Færsluflokkur: Bloggar
Sunnudagur, 15. ágúst 2010
Steingrímur Joð í stjórnarandstöðu.
Mér var hugsað til gjörða "hinnar tæru vinstri stjórnar". Skilanefndir bankanna eru að þiggja gífurlegar upphæðir, margföld laun forsætisráðherra, Icesave vitleysan öll og svo mætti lengi telja.
Steingrímur Joð er nefnilega tvískiptur persónuleiki, ráðherrann og stjórnarandstæðingurinn.
Eins og allir vita þá vill Steingrímur Joð stjórnarandstæðingur alls ekki borga Icesave og þeim manni er nú aldeilis illa við að menn hafi mjög mikla peninga handa á milli.
Ef stjórnarandstæðingurinn Steingrímur Joð myndi horfa á athafnir þessarar ríkisstjórnar þá væru læknar tilbúnir með hjartastuðtæki hvern einasta dag niður á þingi og örugglega búnir að nota það oft á stjórnarandstæðinginn.
Svo þyrftu tæknimenn stöðugt að lagfæra míkrófóninn því hann væri orðinn raddlaus af öllum öskrunum.
Alveg er það makalaust hvað ráðherrastólar geta haft breytandi áhrif á menn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 15. ágúst 2010
Ósannindi viðskiptaráðherra í útrás.
Sérstæður skilningur viðskiptaráðherra á sannleikanum hefur gert viðreisn um hinn stóra heim. Andfætlingar okkar fengu að kynnast þessari áráttu ráðherrans, að fara frjálslega með sannleikann, fyrir nokkru síðan.
Ástralskur blaðamaður átti við hann spjall og fékk þau skilaboð frá ráðherranum að hann gæti ekki ímyndað sér annað en að einhverjir útrásarvíkingar færu í fangelsi.
Eitthvað hljóta þessi ummæli að hafa pirrað samráðherra hans, því eins og allir vita þá eru þeir mjög elskir að útrásarvíkingum og auðmönnum. Það er leiðinlegt að vita af vinum sínum í fangelsi.
Þá neitaði ráðherrann öllu og kvað andfætling hafa haft rangt eftir sér. Þetta er reyndar gömul brella stjórnmálamanna í vandræðum, eflaust hefur reyndur samstarfsráðherra hans bent honum á þetta trikk.
Ástralinn var við öllu búinn, því brellan er jú alþjóðleg og flestir alvöru fjölmiðlamenn kunna einfalt og gott ráð við trikkinu. Geyma upptökuna og spila hana til að rökstyðja sitt mál.
Það má kannski segja að þetta sé óttalegur tittlingaskítur, en ósjálfrátt fer maður að efast um heilindi ráðherrans í ljósi liðinna atburða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. ágúst 2010
Þröngsýni aðildarsinna..
Farsælast er að hafa víðsýni að leiðarljósi og velta fyrir sér öllum hliðum máls áður en afstaða er tekin.
Ég hef með opnum huga leitast við að skoða sjónarmið ESB sinna, en ekki ennþá sannfærst um nauðsyn aðildar.
Þeir hafa bent á nokkur atriði máli sínu til stuðnings. Með því að ganga í ESB þá fáum við vandaðri stjórnsýslu, nothæfan gjaldmiðil, matarverð mun lækka sem og vextir af lánum þar sem enginn verður verðtryggingin.
Það er á þeim að skilja að við getum ekki fengið vandaðri stjórnsýslu öðruvísi en að ganga í sambandið.
Ekki kannast ég við að einkaleyfi sé á stjórnsýsluaðferðum ríkja heimsins. Vitanlega er hægt að velja allt það besta úr stjórnsýslu Evrópusambandsins og nota hér, án þess að innlimast í sambandið.
Svo eru það gjaldmiðilsmálin. Það hefur verið bent á það af sérfræðingum mörgum að stjórnunin á krónunni sé í ólagi, en vandinn sé ekki hún sjálf. En ég get fallist á þau rök að með heildarhagsmuni í huga, þá er heppilegra að taka upp annan gjaldmiðil. Í því sambandi hlýtur að vera hægt að skoða alla möguleika á myntsamstarfi við önnur ríki.
Ef peningastjórnunin lagast, þá lækka vextir, matvælaverð og verðtrygging verður óþörf. Reyndar hafa fróðari menn en ég í þessum málum sagt að verðtrygging sé ekki endilega nauðsynleg þótt krónan ráði ríkjum, en ég treysti mér ekki að hafa skoðun á því sökum vanþekkingar á þessu sviði..
Mér finnst þegar upp er staðið aðildarsinnarnir vera þröngsýnni en við sem erum andstæðingar aðildar. Ég vil ólmur mikið og gott samstarf við öll ríki heimsins, en ekki binda mig við eitt bandalag og vera háður því á flestum sviðum.
Bandaríkin hafa reynst okkur vel, við höfum ágæta reynslu af Japönum, Kínverjar geta verið prýðis kostur fyrir okkur osfrv.
Í heiminum eru nefnilega fleiri lönd heldur en þau sem tilheyra Evrópusambandinu.
Ekki er heldur ólíklegt að hægt sé að tína til prýðis vinnuaðferðir í stjórnsýslu og öðrum sviðum víðar heldur en í Evrópusambandinu.
Ísland er nefnilega hluti af hinum stóra heimi og við eigum að nýta okkur það.
Ég skil ekki þessa þröngsýni í mönnum að sjá ekkert nema Evrópusambandið.
Og að lokum, Íslendingar eiga aldrei að láta sjálfstæðið sitt af hendi. Það er ekkert annað en uppgjöf og aumingjaskapur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 14. ágúst 2010
Litlausir stjórnmálamenn.
Það kemur ekki á óvart að virðing fyrir stjórnmálamönnum fer þverrandi.
Hérna fyrr á árum var gaman að hlusta á umræður á þingi. Menn voru fljúgandi mælskir og gátu rasskellt hvern annan með orðum. Þeir þekktu líka margir hverjir hina raunverulegu lífsbaráttu.
Í dag eru þetta mestmegnis í besta falli þokkalegir embættismenn. Þá vantar alveg þennan mikla eldmóð sem hinir eldri státuðu af og fljúgandi mælsku.
Oft þegar ég horfi á umræður frá alþingi verð ég óþolinmóður. Það þarf alltaf að bíða eftir að þeir segi eitthvað. Margir horfa niður fyrir sig og lesa af blaði, stundum kemur eitt og eitt orð sem hægt er að grípa og jafnvel hafa gaman af.
Þessi stjórnmálastétt er að verða svo litlaus að eftirhermur eru í stökustu vandræðum. Það er bara hægt að herma eftir Steingrími Joð, Össuri og Jóhönnu. Restin virðist vera svo litlaus að það er varla hægt fyrir skopteiknara að ná einhverju almennilegu fram.
Stjórnmálamenn eiga að hreyfa við fólki, koma manni til að hlægja, gera mann öskuillan eða vekja von og trú.
Þeir sem mögulega hafa þessa eiginleika nenna ekki í pólitík. Þeir leita oftast í betur launuð störf.
En taka skal fram að sem betur fer leynist einn og einn sem hreyfir við manni, en þeir eru fáir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 14. ágúst 2010
"Hrunflokkar."
Orðið "hrunflokkar" hefur verið óskaplega vinsælt hjá mörgum. Það hefur verið í tísku að veita þeim sem með landstjórnina fóru síðustu tuttugu árin fyrir hrun þessa vafasömu nafnbót.
En hvað hefði gerst ef "hin tæra vinstri stjórn" hefði verið mynduð t.a.m. eftir kosningar árið 1999?
Það komu ábendingar þess efnis erlendis frá m.a. frá OECD að æskilegt væri að einkavæða banka. Reynsla annarra þjóða af því var góð, nægir að nefna Svíþjóð í því samhengi.
Samfylkingin fylgir oftast nær tískunni, þannig að bankar hefðu verið einkavæddir, VG. hefði örugglega verið jafn viljugir að hlýða boðum SF, því ráðherrastólar hefðu glatt þá jafnmikið þá sem nú.
Samfylkingin sýndi það á síðustu árum, að henni líkar prýðilega félagsskapur við auðmenn. Eflaust hefðu þau valið menn úr úr sínum vinahóp til að kaupa bankanna, en vitað er að vinir þeirra voru síst betri í fjármálum heldur en vinir sjálfstæðis og framsóknarmanna.
Eflaust værum við núna komin í ESB, en ekki má gleyma því að regluverk fjármála var samið eftir þeirra bókum. Það má vel færa rök fyrir því að minnihlutahópar ýmsir hefðu átt bjartari tíma í "góðærinu", því sparnaður ríkisútgjalda er ekki ofarlega í huga vinstri manna né heldur áheyrsla á niðurgreiðslur skulda. Og nú væri verið að skera niður hjá minnihlutahópunum, því ríkið hefði ekki lengur efni á hinni meintu góðsemi vinstri manna.
Bankarnir hefðu hrunið, við hefðum verið í sömu stöðu og Grikkland, þ.e.a.s. stórt vandamál fyrir ESB og óvíst hvernig sambandið góða hefði afgreitt okkur.
Icesave værum við byrjuð á að borga upp í topp, ESB hefði hreinlega skikkað okkur til þess, við værum jú hluti af því. Már Guðmundsson væri eflaust seðlabankastjóri og hann hefði eytt margfalt meira fé til að bjarga bönkunum heldur en þeir sem sátu þar í aðdraganda hrunsins. Niðurgreiðsla skulda hefði ekki verið á dagskrá, þannig að skuldastaðan væri margfalt verri.
Ekki er ég að bera í bætifláka fyrir fyrri ríkisstjórn, margt hefði mátt betur gera hjá þeim.
En meginorsök hrunsins er sú, að fjármálamenn fóru offari. Sofandaháttur heimsins var allsráðandi.
Ekki var mikið rætt á opinberum vettvangi um að þetta væri gervihagnaður. Fjölmiðlar, almenningur og stjórnmálamenn kepptust við að dásama útrásarvíkingana.
Þetta var okkur öllum að kenna og við eigum að læra af því en ekki kenna einhverjum flokkum um allt sem miður fer.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 14. ágúst 2010
Indriði H og Steingrímur Joð gleðjast.
Nú gleðjast þeir félagar Steingrímur Joð og Indrið H., það er nefnilega von á nýjum skattahækkunum.
Fyrir kosningar reiddist fjármálaráðherrann mönnum sem bentu á það fyrir síðustu kosningar, að hann myndi hækka skatta. En nú ætti landsmönnum að vera það fulljóst að ef það kemur vinstri stjórn, þá hækka skattar. Það er eins öruggt og sólin kemur upp þegar nóttin kveður.
Ekki er ég nú viss um að margir deila þessari gleði með þeim fóstbræðrum. Skoðun flestra hagfræðinga er sú, að skattahækkanir í kreppu séu glapræði. En Indriði, hann er svo mikill skattakall, að hann sagði eitt sinn að skattahækkanir gætu nú örvað hagvöxtinn. Erfitt held ég, að hægt sé að sannfæra aðra hagfræðinga um þessa vafasömu speki. Jú kannski Þórólf, hann er mjög veikur fyrir sérstæðum kenningum.
Ég geri ráð fyrir að flestir hafi vitað að þegar Steingrímur Joð setti vin sinn Indriða H. í endurskoðunarnefnd um skattamál, að skattar yrðu hækkaðir.
Nú á fjármálaráðherra eftir að berja þessar tillögur í gegn um þingið og eflaust telur hann sig eiga inni greiða hjá samstarfsflokknum.
![]() |
Ætla að hækka skatta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 14. ágúst 2010
Getur viðskiptaráðherra setið áfram?
Það er hæpið miðað við skoðanir viðskiptaráðherra að hann geti áfram gengt ráðherraembætti.
Það var á honum að heyra meðan hann var á móti ríkjandi stjórnarfari að ráðherrar ættu skilyrðislaust að segja af sér, út af jafnvel hinum minnstu yfirsjónum. Einnig vildi hann umbylta ríkjandi stjórnarfari og hafa hagsmuni alþýðunnar að leiðarljósi.
Svo fær hann ráðherraembætti og þá hverfur umbótasinninn.Í staðinn kemur svona pólitíkus sem reynir að ljúga sig út úr vitleysunni, nákvæmlega eins þeir sem hann sjálfur var að mótmæla.
Umbótamaðurinn sem hélt ræður á Austurvelli, var hann kannski úlfur í sauðagæru?
Hann situr í ríkisstjórn sem framkvæmir nákvæmlega það sama og þau sjálf gagnrýndu fyrri ríkisstjórn fyrir. Ekki gerir hann athugasemdir við það.
Getur einhver bent á að öðruvísi sé staðið að ráðningum í embætti, meira gert fyrir almenning í landinu? Umbótamaðurinn fyrrverandi sér nú samt ekkert athugavert við gjörðir þessarar ríkisstjórnar.
Hann líkti umræðum á alþingi við Morfís ræðumennsku. Svo færir hann sig neðar í þroskastiganum og notar barnaskólarökfræði.
Þekkt er hjá börnum sú árátta að vilja ljúga sig út úr málum ef þau hafa sagt ósatt, það er oftast mjög augljós lygi hjá blessuðum börnunum. Enda sjá þau það oftast þegar þau nálgast fullorðinsár að svona lagað gengur ekki.
En viðskiptaráðherra telur sig hafa greint rétt frá. Það er hálfsannleiksbroddur í því. En stóra málið er að þingkonan var ekki að spyrja um lán í erlendri mynt, heldur gengistryggð.
Viðskiptaráðherra átti að vera fulljóst álit lögmanna varðandi ólögmæti gengistryggðra lána. Einnig kom greinlega fram að þingkonan var ekki að spyrja um lán í erlendri mynt.
Ráðherra sem veit ekki hvað er að gerast í hans ráðuneyti á skilyrðislaust að víkja, það var allavega skoðun umbótamannsins sem hélt ræðurnar á Austurvelli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 12. ágúst 2010
Ummæli núverandi seðlabankastjóra árið 2008.
Mörgum er enn í fersku minni sms skilaboðin sem Ingibjörg Sólrún sendi Geir H. Haarde eftir að allt hrundi um haustið 2008.
Hún hvatti Geir eindregið til að losa sig við þáverandi seðlabankastjóra og fá Má Guðmundsson hið snarasta til landsins. Það myndi auka traust á bankakerfinu.
Hvað hefði nú gerst á þessum víðsjárverðu tímum ef Geir hefði gert eins og Ingibjörg boðaði?
Lítum aðeins á þankagang Más Guðmundssonar seðlabankastjóra í nóvember 2008.
Eftirfarandi tilvitnun er tekin úr Fréttablaðinu dagsett 4. nóvember 2008, bls. 12;
"miðað við greiðslufærni, stærð, alþjóðlega starfsemi þeirra og kerfislægt mikilvægi íslensku bankanna, hefði verið æskilegt að aðstoða bankanna við að greiða skuldir sínar".
Þetta þýðir að ef Már hefði tekið við stöðu seðlabankastjóra á þessum tíma, þá hefði mögulega stórfé verið veitt til að hjálpa bönkunum við að greiða sínar skuldir.
Svo ætla ég að eftirláta þeim sem þetta lesa, að meta hvort það hafi endilega verið rétt ákvörðun hjá Jóhönnu, að leggja svona mikla vinnu í að losna við þáverandi seðlabankastjóra og fá Má í staðinn.
Að mínu viti var það ekki mest áríðandi verkefni landstjórnarinnar á þessum tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 12. ágúst 2010
Tíminn hennar Jóhönnu?
Jóhanna Sigurðardóttir er ágætis kona sem vill gera vel fyrir þá sem höllum fæti standa.
En mér hefur aldrei fundist hún vera stjórnmálamaður, hún er miklu frekar góður talsmaður hagsmunahóps þeirra sem höllum fæti standa.
Áður en hún lét ljúga sig í forsætisráðherraembættið, þá sýndi hún það að hún vill berjast fyrir sitt fólk.
En sem ráðherra, það er ekki margt gott sem stendur upp úr hjá henni þar. Húsbréfakerfi sem reyndist ekki nógu vel og húsnæði sem landsbyggðin var þvinguð til að byggja, það átti víst að bæta húsakost landans, en mistók hjá kellingaranganum.
Það er kannski orðið of seint, en Jóhönnu færi ágætlega að vera talsmaður hagsmunahóps, þar myndi hún nýtast vel.
Nei annars, hún ætti að njóta þess að vera gamalmenni við góða heilsu og með fín eftirlaun. Hún getur ferðast um heiminn með Jónínu sinni, Jónína gæti skrifað bækur og þeim myndi báðum líða miklu betur.
Tími Jóhönnu Sigurðardóttur í pólitík? Ég hugsa að hann sé löngu liðinn, ef hann hefur þá nokkurn tíma komið.
En hún var fínn talsmaður þeirra sem minna mega sín, það verður ekki af henni tekið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Fimmtudagur, 12. ágúst 2010
Alþjóðasamstarf.
Við íslendingar eigum mikla möguleika á góðu samstarfi við aðrar þjóðir. En til að þeir geti orðið að veruleika, þá þurfum við að huga að okkar ímynd á alþjóðavettvangi.
Við getum átt góð samskipti við Bandaríkin, Evrópusambandið, Kína osfrv. Allir þessir aðilar geta reynst okkur vel. En við þurfum að hefja tiltekt hjá okkur sjálfum, það gerir það enginn fyrir okkur.
Þegar ríkisstjórnin gefur það í skyn og svokallaðir fræðimenn fullyrða, að við séum hálfgerðir kjánar sem getum ekki stjórnað okkur og viljum ekki greiða skuldir, þá er eðlilegt að umheimurinn sé hugsi yfir þessari þjóð.
Útlendingar trúa fræðimönnum okkar og ég tala nú ekki um ríkisstjórninni.
Það þarf að vera viðsnúningur í þessum málum ef við viljum vera sjálfstæð þjóð og marktæk í samfélagi þjóðanna. Það er ekkert vandamál að tileinka sér það besta sem þekkist í stjórnkerfi ESB. Við getum lært margt af örðum þjóðum, en það þarf ekki að vera nauðsynlegt að sameinast þeim.
Með því að ganga í ESB þá erum við búinn að takmarka frelsi okkar til að gera samninga við önnur ríki. Einnig neyðumst við til að gangast undir lög sambandsins öll, hvort sem okkur líkar það betur eða ver.
EES samningurinn þótti mikið afrek, samt var hann stór þáttur í hruninu. Bankakerfinu var að stærstum hluta stjórnað með Evrópskum reglum, sem síðar reyndust meingallaðar. Brusselmenn hafa nú þegar viðurkennt þá staðreynd.
Ekki ætla ég að segja að EES hafi eingöngu haft galla í för með sér, en mér finnst þeir samt vega ansi þungt. Frjáls flutningur á vinnuafli, hefur þjóðin í heild sinni notið góðs af því? Ég tel að lítill hluti þjóðarinnar hafi notfært sér þessi hlunnindi. En við fengum fullt af vinnuafli frá Evrópu og í dag sjá menn ýmsa galla við það, sem óþarft er að tíunda frekar.
Opin útboð á Evrópska efnahagssvæðinu, hefur þjóðin notið góðs af því?
Íslenskir verktakar hafa ekki reynst samkeppnishæfir vegna þess að þeir greiða hærri laun, í mörgum tilfellum, heldur en mörg Evrópsk verktakafyrirtæki. Hefði ekki verið ágætt að halda vinnutekjum fyrir hinar ýmsu stórframkvæmdir hér heima og leyfa ríkinu og einstaklingum að njóta góðs af því?
Svo skerðir samningurinn mannréttindi unglinga að vissu leiti. Mörg ungmenni hafa löngun til að taka þátt í atvinnulífinu eins og ungmenni íslensk hafa gert um aldir og haft gagn af. EES bannar unglingum að vinna. Það á nefnilega ekki eingöngu að hugsa um rétt fullorðinna til að vinna og skapa sér tekjur.
Það er þvættingur í aðildarsinnum þegar þeir segja andstæðinga sína vera á móti ESB. Við eigum að hafa samstarf við sambandið, enginn heldur öðru fram.
Það skal viðurkennt að mikla vinnu þarf til að halda úti sjálfstæðri þjóð við þann veruleika sem við búum við. Kannski er það þægilegri leið að ganga í ESB. En þægilega leiðin er ekki alltaf best.
Við höfum stutta sögu sem sjálfstæð þjóð. Við höfum ekki frekar en aðrar þjóðir skapað fullkomið samfélag. En miðað við aðstæður, þá má teljast kraftaverk hversu langt við höfum komist, fyrirmyndar velferðar og heilbrigðiskerfi, lítið atvinnuleysi og lítil spilling miðað við mörg önnur lönd sem eldri eru. Við erum samfélag í mótun og ástæðulaust er að gefast upp.
Lífið býður upp á endalausa möguleika, það er okkar að nýta þá.
En það þyngir róðurinn til muna ef ríkisstjórnin og fræðimennirnir hennar halda áfram að segja það á alþjóðavettvangi, að við séum vanhæf til að stjórna okkur sjálf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)