Færsluflokkur: Bloggar

Við þurfum beint lýðræði.

Ef eitthvað á að breytast hér á landi, þá þarf að koma á fót einhvers konar beinu lýðræði, þar sem almenningur hefur möguleika á, að veita stjórnmálamönnum aðhald.

Stjórnmálamenn þurfa þá að sannfæra þjóðina um ágæti verka sinna og geta ekki keyrt misgáfuleg gæluverkefni í gegn um þingið.

Að mínu mati, þá þarf frumkvæðið að koma frá þjóðinni, einhver prósent kosningabærra manna, fimmtán til tuttugu, en ekki frá minnihluta alþingis. Þá geta pólitíkusar farið að nota beint lýðræði sem vopn í pólitískri baráttu.

Það þýðir ekkert að stofna nýja flokka, þeir eru ekki vandamálið, heldur er það valdið sem menn fá.

Algeng ranghugmynd gerir vart við sig hjá þeim sem eru kosnir til valda, fólk sem traustið hlýtur heldur að það sé á einhvern hátt vitrara heldur en hinn almenni borgari. Í framhaldi af því, þá finnst valdhöfunum þeirra hugmyndir betri en þær sem almenningur hefur.

Vitanlega er þetta stór misskilningur, ráðamenn eru á engan hátt vitrari en við hin, þeir gefa bara kost á sér í ákveðið verkefni, sem felst í því að þjóna sinni þjóð.

Samræður milli þings og þjóðar er það sem þarf, auk beins lýðræðis. Það þurfa allir að taka þátt og enginn má skorast undan.

Ef svo fer, að þjóðin þarf stöðugt að vera að stöðva einhverja vitleysu hjá ráðamönnum, þá eru þeir ekki traustsins verðir og aðrir þurfa að koma í staðinn.


Hvaðan kemur allt þetta fylgi?

Ég er svo aldeilis rasandi hissa yfir þessari frétt, er þetta örugglega áræðanleg könnun?

Hvernig í ósköpunum tókst að finna svona marga, af handahófi, sem styðja stjórnarflokkanna?

Að einhver skuli veita ríkisstjórn stuðning, sem er að rústa efnahag þjóðarinnar og ergja stóran hluta landsmanna með eilífðar þvættingi, það er illskiljanlegt.

Hvernig er hægt að marka fólk, sem sagði fyrir rúmu ári síðan á alþingi, að okkur væru allar bjargir bannaðar ef Svavarsbullið yrði ekki samþykkt, þau fullyrtu það og þetta var víst bjargföst sannfæring fjármálaráðherra.

Samningurinn var felldur eins og alþjóð veit.

Eftir að þjóðin felldi samninginn, þá gerðist ekki neitt og hin bjargfasta sannfæring Steingríms þess efnis, að allt færi til fjandans, breyttist í bjargfasta sannfæringu um, að allt væri hér á uppeið. Hann skrifaði nokkrar greinar um hinn mikla uppgang sem framundan væri og ritaði undir heitinu "Landið er að rísa" ef ég man rétt.

Jóhanna laug því á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar, að nú væri eftirlitsstofnun sú sem rannsakaði spillingu í Evrópuríkjum, loksins farin að hrósa Íslandi fyrir góða eftirfylgni við tilmæli stofnunarinnar.

Þegar skýrslan var lesin, þá reyndist hún þvert á móti, vera áfellisdómur yfir eftirfylgni ríkisstjórnarinnar við tilmæli stofnunarinnar.

Fjölmiðlar litu vitanlega framhjá þessu atriði, því það er erfitt að vera fjölmiðlamaður og fást við aumingja sem væla eins og stungnir grísir ef að þeim er sótt.

Frægt er þegar þáttastjórnandinn í morgunþætti Rásar tvö spurði Steingrím um Svavarssamninginn, hvort hann hefði ekki verið slæmur.

Það sárnaði Steingrími mjög og fannst ómaklega að sér vegið.

Harðstjórar hafa margir verið í hinum ýmsu löndum, heimurinn geymir sögur stjórnmálamanna af ýmsu tagi.

En ég efast um að það sé mikið úrval heimilda um aðra eins aumingja og vælukjóa eins og nú ráða ríkjum hér á landi. Leiksskólabörn eru harðari af sér ef eitthvað er, þau kunna þó allavega að skammast sín og væla ekki undan ofanígjöf á sama hátt og stjórnarliðar gera.

Það væri gaman að vita, hvar tókst að finna svona mikinn stuðning við þessa guðsvoluðu ríkisstjórn.

Hátt í þrjátíuprósent fylgi hljóta þau, fyrir að haga sér eins og fáráðlingar. Það er augljóst að sumir gera afskaplega litlar kröfur til stjórnmálamanna.


mbl.is Stjórnarflokkarnir tapa fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hafa vesalinga í forystu.

Endureisn samfélagsins tefst því miður umtalsvert, vegna þess að við höfum handónýta vesalinga í forystu á flestum sviðum.

Ekki bara handónýta, heldur líka gjörsamlega ómarktæka, þetta er mjög hógflegt orðalag, vegna þess að það ber að gæta orðavalsins þegar ritað er á opinberum vettvangi og maður þarf að reyna að vera kurteis.

Ef byrjað er að fjalla um ríkisstjórnina, þá þekkja flestir hörmungarsögu eilífra mistaka. Í óskiljanlegu óttakasti fyrir rúmu ári síðan, töldu þau sér trú um, að við yrðum að "Kúpu norðursins" ef við samþykktum ekki vitlausustu samninga sem gerðir hafa verið á milli vestrænna ríkja.

Við erum nú ennþá hluti af hinum vestræna heimi og Kúpuástand er langt undan, þótt við gætum komist á það stig, ef þessir ræflar sitja áfram.

Svo er það borgarstjórinn, ég er ekki í skapi til að fjalla um hann á svona kurteislegum nótum í augnablikinu, en fólk ætti að geta lesið á milli línanna.

Verkalýðshreyfingin hefur gagnrýnt atvinurekendur fyrir skoðanakúgun, komið hafa upp dæmi þess efnis á vinnumarkaði, að starfsmenn hafa verið látnir gjalda fyrir skoðanir sínar og það er vissulega siðlaust.

En þegar verkalýðshreyfingin kúgar sína umbjóðendur og hótar að semja ekki fyrir þá, nema að þeir greiði atkvæði næsta laugardag sem er þeim að skapi, það er mjög alvarlegt og algerlega siðlaust.

Enginn atvinnurekandi hefur sýnt eins mikinn ruddaskap og hluti verkalýðshreyfingarinnar gerir núna.

Það hefur enginn atvinnurekandi hótað starfsfólki sínu atvinnumissi eða tekjulækkun á opinberum vettvangi, ef það greiðir atkvæði gegn skoðunum hans, enda yrði allt vitlaust ef það yrði gert.

Við erum að horfast í augu við skoðanakúgun af verstu gerð, í nútímalegu lýðræðisríki.

Þetta er vegna þess, að við höfum algera vesalinga í forystu á flestum sviðum.


Hæfasti seðlabankastjórinn?

Eftir að Jóhönnu tókst það ætlunarverk sitt, að reka seðlabankastjórana þrjá úr starfi ákvað hún að láta draum sinn og forvera síns rætast og ráða Má Guðmundsson í starfið.

Hann var að þeirra mati hæfastur allra og það átti nú aldeilis að bæta ímynd þjóðarinnar með þessum gjörningi.

Már hefur eflaust staðið undir væntingum Jóhönnu, enda hefur hún undarlegar hugmyndir um efnahagsmál.

En hefur hann staðið sig vel í starfi?

Hann hefur allavega sýnt mikinn það mikinn hroka gagnvart alþingi, að Steingrímur og Jóhanna yrðu alvarlega málhölt af völdum hvítrar froðu sem myndi flæða úr munnvikum þeirra beggja, árum saman ef Davíð Oddsson hefði hagað sér með sama hætti gagnvart þeim, ef þau væru í stjórnarandstöðu.

Hann harðneitaði að upplýsa þingmenn um kostnaðinn vegna Sjóvá-Almennra og að sögn stjórnarandstöðu þingmanna, þá var hann nokkuð brosmildur og kerrtur á svip, er hann tilkynnti þeim hátíðlega, að ekki myndi hann upplýsa um þætti málsins.

Það var gott hjá Geir H. Haarde að láta ekki undan kröfum Ingibjargar Sólrúnar, þegar hún heimtaði að hann ræki Davíð og réði Má í starf seðlabankastjóra.

Þann 4. nóvember árið 2008 sagði Már nefnilega að; "miðað við greiðslufærni, stærð, alþjóðlega starfsemi  og kerfislægt mikilvægi íslensku bankanna, hefði verið æskilegt að aðstoða þá við að greiða skuldir sínar".

Ekki lýstu þessi orð hans mikilli þekkingu á ástandi bankanna á þessum tíma, jafnvel þótt viðvörunarbjöllur hefðu hringt frá árinu 2006, hann vildi fara írsku leiðina sem hefði aukið skuldir þjóðarinnar um ca. 8000. milljarða og vafalaust hefði hann heimtað að greiða Icesave í ofanálag.

Miðað við reynsluna af þessu vinstra liði, þá myndi alvarlegt neyðarástand ríkja hér á landi, ef vinstri menn hefðu fengið að ráða haustið 2008.


Hvurslags fjármálastjórn er þetta eiginlega?

Þessi arfavitlausa ríkisstjórn sem náði að ljúga sig inn á landsmenn, með því að þykjast hugsa um velferð þjóðarinnar, er að slá met í rangri fjármálastjórn.

Hvernig er hægt að telja fólki trú um, að ekki sé hægt að halda uppi löggæslu í landinu og huga að viðunandi heilbrigðisþjónustu, á sama tíma og hægt er að fleygja hátt á annað hundrað milljörðum í ónýtar fjármálastofnanir, tryggingafélög og gagnslaust stjórnlagaþing, sem heitir víst stjórnlagaráð í dag, vegna þess að kosningarnar voru dæmdar ólöglegar.

Það eru til peningar til að borga Bretum og Hollendingum tugi milljarða og háar fjárhæðir til að fá þessa einkennilegu ósk sína uppfyllta, þá er átt við greiðslur til samninganefndarinnar sem fjármálaráðherra þorir ekki að gefa upp, vegna þess að hann er "gunga og drusla".

Það einkennilega er, að ennþá er til fólk, sem lifir eðlilegu lífi og hefur þegið ágæta skynsemi af skapara sínum í vöggugjöf, sem stendur í þeirri trú, að þetta sé nokkuð góð ríkisstjórn.

Það væri gaman að heyra hvað þetta fólk telur vera slæma ríkisstjórn, með þessu einkennilega viðmiði.


Viðbjóðsleg hræsni.

Sú tæra vinstri stjórn sem nú ríkir, hefur sýnt alveg hreint viðbjóðslega hræsni á sinni valdatíð.

Það er erfitt að túlka réttmætt álit á verkum hennar með kurteislegu orðalagi, en eftir mikla umhugsun, fékkst sú niðurstaða að "viðbjóðsleg hræsni" væri ekki sterkt orðalag miðað við tilefnið.

Nú er verið að draga Geir H. Haarde fyrir Landsdóm, stjórnarliðar segja að sjálfstæðismenn hafi valdið hruninu og að þeir séu upp til hópa gjörspilltir.

Sá flokkur sem mestu ræður í landsmálum um þessar mundir, Samfylkingin, var fyrir hrun, ekki síður á bandi útrásarvíkinga heldur en Sjálfstæðisflokkurinn. Margt bendir til að samfylkingarfólkið hafi flaðrað enn meira upp um auðmenn fortíðar en sjálfstæðismenn, taka skal fram, að erfitt er að fullyrða með óyggjandi hætti að svo sé. Þjóðin reyndar öll, að mestu leiti, dásamaði fjármálalífið í heild sinni.

En hvað hefur svo gerst, eftir að "Norræna velferðarstjórnin" ætlaði að bjarga landinu?

Hundruðum milljarða hefur verið hent í lífvana fjármála og tryggingafyrirtæki, þéttri skjaldborg hefur verið slegið utan um fjármálamarkaðinn á meðan almenningur er skattpíndur og lítið gert til að koma til móts við þann hóp.

Fjármálaráðherra neitar að gefa upplýsingar um kostnað við gerð Icesave samninganna, erfitt er að toga upplýsingar út úr æðstu leiðtogum þjóðarinnar.

Samt var þetta fólkið sem í stjórnarandstöðu æpti á meira gegnsæi.

Steingrímur Joð hneykslaðist á því, að þáverandi ríkisstjórn væri ekki eins hrifin af þjóðaratkvæðagreiðslum og hann.

Nú er hann ekki eins lýðræðissinnaður og hann var fyrir örfáum árum, það tók valdið örskotsstund að spilla honum það mikið, að sennilega er hann einn mesti leyndarhyggjumaður íslenskra stjórnmála.

Meðan Icesave málið var á forræði ríkisstjórnarinnar, þá voru gerðir slíkir hörmungarsamningar, að það liggur við heimsmeti í klúðri. Þótt núverandi samningar séu slæmir, þá eru þeir afbragðsgóðir miðað við þá hörmung, sem stjórnarliðar heimtuðu að þjóðin greiddi.

Það er sama hvert litið er, svik og lygar eru aðalsmerki þeirrar ríkisstjórnar sem lýgur því að þjóðinni, að hún standi fyrir jöfnuð og mennsku í samfélaginu.

Sú viðbjóðslega hræsni sem stjórnarliðar hafa sýnt í sínum verkum, hefur aldrei áður þekkst í íslenskri pólitík, jafnvel þótt þjóðin sé ýmsu vön.

Þess vegna, ef dugur er í þjóðinni og stjórnarandstöðunni, þarf að leita allra leiða til að koma þeim frá völdum.

Allt, þá meina ég allt, er skárra heldur en núverandi stjórn, nema kannski einræðisstjórn í ríkjum sem við viljum ekki bera okkur saman við.


"Bjargföst sannfæring" Steingríms Joð.

Í atkvæðagreiðslu um hinn alræmda Svavarssamning sagði Steingrímur Joð, að það væri "bjargföst sannfæring" sín, að hann væri að vinna landi og þjóð ómælt gagn, með því að samþykkja samninganna. Í marsmánuði sama ár (2009) sagði hæstvirtur fjármálaráðherra, að Svavar Gestsson væri að "landa stórkostlegum samningi", það var einnig "bjargföst" sannfæring hans.

Þann 30. desember árið 2009 komu stjórnarliðar hver á fætur öðrum í pontu alþingis og lugu að þjóðinni, hvort sem það var vísvitandi eður ei.

Öll sögðu þau, að samþykkt samninganna væri nauðsynleg fyrir endurreisn landsins. Þeim var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 6. mars árið 2010.

Stjórnaliðar breyttu skyndilega um skoðun og sögðu að höfnun samninganna hefði komið sér vel fyrir samningsstöðu þjóðarinnar.

Nú þegar skárri samningur liggur fyrir, þótt hann sé í eðli sínu mjög slæmur, þá hrökkvar stjórnarliðar aftur í lygina.

Þeir halda því fram, að allt fari á verri veg, ef þjóðin samþykkir ekki samninginn.

Það ætti að vera orðið deginum ljósara, að "bjargföst sannfæring" fjármálaráðherra er í eðli sínu stórhættuleg hagsmunum lands og þjóðar.

 


Hvers vegna þurfti að semja strax?

 Vinnubrögð þingmanna varðandi Icesave málið er hinu háa alþingi til háborinnar skammar.

Ekki hefur heyrst að viðsemjendur okkar hafi ólmir viljað semja strax, það voru íslendingar sem heimtuðu það. 

Skynsamlegra hefði verið, að bíða og sjá hvers virði þrotabú Lansbankans væri og ræða svo málin, í stað þess að eyða stórfé í samningaviðræður um samning, sem enginn veit hvað kostar.

Flestir aðrir en ráðamenn þjóðarinnar vita, að verðmæti eigna kemur í ljós þegar þær eru seldar.

Það er mikið ábyrgðarleysi og óafsakanlegt af stjórnvöldum, að heimta það, að þjóðin greiði óútfylltan víxil sem engin greiðsluskylda hvílir á.

Ef stjórnaliðar eru ennþá jafnmiklir áhugamenn um að senda stjórnmálamenn fyrir Landsdóm, þá hefur sá ágæti dómstóll ærinn starfa næstu árin.


Það er aumt að þora ekki að berjast.

Íslendingar eru í stríði við Breta og Hollendinga. Stríðið hefur verið ansi erfitt vegna þess, að íslensk stjórnvöld hafa gengið í lið með þeim og fáránlega stór hluti þjóðarinnar heldur málstað andstæðinga sinna mjög á lofti.

Allir eru sammála um, Bretar og Hollendingar líka, að okkur beri ekki lagaleg skylda til að borga eina einustu krónu. En liðsmenn þeirra hér á landi hafa komið með ýmiskonar hræðsluáróður til að efla fylgi við andstæðinga okkar, sumir segja að Ísland verði sett í ruslflokk af matsfyrirtækinu Moody´s ef við samþykkjum ekki samninganna.

Hætt er við að Moody' s menn setji okkur í ruslflokkinn, jafnvel þótt við göngum öll í lið með Bretum og Hollendingum.

Staðreyndin er sú, að í skýrslu fyrirtækisins um Ísland segir, að ósvissan um greiðsluhæfi landsins felist í því, að hér á landi líki pólitísk óvissa.

Það var gert ráð fyrir stóriðju hér á landi, eða einhverju öðru sem skapað gæti sambærilegar tekjur, gjaldeyrishöftin virka neikvætt á erlenda fjárfesta og fleiri atriði tína þeir til.

Almenningur hér á landi þarf að standa í lappirnar og berjast til síðasta blóðdropa. Við þurfum að halda okkar málstað á lofti á erlendum vettvangi og vinna þau verk, sem réttkjörin ríkisstjórn á að gera.

Minnihluti stjórnarandstöðunnar hefur dug í sér til að gera það og ríkisstjórnin er handónýt til allra verka.

Þess vegna þarf þjóðin að sýna hvað í henni býr, sanna það fyrir umheiminum að hér á landi býr fólk, sem stendur með réttlætinu.


mbl.is Hvetur til samþykktar Icesave-samninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað lafir hún lengi enn?

Þessi hlandvitlausa ríkisstjórn, sem lafir á þrjóskunni einni saman, sýnir fjármálafyrirtækjum mikla umhyggju á meðan hún skattpínir almenning og hækkar hin ýmsu gjöld, sem í framhaldinu hækka afborganir lána.

Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs kemur fram, að 250. milljörðum króna hefur verið sólundað í hinar ýmsu lánastofnanir, en ekki var svigrúm til að lækka höfuðstól lána almennings á meðan bankarnir voru í eigu ríkisins.

Stjórnarliðar gorta sig af hagstæðum vöruskiptajöfnuði og eigna sér vitanlega heiðurinn af honum. Raunar er hann þeim að kenna, því vöruskiptajöfnuðurinn er tilkominn vegna þess, að það hefur enginn efni á að kaupa nokkurn skapaðan hlut, sem heitið getur.

Þau gætu kannski montað sig eitthvað, ef þau hefðu skapað aðstæður fyrir aukinn útflutning, en þau hafa þvert á móti staðið gegn honum, með því að koma í veg fyrir álver svo dæmi sé tekið.

Í stað þess að leita leiða til að verja málstað þjóðarinnar í Icesave deilunni, þá heimta þau að þjóðin gangi að kröfum andstæðinganna og borgi þeim ólögvarða skuld.

Steingrímur hefur þvælst til Bretlands og Hollands og skriðið eins og hundur fyrir fótum ráðamanna þessara landa og lofað upp á æru og trú, að hann skuli þvinga eigin þjóð til að borga glæfraskap örfárra íslendinga.

Össur Skarphéðinsson grátbiður Brusselmenn um örlitla biðlund, hann lofar að reyna að sannfæra fólk um ágæti sambandsins, í þeirri von að þiggja örugga vinnu og góð laun í Brussel fyrir ómakið.

Lýðræðis og jafnréttissinninn Jóhanna Sigurðardóttir skammast út í alla sem eru ekki sammála henni, hvort sem það eru stjórnarliðar eða dómsstólar. Hennar lýðræði gengur út á það, að allir skuli vera á hennar bandi, sumir myndu kalla það einræði, en Jóhanna hefur öðruvísi skilning en fjöldinn, á hinum ýmsu hugtökum í íslensku máli.

Jafnréttissinninn Jóhanna hefur hlotið dóm fyrir að skapa karl en ekki konu í embætti, það einhvern veginn hringsnýst allt í höndunum á henni.

Ef þessi ríkisstjórn lafir mikið lengur, þá er óhætt að taka undir með Geir H. Haarde og biðja Guð að blessa Ísland.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband