Færsluflokkur: Bloggar
Laugardagur, 1. janúar 2011
Sópa nýir vendir alltaf best?
Að segja að nýir vendir sópi best þarf ekki endilega alltaf að vera rétt.
Þetta máltæki hefur stundum verið notað um Hreyfinguna sem nú hefur þrjá menn á þingi, en þeir eru víst ekki stjórnmálamenn að eigin sögn, heldur ætla þau að skreppa á þing til að breyta skipulaginu, ef það tekst ekki í snarhasti, þá ætla þau að hætta hið snarasta.
Þessi ágæt flokkur minnir svolítið á græningjaflokka almennt, þeir eru gjarna á móti ríkjandi skipulagi og vilja ekki spilla náttúrunni. Það er vissulega sjónarmið útaf fyrir sig og ekki alslæmt, en róttækni hefur nú ekki alltaf gengið vel, heldur er það hófsemin sem hefur verið farsælust til þessa.
Eftir að hafa hlustað á forsvarsmann þess ágæta flokks í kryddsíldinni, þá komu þessir ágallar "nýa blóðsins" vel í ljós.
Þessi ágæti maður sagði að það ætti hver og einn þingmaður að halda sinni sannfæringu á lofti og ekki lúta neinu leiðtogaræði.
Þetta er góð og falleg hugsun, en einföldun á raunveruleikanum. Vissulega á ekki að fara of langt í fylgispekt við skoðanir gegn eigin sannfæringu, en hinn vandrataði meðalvegur er bestur í þessu máli.
Margir eru þeirrar gerðar að finnast sín sannfæring sú eina rétta og flestir hafa sterka sannfæringu fyrir ýmsum málum.
En til að geta starfað með öðrum, þá þurfa að koma til málamiðlanir sem ganga út á það, að örlítil brot allra sjónarmiða steypast saman í eitt, sem verður þá ofan á að lokum. Best er að hafa öflugan og lipran leiðtoga sem nær að laða þetta fram og fylgja því eftir, til þess að hver og einn fari ekki að taka sína persónulegu sannfæringu upp aftur.
Svona vinnubrögð hafa reynst heiminum prýðilega, þótt þau séu ekki fullkomin. Enda er víst ekkert fullkomið í þessum heimi. Svo með virðulegan klæðaburð og formleg ávörp, þótt Hreyfingarfólk sé á móti þessu tvennu, þá er erfitt að viðhalda trausti, aga og virðuleik þjóðþinga án þess.
Ekki var hann hrifinn af stóriðjustefnunni, hann vildi frekar byggja upp ferðamannaiðnaðinn og sleppa stóriðjuframkvæmdum, því þær gera lítið annað en að skapa mikinn fjölda starfa í einhver ár, ásamt stórum peningaupphæðum. Svo myndi þetta allt saman nánast hverfa.
Þetta var heldur ekki alvitlaust hjá honum, en miðað við aðstæður í dag, þá þurfum við fjármagn bæði og störf, jafnvel þótt til skamms tíma sé.
Svo meðan uppsveiflan af stækkun álversins er í gangi þá er ekkert sem bannar fólki að fá góðar hugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd.
Það er nefnilega oft á stóriðjuandstæðingum að skilja, að svoleiðis framkvæmdir þurfi endilega að koma í veg fyrir nýsköpun á öðrum sviðum.
Ef þjóðin hugsar rétt (stjórnmálamenn geta ekki séð fyrir öllu og eiga ekki að gera það), þá getur hún nýtt sér þá bjartsýni sem skapast við verðmætaaukninguna, þótt tímabundin sé og finna fleiri leiðir sem myndað gætu burðarstoðir efnahagslífsins. Skynsamlegast væri um þessar mundir að einbeita sér hvað mest að útflutningi.
Svo er það með fjölgun ferðamanna. Íslensk náttúra er mjög viðkvæm og hún þolir ekki nema takmarkaðan fjölda á skömmum tíma. Þess vegna þurfum við að stíga þar gætilega til jarðar. Við getum auk þess ekki rekið samfélag sem gerir eins miklar kröfur og íslendingar gera með ferðaþjónustu og skapandi greinum eingöngu.
Öflugur sjávarútvegur verður að vera til staðar og álframleiðsla er nauðsynleg fyrir efnahagslífið, burtséð frá tilfinningum manna gagnvart náttúrunni.
En við eigum að sjálfsögðu að vernda hana eins vel og kostur er.
Eftir að hafa hlustað á sjónarmið fulltrúa Hreyfingarinnar í Kryddsíldinni, þá er ég efins um að hér myndi ríkja gott ástand ef þeirra stefna fengi að ráða, þótt vissulega sýni þau góðan vilja og heiðarlegt hugarfar.
En það þarf meira til, ef við viljum lifa eins vel og við höfum gert til þessa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 31. desember 2010
Nýjárskveðjur til bloggheima.
Kæru lesendur þessarar síðu og mínir góðu bloggvinir.
Ég vil óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og el þá von í brjósti að komandi ár verði ykkur öllum til gæfu.
Nú hef ég verið þátttakandi í umræðum bloggheima í eitt ár, rúmlega þó, og hefur það verið mjög ánægjulegur tími. Hér dvelur löngum stundum afskaplega fjölbreytileg mannlífsflóra, sumir virðast varla þegið heila í vöggugjöf frá skapara sínum á meðan aðrir eru afburðagreindir og fjölfróðir mjög og svo allt þar á milli.
Ég hef eignast marga góða spjallvini hér og myndað ágætis vinatengsl við tvo þeirra, en það eru heiðursmennirnir Óskar Helgi sem kallar sig Svarthamar og Jón Valur Jensson. Við þá báða hef ég átt skemmtilegar viðræður í síma og það fer ekki á milli mála, að þar fara greindir og rétthugsandi menn.
Það er skemmtileg tilviljun, að þessir tveir skuli hafa verið þeir fyrstu sem ég mynda vinatengsl við hér í bloggheimum, því þeir voru líka mínir fyrstu bloggvinir.
Óskar var sá fyrsti sem sendi mér bloggvinabeiðni, en þá hafði ég ekki mikið ferðast um bloggheima og nafnið Svarthamar vakti athygli mína. Ég var staddur uppi í brú að skoða póstinn minn og spurði skipstjórann hvort hann vissi hver þessi Svarthamar væri. Kafteinninn hefur lengi verið tíður gestur á hinum ýmsu bloggsíðum, þótt hann af einskærri hógværð láti aldrei til sín taka, því hann hefur margt áhugavert til málanna að leggja og oft eigum við mjög gefandi samræður um hin ýmsu málefni, sem ég hef lært mikið af.
Hann sagði mér að Svarthamar væri mjög góður og mikið vit í því sem hann segir. Ég kíkti á síðuna hans og sá að þar fór maður sem bjó yfir meiri visku en margur annar, þótt hann riti sérstætt og oft á tíðum torskilið mál, að sumra mati, þá er mikil hugsun í hans skrifum, mikil og djúp. Ég varð fljótur að samþykkja hann og mér fannst hann sýna mér heiður með beiðninni.
Svo kom skömmu síðar beiðni frá Jóni Val, en hann kannaðist ég við, því ég hef hlustað mikið á Útvarp Sögu, einnig fannst mér heiður af beiðni hans. Svo kom að því að fleiri gáfu sig fram og ég lærði líka að óska eftir bloggvinum sjálfur.
Bloggið er prýðisgóð dægradvöl, þegar ég er í landi er ég oftast einn heima, því allir eru í skóla og vinnu. Þá er gott að setjast við tölvuna og skoða hvað bloggvinirnir eru að segja, stundum ef ég er ekki mjög andlaus kommentera ég, en oft er maður ósofinn og talsvert ringlaður þegar í land er komið, svo rita ég mínar hugrenningar ef andinn kemur yfir mig osfrv.
Þar sem ég hef aldrei verið mikið gefinn fyrir íþróttir, oftast lagt mig og beðið þar til það líður hjá ef krefjandi hreyfiþörf knýr að dyrum, þá er orðaleikfimi og þvarg oft hin besta dægradvöl. Og ég get setið með kaffibolla vel afslappaður við tölvuna og látið gamminn geysa.
Konan er mjög hissa á þessu hjá mér, því lítið hef ég verið fyrir að stússast í tölvunni, fyrir mörgum árum uppgötvaði ég að það væri kominn tölva á heimilið, en við áttum lítt skap saman, enda hef ég ekki verið gefinn fyrir tækninýjungar í gegn um tíðina.
En loksins, eftir margra ára þreifingar, þá náðum við sátt ég og tölvan. Þegar ég byrjaði að blogga var ég stöðugt að klúðra einhverju og vafalaust reynt á þolrif starfsmanna mbl.is með heimskulegum spurningum, en þeim tókst með þolinmæði, að kenna mér á leyndardóma bloggheima.
Að lokum hlakka ég til samskipta næsta árs við ykkur, ágætu lesendur og dvalargestir bloggheima. Þvörgurunum sendi ég líka góðar óskir og einlæga von um að þeir fari ekki að daðra við skynsemina. Þá missa þeir allan sjarma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 30. desember 2010
Ævisaga Gunnars Thoroddsen.
Það var eitt af mínum fyrstu verkum eftir að þessi góða bók kom út að kaupa mér eitt eintak.
Bókin er vel skrifuð og gefur góða innsýn inn í pólitík 20. aldar, einnig er áhugavert að kynnast hinum merka stjórnmálamanna, hugsjónum hans og persónuleika.
Hún staðfesti líka margt sem ég hef lengi vitað, fyrirgreiðslupólitík var ekki eingöngu á ábyrgð stjórnmálamanna.
Í bókinni koma fram dæmi um það, að menn hafi hótað að kjósa ekki flokkinn ef þeir gerðu ekki hin ýmsu viðvik fyrir sig og heilu sveitarfélögin hótuðu öllu illu ef þau næðu ekki sínu í gegn.
Hugsjónir almennings ristu ekki djúpt á þessum tíma, það skipti þá máli að vera í þeim flokki sem gerði þeim greiða.
Þessi góða bók ætti að kenna mönnum mikið meira en margir þjóðfundir.
Þjóð sem skammast eingöngu út í stjórnmálamenn og ætlast til þess að þeir geri allt rétt, en er ekki tilbúin að axla ábyrgð og læra, hún nær seint góðum þroska.
Hrunið sem varð hefði orðið mun mildara ef almenningur hefði ekki tapað sér í kaupgleði og sóun á fjármunum. Einnig hefðu fasteignir ekki hækkað svona mikið ef kaupendur hefðu ekki verið tilbúnir til að borga uppsett verð.
Ef þjóðin hefði heimtað minna í áranna rás og verið nægjusamari, þá værum við í ágætri stöðu í dag.
Ég get þó alla vega sagt það, að hrunið varð mér dýrmætur skóli. Mér var það ljóst, að peningar eru ekki óþrjótandi auðlynd og ég vona að ég verði aldrei svo vesæll maður, að kenna öðrum um minn eigin aulaskap.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 30. desember 2010
Allir hlusta á Davíð.
Það er merkilegt með Davíð Oddsson, hann vekur ávallt upp miklar tilfinningar hjá fólki, menn ýmist elska hann og dá eða elska að hata hann.
En eftir að hann hætti sem ráðherra, þá töluðu allir óskaplega vel um hann, jafnt pólitískir andstæðingar sem aðrir. Vitað er að hann studdi vel Jóhönnu Sig. þegar þau voru saman í ríkisstjórn og oft leyfði hann henni að rekja raunir sínar meðan hann hlustaði og sýndi henni skilning.
Erfitt er að leyfa Davíð að njóta sannmælis, því þegar illa gengur hjá þjóðinni þá er honum gjarna kennt um allt sem miður fer.
Allir mega hafa sínar skoðanir á persónu hans, en ef litið er til hans verka, þá eru þau flest ansi góð.
Hann náði að skapa samstöðu hjá þjóðinni og náði það miklu fylgi, að hann sat manna lengst sem forsætisráðherra. Það var vegna þess að stjórn landsins gekk vel lengst framan af og fyrir kosningar 1999 voru flestir sammála um að stjórnarandstaðan var í miklum vanda, það var eiginlega ekkert upp á ríkisstjórnina að klaga.
Það er alveg hárrétt sem hann segir um núverandi ríkisstjórn, hún er afskaplega gagnslítil til flestra verka, flestir landsmenn eru sammála honum um það.
Svo er það mjög í tísku um þessar mundir að kenna honum um hrunið og vitna í einkavæðingu bankanna máli sínu til stuðnings.
Það muna flestir eftir því, þegar Jón Ásgeir ásamt fleirum keyptu Íslandsbanka. Það var ekki Davíð að skapi, en Jóni Ágeiri tókst samt að halda bankanum.
Það bendir til þess að Davíð hafi ekki gengið eins hart að þeim sem honum mislíkaði við, eins og margir vilja vera láta.
Glitnir var sá fyrsti sem féll, jafnvel þótt Davíð hafi ekki valið stjórnendurna. Það hrundu allir bankarnir og sparisjóðir líka, flestir bankar heimsins lentu í vandræðum og margir gamlir og öflugir bankar hrundu, jafnvel þótt Davíð hafi sennilega ekkert komið að málum hjá erlendu bönkunum sem féllu.
Það er sama hvaða upplýsingar koma fram, fólk heldur fast í sínar skoðanir, þetta var allt Davíð að kenna.
Rannsóknarnefnd alþingis vildi lítið gera með andmæli hans, vegna þess að það hentaði ekki af einhverjum ástæðum, jafnvel þó hann hafi bent á það í sínum rökstuðningi, að Seðlabankanum hafi skort heimildir.
Svo kemur að því, að núverandi Seðlabankastjóri kvartar yfir því, að honum skorti lagaheimildir til að grípa inn í, ef bankarnir lenda aftur í sambærilegum vanda. Engum dettur samt til hugar að viðurkenna að kannski hafi Davíð eitthvað til síns máls.
Það er eins og að rökræða við steinvegg að reyna að segja sumum að Davíð hafi nú ekki verið alslæmur, rök mega sín einskis, en kosturinn við steinveggi er sá, að þeir halda þó ekki áfram að hanga í einhverri vitleysu af eintómri þrjósku, enda eru steinveggir frekar skoðanalausir.
Davíð er náttúrulega bara maður, með kostum og göllum. Hann valdi sér starfsvettvang sem hentaði vel hans hæfileikum og þess vegna hafa orð hans eins mikið vægi og raun ber vitni.
Það er nefnilega þannig, þrátt fyrir allt, allir hlusta á Davíð.
![]() |
Davíð: Ekki starfhæf ríkisstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 29. desember 2010
Skemmtilegur samkvæmisleikur.
Rannsókn þessi sem sagt er frá getur varla talist markverð, en engu að síður skemmtilegur samkvæmisleikur fyrir þá sem hafa gaman af að finna röksemdir fyrir eigin greind.
Það voru rannsakaðir nítíu og tveir einstaklingar og gerður sá fyrirvari, að allsendis óvíst væri hvort möndulstærðin væri meðfædd eða áunnin með lífsreynslu ýmiskonar.
Vitanlega þekkist það að hægri menn séu óskaplega vitgrannir og vinstri menn geta verið bráðgreindir osfrv.
En eftir stendur það, sem ekki var tekið fyrir í þessari rannsókn, að vinstri menn hafa innan sinna raða árásargjarnari einstaklinga. Hægri menn eru yfirleitt hófstilltari í framgöngu sinni.
Ennfremur virðast hægri menn á Íslandi vera ólíkt víðsýnni heldur en vinstri menn. En svo birtist félagi úr VG í Fréttablaði dagsins í dag og þar fer maður sem státar af víðsýni sem og ágætri greind.
Reyndar finnst mér greind vera stórlega ofmetið hugtak. Það er til fullt af bráðgreindu fólki sem hagar sér eins og fábjánar, einnig eru til einstaklingar sem af lítilli greind státa, en komast prýðilega af með það litla sem þeim var gefið.
Ætli þetta sé ekki bara spurning um nýtingu og þjálfun við að beita því sem manni hefur verið gefið, burt séð frá stjórnmálaskoðunum.
![]() |
Stærð heilasvæða ræður stjórnmálaskoðunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 29. desember 2010
Arkitekt kvótans og hrunflokkur?
Það segir sitt varðandi hina stórkostlegu áróðurstækni Samfylkingar að ansi margir eru farnir að trúa því að sjálfstæðismenn hafi átt hugmyndina að kvótakerfinu og að hann hafi beinlínis valdið hruninu.
Fyrsta hugmyndin um kvótakerfi í núverandi mynd kom víst frá eðalkratanum Jóni Sigurðssyni árið 1978. Um það má lesa í bók eftir Illuga Jökulsson, hún heitir "Ísland í aldanna rás" og fjallar um árin 1900-2000. þetta kemur fram á bls. 907 í þeirri ágætu bók.
Svo voru það vinstri menn sem settu kvótann og framsalið í lög þegar þeir héldu um valdataumana. Sjálfstæðismenn komu þar hvergi nærri, en þeir hafa vissulega viðhaldið því.
Ég persónulega tel tillögur Jóns Kristjánssonar fiskifræðings mjög góðar, þannig að ég tel ekki þörf á kvótakerfinu og einnig er ég óhress með þá miljarða sem menn hafa tekið út úr greininni.
En miðað við þær forsendur sem Hafró hefur gefið, þótt ég sé ekki sammála þeim, þá tel ég að eðlilegt hafi verið að leyfa útgerðarmönnum að njóta þeirra litlu heimilda sem í boði voru og hafa verið til þessa.
En pistillinn á ekki að fjalla um kvótakerfið sem slíkt, ég nenni ekki að þvarga um það, heldur er ég að benda á hve vel Samfylkingunni hefur tekist að blekkja þjóðina með algjörum þvættingi.
Svo er það hrunið.
Jafnaðarmenn sköpuðu regluumhverfið sem fjármálafyrirtækin störfuðu eftir og gerði útrásina mögulega ef marka má ræðu Ingibjargar Sólrúnar á landsfundinum árið 2007.
En að hártogunum slepptum, þá er það ljóst að óábyrgir og óheiðarlegir fjármálamenn ollu hruninu. Þeir lugu að stjórnvöldum og eftirlitsstofnunum og stjórnvöld voru eflaust ekki nógu grandvör á þessum tíma.
En að segja að stjórnsýslan hafi valdið hruninu eða einstakir stjórnmálaflokkar, það stenst enga skoðun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 29. desember 2010
"Fólkið brást en stefnan ekki".
Sjálfstæðisflokkurinn stendur nú á krossgötum og nauðsynlegt er að velja réttu leiðina.
Hún ætti að vera auðfundin, það stendur allt í stefnuskránni sem rituð var fyrir rúmum áttatíuárum síðan.
Það var drengilegt af forystumönnum flokksins að segja að þeir hafi brugðist, vegna þess að þau gleymdu að fara eftir stefnunni. Þess vegna mun ég fyrirgefa þeim og gefa þeim tækifæri til að framfylgja stefnu flokksins. Hún er besta verkfærið til endurreisnar samfélagsins.
Meginstef sjálfstæðisstefnunnar er frelsi einstaklingsins til athafna, einnig frelsi til að njóta ávaxta erfiðis síns. Vinstri flokkarnir vilja steypa alla í sama mót og leitast við að hækka skatta á duglegt fólk, oftast bitna þeir verst á ungu dugmiklu fólki sem er að stofna fjölskyldur. Þeir hinir eldri sem hafa komið ár sinni vel fyrir borð, þola betur þessar ósanngjörnu álögur.
Það er líka fleira sem greinir sjálfstæðisstefnuna frá öðrum flokkum. T.a.m. "stétt með stétt".
Vinstri flokkarnir voru stofnaðir til að bæta kjör verkalýðsins. Það er í grunnin göfug hugsjón, en aðferðarfræði þeirra var kolröng.
Með því að reka fleyg á milli atvinnurekenda og launþega, þá er verið að valda deilum sem annars þyrftu ekki að vera til staðar.
Aðilar vinnumarkaðarins hafa sömu hagsmuna að gæta. Launamaðurinn hefur hagsmuni af því að atvinnurekandanum gangi vel, því þá býr hann við meira öryggi. Einnig hefur atvinnurekandinn hag af því að launamaðurinn hafi góða afkomu, því þá nýtist hann betur í starfi. Þetta segir sig sjálft, en vinstri menn hafa þá einkennilegu áráttu að valda deilum á milli stétta og halda að þær bæti eitthvað.
Í áranna rás höfum við búið við verðbólgu sem m.a. er tilkominn vegna þess að fyrirtæki hafa greitt hærri laun en framleiðslan hefur staðið undir. Það tók verkalýðsforystuna langan tíma að átta sig á því, að það er ekki seðlafjöldinn sem skiptir máli, heldur verðmæti krónunnar.
Það var ekki fyrr en sjálfstæðismaðurinn sómakæri Einar Oddur, sem lést of snemma og varð öllum mikill harmdauði, kom að málum og varð helsti höfundur þjóðarsáttarinnar árið 1990, jafnvel þótt vinstri menn þakki sér hana, eins og allt sem vel er gert. En þeir kannast aldrei við mistök hjá sér, ólíkt sjálfstæðismönnum sem viðurkenna þó að þeir hafi gert ýmislegt rangt. Eftir að aðilar atvinnulífsins fóru að ganga í takt, þá upplifði þjóðin hagfellda tíma í þónokkur ár.
Best er að leyfa sjálfstæðisstefnunni að njóta sín og gefa sjálfstæðismönnum tækifæri til að bæta fyrir mistök fortíðar. Ef þeir framfylgja ekki sjálfstæðisstefnunni eins og hún er, þá hafa þeir brugðist trausti kjósenda og eiga eru ekki traustsins verðir.
Flestir eru sammála um að vel hafi tekist til eftir kosningar 1991 og fram undir 2004. Eftir þann tíma fóru menn að þenja út ríkisbáknið og gera alls kyns æfingar sem eru beinlínis í andstöðu við stefnu Sjálfstæðisflokksins.
Fjölmiðlar eiga að veita aðhald sem og almenningur. Benda skal á að hinn almenni flokksmaður hefur látið mikið til sín taka og forystan tilneydd til að hlusta á sjónarmið grasrótarinnar eins og var t.a.m. varðandi ESB á síðasta landsfundi. Ég vil sjá meira af því, vegna þess að sama hvernig einstaklingurinn er af guði gerður, vald spillir öllum að lokum, ef ekkert er aðhaldið.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn nær að verða lifandi flokkur með fjölda samhentra flokksmanna, þá er ekkert stjórnmálaafl á Íslandi hæfara til að leiða okkur út úr ógöngunum. En fólk verður að nenna að mæta á fundi og láta í sér heyra og vera duglegt við að hafa samband við kjörna fulltrúa.
Það er að lokum fjöldinn sem ræður í lýðræðisflokki eins og Sjálfstæðisflokkurinn er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 28. desember 2010
Hvenær verður öndunarvélin tekin úr sambandi?
Ríkisstjórninni má líkja við sjúkling sem haldið er sofandi í öndunarvél, en sökum þráhyggju þá vilja aðstandendur hennar ekki að hún sé tekin úr sambandi.
Jafnvel þótt heilinn sé dauður og hjartað löngu hætt að slá.
Gaman væri ef einhver fróður einstaklingur gæti bent á verri stjórn frá upphafi siðmenningar.
Ekki hefur heyrst af ríkisstjórn, mér vitanlega, sem er svo lömuð vegna skorts á sjálfstrausti, að hún gerir hvað sem er til að þóknast öðrum ríkjum, af einskærum ótta. Hvaða ríkisstjórn önnur hefur fullyrt það að hún geti alls ekki stjórnað sjálf, þurfi þar af leiðandi að leita stuðnings frá stóru ríkjabandalagi?
Ekki veit ég heldur til þess, að ríkisstjórn önnur hafi tekið við völdum, þegar fjármagn er af skornum skammti og brugðið fæti fyrir útflutningsatvinnuvegi.
Harðstjórar heimsins og algrimmustu þjóðarleiðtogar veraldarsögunnar hafa þó allir eitt fram yfir þessa ríkisstjórn, þeir héldu þó allavega málstað eigin þjóðar á lofti í samskiptum við erlend ríki og komu ekki í veg fyrir að útflutningsatvinnuvegirnir gætu blómstrað.
Þeim er raunar vorkunn, þau festust í hugarfari því sem þekktist á tímum útrásar og trúa því að lánsfé sé lykill hagvaxtar. En það gerir hana alls ekki hæfari, þvert á móti margfalt vanhæfari.
Geti enginn bent á vanhæfari ríkisstjórn í veraldarsögunni, þá hlýtur "hin tæra vinstri stjórn" þann vafasama titil.
Þá er nú kominn tími til að kippa öndunarvélinni úr sambandi strax.
![]() |
Telur óvíst að stjórnin lifi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 28. desember 2010
"Ekkistjórnmálamaðurinn".
I höfuðborginni ríkir afskaplega furðuleg stjórn, eflaust er hún einsdæmi í veraldarsögunni.
Fyrir kosningar síðasta vor kom á sjónarsviðið grínleikari sem engan áhuga hefur á pólitík og að eigin sögn enga hæfileika til að starfa við stjórn borgarinnar, honum er nefnilega lífsins ómögulegt að einbeita sér lengi í einu. Þetta er eftir honum sjálfum haft.
Hann var orðinn þreyttur á þessu eilífðar harki í skemmtanabransanum ásamt tilheyrandi óvissu varðandi sína lífsafkomu, honum fannst upplagt að gerast borgarstjóri, því þá hefði hann öruggar tekjur og þægilega innivinnu, auk þess gæti hann veitt vinum sínum nokkuð trygga afkomu.
Hann lofaði því hátíðlega að svíkja öll kosningaloforð.
Það er greinilegt að vesalings maðurinn veit ekkert hvað hann er að gera. Fyrirmynd hans í starfi er Sebastían bæjarfógeti Kardimommubæjar og hann vill stofna til vinatengsla við heimabæ Múmínálfa.
Það er vissulega sjónarmið út af fyrir sig, en heimurinn er nú vanari því að stjórnmálamenn haldi sig við raunveruleikann í stað ævintýra, sem aðallega eru dægradvöl fyrir börn.
Svo vill hann víst afnema kapítalismann og frjálsa markaðshagkerfið, því það fer eitthvað fyrir brjóstið á honum.
Nema hann sé að grínast á sama hátt og hann grínaðist við erlenda fjölmiðla er hann sagði frá áhuga sínum á klámsíðum.
Það má vel vera íhaldssemi hjá mér, en ég vil nú frekar hafa stjórnmálamenn í pólitík heldur en skemmtikrafta sem lifa í heimi ævintýra.
Ég er sannfærður um að það er farsælla fyrir þjóðina þegar upp er staðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 27. desember 2010
Það er greinilega vinstri stjórn við völd.
Þessi frétt ber það augljóslega með sér að vinstri menn ráða ríkjum um þessar mundir.
Sagan er að endurtaka sig frá árunum 1988-1991, en þá ríkti einmitt líka vinstri stjórn hér á landi. Á þeim tíma voru háir skattar að kyrkja atvinnulífið, nú eru þeir að koma aftur.
Og fyrst að það er enginn fjandans miðju hægriflokkur að þvælast fyrir, eins og Framsóknarflokkurinn gerði í fyrri vinstri stjórn, þá geta vinstri menn látið alla sína villtustu drauma rætast.
Núna er loksins hægt að koma í veg fyrir að menn fari að verða ríkir, bara hækka skatta nógu mikið og frelsið er hægt að takmarka, þannig að ríkið hafi nú undirtökin á markaðnum.
Það er auðvelt að kenna bara sjálfstæðismönnum um þetta allt saman, þjóðin trúir því hvort sem er að þeir hafi valdið öllu hruninu og gott ef ekki er hægt að ljúga því að hinni auðtrúa þjóð, að sjálfstæðismenn standi fyrir falli allra banka heimsins.
Verst er að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki nema rúmlega áttatíu ára gamall, annars væri freistandi að kenna honum um fall Rómarveldis
![]() |
84% stjórnenda telja aðstæður slæmar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)