Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 27. desember 2010
Þakkir til vinstri manna.
Vinstri menn hafa í gegn um tíðina unnið Sjálfstæðisflokknum ómetanlegt gagn.
Þegar vinstri stjórn ríkti í höfuðborginni, þá högnuðust nágrannasveitafélögin vel á því, vegna þess að fólk flykktist úr höfuðborginni vegna kjánalegra ákvarðana R-listans, en hjá nágrönnum okkar reykvíkinga voru gjarna sjálfstæðismenn við völd.
Frá 1971-1991 voru vinstri menn áberandi í landsstjórninni. Eftir þá leiðindareynslu fékk Sjálfstæðisflokkurinn stórkostlegt fylgi sem hélst í átján ár, reyndar var það farið að dala í restina, en þá komu vinstri menn og björguðu okkur aftur.
Eftir aðeins tveggja ára stuðning frá vinstri hliðinni er fylgi Sjálfstæðisflokksins að aukast.
Þannig að ef Sjálfstæðisflokkurinn fær slæma útreið úr kosningum, þá tekur það vinstri flokkanna ekki orðið nema tvö ár að snúa fylginu sjálfstæðismönnum í hag.
Guði sé lof fyrir vinstri flokkanna, þeir sýna landsmönnum ávallt yfirburði sjálfstæðisstefnunnar, hafi þeir kæra þökk fyrir stuðninginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 27. desember 2010
Fastur í ævafornri hefð.
Fjármálaráðherrann segir jákvæðan frumjöfnuð vera merki þess, að þjóðarskútan sé að komast á flot. En hann nefnir það ekki, að frumjöfnuður er jöfnuður milli gjalda og tekna að frádregnum vaxtatekjum og vaxtagjöldum, en vaxtakostnaður þjóðarbússins er stórt vandamál, ca. áttatíu milljarðar króna.
Þetta þýðir ekkert annað en það, að Steingrímur Joð er með afbrigðum fastheldinn á venjur. Fyrir ca. þrjúþúsund árum æfðu forn Grikkir sig í að finna rök til að verja sinn málstað, hvort sem hann var réttur eður ei. Kallast sú aðferð "súfismi". Þessi ævaforna aðferð hefur gengið sér til húðar, vegna þess að alþýða manna er orðin upplýstari og vanari betra uplýsingaflæði, heldur en var til löngu fyrir fæðingu Krists.
Það er æði þversagnakennt að ríkisstjórn sem þykist ætla að feta nýjar leiðir, skuli kolföst í ævafornri og úreltri hefð, að öðru leiti en því, að hún getur nýst ungmenum ágætlega sem eru að læra grunnatriði í rökræðum.
![]() |
Mikil ábyrgð að velta steinum í götuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 27. desember 2010
Við höfum kjána við stjórnvölinn.
Það eru vissulega stór orð að segja æðstu ráðamenn þjóðarinnar vera kjána, en því miður virðist það vera staðreynd. Ef leiðtogar vorir búa yfir greind og hæfileikum á einhverju sviði, sem ég svo sannarlega vona, þá er það ljóst að hæfileikar þeirra myndu betur nýtast á öðrum vettvangi.
Á erfiðum tímum sem þessum þá þarf þjóðin leiðsögn. Alvöru þjóðarleiðtogar móta stefnu og koma styrkleikum þjóðar sinnar á framfæri á erlendum vettvangi. Þessi ríkisstjórn segir útlendingum að íslenska þjóðin vilji ekki borga skuldir, sem er náttúrulega lygi. Ástæðan fyrir góðu lánshæfismati fortíðar var einmitt sú, að íslenska ríkið þótti ávallt traustur lántakandi.
Stór hluti ríkisstjórnarinnar hefur þá sannfæringu að íslendingar séu óhæfir til að stjórna sér sjálfir, þess vegna væla þau utan í forkólfum ESB. Svoleiðis málflutningur telst varla góð landkynning.
Ekki er hægt að kenna reynsluleysi leiðtoga ríkisstjórnarinnar um, því bæði hafa þau áralanga reynslu, en vitið er víst ekki meira en Guð gaf.
Nú hafa þau haft tvö ár til þess að vinna úr þeim möguleikum sem þjóðin hefur. Eina sem þau hafa gert er að væla út lán og allskyns millifærslu fjármuna. Vitanlega hefur eitthvað tekist vel, enda er hópur fólks sem hefur góða menntun á fjármálasviði að starfa fyrir þau.
En hvaða möguleika hefur þjóðin?
Við erum rík af náttúruauðlyndum sem hægt er að nýta. Að hafa ekki fundið út úr því, búandi yfir allri þessari reynslu, eftir tveggja ára starf, lýsir engu nema óttalegum sauðshætti.
Þrátt fyrir ýmsa galla, þá eru íslendingar kröftugir og vinnusamir upp til hópa. Fortíðin kennir okkur það, að með góðri leiðsögn hefur okkur tekist að gera kraftaverk. En það er illmögulegt þegar ríkisstjórnin bregður stöðugt fæti fyrir atvinnuskapandi tækifæri.
Það að vera á móti álverum er sjónarmið út af fyrir sig, en æði vafasamt. Álframleiðsla er ekkert annað en löglegur atvinnuvegur sem hefur reynst vel. Sjávarútvegurinn getur illa blómstrað þegar stöðugt er hótað að skerða kjör þeirra sem í honum starfa. Einnig mætti með góðum hug finna ný tækifæri, en það þarf þá að gera það, atvinnuvegurinn "eitthvað annað" er ekki til.
Alvöru leiðtogi hvorki barmar sér yfir erfiðum verkefnum né vælir um þreytu, heldur gleðst yfir öllum áskorunum og fær fólk á flug með sér. Það að halda því fram, að ekkert vestrænt ríki standi frammi fyrir jafn erfiðu verkefni eins og íslendingar er þvættingur. forsætisráðherrann hæstvirtur sagði þetta nú samt, og oftar en einu sinni. Leiðtogar Íra, Grikkja og fleiri ESB ríkja vildu gjarna vera í sömu sporum og við. Fyrri ríkisstjórn hafði nefnilega vit á því að setja ekki stórfé í handónýta banka eins og ríki innan ESB gerðu.
Það ætti að vera gaman að vera íslendingur og hafa allar þessar auðlyndir til að nýta, bæði mannlegar og náttúrulegar. Við gætum verið á leið til mikilla framfara og farin að sjá alvöru hagvöxt, þótt ekki værum við búin að leysa allan okkar vanda.
En kjánarnir koma í veg fyrir það með neikvæðu hugarfari, ótta og hefðbundnum sauðshætti sínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 26. desember 2010
Brellur vinstri manna.
Þegar vinstri menn komast til valda, þá beita þeir stöðugt einhverjum fáránlegum brellum til þess að styrkja sína stöðu og blekkja kjósendur.
Það vantaði ekki fögur loforð varðandi umbætur og nýjungar þegar þau komust til valda. Sumir trúgjarnir kjósendur glöddust yfir þeirri nýjung að nú skyldu fengnir fagmenn í ráðherrastóla til þess að bæta vinnubrögðin. Fengnir voru tveir uranþingsráðherrar, þau Ragna Árnadóttir og Gylfi Magnússon.
Gylfi reyndist líkur hefðbundnum pólitíkusum, reyndi að ljúga sig út úr mistökum sínum. En Ragna stóð sig með stakri prýði og hefði vafalaust gert góða hluti ef hún hefði fengið lengri tíma.
Svo þegar búið var að rugla þjóðina með allskyns æfingum, þá sættu þau lagi og létu fagmenninga flakka.
Ekki má heldur gleyma fögrum fyrirheitum varðandi gagnsæi osfrv., allt var það svikið um leið og sest var í ráðherrastólanna.
Þetta kennir íslendingum það enn og aftur, að þrátt fyrir breyskleika hægri manna, þá er stórhættulegt að koma vinstri mönum til valda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Föstudagur, 24. desember 2010
Gleðileg jól.
Ég vil óska öllum lesendum sem og ritendum bloggheima gleðilegra jóla og einlægrar Guðsblessunar.
Ég veit að Guð blessar einnig heittrúuðu "Vantrúarmennina" og horfir í gegn um fingur sér, þótt þeir efist um tilvist hans, ég gæti trúað að hann hefði gaman af þeim því Guð hefur ríkulegan húmor.
Ég hef einsett mér að spekúlera lítið í pólitík í dag, heldur að hugsa um fallegu börnin mín og fallegu eiginkonuna mína.
En við skulum líka hugsa til þeirra sem eiga um sárt að binda, eru einmanna um jólin og eru að upplifa jól í skugga átvinamissis. Við eigum að "bera hvers annars byrðar" og þar af leiðandi taka á vissan hátt þátt í sorgum hvers annars.
Sameinumst í þeirri von og trú að allt fari nú vel að lokum, þrátt fyrir að erfitt sé nú um stundir.
Pólitíkin er lævís bæði og lipur og hún bankar mjög krefjandi á dyr.
Til að sameina kristilegt hugarfar og pólitískar skoðanir, vil ég taka það fram að ríkisstjórnin er að krossfesta þjóðina. Þess vegna er best að segja eins og frelsarinn forðum, er hann var krossfestur;"Faðir fyrirgef þeim, þeir vita ei hvað þeir gjöra".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 23. desember 2010
"Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum".
Farísearnir töldu sig óskaplega góða menn og hneyksluðust gjarna á verkum meðbræðra sinna. En þeir áttu nú sínar dökku hliðar til eins og aðrir.
Þess vegna hvatti frelsarinn þá til þess að íhuga sína stöðu, áður en þeir færu að dæma aðra óþarflega hart.
Þeir sem tóku þátt í látunum niður á Austurvelli halda ennþá áfram að fordæma stjórnmálamenn landsins og fjargviðrast yfir spilllingunni hjá þeim.
Byltingamennirnir eru ekki síður spilltir en stjórnmálamenn sem þeir harðast dæma.
Það að veitast að lögregluþjónum er brot á lögum og að viðurkenna slíkan verknað ber vott um spillt hugarfar, einnig gildir hið sama um að trufla störf alþingis og opinbera stofnana.
Þótt ýmsir reyni að réttlæta það, þá er það engu að síður brot á lögum.
Stjórnmálamenn þeir sem spilltir eru, réttlæta það einnig fyrir sjálfum sér.
Vandséð er að sjá hver munurinn er á fyrrgreindum hópum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 22. desember 2010
Vinstri menn ættu að þakka sjálfstæðismönnum og öfugt.
Sjálfstæðismenn hafa ríkt hér á landi í heil fimmtíu og þrjú ár af lýðveldistímanum. Á þeim tíma hefur verið byggt upp fyrirmyndarþjóðfélag sem allir hafa notið góðs af.
Ef vinstri flokkarnir hefðu setið þennan tíma á valdastólum, þá væri staðan öðruvísi en hún er.
Þeir hefðu passað vel upp á að enginn hafi grætt, nema kannski örfáir útvaldir, en blómleg fyrirtæki hefðu aldrei verið mörg hér á landi.
Það væri meira basl og lítill tími til að sitja á kaffihúsum.
En vegna góðra verka Sjálfstæðisflokksins hefur vinstri mönnum verið gert kleyft að dunda sér áratugum saman í háskóla, stúderandi misgagnlegar fræðigreinar, á kostnað skattborgara og lært af kennurum sínum að hata "helvítis íhaldið".
Einnig hafa þeir getað setið áhyggjulausir á kaffihúsum bölvandi "helvítis íhaldinu" á þann hátt sem þeir lærðu af kennurum sínum í háskólanum.
Við sjálfstæðismenn getum einnig þakkað vinstri mönnum fyrir það, að hafa gefið kost á sér í pólitík.
Þá sjá landsmenn glöggt hversu vel Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið. Enda komast sjálfstæðismenn oftast fljótt til valda eftir stuttar stjórnarsetur vinstri manna og langur tími líður þangað til þeir komast í ráðherrastóla á ný.
Þetta ætti að vera ágæt hugleiðing um jólin, því þakklæti er megininntak kristinnar trúar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 22. desember 2010
Álfheiður hefur áhyggjur af einelti.
Miklar mætur hef ég löngum haft á Guðlaugi Þór Þórðarsyni og oft hef ég hælt honum fyrir hans góðu verk.
En sjaldan hef ég orðið var cið eins mikið álit á þeim mæta manni og Álfheiður lét í ljósi í Pressufrétt á dögunum.
Guðlaugur hefur greinilega náð að leggja hóp manna í einelti, en einelti telst vera til staðar, þegar margir ráðast á einn.
Ekki er Guðlaugur að spyrjast fyrir um einn ákveðinn einstakling, heldur nokkra valinkunna álitsgjafa ríkisstjórnarinnar.
Álfheiður óttast það mest að fyrirspurnir Guðlaugs komi til með að skelfa háskólasamfélagið það mikið, að háskólamenn þori vart að opna munninn af ótta við þennan ægilega mann.
Álfheiður veit það eflaust ekki, að árásir þær sem Guðlaugur mátti á tímabili þola, gætu talist einelti.
Það er vegna þess að Guðlaugur er ekki gefinn fyrir að væla yfir hlutunum. Ef hann hefði gefist upp og látið undan þungum þrýstingi margra, þá væri hann ekki að sinna þeim þörfu verkefnum sem hann gerir nú um stundir.
Álitsgjafar þeir sem hann spyrst fyrir um, hafa gerst sekir um að ljúga að þjóðinni.
Þórólfur Matthíasson laug því að við yrðum gerð útlæg úr samfélagi þjóðanna ef við greiddum ekki þann himinháá reikning sem Svavarsnefndin afhenti þjóðinni eftir sneypulega utanför sína.
Stefán B. Ólafsson hefur föndrað við Gini stuðla til þess að fá fram ranga mynd af skattamálum hér á landi.
Mér finnst óásættanlegt að greitt sé úr takmörkuðum sjóðum landsmanna fyrir villandi upplýsingar háskólaprófessora.
Þjóðin á rétt á að fá að vita staðreyndir, en ekki vinstri sinnaðan áróður eingöngu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 22. desember 2010
Ekki þarf mikið til þess að hljóta hylli kjósenda.
Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið upp til skýja hafin og af mörgum talin góður stjórnmálamaður.
En hvað olli þessum miklu vinsældum hennar?
Hún beitir bellibrögðum þeim sem börnum er töm til þess að ná sínu fram. Hver kannast ekki við freka krakka sem hóta að hætta að leika við vini sína ef þau fá ekki sitt fram?
Jóhanna hefur beitt þeirri brellu margoft og hún hefur virkað á rígfullorðna stjórnmálamenn og kjósendur.
En alvöru stjórnmálamaður þarf meira til að bera, heldur en að kunna að beita frekju og fýluköstum að hætti lítilla barna. Enda verða flest börn fullorðin og grípa til annarra og kurteisari aðferða með auknum þroska.
Óhætt er að segja að Davíð Oddson hafi tekið vægt til orða er hann líkti alþingi við gagnfræðaskóla.
Hvað má segja um alþingi sem hefur forsætisráðherra sem fastur er á leikskólastiginu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 22. desember 2010
Er aukinn hagvöxtur jákvæð vísbending?
Steingrímur Joð hefur annað slagið fengið bjartsýnisköst eftir að hann varð ráðherra. Það er vissulega ágætt fyrir hans sálarlíf, því þungt getur verið að burðast stöðugt með neikvæðar hugsanir.
Steingrímur Joð ljómaði af bjartsýni og gleði í Kastljósþætti sl. fimmtudag.
Séntilmaðurinn Bjarni Benediktsson tók undir gleðihróp fjármálaráðherrans, en hætt er við að það hafi eingöngu verið til þess að særa ekki þennan viðkvæma mann, svona rétt fyrir jólin.
Þessi svokallaði hagvöxtur sem Steingrímur hrósaði sér af, er eingöngu millifærsla á peningum. Það gagnast lítið til frambúðar. Einnig hefur stjórnarliðum tekist að væla lán frá útlöndum með erfiðismunum, en það er skammgóður vermir, því lán þarf að borga til baka, með vöxtum.
Íslenska þjóðin þarf hagvöxt sem drifinn er áfram af útflutningi og með erlendri fjárfestingu.
Allt annað er eins og að míga í skóinn, til að ylja sér á tánum um stund, hlandið verður brátt ískalt.
Bloggar | Breytt 23.12.2010 kl. 06:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)