Færsluflokkur: Bloggar

Hvernig ætlar hún að styrkja stjórnina?

Þeir sem komnir eru á miðjan aldur muna vel, hvaða aðferðum vinstri stjórnin beitti til að styrkja stöðu sína í byrjun síðasta áratugs tuttugustu aldar.

Þá keyptu vinstri menn Stefán nokkurn Valgeirsson til liðs við sig. Stefán heitin var einn í þingflokki síns flokks og hafði hann af þeim sökum ekki heimild til að hafa aðstoðarmann.

Vinstri menn gleðjast mjög þegar þeir fá einhvern stuðning, en það gerist ekki oft eins og dæmin sanna. Þess vegna launaði vinstri stjórnin Stefáni greiðann með því að ráða handa honum aðstoðarmann, sá ágæti maður fékk laun deildarstjóra í ráðuneyti, en þau munu hafa verið hærri en almenn laun aðstoðarmanna þingflokka.

Einhverjar aukatekjur mun þessi ágæti maður hafa haft frá einkafyrirtæki, en það þótti í lagi, vegna þess að stjórnarliðar fengu stuðning frá Stefáni.

Eitthvað mun stuðningur Stefáns hafa dugað skammt, þannig að leitað var til Borgaraflokksins um stuðning, það var einmitt upphafið að umhverfisráðuneytinu. Ef ég man rétt, þá var annar gerður að ráðherra hagstofumála, en slíkt embætti hefur ekki þekkst í íslenskri stjórnsýslu, oftast nær gegnir forsætisráðherra því í hjáverkum, enda ekki mjög krefjandi starf.

Nú er spennandi að sjá, hverjir á þingi hljóta óvænta upphefð og hærri laun, í skiptum fyrir stuðning við þessa lánlausu ríkisstjórn.


mbl.is Styrkur ríkisstjórnar metinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðfríður Lilja er allt of sjálfstæð í hugsun.

Ef fólk ætlar að komast áfram í VG, þá er nú betra að láta eigin sannfæringu ekki þvælast um of fyrir framanum, það hefur Guðfríður blessunin Lilja mátt reyna á eigin skinni.

Árni er mikið léttari í taumi, hann er ekkert að ögra formanni sínum með eigin sannfæringu, ef hún er einhver, heldur tekur mið af sjónarmiðum formannsins.

Reyndar er hann jákvæðari á ESB heldur en stefna flokksins og orð formannsins segja til um, en það gerir ekkert til. Með því að þóknast Jóhönnu, þá þóknast hann Steingrími um leið, því þau eru jú samstæð heild, eins og allir vita.

Steingrímur er lítt gefinn fyrir óþekkt í sínum flokki, honum finnst ólíkt notalegra að hans undirsátar fylgi hans sannfæringu, það er ekkert óeðlilegt í flokki sem sækir arf sinn í Kommúnisma.

Óþekktarormar á borð við Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslason geta bara farið eitthvað annað, það styrkir stöðu formannsins, en hann tekur það ákaflega nærri sér ef einhver er ekki sammála honum, enda sérstaklega viðkvæmur og hörundsár maður.

Þráinn Bertelsson á vísan frama í flokknum, því hann sagði að meirihlutalýðræðið væri bara til vandræða. Slík orð gæla við eyru Steingríms Joð, eins og hin ljúfasta sinfónía gerir við í eyru þeirra, sem fagurri tónlist unna.

Feminsismi og jafnrétti, þetta eru bara hugtök sem Steingrímur notar til þess að koma vel fyrir, hann veit örugglega ekkert hvað þau merkja, enda skiptir það ekki máli.

Ætli hann fari ekki að skoða tillögur ungliða flokksins varðandi ríkiseinkasölu á matvælum, ríkið er hvort sem er að yfirtaka allan rekstur smátt og smátt.

Vitanlega vill Steingrímur hafa puttanna í öllu hér á landi, þjóðinni er ekki treystandi til að höndla með matvæli og ýmsan varning.

Það er nefnilega hætt við að einhver geti grætt á því og slíkt er eitur í beinum sannra Sósíalista.

 


mbl.is Guðfríður Lilja sett af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengur samningaleiðin ekki upp?

Það er afskaplega þreytandi að hlusta á stjórnmálamenn tala, sem engan skilning hafa á eðli þess máls sem þeir eiga að fjalla um

Steingrímur og Jóhanna segja bæði að samningaleiðin hugnist ekki íslensku þjóðinni, það er ekkert annað en rakalaus þvættingur. 

Íslendingar hafa alltaf vilja semja, hægt er að lesa fornsögurnar til að skilja þann rótgróna samningsvilja sem ríkir hjá þjóðinni og þjóðin hefur ekkert breyst, í grundvallaratriðum.

Samningar þeir sem gerðir hafa verið við Breta og Hollendinga taka eingöngu tillit til hagsmuna viðsemjenda okkar.

Samningar eiga að endurspegla sjónarmið og hagsmuna beggja aðila. Ef samningur hallar um of á einn aðila, þá telst það að sumra mati kúgun og það ekki að ástæðulausu.

Ef íslenska samninganefndin hefði látið reikna út, með raunhæfum hætti, það tjón sem íslendingar þurftu að bera vegna hryðjuverkalaganna, tekið álit ESA til meðferðar og svarað því eins vel og kostur er, þ.e.a.s fá það á hreint, hvort innleiðing innistæðutryggingakerfissins væri að einhverju leiti ábótavant.

Ef svo hefði verið, þá hefði mátt spyrja ESA, hvers vegna engin athugasemd hafi verið gerð áður. Það hlýtur að vera áfellisdómur yfir störfum ESA ef stofnunin fylgist ekki betur með störfum þeirra ríkja, sem hún á að hafa eftirlit með.

Hægt hefði verið að sýna fram á það með góðum rökum, að viðsemjendur okkar beri einnig stóra ábyrgð á því sem gerðist varðandi Icesave, fjármalaeftirlit landanna beggja leyfði Icesave reikninganna og gerðu ekki athugasemdir við þá himinháu vexti sem Landsbankinn bauð.

Ef litið er til ofangreindra röksemda og ef þeim hefði verið haldið nægjanlega á lofti, hefði eflaust fengist niðurstaða sem leitt hefði til þess, að öll ríkin hefðu deilt jafnt með sér kostnaði, hafi það komið í ljós að innistæðutryggingar okkar væru í raun gallaðar. Þá værum við að tala um sanngjarnar og viðráðanlegar upphæðir.

En megin mistök stjórnvalda voru vitanlega þau, að bíða ekki eftir því að búið væri að ganga frá uppgjöri þrotabúsins. Það að flýta sér um of í svona málum er aldrei til góðs.

Við eigum alltaf að semja, en það þurfa þá að vera alvörusamningar.

 


Hún gengur nú ekki á öllum blessunin.

Í þætti Egils Helgasonar opinberaði Jóhanna enn og aftur heimsku sína og vankunnáttu í pólitík.

Hún kvaðst óttast niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar og kvað hana auka á erfiðleika íslendinga. Svona yfirlýsingar forsætisráðherra eru ekki vel til þess fallnar, að styrkja okkar málstað.

Vitað er að erlendir fjölmiðlar fylgjast vel með því sem gerist í kjölfar kosninganna og þess vegna er mikilvægt, að leiðtogar þjóðarinnar gæti orða sinna vel. Eflaust eru ráðmenn í Bretlandi og Hollandi kátir núna, því þeir skynja ótta hjá forsætisráðherranum og sjá fram á, að ekki þurfi að beita mikið til að hræða hana enn frekar.

Steingrímur Joð má þó eiga það, að hann var ekki með hræðsluáróður, heldur sagði hann það vera höfuðverkefnið að vinna úr þessari stöðu og berjast fyrir málstað þjóðarinnar.

Í ljósi reynslunnar, þá er ástæða til að efast um að hann berjist af krafti fyrir okkar málstað, en hann sýndi þó allavega lit, það er meira en Jóhanna gat gert.

 


Vill hann verða þjóðinni til gagns?

Nú er það spurning, hvort Steingrímur Joð ákveður að hefja fyrsta skrefið í endurreisninni, með því að segja af sér.

Verði samningunum synjað þá gæti verið að hann taki bestu ákvörðunina á sínum stjórnmálaferli, að losa þjóðina við þessa ríkisstjórn, sem fátt gott hefur af sér leitt, ef þá nokkuð.

Fari svo, sem er alsemdist óvíst, að hann stígi til hliðar, þá fylgir Jóhanna væntanlega með og þá hljóta að verða áratugir, þangað til þjóðinni kemur til hugar að velja vinstri flokka til forystu.

Annars er Steingrímur Joð ólíkindatól, hann virðist trúa því að hann sé vel til þess fallinn, að tala máli þjóðarinnar á erlendum vettvangi, en það verður spennandi að heyra hvað hann hefur að segja á blaðamannafundinum.

 


mbl.is Steingrímur boðar til fundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin ástæða til að óttast Moody' s.

Ótti er stórhættulegt fyrirbæri þegar fólk lætur stjórnast af honum, það var m.a. vegna óttans og reiðinnar reyndar líka, sem ríkisstjórnin komst til valda.

Og nú ætla sumir að láta óttann lengja líf ríkisstjórnarinnar.

Besta leiðin til að sefa ótta er að nota almenna skynsemi.

Fjármálaheimurinn hlýtur að láta fleiri atriði ráða sínum gjörðum heldur en lánshæfismat fyrirtækja, sem hafa reynst ómarktæk á umliðnum árum. Þeir sem starfa við fjárfestingar og lánastarfsemi meta heildarmyndina í stað þess að taka mark á einstökum matsfyrirtækjum, það liggur í augum uppi.

Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum hugsandi manni í hug sú þvæla, að einhver sé hæfari til að greiða skuldir, ef skuldabyrðin eykst til muna eins og gerist ef við borgum Icesave?

Ef við neitum að samþykkja vitleysuna, þá verðum við allavega í skjóli næstu árin og þá er hægt að nýta tímann til að kynna okkar málstað erlendis og auka fjárfestingar.

Hverjum dettur í hug að halda því fram, að erlendar lánastofnanir séu að spekúlera í Icesave? 

Ef einhver er með góða viðskiptahugmynd og tekst að sannfæra erlenda banka, þá lána þeir, því þeim er nákvæmlega sama hvers lenskur viðkomandi er. reyndar er eina hættan sú, að ríkisstjórnin komi í veg fyrir lánin með asnaskap sínum og fábjánahætti, en Icesave spilar þar ekki inn í að nokkru leiti.

Ég hvet alla íslendinga til þess að eiga notalegt kvöld, slaka vel á og vakna jákvæðir og glaðir í fyrramálið. Þá er hægt að skreppa á kjörstað og segja JÁ við hagsmunum þjóðarinnar, með því að segja NEI við Icesave.


mbl.is Viðtal: Óvíst að vextir hækki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er nú meiri sauðurinn.

Sumum kann að þykja það ómaklegt gagnvart blessaðir sauðkindinni, að líkja stjórnarliðum við hana, en það er ekki verið að niðurlægja þá ágætu skepnu. Eflaust veit sauðkindin það af eðlishvöt sinni, að hún er ekki vel til þess fallin, að stjórna landinu.

Sauðseðli hentar ekki í mikilvæg embætti þótt það sé vissulega nóg, til að komast skammlaust í gegn um lífið.

Fólk sem náð hefur miðjum aldri, ætti að vera farið að þekkja styrkleika sína og veikleika.

Steingrímur er frábærlega mælskur, hann hefur gott vald á íslenskri tungu og gæti eflaust orðið þokkalegur í hinum ýmsu störfum. Hann átti góða spretti í stjórnarandstöðu, það var rétt hjá honum að skrifa grein í moggann þess efnis, að okkur bæri ekki að borga fyrir Icesave, eins var það rétt hjá honum að segja, að sá stjórnmálamaður sem treysti ekki þjóðinni til að höndla beint lýðræði, hann væri vart traustsins verður.

En að ljúga því að sjálfum sér, að hann væri hæfastur til að tala máli íslensku þjóðarinnar, fari svo að samningarnir yrðu felldir, það er stórkostlegt ofmat á eigin getu.

Síðustu tvö ár hefur hann sýnt það og sannað, að varla finnst vanhæfari einstaklingur, nema ef vera skyldi vinkona hans Jóhanna, til þess að tala máli íslensku þjóðarinnar.

Já í þessu máli er hann óttalegur sauður karlanginn.


mbl.is Óvíst hvort kjósa þyrfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað átti ríkisstjórnin að gera í upphafi?

Strax í byrjun hefði ríkisstjórnin átt að einhenda sér í það, að róa almenning í landinu og sýna lit, með því að lækka höfuðstól lána um t.a.m. 20%. Ríkið keypti lánasöfn hinna föllnu banka með 60% afföllum, þannig að með höfuðstólslækkuninni, þá hefði afslátturinn verið 40%, sem ætti að vera ásættanlegt og meiri sátt skapast.

Í stað þess að væla yfir erfiðum verkefnum, þá hefði ríkisstjórnin átt að setja allt á fullt varðandi álver í Helguvík, það er hægt að fá orku með virkjun neðri hluta Þjórsár, fólk þarf að færa fórnir á erfiðum tímum og þetta hefði skapað þónokkur störf og aukið bjartsýni.

Heilsutengd ferðaþjónusta var í undirbúningi á Varnariðssvæðinu, hana hefði átt að setja á fulla ferð, auka aflaheimildir osfrv.

Stjórnvöld hefðu ennfremur átt að senda hæfa einstaklinga til að ræða við Breta og Hollendinga um Icesave, geyma alla samningaviðræður þar til búið væri að gera upp þrotabúið og á sama tíma átti að vera her sendimanna út um allan heim að afla stuðnings fyrir okkar málsstað, ásamt því að beita Breta hörku og úthrópa það á alþjóðavettvangi, að þeir hefðu skaðað okkur verulega með beitingu hryðjuverkalaganna.

Ríkisstjórnin hefði á þessum tíma átt að halda uppi stöðugum samræðum við þjóðina, hvetja hana til góðra verka og hrósa henni fyrir þrautseigju og úthald ásamt því, að upplýsa hana um aðgerðir þær sem miðuðu að endurreisn samfélagsins.

Ríkisstjórnin átti ekki að leiða hugann að ESB umsókn næstum því strax, því mikil óvissa ríkir þar og óvíst er um vilja þjóðarinnar í þeim efnum, auk þess kosta viðræðurnar óhemjufé sem hefði verið hægt að nýta í annað.

Fjármálaráðherra hefði mátt sleppa því að dæla peningum í sparisjóðina og Sjóvá-Almennar, betra hefði verið að nota það fjármagn í annað, við höfum þar að auki nóg af tryggingafélögum og bönkum til að halda uppi þjónustu við landsmenn.

Í stað skattahækanna hefði átt að fara í fyrirframgreiðslur á skatti af séreignasparnaði.

Það er nefnilega ekki flókið að stjórna þessu landi fyrir venjulegt fólk, en vinstri stjórnin tæra gerir hina einföldustu hluti nær óleysanlega.

Og þetta eru ekki eftiráskýringar, heldur staðreyndir sem hafa blasað við öllum nema stjórnarliðum allan tímann.


Verður allt búið árið 2016?

Þeir sem vilja borga skuldir Breta og Hollendinga vilja margir hverjir meina, að við verðum laus allra mála árið 2016, en hvernig fær það staðist?

Ef samningurinn verður staðfestur þurfum við að greiða yfir þrjátíu milljarða á þessu ári, á sama tíma er verið að skera niður í velferðarkerfinu því það eru ekki til peningar til að reka það með fullnægjandi hætti.

Ríkið hlýtur að þurfa þá að nýta sér lánsfé og það fæst ekki gefins í dag, einnig þarf að greiða af öðrum lánum. Með því að bæta þessari skuld við, þá er minna svigrúm til að borga hinar skuldirnar, þannig að þetta verður eins og snjóbolti sem er rúllað niður brekku.

Sennilega þarf þá að endurfjármagna hin lánin með tilheyrandi kostnaði og taka meiri lán til að standa undir rekstri þjóðfélagsins, ekki er hægt að skera endalaust niður og þeim fækkar stöðugt sem geta greitt hærri skatta, en skattar eru reyndir við efri þolmörk nú þegar þannig að svigrúmið er nánast ekki neitt.

Þeir sem lent hafa í skuldavanda þekkja þann tíma sem það tekur, að ná sér aftur á strik, því svona vandamál hverfa ekki eftir síðustu greiðslu á einu láni af mörgum.

Við erum sem sagt allan tímann, ef meirihluti kjósenda samþykkir samninginn, að koma okkur í meiri vandræði, á meðan við erum að borga upp ólögvarða kröfu.

Enginn veit hvaða ástand kemur til með að ríkja á mörkuðum í náinni framtíð, lækkar verð á skuldabréfum og eignum hins fallna banka, fellur gengið mikið osfrv.

Minna skal á, að í höftum hefur gengið lækkað á þessu ári, þótt ríkisstjórnin hafi gortað sig af stöðugleika í þeim málum. Í óvissuástandi því sem nú ríkir á fjármálamörkuðum heims, er vonlaust að spá fyrir um verðþróun á mörkuðum.

Dómstólaleiðin felur vissulega í sér ákveðna áhættu, en ekki er sjálfgefið að Bretar og Hollendingar leggi í hana, því niðurstaðan verður slæm fyrir þá, hver sem niðurstaðan verður.

Ef málið fer fyrir dóm, þá þurfum við harðsnúinn lögfræðing og alvöru ríkisstjórn sem talar máli þjóðarinnar. Ef þessi ríkisstjórn situr einhver ár í viðbót, þá fer þjóðin því miður á hausinn hvort sem samningarnir verða samþykktir eður ei, það er mín tilfinning þótt ég sé annars ógurlega jákvæður og bjartsýnn að eðlisfari.

Ég held að fólk ætti að hugsa sig vel um, áður en það segir já við samningnum, það eykur ekkert framboð á lánsfé. Moody's hefur áður gefið út villandi lánshæfismat, enda vita allir að fjármagnið leitar þangað sem hagnaðarvonin er.

Það er helst ríkisstjórnin sem fælir fjármagnið í burtu með allskyns vandræðagangi og samþykkt samninganna gerir ekkert annað en að fríska hana upp og lengja hennar líf til muna.


Nú er hún ánægð með samstarfið.

"Góð samvinna stjórnvalda, launþegahreyfinga og Samtaka atvinnulífsins er lykillinn að þeim árangri sem hefur náðst. Einhverjir hvá eflaust þegar ég segi orðið "samvinna" enda verður því ekki neitað að oft hefur hvesst milli manna á undanförnum árum. En friður hefur haldist og samstarfið hefur haldist óslitið allan tímann og það skiptir máli".

Ekki veit ég hvaða árangur hefur náðst, annar en sá að hluti verkalýðshreyfingarinnar og SA hafa beitt hræðsluáróðri til þess að þvinga sína félagsmenn til að kjósa með Icesave.

Hún hefur vissulega óhefðbundinn skilning á tilverunni, en sú staðreynd blasir við þeim sem kjósa að lifa í hinum hefðbundna veruleika, að samtarf aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar hefur ekki verið gott og enginn sýnilegur árangurinn af þeirri vinnu.

Ekki hafa enn náðst samningar, þrátt fyrir tveggja ára samvinnu þessara aðila, enda erfitt að eiga við ríkisstjórn sem samanstendur af fábjánum upp til hópa og í ljósi skoðanakúgunar aðila vinnumarkaðarins, þá er lítil von um árangur.

En Jóhanna er ánægð með alla þá sem samþykkja vilja Icesave og þá er hún tilbúin að fyrirgefa hvað sem er.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband