Hvrs vegna er pólitíkin svona eins og hún er?

Í nýútkominni bók sem rituð er um ævi Gunnars Thoroddsen er talsvert fjallað um fyrirgreiðslupólitík. Margir hafa hneykslast á henni og nefnt hana sem dæmi um gjörspillta stjórnmálamenn. En stjórnmálamennirnir, þegar betur er að gáð, voru ekkert spilltari heldur en hinn almenni borgari.

 Fyrirgreiðslupólitík komst á vegna þess að eina leiðin til þess að fá atkvæði var að gleðja kjósendur sína á einn eða annan hátt. Í bókinni er tekið dæmi um sjálfstæðismann sem hótar að hætta stuðningi við flokkinn fái hann ekki sínar óskir uppfylltar, þá er átt við hans persónulegu óskir en ekki var verið að hugsa um þjóðarhag í þessu tilfelli. Á öðrum stað er fjallað um konu sem hliðholl var Sjálfstæðisflokknum, en hún var gift vinstri manni. Gunnari, sem þá var borgarstjóri, var bent á það, að með því að útvega þeim lóð, væri væntanlega hægt að snúa honum til hægri.

Það var almenningur í samstarfi við stjórnmálamenn sem bjó til fyrirgreiðslukerfið, þar eru báðir aðilar jafnsekir.

Svo eru það allir styrkirnir sem talað hefur verið um og af sumum hefur verið rætt um mútur í því samhengi. Hver getur verið ástæðan fyrir þeim?

Skyldi það vera vegna þess að landsmenn margir gefa sér ekki tíma til að mynda sér sjálfstæðar skoðanir á stjórnmálum?

Ef að fólk myndi með yfirveguðum hætti yfirfara málin og skoða sinn hug gagnvart hinum ýmsu stjórnmálaöflum, þá þyrfti minna fé í kynningar á þeim. En mörgum finnst svo þægilegt að láta mata sig á upplýsingum. Og oftast eru þeir kosnir sem lofa að borga nógu mikið fé úr opinberum sjóðum almenningi til handa.

Svo eru það fjölmiðlarnir, mörgum finnst þeir ægilega neikvæðir. En blöðin virðast seljast hvað best þegar þau segja á dramatískan hátt frá hinum ýmsu hneykslismálum sem oft á tíðum eru misjafnar heimildir fyrir. Það selst enginn fjölmiðill sem segir bara frá ánægju, kærleika og gleði.

Áður en farið er að dæma aðra er skynsamlegt að skoða vel í eigin ranni. Við mótum þetta samfélag öll sem heild og stjórnmálamenn dansa með en ekki öfugt. Kröfur hinna ýmsu hagsmunahópa setja stjórnmálamenn í þá aðstöðu að þurfa að ausa oft á tíðum of miklu af opinberu fé í hin og þessi gæluverkefni landsmanna. En með þessu er ekki verið að segja að þeir séu saklausir, vitanlega hættir þeim líka til að maka krókinn fyrir sig og sína.

En þessu öllu þarf að breyta. Við erum örsmá þjóð á lítilli eyju. Við þurfum stjórnmálamenn sem umgangast opinbert fé af mikilli varúð, við þurfum líka að vera sátt við það. Öll þurfum við að líta í spegil, hafa kjark til að horfa á það sem kemur fram og einurð til að sníða af okkur hina ýmsu vankanta. Þá er átt við allar stéttir þjóðfélagsins, stjórnmálamenn líka að sjálfsögðu og ekki síst.

Við þurfum að innræta orðin sem Kennedy sagði fyrir ca. hálfri öld og heimfæra þau á okkar litla land; "ekki spyrja hvað Ísland getur gert fyrir þig, heldur hvað þú getir gert fyrir Ísland". Því fleiri sem tileinka sér þessa innrætingu, því meiri möguleikar verða til þess að við stöndum flestum þjóðum framar. Of mikil heimtufrekja er nefnilega alþjóðlegt fyrirbæri.

Við eigum að heimta lágmarks skatta og gera lágmarks kröfur til hins opinbera. Ríkið á eingöngu að sjá um grunnþjónustu í mennta, heilbrigðis og velferðarkerfi. Ef allir hætta að heimta frá hinu opinbera, þá er viðbúið að okkar minnstu bræður og systur geti nú loks litið glaðan dag, haft þokkalegt viðurværi. Og þá væri líka auðvelt að mæta erfiðum tímum án þess að finna svo mikið fyrir þeim á eigin skinni.

Það þarf nefnilega samstöðu þjóðarinnar allrar ef við viljum lifa í góðu samfélagi hér á landi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Vel og drengilega mælt ,mikið sammála þessu/Kveðja til þín Pabba gamla /hann kannast við kauða/

Haraldur Haraldsson, 21.11.2010 kl. 00:06

2 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þakka þér fyrir, skila kveðjunni til gamla mannsins.

Jón Ríkharðsson, 21.11.2010 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband