Færsluflokkur: Bloggar

Vísvitandi með ömurlegan málflutning.

Oft slysast menn til að gera ömurlega hluti, það á við um stjórnmálamenn jafnt sem aðra. En að gera ömurlega hluti, á meðvitaðan hátt, það er flestum illskiljanlegt.

Hæstvirtur fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon er mikill prinsippmaður eins og allir vita og hann stendur við hvert einasta orð sem hann segir, að eigin sögn. Steingrímur Joð hefur margoft ítrekað það, að fólk geti treyst því, að hann gangi ekki á bak orða sinna.

Frægt er þegar hann stóð gegn álversframkvæmdum í eigin kjördæmi, í viðtölum sagðist hann ekki geta gert annað, því hann stæði við sín prinsipp, hvað sem á bjátaði.

Þegar hann var spurður álits varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu Icesave, ákvað hann að viðhafa málflutning sem honum finnst ömurlegur, hann vildi ekki setja málið í þjóðaratkvæði.

Rifjum upp það sem hann sagði á þingi í marsmánuði árið 2003; "stundum heyrist að vísu hjáróma rödd um að sum mál séu svo flókin, að þau henti ekki í þjóðaratkvæði. Það er einhver ömurlegasti málflutningur sem ég hef heyrt".

Hann er nú kominn með hjáróma rödd, a.m.k. er hann orðinn tvísaga í mörgu.

Og með sinni hjáróma rödd, fer hann með ömurlegan málflutning, að eigin sögn.


Jóhönna og Steingrímur boða bjartsýni.

Það er vissulega hugguleg viðleitni að hvetja til bjartsýni, en hætt er við að hvatningin virki ekki nógu vel, á meðan þau skötuhjú, halda áfram, að pína almenning í þessu landi.

Steingrímur er jafnan borubrattur, hann neitar að lækka álögur á eldsneyti heldur  lofar hann að skipa nefndir til að fara yfir málið.

Á sama tíma og hann dundar sér við að velja í nefndirnar sínar, þá hækka afborganir allra verðtryggðra lána hér á landi. Honum datt reyndar í hug að bæta einni hvatningarræðunni við, nú hvetur hann fólk til að breyta yfir í vistvænni orkugjafa.

Þannig að auk þess að hvetja til  bjartsýni, sem er ansi snúið vandamál fyrir marga meðan þau eru við völd, þá hvetur hann til þess að fólk geri óframkvæmanlega hluti.

Hér á Íslandi er veðurfar þannig, að erfitt er að vera án bifreiðar. Margir þurfa að sætta sig við gamla bíla og ódýra, fólk getur ekki keypt sér þokkaleg farartæki.

Hvernig í ósköpunum á fólk þá að geta lagt út í kostnað sem tilheyrir því að snúa sér að vistvænni orkugjöfum?

Steingrímur væri einnig vís til þess, að snarhækka gjöld á vistvæna orkugjafa um leið og honum verður ljóst, að þeir kosta mikið minna en olía og bensín.

Annars hefur þeim Steingrími og Jóhönnu tekist að vekja hjá mér bjartsýni, von og trú.

Augljóst er að, fyrr eða síðar mun þreytan sigra þrjóskuna og þau gefast upp.

Þau geta þá hrósað sér af því á elliheimilinu í framtíðinni, að þeim tókst að halda "íhaldinu" frá völdum í rúm tvö ár.

Það er líka það eina sem þeim hefur tekist, þótt deila megi um ágæti þess framtaks.


Lögmál orsaka og afleiðinga.

Seint mun ég þykja spámannlega vaxinn, en þó get ég hrósað mér af því, að hafa einu sinni séð eitthvað nákvæmlega fyrir. það voru afleiðingar búsáhaldabyltingarinnar frægu.

Það tókst mér með því að notast við lögmál orsaka og afleiðinga, það er nær óbrigðult. Búsáhaldabyltingin skapaði gjörsamlega vanhæfa ríkisstjórn með tilheyrandi vandræðum fyrir þjóðina. Það var vegna þess að ótti og reiði voru drifkraftar fólksins á Austurvelli.

Eina leiðin út úr vandanum er bjartsýni, vinnusemi og gleði.

Vinnusemin er æðst allra dyggða, því hún orsakar framfarir öllum til handa, en það þurfa allir að leggjast á eitt, það má enginn skorast undan.

Við þurfum ríkisstjórn sem ryður braut til hagvaxtar, útflutningsdrifins hagvaxtar, því ekkert annað dugar nú um stundir, einnig þurfum við að laða hingað erlenda fjárfesta og gera landið að fýsilegum kosti fyrir þá.

Atvinnurekendur verða að hafa vakandi auga og grípa öll tækifæri, launþegastéttin kemur svo og hámarkar afköstin eins mikið og kostur er.

Ekkert samfélag getur talist siðmenntað nema það sjái fyrir þörfum þeirra sem geta ekki bjargað sér sjálfir, en allir þurfa að hafa vakandi auga fyrir því, að enginn misnoti velferðarkerfið.

Þjóðin þarf að standa saman og sjá til þess, að allir geri sitt besta og vinni eins og þeir hafa getu til.

Þjóðfundir, stjórnlagaþing og erlendar lántökur gera ekkert gagn nú um stundir.

Það eina sem dugar er vinna og ekkert annað, öðruvísi komumst við aldrei upp úr hjólförunum og verðum aldrei sjálfbjarga þjóð.

Því fyrr sem þjóðin áttar sig á þessum einfalda sannleik, því betra og umfram allt, enga leiðinda byltingu aftur, reiðin er vita gagnslaus í svona aðstæðum. Það er alveg nóg fyrir fólk að berjast við kvíðann yfir eigin afkomu svo reiðin fari ekki að bætast við og virka eins og flugvélabensín á eld.


Árás á Baldur Hermannsson?

Lítið hef ég fylgst með fréttum undanfarið, enda búinn að vera önnum kafinn úti á ballarhafi við að efla gjaldeyristekjur þjóðarinnar, en í Fréttablaði dagsins í dag er nefnt nafn bloggvinar míns og góðkunningja Baldurs Hermannssonar á fremur neikvæðum nótum.

Einnig skilst mér að DV og eitthvað blað í Hafnarfirði hafi verið að hnýta í hann.

Baldur er greindur og skemmtilegur maður, hann orðar hlutina á sinn hátt, enda er hann einn af mest lesnu bloggurum hjá mbl.is. Ef menn sleppa móðursýkinni og notast við lesskilning sem þjálfast hjá flestum, þá er heilmikið til í pistlunum hans.

Tilsvörin hjá honum í athugasemdarkerfinu eru hreint frábær, hnyttnar athugasemdir til manna, blandaðar skemmtilegum húmor ættu að geta komið þeim í gott skap, sem ekki þjást af ofurviðkvæmni og árásarhneigð í garð þeirra sem eru þeim ekki sammála.

Baldur kennir í Flensborgarskóla, mér skilst að hann kenni eðlisfræði. Ekki efast ég um að hann nái vel til sinna nemenda og komi þeim ágætlega í skilning um leyndardóma eðlisfræðinnar.

En ekki dettur fjölmiðlum í hug að gera athugasemdir við háskólakennara sem koma fram með ýmist hálfsannleik eða lygi, og þó eru þeir að fjalla um sitt sérsvið.

Þórólfur nokkur Matthíasson prófessor í hagfræði, tjáði landsmönnum það, að allt færi fjandans til ef Svavarssamningurinn hræðilegi yrði ekki samþykktur. Hann beitti ekki þeirri aðferð sem fræðimenn nota ef mál geta brugðist til beggja vona, þ.e.a.s. tala með fyrirvara; "hugsanlega", "gæti skeð", osfrv.

Heldur fullyrti hann það, að við yrðum í stórkostlegum vandræðum ef þessir hörmungarsamningar yrðu ekki samþykktir.

Orð hans reyndust kolröng og aðeins til þess fallin að hræða fólk, sem hefur þá áráttu að trúa hverju orði sem fræðimenn segja og þeir eru víst margir.

Baldur er góðmenni og hann mun aldrei, hvorki setja fólk í gapastokk né heldur misnota konur á kynferðislegan hátt frekar en góðvinur minn og skipsfélagi, en hann vill hengja alla "helvítis stjórnmálamenn upp í hæsta gálga" og refsa öllum embættismönnum af sömu hörku. Engum um borð kemur til hugar að halda að hann meini þetta, vegna þess að hann er ósköp saklaus sál þrátt fyrir sterk lýsingarorð.

En Þórólfur Matthíasson og fleiri, þeir meina hvert orð sem þeir segja, koma með ýmsar fullyrðingar sem standast enga skoðun. Þeir eru friðhelgir. 

Samt virðist í lagi að nafngreina heiðarlegan mann og skammast út í það sem hann ritar.

Það eru ansi margir sem þurfa að fara á námskeið í almennum lesskilningi og læra að lesa á milli línanna.


Kolröng forgangsröðun.

Þegar fjármagn er af skornum skammti skiptir miklu máli að forgangsraða rétt. Það er gert þannig, að eingöngu er eytt í brýnustu nauðsynjar og leitast við að spara á öllum sviðum. Einnig skiptir miklu máli að skapa eins mikla sátt og mögulegt er, því fólk verður viðkvæmara fyrir öllu áreiti á erfiðleikatímum.

Mikilvægt er að halda uppi góðu velferðarkerfi og sjá til þess að samfélagið gangi eins vel og kostur er.

Þessi einfalda staðreynd hefur verið þekkt í margar aldir, en af einhverjum ástæðum farið algerlega framhjá núverandi ríkisstjórn. Í stað þess að lágmarka kostnað við rekstur samfélagsins þá er verið að eyða stórfé í stjórnlagaþing og ESB umsókn, auk þess er verið að dæla tugum, næstum hundrað milljörðum í sparisjóði og tryggingafélög án þess að sýnt hafi verið fram á ótvíræða nauðsyn þess.

Það er ekki bara fjárausturinn, heldur er verið að skapa óþarfa óróa hjá þjóðinni með þessu brölti öllu saman. Vitað er að mjög skiptar skoðanir eru á þessum málum og ekkert sem raunverulega þrýstir á stjórnvöld að fara í þau, á þessum tímapunkti.

Rétt forgangsröðun er vitanlega sú, að skapa aðstæður til vaxtar fyrir útflutningsgreinar og á sama tíma að spara allt sem ekki er lífsnauðsynlegt að eyða í strax.

En ég geri ráð fyrir, að líklegra sé að Davíð Oddson, klæði sig í grænan hermannajakka, skarti svartri alpahúfu og boði Marxisma, heldur en að þessi ríkisstjórn átti sig á raunveruleikanum.


Að afnema sjómannaafsláttinn.

Loksins hefur hinni tæru vinstri stjórn tekist það ætlunarverk sitt, að afnema sjómannaafsláttinn í kjölfar þess, að skattar á landsmenn voru snarhækkaðir og flækjustig skattkerfisins var aukið til muna.

Stjórnarliðar kváðust ætla að gera skattkerfið hvað líkast því sem væri á hinum norðurlöndunum, en þau gleymdu víst einu í því samhengi þegar ákveðið var að afnema sjómannaafsláttinn.

Frændur vorir á hinum norðurlöndunum bera meiri virðingu fyrir sjómönum en íslendingar, þótt engin norðurlandaþjóð sé eins háð sjómönnum og okkar ágæta þjóð að Færeyjum undanskildum, en vinir okkar þar í landi eru með fiskimannafrádrátt og hann er 15%. Engum heilvita manni þar í landi dytti til hugar að afnema frádráttinn eða lækka.

Munurinn á afslætti hinna þjóðanna er sá, að hjá okkur var ekki upphaflega sjónarmiðið að láta sjómenn greiða lægri skatta, heldur var ríkið að koma til móts við útgerðarmenn, en þeir treystu sér ekki til að borga hærri laun.

Hvað skyldi svo búa að baki skattaafslætti frænda vorra?

Jú þeir benda á þá staðreynd, að sjómenn vinni hættuleg störf fjarri heimahögum og noti samfélagsþjónustu minnst hinna vinnandi stétta. Þetta virðist nokkurskonar þakklætisvottur frá þeim, sjómönnum til handa.

En hér á Íslandi sitja kaffihúsaspekingar og aðrir vinstri menn sveittir við að ergja sig á ofurlaunum sjómanna og ósanngjörnum skattaafslætti. Þeir gætu ekki spókað sig á kaffihúsunum ef við sjómenn, værum ekki að leggja okkur í stórhættu til, að gera þeim það mögulegt.

En illa launar kálfurinn ofeldið eins og þekkt er.

Svo má að lokum nefna eitt dæmi um þá mismunun sem við sjómenn þurfum að þola, en það ratar ekki í fjölmiðla því við erum lítið fyrir að væla yfir hlutunum.

Skipverji nokkur á togara varð fyrir því óláni að fá hjartaáfall. Ekki var mögulegt að senda þyrlu honum til bjargar, þannig að sigla þurfti með hann í land, það tók nokkra klukkutíma. Sem betur fer lifði hann það af, en ekki er hægt að þakka stjórnvöldum vorum fyrir það. Þar voru æðri kraftar að verki.

 

 


Dýrmætt tækifæri fyrir íslensku þjóðina.

Forseti Ísland hefur með ákvörðun sinni brotið blað í sögu lýðveldisins, í annað skiptið á stuttum tíma. Það gefur þjóðinni tækifæri til að sýna hvers hún er megnug.

Icesave er mjög stórt mál fyrir þjóðina og það gerir ríkar kröfur til kjósenda, að þeir kynni sér vel kosti og galla samninganna, það þarf að skapast sátt og þjóðin þarf að vera tilbúin til að halda áfram, hver sem niðurstaðan verður.

Það hefur sýnt sig að beint lýðræði er ekki fullkomið og þingræðið hefur ekki heldur virkað sem skildi.

Einhverskonar sambland af hvortveggja getur verið jákvætt.

Hægt er að hugsa sér, að þingmenn þurfi að kynna stærri mál fyrir þjóðinni og færa rök máli sínu til stuðnings. Í framhaldinu mun þjóðin þurfa að vega og meta kosti og galla og kjósa um það að lokum. 

Nauðsynlegt er að þróa þessa aðferð, því þetta tekur tíma að virka, en í framtíðinni má vel hugsa sér, að jafnvel fjárlög og ákvarðanir um skattamál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fjölmörg dæmi eru um rangar ákvarðanir stjórnmálamanna sem hafa verið kostnaðarsamar fyrir þjóðina. Hægt er að minnka líkur á því, með því að þróa beint lýðræði. Hlutverk þingmanna yrði það sama og í dag, nema að þeir þyrftu að vanda sig betur við málin og sannfæra þjóðina um ágæti sinna hugmynda.

Icesave samningurinn getur verið góð byrjun, þarna er verið að taka ákvörðun um afdrifaríkt mál og þess vegna mikilvægt fyrir fólk að kynna sér vel kosti og galla áður en gengið er til kosninga. Tilfinningar þurfa að víkja fyrir skynseminni, hlusta þarf á öll sjónarmið á yfirvegaðan hátt og taka ákvörðun í framhaldi af því.

Hver veit nema að Ísland geti þá verið í fararbroddi með nýtt form lýðræðis, það voru jú forfeður okkar sem voru framarlega í þinghaldi hér til forna.

Vitað er að Svisslendingar hafa verið duglegir við að boða þjóðaratkvæðagreiðslur með góðum árangri, við getum lært af þeim og þróað okkar aðferð í framhaldi af því.


mbl.is Forsetinn staðfestir ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómakleg ummæli Teits Atlasonar.

Teitur Atlason nafngreindi tvo menn og talaði niður til þeirra í Kastljósinu í kvöld, hann beindi því til Frosta Sigurjónssonar að þeir væru æði vafasamir pappírar.

Umræddir menn voru þeir Jón Valur Jensson og Loftur Altice Þorsteinsson, báðir strangheiðarlegir menn. Þeir hafa vissulega sterkar skoðanir á hinum ýmsu málum og eru tilbúnir að berjast fyrir þeim, en ekkert hefur komið fram sem bendir til þess, að þeir séu óheiðarlegir á neinn hátt, þvert á móti eru þeir báðir strangheiðarlegir. Ég kannast ágætlega við þá tvo og hef mikið álit á þeim.

Það er mjög alvarlegt í allri umræðu, að segja þá sem eru á öndverðum meiði óheiðarlega. Slíkt er engum manni til sóma.

Fáa menn þekki ég hér bloggheimum, sem hafa lagt á sig eins mikla vinnu og þessir tveir, sem Teitur dæmdi harkalega í þættinum, við að afla sér upplýsinga varðandi Icesave

Gaman væri að sjá Teit mæta Jóni Val og Lofti í rökræðum varðandi Icesave í Kastljósi, þá gæti almenningur fengið úr því skorið, hver hefði mestu þekkinguna á málinu.

Þótt menn séu ósammála þeim, það eru vissulega skiptar skoðanir á öllum málum, þá er afskaplega ódrengilegt að ljúga upp á þá sem hafa aðrar skoðanir en maður sjálfur.


Framtíðarsýn.

Stjórnmálamönnum er oft tíðrætt um framtíðarsýn og flestir muna, þegar Samfylkingin kom með 2020 áætlunina sína.

Það er ágætt að horfa til framtíðar, en hafa ber í huga að hún er okkur öllum algerlega hulin.Besta framtíðarsýnin er sú að gera sitt besta í nútíðinni, þá er verið að skapa góða framtíð. Í þeirri stöðu sem við erum í dag, þá ætti ríkisstjórnin að leggja sig alla fram við, að leysa verkefni dagsins í dag og koma hjólum efnahagslífsins í gang.

Það er þekkt hjá veimiltítum og letingjum, að segja alltaf að þetta lagist einhvern tímann, án þess að gera nokkuð í því.

Það hefur ekki nokkur maður grun um hvernig ísland verður árið 2020, þannig að hvernig í ósköpunum telja þau sig geta samið stefnuskrá sem á að verða uppfyllt að fullu, árið 2020?

Hér á landi ríkja miklar sveiflur í efnahagslífinu, ófyrirséðar verðlækkanir á mörkuðum setja strik í reikninginn osfrv. Þess vegna þarf að sýna fyrirhyggju, leita leiða til að efla atvinnulífið og í framhaldinu aukast skatttekjurnar. Einnig þarf að gæta sín vel ef það streyma miklir peningar í ríkissjóð, það má ekki fara að eyða honum strax.

Í umhverfi því sem við lifum í, þarf að vera geta til að taka á móti niðursveiflum, jafnvel miklum og láta þjóðina sem minnst finna fyrir því.

Hvað sem á dynur, þá þarf að sýna aðhald í ríkisrekstri. Það eina sem er réttlætanlegt að spara minna er til þeirra sem geta ekki séð sér farborða af eigin rammleik. Við megum aldrei leggjast svo lágt að láta okkar minnstu bræður og systur líða fyrir vanmátt sinn.

Einnig þarf að leita leiða til að koma í veg fyrir, að fullhraust fólk svindli sér ekki inn í hóp okkar minnstu bræðra og systra, það ber að taka hart á slíku brotum.

Við þurfum að taka öndunarvél þá sem hin heiladauða ríkisstjórn dvelur í. Það er fyrsta skrefið til endurreisnar.

Eftir það þurfum við stjórnvöld sem þvælast ekki fyrir vinnandi fólki, þá er björninn unninn og við höfum flotta framtíðarsýn og kannski rætist þá 2020 áætlun Samfylkingar, ef hún kemur ekki nálægt henni.


Lágir skattar virka best.

Lágir skattar eru vinstri mönnum mikill þyrnir í augum og sumir ganga svo langt, að segja skattalækkanir hafa orðið ein af orsökum hrunsins, Björn Valur tjáði Bjarna Benediktssyni það sjónarmið sitt í Kastljósi fyrir nokkru síðan. Þetta er vitanlega kolrangt.

Hægt er að velja um þenslu í opinbera geiranum eða í einkageiranum.

Þensla í opinbera geiranum er slæm, vegna þess að þá hættir stjórnmálamönum til að eyða í ónauðsynlega hluti, eins og dæmin hafa sannað. Það er nefnilega vandasamt að fara vel með annarra manna fé.

Aftur hefur þensla í einkageiranum þau áhrif, að fólki líður betur og það vitanlega bætir samfélagið umtalsvert. Einnig veldur það meiri einkaneyslu sem kemur sér vel fyrir hinar ýmsu þjónustu og framleiðslugreinar. 

Stjórnmálamenn eiga að hugsa vel um hverja einustu krónu sem þeir höndla með. Það eru settir heilmiklir fjármunir í menntakerfið, samt virðist það ekki vera að skila sér sem skildi. Það hlýtur að kalla á hagræðingu.

Of mikið hefur verið um, að fólk komist á "spenann" og þá þarf oft lítið að vinna til þess að hafa það þokkalega gott. Lítil þjóð hefur engin efni á "spariköllum" eins og við sjómenn köllum þá sem vina ekki fyrir kaupinu sínu, hér á landi verða allir að sýna hámarks framleiðni til að hlutirnir gangi upp.

Til þess að þetta sé mögulegt, þá þarf sterka stjórnmálamenn. Við getum ekki leyft okkur neinn óþarfa í opinbera geiranum, besta aðhaldið á stjórnmálamenn er, ef þeir hafa úr litlu að spila. Neyðin kennir nefnilega naktri konu að spinna, en ekki má skilja þetta á þann veg, að átt sé við óeðlilega lága upphæð. Það er einnig mjög slæmt. 

Það þarf að leggja niður allar stöður sem eru gagnslitlar, sameina stofnanir eins mikið og hægt er, þá sparast yfirstjórnin. Ef einkageiranum gengur vel, þá ættu allir að fá vinnu við hæfi.

En til þess að ofangreind atriði verða að raunhæfum valkosti, þá þarf að efla útflutning eins og hægt er. Útflutningsgreinarnar eru meginforsendur þess, að við getum lifað sómasamlegu lífi.Lítil þjóð í vandræðum verður að taka því sem að höndum ber, jafnvel þótt það þýði fórnir að einhverju leiti.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband