Færsluflokkur: Bloggar

Íslenskur stjórnunarstíll til útflutnings.

Þann 30. apríl árið 2007 ritaði Hrannar B. Arnarsson eftirfarandi á bloggsíðu sína;"Íslenski stjórnunarstíllinn nýtur orðið trausts og vinsælda og mun sjálfsagt komast í tísku áður en langt um líður. Það má með góðu móti halda því fram, að nýjasta útflutningsvara okkar íslendinga sé stjórnun og þekking."

Skömmu eftir að Hrannar ritaði þessi orð tók Jóhanna Sigurðardóttir við embætti félagsmálaráðherra. Hún hefur ekki síður verið hrifin af útrásinni, því hún réði Hrannar sem aðstoðarmann sinn og helsta ráðgjafa.

Þegar hún síðan lét ljúga sig í embætti forsætisráðherra, þá var það sá maður er hafði skömmu áður tilbeðið þá einstaklinga, sem settu hagkerfið á hliðina, ráðinn sem hennar helsti ráðgjafi og talsmaður.

Fjölmiðlar ættu að spyrja aðstoðarmanninn tindilfætta, hvort hann ætlaði ekki að berjast fyrir þessu sjónarmiði sínu og skapa jarðveg fyrir stjórnunarstíl til útflutnings.

Jóhanna hefur í gegn um tíðina tekið mark á honum og gaman væri að sjá hana smala VG köttum í einn hóp og leggja fram frumvarp sem gerir hugðarefni aðstoðarmannsins að veruleika.


Þjóðin skuldar ekki krónu varðandi Icesave.

Þótt sitjandi ríkisstjórn í heimsku sinni krefjist þess, að fá að borga ólögvarða kröfu, þá á þjóðin alls ekki að láta það viðgangast. Það eiga allir að kjósa á móti þessari vitleysu þann 9. apríl nk.

Við þurfum að standa í lappirnar í þessu máli og alls ekki hlusta á úrtölumenn sem halda því fram, að betra sé að borga en að taka áhættu á dómsstólaleiðinni. 

Ef andstæðingar okkar kjósa að lögsækja okkur, sem er ekki sjálfgefið, því það mun setja bankakerfi Evrópu í uppnám, þá tekur það einhver ár að fá niðurstöðu í málinu.

Þann tíma getum við nýtt til að kynna okkar málstað á erlendum vettvangi og afla vina. Þjóðin þarf á vinaþjóðum að halda, sumir segja Breta vera vinaþjóð okkar, en þá hafa þeir undarlega aðferð til að tjá vináttu sína.

Við eigum að fá harðsnúna lögmenn til að fara vandlega yfir hryðjuverkalögin og tína allt til, sem getur styrkt okkar málstað.

Við eigum í stríði við Breta og Hollendinga, stríði sem við getum sigrað í, ef við stöndum saman.

Ríkisstjórnin, með fulltingi aðstoðarmanna sinna, hefur um nær tveggja ára skeið logið því að þjóðinni, að allt fari á versta veg, ef við borgum ekki ólögvarða kröfu.

Dapurlegt er að heyra hámenntað fólk telja sjálfu sér og öðrum trú um, að lánshæfismat þjóðarinnar batni, ef við skuldsetjum okkur meira en orðið er.

Íslendingar hafa ávallt verið traustir lántakendur, þess vegna var lánshæfismat ríkisins gott, áður en bankamennirnir eyðilögðu það. 

Íslendingar eru ekki og hafa ekki verið vanskilaþjóð.

En það að skríða á fjórum fótum og grátbiðja útlendinga um, að fá að borga þeim marga milljarða, á sama tíma og skorið er niður í velferðarkerfinu, það er óafsakanlegur vesaldómur.

Þessi ríkisstjórn er ekkert annað en samansafn af vesalingum, sem hafa ekki kjark til að berjast fyrir hagsmunum þjóðarinnar.

En kjarkurinn er nægur til að berja á eigin þjóð og skattpína fjárvana þegna sína svo mikið, að þeir hljóta að lokum að gefast upp, þótt styrkur þeirra sé mikill enn sem komið er.


Hún getur sjálfri sér um kennt.

Það má vel vera að Jóhanna hafi viljað gera sitt besta í þessum málum sem og öðrum, en henni eru ákaflega mislagðar hendur í landsstjórninni, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Hennar helstu mistök eru þau, að hún er allt of yfirlýsingarglöð og slíkir einstaklingar gefa alltaf skotleyfi á sig, sérstaklega þegar getan er ekki í réttu hlutfalli við orðaflauminn.

Hún hefur sjálf sagt að ráðherra beri ábyrgð á verkum embættisins, þannig að hún hlýtur þá, samkvæmt eigin orðum að bera fulla ábyrgð á þessu máli.

Jóhanna getur sjálfri sér um kennt, hún hefði aldrei átt að láta ljúga sig í þetta embætti, kona á hennar aldri ætti að vera farin að þekkja kosti sína og galla.

Þrátt fyrir eintóman vandræðagang í flestum verkum, þá ætlar hún samt að sitja áfram.

Svona fólki er einfaldlega ekki viðbjargandi.


mbl.is Veit varla hvaðan á mig stendur veðrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þá hægt að tala um Fimmflokkinn?

Það sjónarmið heyrist víða í samfélaginu, að enginn munur sé á þeim fjórum flokkum, sem lengst hafa farið með völdin hér á landi.

Margir tala þess vegna um "Fjórflokkinn" í ofangreindu samhengi og þar sem hæstvirtur forsætisráðherra er afar næmur á það sem kemur frá fjölmiðlunum, þá hefur hún einnig tekið sér þetta orð í munn.

Staðreyndin er hins vegar sú, að fjórir ofangreindir flokkar hafa ólíkar stefnur jafnt sem starfsaðferðir, en færa má rök fyrir því, að þeir eigi það helst sameiginlegt, að verja sín verk fram í rauðan dauðann.

Nýr flokkur, Besti flokkurinn spratt upp, og sigraði í borgarstjórnarkosningum sl. vor. 

Samkvæmt skilgreiningu þeirra sem tala um "Fjórflokkinn" þá er hægt að bæta Besta flokknum í hópinn og tala um Fimmflokkinn.

Í Silfri Egils sl. sunnudag voru skólamál borgarinnar rædd og Óttar nokkur Proppé varði verk Besta flokksins á sama hátt og forsvarsmenn hinna flokkanna hafa gert svo lengi sem elstu menn muna, þegar kemur að því að fjalla um þeirra störf og stefnur.

Sigurður Harðarson rekstrarhagfræðingur bauð fram krafta sína og fullyrti að fleiri foreldrar væru tilbúnir til, að koma með betur útfærðar tillögur varðandi niðurskurð í borgarkerfinu.

Margir hefðu átt von á, að fulltrúi nýs framboðs sem boðar ný vinnubrögð, myndi taka slíku boði með opnum huga og vera tilbúinn til að endurskoða sína afstöðu.

En hann kom með nákvæmlega sömu rulluna og allir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa gera, þegar einhver kemur með nýjar hugmyndir sem stangast á við hugmyndir "flokksins".

Hann sagði að það væri búið að vinna svo vel og mikið í þessum tillögum, að hann efaðist um að nokkru væri við þær að bæta.

Gamlir pönkarar læra furðu fljótt að tileinka sér hlutverk kerfiskalla þegar þeir finna hversu vel valdastólar ylja mönnum, þegar þeir eru sestir í þá.

Nú er besti flokkurinn, samkvæmt skilgreiningu margra, orðinn hluti af Fimmflokknum, sömu vinnubrögðin og sama hugsunin, eina breytingin er breytt útlit og breyttur klæðaburður.


Viðkvæm staða ríkissjóðs ætti ekki að koma á óvart.

Ekki þurfti að fylgjast mjög náið með fréttum, til að vita þá staðreynd, að koma þyrfti til uppbyggingar stóriðju og stuðla að erlendri fjárfestingu, til þess að almennilegur hagvöxtur geti orðið hér á landi.

AGS gerði ráð fyrir stóriðju í sínum spám og það gerðu fleiri, sennilega hefur ríkisstjórnin verið upplýst um þessar augljósu staðreyndir, en þau skötuhjú Steingrímur og Jóhanna vildu frekar fara að dæmi útrásarvíkinganna, lifa á lánum.

Steingrímur stendur reyndar í þeirri meiningu að skatahækkanir séu til góðs, þetta er þráhyggja sem hann deilir með nokkrum flokkssystkinum sínum, en landsmenn hafa orðið þess varir, að þráhyggja er afleit  til landsstjórnar.

Höfuðóskostur þessarar lánlausu ríkisstjórnar er sá, að hún gerir fátt eitt gott af eigin frumkvæði.

Almenningur hafði mánuðum saman hrópað eftir aðstoð, vegna mikils fjárhagsvanda sem tilkominn er sökum forsendubrests af völdum hrunsins, en þau hlustuðu ekki. Svo þegar allt var að varða vitlaust, þá komust þau ekki hjá því að gera eitthvað í málinu, þótt deila megi um árangur aðgerða stjórnvalda í málum skuldsettra þegna þessa lands.

Hæpið er að hagvöxtur aukist meðan þessi stjórn ríkir hér á landi, þau skattpína almenning og fæla erlenda fjárfesta frá landinu með heimskulegum geðþóttaákvörðunum.

Viðkvæm staða ríkissjóðs ætti ekki að koma neinum á óvart, það er eins víst og að vor kemur á eftir vetri, að vinstri stjórn byggir ekkert hagkerfi upp hér á landi.


mbl.is Viðkvæm staða ríkissjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægjuleg niðurstaða.

Mannskepnan er að sönnu óútreiknanlegt fyrirbæri og seint hægt að skilja hana til fulls.

Í aldanna rás hefur þótt ágæt leið til sáluhjálpar, að spjalla við Guð og líða snöggtum betur á eftir. Vissulega hafa verið skiptar skoðanir varðandi tilvist æðri máttarvalda, mörgum hefur þótt fremur ólíklegt að eitthvað sé til, sem er æðra þeim sjálfum, en það mun vera óþarflega mikið sjálfshól, því varla getur maðurinn í vanmætti sínum og breyskleika, verið æðsta birtingarmynd sköpunar heimsins.

Þótt margir hafi allt á hornum sér varðandi trú og trúarbrögð, þá hafa þeir látið okkur í friði sem aðhyllumst þá skoðun, að Guð hljóti að vera til.

En nú eru trúleysingjar farnir að sækja í sig veðrið og sumir í þeirra hópi, halda því fram að það sé börnum beinlínis skaðlegt að líta augum hin fallegu tákn kristinnar trúar, þótt það verði að teljast fremur hæpin vísindi.

Þess vegna var það ánægjulegt að Mannréttindadómstóll Evrópu skyldi hafa komist að þeirri niðurstöðu, að börn hljóti engan skaða af því að horfa á kross í skólastofunni.

Kristinn boðskapur hefur haft jákvæð áhrif á heiminn og ágætt væri, ef Mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar kynnti sér sjónarmið Evrópumanna í þessum efnum, það munu vera einhverjir í þeirra hópi sem dást að ESB og finnst allt gott sem frá þeim kemur.

Þótt sagan sýni mörg dæmi um hrottaverk kristinna manna, þá er meira af kærleiksverkum úr þeirri áttinni og fólk ætti frekar að horfa á hið fagra í tilverunni.


mbl.is Í lagi að krossar séu í skólastofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirgripsmikil vanþekking hæstvirts forsætisráðherra.

Mér var innrætt það í æsku, að sýna gömlum konum velvilja bæði og góðvild, það er vissulega góður siður.

En það góða fólk, sem kenndi mér guðsótta  og góða siði hafði ekki hugmynd um, að gömul kona ætti eftir að komast til æðstu metorða þjóðarinnar og haga sér eins og fáráðlingur.

Nýjustu merkin um meintan aulahátt kerlingarinnar eru ummæli Valtýs Sigurðssonar, sem nú lætur af embætti ríkissaksóknara, en hann segir Jóhönnu hafa haft óþarflega mikil afskipti af dómstólum þjóðarinnar.

Hann kvað hana hafa "ærst af fögnuði" þegar fyrrum forystumenn Kaupþings voru hnepptir í gæsluvarðhald, einnig vildi hún víst að ungmennunum níu yrði sleppt við réttarhöld.

Augljóslega þekkir hún ekki merkingu laga, jafnvel þótt hennar aðalstarf hafi verið, í þrjátíu og tvö ár, einmitt að semja lög. Fólk er mislengi að tileinka sér þekkingu, en afar sérstætt má telja, að eftir þrjátíu ára starf, þá sé þekkingin ekki meiri en hún er.

Miðað við röksemdir hennar varðandi níumenningana, þá ætti að vera í lagi, að sleppa líka réttarhöldum yfir bankamönnum.

Níumenningarnir létu vissulega stjórnast af reiði og það má teljast eðlilegt í ljósi þess ástands sem ríkti, þegar þau ruddust inn í þinghúsið.

Það voru einnig sérstæðir tímar þegar hið svokallaða góðæri var í algleymi, menn töpuðu sér í græðgi.

Reiði og græðgi eru víst hluti af mannlegu eðli, við höfum hinsvegar lög sem eiga að koma í veg fyrir, að fólk láti ekki stjórnast svo mikið af sínum brestum, að skaði geti hlotist af.

Rannsóknarskýrslan fræga hvetur líka til þess, að farið sé betur eftir lögum og reglum samfélagsins, það er ágætis aðferð til að auka aga í samfélaginu, en mörgum finnst með réttu, skorta á aga hjá íslendingum.

Forsætisráðherra hefur framkvæmdarvald laga og á ekki að skipta sér af dómsvaldinu, hún á að vita þetta kerlingin eftir öll þessi ár á þingi.

Þótt undirstöðurnar séu vissulega ágætar hér á landi, þá má efast um að samfélagið þoli svona forsætisráðherra öllu lengur, það er líka vandræðalegt fyrir okkar ímynd á erlendum vettvangi, að hafa forsætisráðherra sem veit varla nokkurn skapaðan hlut, sem máli skiptir í landsstjórninni.


Hún er svolítið utan við sig, blessunin.

Eftir áratuga setu í stjórnarandstöðu, þá tekur það vissulega tíma að átta sig á nýju hlutverki.

Deila má um, hversu langan tíma, en flestir hljóta að geta fallist á það, að eftir tvö ár í starfi forsætisráðherra, þá ætti Jóhanna að vera búin að átta sig á nýrri stöðu sinni í pólitíkinni.

En tímaskyn hennar er afar sérstætt, þannig að hún hefur greinilega ekki áttað sig enn.

Hún spyr nú eftir stefnu Framsóknarflokksins í efnahagsmálum.

Það er skiljanlegt í ljósi þess, að framsóknarmenn ríktu ansi lengi og kannski heldur hún, að hún sé stjórnarandstöðuþingmaður að leita eftir lausnum hjá ríkistjórninni.

Margir muna eflaust eftir því, þegar Guðlaugur Þór var að leita eftir upplýsingum, þá sagði Jóhanna að vissulega væri fjandi hart að geta ekki fengið þessar upplýsingar, en Guðlaugur gæti bara kennt helvítinu honum Davíð um þetta, hann setti jú lögin.

Fjárfesting hér á landi verður aldrei aukin, meðan forsætisráðherra, sem heldur að hann sé í stjórnarandstöðu er við völd, ásamt fjármálaráherra sem er ekki meðmæltur því að fólk græði um of.

 


mbl.is Fjárfesting fari í 18-20%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heldur Jóhanna að hún sé Guð almáttugur?

Því miður bendir margt til þess, að forsætisráðherra nafnbótin hafi stigið konugreyinu það hátt til höfuðs, að hún telji sig vera Guð almáttugan.

Af þeim sökum telur hún sig eflaust getað gert eins og frelsarinn, er hann mettaði fjöldann á örfáum fisktittum, það átti að vera ómögulegt, en það tókst vegna þess að hann er almáttugur.

Jóhanna taldi sig einnig geta gert hið ómögulega er hún reyndi að breyta áfellisdómi stofnunar sem berst gegn spillingu í hrós.

Einnig reyndi hún að breyta neikvæðum hagvexti í jákvæðan, hún hefur reynt að smala köttum, en það gerðu þeir himnafeðgar reyndar aldrei, þeir vissu vel að svoleiðis aðferðir hentuðu ekki kisunum, þótt eflaust hafi þeir getað það, sjálfsagt hafa þeir ekki séð neinn tilgang með því.

Henni mistókust ofangreind atriði, en vel má vera að henni takist eitt, það er að notast við tímatal Guðs, en eins og allir vita, þá er hver dagur hjá himnaföðurnum eittþúsund ár samkvæmt okkar tímatali.

Hún hefur talað um að margt ætti að gerast eftir viku, kannski meinar hún eftir sjöþúsund ár, þótt alþýðan skilji ekki svona háleita hugsun.

Hún hefur lagt drjúga vinnu í að skapa samfélagið árið 2020, kannski gengur það betur en "Ísland án eiturlyfja árið 2000".

Enginn veit víst hvað framtíðin ber í skauti sér, 2020 er okkur ansi fjarlægt í dag, þótt það ártal komi vissulega eftir níu ár.

En hæpið er að vita hvað gerist eftir þúsundir ára, kannski birtist öll skjaldborgin þá eins og þruma úr heiðskýru lofti?


Alltaf sami aulahátturinn.

Margir muna þá tíð, þegar bannað var að selja bjór hér á landi, en fyllilega löglegt var að selja sterkt áfengi í lítravís og það var hraustlega drukkið um helgar af landsmönnum mörgum.

Þegar ég hef sagt yngra fólki frá þessum kjánalegu tímum, þegar bannað var að selja ýmsar sælgætis tegundir og bjór var ólöglegur, þá hafa ungmennin gjarnan skemmt sér yfir frásögnum af liðinni tíð.

En nú erum við komin með vinstri stjórn og þar á bæ dettur mönnum í hug að framkvæma ýmislegt, sem ekki nokkrum öðrum dytti til hugar að hugsa um.

Fólk sem náð hefur tilsettum aldri getur keypt reyktóbak af öllum gerðum og hinum ýmsu styrkleikum, einnig er leyfilegt að troða íslenski neftóbaki í öll nef og vör.

En það á nú að banna skro og allt tóbak sem inniheldur lyktar bæði og aukabragðefni. Reyndar sá ESB til þess að mönnum var gert kleyft að spúa illþefjandi reyk framan í samferðarfólk sitt, en Brusselmenn bönnuðu fínkorna neftóbak og munntóbak það, sem Svíar hafa notað um aldir.

Það er svo undarleg þessi árátta, að vera að banna vörur, án þess að það þjóni nokkrum tilgangi.

Það mun vera umhverfisvænna að notast við tóbak í nef og vör, heldur en að fólk reyki eins og kolatogarar samborgurum sínum til ama.

Ekki vil ég banna reyktóbak, því ég er fylgjandi valfrelsi fólks, hver og einn verður að ráða því, hvaða nautnalyf hann kýs að notast við til að seðja sína fíkn.

Það hljóta að finnast meira aðkallandi verkefni hjá velferðarráðherranum, en að vera að dunda sér við að semja frumvarp um bann á vörum, sem eru ekki einu sinni til sölu hér á landi.

En það er sama hvert litið er til verka stjórnarliða, þetta er allt sami andskotans aulahátturinn, en þau lafa enn í stólunum af einhverjum ástæðum.

 


mbl.is Vilja banna skrotóbak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband