestrænu lýðræðisríki, að kosningar sem skipulagðar eru af lýðræðiskjörinni ríkisstjórn séu dæmdar ólöglegar. En þau skýrðu það þá bara stjórnlagaráð og fóru framhjá lögum.

Við erum víst enn á lista "hinna viljugu þjóða", þrátt fyrir andstöðu Samfylkingar, og þau bættu um betur, studdu loftárásir í Líbýu. Þetta er mjög undarlegt, en samt satt.

Svo er það, að draga stjórnmálamenn til ábyrgðar, ríkisstjórnin taldi sig fá einhverjar vinsældir fyrir að vilja refsa stjórnmálamönnum, en það var nú ekki aldeilis á þann veg sem þau ætluðu.

Réttarhöldin yfir Geir H. Haarde eru sennilega einsdæmi í vestrænu lýðræðisríki og verða vonandi aldrei aftur endurtekin.

Hægt er að fjalla um það stóra tjón sem orðið hefði, ef þeim hefði tekist að koma Icesave sjónarmiðum sínum í gegn, en þau sluppu fyrir horn, þökk sé þjóðinni.

Þegar farið er yfir ofantalin atriði, þá sést það glöggt að verk þessarar ríkisstjórnara samanstendur af mistökum, stórum og smáum. Þess vegna er það undarlegt að fylgi við hana hefur aukist.

Sá sem heldur því fram að þessi ríkisstjórn standi sig vel, þarf að finna ansi sterk rök máli sínu til stuðnings.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband