Færsluflokkur: Bloggar

Þetta mættu stjórnmálamenn taka til fyrirmyndar.

Það er fátt sem er klaufalegra, en stjórnmálamaður, sem  klúðrað hefur málum og mætir svo í viðtöl og þykist hafa gert allt rétt, en kennir öllum öðrum um mistökin.

Því miður höfum við þesskonar dæmi úr öllum flokkum.

Vel er hægt að skilja og umbera mistök, öllum getur orðið á.

Það þarf styrk til þess að viðurkenna þau undanbragðalaust, án þess að afsaka nokkuð.

Sá stjórnmálamaður sem getur horft framan í þjóð sína, fullur iðrunar yfir eigin gjörðum og beðist auðmjúklega afsökunar, hann væri svo sannarlega traustsins verður.


mbl.is Guðmundur: Biður þjóðina afsökunar(myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hvers að reiðast út í Jóhönnu og Steingrím?

Það að reiðast út í Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon, er álíka jafn fáránlegt og að reiðast út í byssukúlur og aðra hluti sem hafa eyðileggingarkrafta í för með sér.

Þegar byssukúla grandar fólki er venjan sú, að refsa þeim sem að skýtur henni en ekki kúlunni sjálfri, þess vegna væri skynsamlegra, ef fólk hefur þörf fyrir að reiðast einhverjum, að reiðast þeim sem leiddu þau til valda. En reiðin er engum til góðs, svo því sé til haga haldið.

Öllum sem fylgst hafa með landsmálum undanfarin ár ætti að vera ljóst, að framangreindir einstaklingar eru vonlausir til þess að stjórna landinu. Þau láta stjórnast of mikið af reiði og fyrirframgefnum forsendum þess efnis, að allir hljóti að vera vafasamir sem græða mikið fé. 

Þeir leiðtogar sem virka best eru jákvæðir, bjartsýnir og hafa mikla trú á eigin þjóð.

Steingrímur telst seint vera bjartsýnismaður og Jóhanna hefur svo litla trú á þjóðinni, að hún vill helst láta hana undir yfirstjórn ESB.

Þekkt er sú staðreynd að þeir sem skapa verðmæti, eru mikilvægir þjóðfélagsþegnar, þótt ekki sé gert lítið úr þeim sem vinna verkin fyrir þá. Jóhanna og Steingrímur eru ekki á þeirri skoðun, þau vilja helst að sömu peningunum sé dreift á milli þegnanna og gera sér ekki grein fyrir mikilvægi þess, að koma með nýtt fjármagn til landsins.

Þetta hefur alltaf verið vitað, þess vegna er ekki við þau að sakast, heldur kannski þá kjósendur, sem kusu þau til valda.

En varla er við kjósendur þeirra heldur að sakast, þeim varð það á, að láta reiði og ótta ná tökum á sér.

Eðlilegasta niðurstaðan er ávallt sú, að varast ber reiðina og óttann. Bera er að vinna sig út úr vanda hverjum, á yfirvegaðan hátt og með bjartsýni að leiðarljósi.


Í vonlausri leit að vinsældum.

Jóhanna Sigurðardóttir og hennar tindilfætti aðstoðarmaður Hrannar B. Arnarsson reyna allt, til þess að bæta ímynd forsætisráðherrans seinheppna.

Hinn snöfurmannlegi aðstoðarmaður hefur rennt haukfránum augum yfir helstu fjölmiðla landsins, til að sjá hvernig forsetanum tókst að bæta ímynd sína.

Þeim var það ljóst, enda glögg bæði og skelegg mjög, að ímynd Ólafs Ragnars var í molum eftir hrunið, svo fór hún upp á við.

Hrannar leitaði lengi og fann loks, gamla frétt þess efnis, að forsetinn hefði beðið um launalækkun, það virkar eflaust vel og sýnir alþýðlegt yfirbragð, að vilja komast nær hinum almenna borgara í tekjum, að mati aðstoðarmannsins hugumstóra.

Hann tjáði yfirboðara sínum þessa stórfenglegu hugmynd, kannski hefur hin lífsreynda kona talið þetta hæpið, því það er nú ekki beint flott, að apa eftir öðrum.

Þá hefur pilturinn örugglega brosað sínu ísmeygilega brosi, sem hann er nú frægur fyrir og sagt henni, að allir íslendingar væru búnir að gleyma þessu, allir að hugsa um Icesave osfrv.

En þar klikkaði aðstoðarmaðurinn ráðholli, fjölmiðlar gleyma víst fáu og almenningur hefur glettilega gott minni.

Þá brugðu þau á það ráð, að segjast ekki hafa vitað um launalækkunarbeiðni forsetans, það virkaði ekki heldur.

Ef kellingarræfillinn hefði haft vit á, að láta ekki félaga sína plata sig í forsætisráðherraembættið, þá stæðu flestir í þeirri trú, enn þann dag í dag, að hún hefði sterka rétlætiskennd og stæði vörð um þá, sem höllum fæti standa.


Kommúnisminn er ekki dauður.

Þeir sem standa í þeirri trú, að Kommúnisminn sé dauður, fylgjast lítið með því sem er að gerast í samfélaginu.

Ungliðar VG halda mjög á lofti þessari mannfjandsamlegu stjórnmálastefnu, sem eingöngu hefur leitt hörmungar yfir þær þjóðir, sem hana kjósa.

Þeir auglýstu stjórnmálaskóla sem átti að hefjast í lok janúar, lítið hefur frést af hvernig gekk, en í honum áttu ungliðarnir að fræðast um þvæluna sem Karl Marx ritaði forðum daga, einnig stóð til að fræða ungmenin um Sovéskt skipulag.

Sindri Geir Óskarsson, forystumaður ungliðanna, ritar athyglisverðan pistil á síðu ungliða VG. þar tekst honum að koma í orð heimskulegustu hugmynd sem komið hefur fram frá vinstri mönnum á síðari árum, þótt vissulega ríki þar hörð samkeppni um fáránlegustu tillöguna.

Sindri Geir segir m.a.; Ég vil að á Íslandi sé aðeins starfrækt ein matvöruverslun og að hún sé á vegum ríkisins. Engin samkeppni, bara lýðræðisleg stjórnun. Þetta er hugmynd sem má útfæra á ýmsa vegu og ég er viss um að hún hefur fleiri kosti en galla."

Annað hvort er drengurinn svona spaugsamur og hefur gaman af að æsa fólk upp, eða svona gjörsamlega veruleikafirrtur, að annað eins hefur ekki sést lengi, þrátt fyrir margar undarlegar hugmyndir vinstri manna.

Ef hann er að segja þetta í alvöru, þá sjá landsmenn það með augljósum hætti, að vinstri stefnan er stórhættuleg öllu frelsi og lýðræði hér á landi.

Ég vona að ungliðar VG séu bara að grínast, allir hljóta að sjá hve hættuleg þessi stefna raunverulega er. 


Hún þekkir ekki sitt eigið hlutverk.

Aumingjans angans ræfillinn hún Jóhanna, það ætti einhver velviljaður einstaklingur að upplýsa hana um hvaða starfi hún gegnir.

Þekkt er með marga sem hafa gegnt ákveðnum hlutverkum lengi, að þeir eiga erfitt með að fóta sig í nýjum aðstæðum. Ég held að konugreyið átti sig ekki almennilega á því, að hún sé forsætisráðherra.

Í Kastljósviðtali fyrir nokkru síðan samsinnti hún því með stjórnanda þáttarins, að framganga bankanna væri ólíðandi, hún sá fréttir þess efnis í sjónvarpinu á dögunum.

Svo var hún sammála Guðlaugi Þór um tregðu stjórnkerfisins til upplýsingagjafar, en það var bara honum Davíð að kenna, hann setti lögin.

Vafalaust hefur eitthvað misskilið lögin, hún hefur ekki glöggt auga fyrir merkingum laga, en einhver hefði mát benda henni á, að hún gæti breytt lögunum því hún væri forsætisráðherra.

Fljótlega eftir að hún tók við embætti forsætisráðherra, þá sagði hún að enginn opinber starfsmaður ætti að hafa hærri laun en hún, enda hefur hún ágætis laun.

Stjórnendur bankanna hafa mikið hærri laun en hún, en fréttir þess efnis í fjölmiðlum virtust hafa farið framhjá henni, vesalings konunni.

En nú virðist hún hafa séð fréttirnar um laun bankastjóranna og þá sér hún að þetta eru siðlaus laun, miklu hærri laun en hún hefur nokkurn tíma haft.

Kannski myndi það bæta verk ríkisstjórnarinnar ef einhver góðviljaður einstaklingur, væri tilbúinn til að drekka með henni morgunkaffi daglega og fara yfir málin.

Viðkomandi þyrfti að byrja á að minna hana á að hún væri forsætisráðherra, svo væri hægt að lesa blöðin með henni og segja henni hvað væri að frétta af pólitíkinni osfr.

Hver veit nema að hún átti sig þá smátt og smátt á sinni stöðu og fæti að vinna samkvæmt því?


mbl.is Engin réttlæting fyrir ofurlaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfelld röð mistaka.

Því miður hefur núverandi ríkisstjórn gert lítið annað en að skapa ófrið, hækka skatta og gjöld ásamt mörgum öðrum mistökum, sem reyndir stjórnmálamenn ættu ekki að gera.

Þau töluðu um nauðsyn þess að bæta fagmennsku og gegnsæi í mannaráðningum. Ef tekið er eitt dæmi, varðandi ráðningu seðlabankastjóra, þá sést það vel að löngu var búið að ákveða hver ætti að gegna því embætti.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nefndi við Geir H. Haarde að nauðsynlegt væri að fá Má Guðmundsson til starfans, þannig að augljóst er að ekki fengu margir tækifæri til að sanna sig í því embætti, einnig má nefna afskipti fyrrverandi félagsmálaráðherra af ráðningu í stöðu yfirmanns Íbúðarlánasjóðs.

Fagmennska í ráðningum hefur alls ekki, á nokkurn hátt, aukist í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Stjórnlagaþing sem kostar hundruð milljóna gerir lítið annað en skapa ófrið milli þegna þessa lands, skiptar skoðanir eru á þessu máli og engan veginn hægt að segja, að ómögulegt sé að lifa nokkur ár í viðbót við núverandi stjórnarskrá.

Of miklar skattahækkanir eru slæmar og snargalið er, að auka flækjustigið á sama tíma, þekkt er að fólk bregst illa við miklum og umdeildum breytingum á erfiðum tímum.

Þegar mest er þörfin á samstöðu og sátt, þá varpar ríkisstjórnin hverri sprengjunni á fætur annarri til þess að gera ófrið meðal fólks enn meiri, en hann þyrfti að vera.

Eftir hæstaréttardóminn, varðandi stjórnlagaþing, þá var umræðan byrjuð að róast og margir héldu að þessu væri nú lokið, til þess að hægt væri að snúa sér að nytsamari verkefnum.

En þá grípur þessi guðsvolaða stjórn til þess, að leitast við að hundsa dóm æðsta dómsvalds þjóðarinnar og hreinlega skipa þá einstaklinga í stjórnlagaráð, sem nýlega höfðu hlotið ólögmæta kosningu til verksins.

Jóhanna og Steingrímur hafa setið á þingi áratugum saman og ættu að hafa einhverja þekkingu á pólitík.

Vitið er ekki meira en Guð gaf, flestum ber saman um að best sé að klára erfiðustu verkefnin á fyrstu misserum stjórnarsetunnar, en þau gerðu það ekki einu sinni rétt.

Heldur frestuðu þau erfiðum verkefnum, fram á mitt kjörtímabil og eru ekki, ennþá nálægt því að komast yfir erfiðasta hjallann.

Nú þekkir sagan góða leiðtoga, sem fólk minnist með virðingu. Hægt er að nefna Ólaf Thors, Bjarna eldri Benediktsson, Davíðs Oddsonar osfrv.

Sér einhver fyrir sér að Jóhönnu og Steingríms verði minnst, sem góðra leiðtoga í sögu þjóðarinnar?


Sá Steingrímur Joð hrunið fyrir?

Eftir hrun fjármálamarkaða hér á landi hneykslaðist Steingrímur Joð mjög á sofandahætti ríkisstjórnarinnar, hann var þá nefnilega í stjórnarandstöðu.

Þá vildi hann ekki borga Icesave og heldur ekki vera í samstarfi við AGS, en það var meðan hann var í stjórnarandstöðu.

Hann dundaði sér við skriftir um skamma hríð og vann að því, að miðla sínum sannleik til þeirra sem urðu þeirrar gæfu aðnjótandi, að lesa þetta merka ritverk.

Að sjálfsögðu var hann heltekinn af aðdáun á útrásarvíkingum þess tíma, honum var það bæði "ljúft og skylt" að hrósa þessum hetjum fyrir að hafa lyft efnahag landsins upp á hærra plan.

Á landsfundi VG árið 2007 taldi hann ríkissjóð svo útbólginn af peningum, að óhætt væri að lofa ókeypis námi fyrir alla, frá leikskóla upp í háskóla, fríum tannlækningum osfrv. Í hans augum stóð ríkissjóður svo vel, að enginn þurfti að greiða fyrir annað en mat, húsaskjól og einkaneyslu, öll heilbrigðisþjónusta og menntun átti að greiðast úr hinum útbólgna peningakassa ríkisins.

En eftir hrunið dæsti hann og sagðist hafa varað við þessu í mörg ár.

Nú er stjórnarliðinn Steingrímur Joð á hröðum flótta undan stjórnarandstæðingum sem hann eitt sinn var. Örþreyttur á líkama og sál reynir hann af veikum mætti að verja sífelld hagstjórnarmistök sín.

Stjórnarandstæðingurinn hugumstóri er týndur og tröllum gefinn, í staðinn er kominn staðnaður og flatur embættismaður, samt er þetta einn og sami maðurinn.

Skyldi hann hafa séð það líka fyrir?


"Að berja höfðinu í stein."

 Hin tæra vinstri stjórn hefur ástundað þá vafasömu iðju um tveggja ára skeið, að dúndra höfði sínu af alefli í risastóran stein, í von um að hann brotni.

Það er mikil bjartsýni, að reyna að brjóta steininn, engum hefur tekist það ennþá.

Þekkt er að miklar skattlagningar í kreppu virka lamandi á efnahagslíf þjóða, en stjórnarliðar gera meira en það.

Þau hækka einnig álögur á eldsneyti, áfengi og tóbak, það leiðir svo til þess að lánin hækka umtalsvert hjá fólki. Á endanum gefst fólk upp og flytur í stríðum straumum burt frá landinu. Þá hæka þau álögur enn meir á þær fáu hræður sem eftir verða með tilheyrandi vandræðum fyrir alla, nema stjórnarliða flesta, þau hafa ágæt laun og þurfa litlar áhyggjur að hafa af sinni afkomu.

Upp úr 1970 var Írland eitt fátækasta ríki Norðurálfu, flestir sem möguleika höfðu á því, fluttu þaðan.

Írar höfðu næmari skilning á efnahagsmálum en Steingrímur og Jóhanna, sennilega telst það varla hrós, því fáir fullvaxta einstaklingar í víðri veröld eru vitlausari en þau, þegar kemur að efnahagsmálum, ef þá nokkur.

Frændur okkar á eyjunni grænu lækkuðu skatta á fyrirtæki og einstaklinga og löðuðu til sín erlend fyrirtæki með skattaívilnunum. Sú stefna skilaði þeim svo góðum árangri, að hagvöxtur fór upp í 9% hjá þeim þegar best lét.

Bent hefur verið á þá staðreynd, að margir íslendingar óttist erlenda fjárfesta. Það er ástæðulaust með öllu, þótt vissulega þurfi að beita heilbrigðri dómgreind þar eins og í lífinu almennt.

Fjárfestar leita þangað sem bestu skilyrðin eru, það eina sem þarf er að skapa þau hér á landi.

Það er allt til staðar hér á landi, duglegt fólk og margir með góða menntun, dýrmætar auðlyndir til lands og sjávar, okkur eru allir vegir færir.

En við höfum aðeins eitt stórt vandamál sem tefur alla endurreisn.

Það er ríkisstjórnin sem lemur sífellt höfðinu í steininn og heldur fast við sína þráhyggju, varðandi skattahækkanir.

Þegar núverandi ríkisstjórn hverfur frá völdum, þá fer landið að rísa á ný.

Það mætti skaffa þeim góða öryggishjálma og leyfa þeim að rölta um landið og berja höfðum sínum í grjót sem þau finna á leiðinni, það gæti verið ágæt skemmtun fyrir ferðamenn.


Sjálfsögð mannréttindi?

Alltaf hef ég verið hissa á því, þegar fólk talar um að það hafi hin og þessi sjálfsögðu réttindi, mér hefur aldrei fundist ég hafa nein sérstök "sjálfsögð réttindi".

Reyndar er ég ósköp kátur yfir því að hafa fæðst hér á Íslandi, því snemma varð mér sú staðreynd ljós, að heimurinn er stærri en landið okkar og þær þjóðir sem við oftast berum okkur saman við.

Réttindi eru aldrei, hvorki sjálfsögð né sjálfgefin. Ástæða þess að við njótum meiri fríðinda en margar aðrar þjóðir er sú, að þeir sem á undan okkur gengu voru duglegir og framtakssamir einstaklingar, sem voru góðviljaðir mjög.

Ekki nutu íslendingar neinna réttinda hér fyrr á öldum, þá þurfti nokkuð gott að sofna ekki mjög svangur og mikil hamingja var í því fólgin að sjá blessuð börnin lifa af veturinn. Sumir voru nefnilega svo ólánsamir að þurfa að horfa upp á börnin sín deyja sökum hungurs og ills aðbúnaðar, fjölmargir sofnuðu oft með gaulandi garnir, eftir erfiðan og langan vinnudag.

Það er kominn tími til að fólk hætti að væla yfir einhverju sem er ekki sjálfgefið og þakka fyrir það sem við höfum hlotið í arf, frá dugmiklum forfeðrum okkar og mæðrum.

Það er vitanlega sárt til þess að vita, að fólk skuli eiga um sárt að binda nú um stundir, sökum fátæktar. Það er ástand sem við þurfum að laga.

En við lögum það ekki með neinum öskrum og látum, heldur með vinnusemi og dugnaði.

Stöðugt þurfum við að gæta þess að sofna ekki á verðinum, réttindi okkar eru hvorki sjálfgefin né sjálfsögð.

Vel gæti verið að ég, eða hver sem er, lendi í því fljótlega að verða ósjálfbjarga sökum alvarlegra veikinda, jafnvel gæti ég dottið niður steindauður eftir að hafa lamið þessi orð á lyklaborðið.

Þess vegna þurfum við að beita skynsemi og almennri dómgreind til að sjá veruleikann, vera þakklát fyrir hverja stund sem við lifum heilbrigðu lífi.

Í þessum heimi er ekkert til sem heitir "sjálfsögð mannréttindi", við þurfum stöðugt að vinna fyrir þessu öllu.


Snarvitlaus ríkisstjórn.

Ef farið er lauslega yfir verk núverandi ríkisstjórnar, þá gæti raunveruleikinn í dag, verið ágætis gamanleikur, ef ástandið væri eðlilegt hér á landi.

Fyrsta verk stjórnarliða var að henda stjórn Seðlabankans út á hafsauga, því það átti að bæta ímynd landsins á erlendum vettvangi. Þegar þeim svo tókst ætlunarverk sitt, var fenginn sakleysislegur Norðmaður í stöðu Seðlabankastjóra. Þótt það samrýmdist ekki algerlega stjórnarskrá að ráða útlending til starfans, þá voru þau ekkert að velta sér upp úr því og fjölmiðlar ekki heldur, allir vildu að þjóðin rétti úr kútnum.

Svo var íslenskur hagspekingur lokkaður hingað til lands, til að taka við stöðunni af nojaranum. Íslendingnum voru boðnir gull og grænir skógar, en fjölmiðlar eyðilögðu það. Kallræfillinn þurfti að sætta sig við þau laun sem í boði voru, jafnvel þótt það væri vandræðalegt fyrir hann í seðlabankaheiminum, að hans eigin sögn.

Þvínæst voru ráðnir reynslulausir samningamenn til að gera erfiðustu samninga sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir, Icesave.

Aðalsamningamaðurinn sagði í viðtali við morgunblaðið, að ef samningarnir hans yrðu samþykktir, þá þyrfti ekki að loka einni einustu sjúkrastofu né heldur kennslustofu í landinu, í a.m.k. sjö ár, við værum alveg í skjóli allan þann tíma og gætum lifað í vellystingum. Fjármálaráðherrann sagði líka að vinir sínir myndu "landa stórkostlegum samningum", er hann var í viðtali á mbl.is.

Framhaldið þekkja allir og vitað er, að blessuðum mönnunum skjátlaðist illilega varðandi þessa samninga, en fjölmiðlar eru nú  ekki mikið að velta þeim upp úr því.

Utanríkisráðherrann skoppaði því næst sveittur um Brusselsali, á fullu við að sannfæra menn um að íslendingar væru alveg að fara að átta sig á ágæti aðildar. Það kom reyndar í ljós að þetta var hugarburður hjá honum, en sökum þess að þetta er gæðasál og skemmtilegur kall, þá þykir Brusselmönnum vænt um hann og eru ekkert að núa honum sannlekanum um nasir, ekkert sérstaklega.

Hingað kom auðmaður frá Kanada og vildi kaupa HS orku. Honum er bent á að það sé ekki gerlegt, nema fyrirtækið starfi á EES svæðinu. Hann kippti því í liðinn, stofnaði skúffufyrirtæki í Svíþjóð og keypti hlutinn.

Kaupin voru samþykkt í ríkisstjórninni og friður ríkti á stjórnarheimilinu um stundarsakir, allt þar til fjölmiðlamenn fóru að fræða almenning um skúffuna í Svíþjóð.

Þá vöknuðu sumir stjórnarliðar upp og skömmuðust yfir skúffufyrirtækinu, jafnvel þótt augljóst væri að Magma þyrfti að gera eitthvað þessu líkt, til að geta keypt.

En þetta var ekki í fyrsta skiptið sem fjölmiðlar upplýstu stjórnaliða um eigin verk.

Forsætisráðherra, hæstvirtur, svaraði því til í Kastljósviðtali, að hún hefði heyrt ýmislegt í fjölmiðlum, varðandi framgöngu ríkisbankanna, gott ef að hún ætlaði ekki að skoða málið í næstu viku, en eins og allir vita, þá notast hún við sama tímatal og Guð almáttugur, þannig að vikan kemur ekki fyrr en eftir sjö þúsund ár.

Hægt væri að skrifa heilu ritsöfnin um aulagang ríkisstjórnarinnar, en óvíst er hvort nokkur nennti að lesa.

Þeir sem upplifa verk núverandi ríkisstjórnar og finna þau á eigin skinni, þeim er ekki skemmt.

Það verður aldrei nein endurreisn hér á landi, nema þessi stjórn hverfi frá völdum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband