Færsluflokkur: Bloggar

"Ekki stjórnnmálamenn" í pólitík.

Erfitt er að skilja fólk sem gefur kost á sér til starfa í pólitík, sest á alþingi og tekur yfir stjórn höfuðborgarinnar, en segist á sama tíma ekki vera stjórnmálamenn.

Heyrst hefur að félagar úr besta flokknum hafi skammað leiðtoga sinn fyrir að hafa talað eins og stjórnmálamaður, þegar hann mætti Hönnu Birnu í Kastljósi um daginn.

Bráðfalleg kona með greindarlegt yfirbragð, sem gegnir hlutverki "ekki stjórnmálamanns" á alþingi, sagðist hætt að segja "hæstvirtur og "háttvirtur".

Að snúa hlutunum svona á hvolf sinnst mér vera afturför.

Þeir sem hljóta traust kjósenda til starfa á vettvangi stjórnmála eru vitanlega stjórnmálamenn og ekkert annað. Varla þarf að útskýra fyrir fullorðnu fólki merkingu hugtaksins "stjórnmálamaður"?

Winston Churchill, Abraham Lincoln, John F. Kennedy, og fleiri virtir stjórnmálaleiðtogar voru stjórnmálamenn,  mjög góðir sem slíkir. En vissulega hafa einnig verið til slæmir stjórnmálamenn.

Svo að láta í ljósi óánægju sína með því að hóta að segja "hæstvirtur" og "háttvirtur", það er náttúrulega út í hött.

Ekki er verið að segja "hæstvirt Jóhanna" þegar sagt er "hæstvirtur forsætisráðherra".

Ástæðan fyrir þessum ávörpum er aðallega tvennskonar. Hún er bæði vegna þess að við berum virðingu fyrir þessum háu embættum og einnig til að ráðamenn gæti frekar háttvísi og agi tungu sína í ræðustól.

Ég hélt að farið hefði verið yfir þessi atriði á námskeiði fyrir verðandi þingmenn, en sennilega hefur ekki þótt ástæða til.

Þetta er jafn augljóst og það, að sá sem starfar við stjórnmál er stjórnmálamaður og sá sem leggur rafmagn er rafvirki. 


Yfirgangsemi ESB.

Vitanlega er þetta ekkert annað en frekja og yfirgangur í sjávarútvegsstjóra ESB.

Makríllinn syndir inn í íslenska lögsögu og að sögn þeirra sem til þekkja, þá veldur hann skaða í fæðukeðju hafsins. Hrólfur Gunnarsson, einn okkar reyndustu uppsjávarveiðimanna, líkti makrílnum við ryksugu, svo mikil er græðgi hans.

Vitanlega er ekki glóra í öðru en að veiða þessi kvikindi sem álpast inn í okkar lögsögu. Varla getur sjávarútvegsstjórinn ætlast til þess að íslendingar fæði makrílinn til þess að ESB geti látið veiða hann eftir sínum hentugleikum?

 


mbl.is Skipum verði bannað að landa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spillingin hefur snarminnkað á umliðnum árum.

Niðurstaða erlendrar spillingarkönnunar gaf til kynna að spilling væri orðin stærra vandamál nú, en hún hefur verið.

Vitanlega kokgleypa margir þessa þvælu, vegna þess að fáir nenna að spekúlera í staðreyndum.

Spilling er til staðar í öllum löndum heims og á hún vafalaust upphaf sitt að rekja til ónefndrar konu í fyrndinni, sem bauð sínum ektamaka upp á eplabita.

Þá hófst græðgin ásamt eigingirni mannsins og sér vart fyrir endann á henni.

En vegna þess að lýðræðið virkar hér á landi, þá hefur spillingin minnkað mjög mikið, fólk er orðið mikið meðvitaðra heldur en það var.

Svo tekin séu dæmi af handahófi, til að rökstuðnings, þá má nefna Bandaríkjaför fulltrúa utanþingsstjórnarinnar árið 1943, en þáverandi fjármálaráðherra úthlutaði sjálfum sér umboði fyrir Coca Cola drykkinn sem átt hefur miklum vinsældum að fagna hér á landi. Það þætti ekki ásættanlegt í dag.

Ef lesin er ævisaga Gunnars Thoroddsen, þá finnast margar frásagnir af fyrirgreiðslupólitík, sem nánast er útdauð í dag.

Í sögunni er hægt að finna fjölmörg dæmi um mikla spillingu, úthlutun hinna ýmsu leyfa til bifreiðakaupa osfrv., slíkt þekkist ekki í dag.

Þótt íslendingar séu ekki alveg lausir við spillingu, þá finnst mér óþarfi að vera að ljúga því til, að hún hafi aukist.


Kemur ekki á óvart.

Við sem höfum alist upp á Íslandi og erum sæmilega læs á heiminn,höfum lengi vitað af þessari staðreynd. Hér höfum við frelsi til skoðana og möguleika á að hafa meiri áhrif á okkar samfélag, heldur en margir hafa í öðrum löndum.

"Hin tæra vinstri stjórn" er einmitt afleiðing þessa góða lýðræðis. Lýðræðinu fylgir nefnilega ábyrgð og fyrst stór hluti þjóðarinnar ákvað að leyfa þeim systrum, reiði og heimsku, að teyma sig út í vitleysu, þá súpum við seiðið af því.

Og meira að segja, í svona opnu lýðræðis þjófélagi, hafa menn leyfi til að draga svona niðurstöður í efa.

Þótt ég hafi ekki mikla spádómsgáfu, þá ætla ég að leyfa mér að spá því, að margir komi til með að efast um þessar niðurstöður. Sumum mislíkar nefnilega við svona jákvæða umfjöllun um þjóðina.

Athyglisvert rannsóknarefni sálfræðingum til handa, er að komast að því, hvers vegna svona margir vilja frekar trúa því, að við búum í gjörspilltu samfélagi þar sem lýðræðið er fótum troðið.


mbl.is Lýðræðið mest á Norðurlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur vill verða eins og Jón Gnarr.

Dagur B. Eggertsson varaformaður Samfylkingarinnar, er vel að því embætti kominn. Hann endurspeglar birtingarmynd flokksins í eigin hegðun og fasi.

Margir muna eftir Kastljósþættinum sem allir leiðtogar framboða til borgarstjórnar sátu. Þá sat Dagur við hlið Jóns Gnarr og hann virtist lítt hrifinn af nafna mínum Gnarr, í það skiptið. Enda eðlileg afstaða hjá Degi, Gnarrinn var óskrifað blað á þessari stundu og allsendis óvíst, hvort það væri viðeigandi að líka vel við hann eður ei.

En svo kom að því að Besti flokkurinn sigraði og þá eins og sannur samfylkingarmaður, varð Dagur mjög glaður með Jón Gnarr. Samfylkingarmenn eru ávallt veikir fyrir þeim sem eru "in" hverju sinni.

Ekki var laust við að menn skynjuðu spaugsemi, hjá hinum annars alvörugefna lækni, enda varð grínið vel við hæfi þar sem "idolið" var jú þekktur spaugari.

En einu klikkaði Dagur ræfillinn á, það var að gera eins og Gnarrinn, lofa að svíkja. Þá er svo auðvelt að fría sig ábyrgð. reyndar er ekki víst að þess háttar kosningarloforð gengi upp hjá Samfylkingunni, hæpið er að taka upp grín sem aðrir hafa notað. Þetta veit Dagur vel, því hann hefur næmt auga fyrir straumum og stefnum.

Samfylkingin nefnilega sveik eitt af sínum loforðum, eins og Gísli marteinn bendir á í FRBL í dag. Þar segir frá því að Dagur og hans félagar hafi lofað því að strætó myndi ganga á 10. mín. fresti og almenningssamgöngur stórbættar.

Það verður varla gert með miklum hækkunum á strætóferðum, það ættu samfylkingarmenn að vita, þrátt fyrir sérstæða sín á raunveruleikann.

Þannig að loforðið hefur verið svikið, þótt því hafi ekki verið lofað fyrir kosningarnar í vor.


Eru "Jóhönnutaktar" Lilju að gera út af við Samfylkinguna?

Jóhanna Sigurðardóttir hefur mikið verið dásömuð fyrir sína einurð, þrjósku og sterku réttlætiskennd hjá félögum sínum í Samfylkingunni. Hennar vinsældir urðu til, vegna þess að hún stóð fast á sínu og skeytti þá ekkert um stefnur þeirra ríkisstjórna sem hún sat í. Oftar en einu sinni hótaði hún að segja sig úr hópnum, ef eitthvað var gert sem andstætt var hennar vilja. Hún var ávallt mikill einfari í pólitík.

En þessi undarlegi klúbbur snýst nú gegn manneskju sem býr yfir þessum mannkostum sem þau hrósuðu Jóhönnu hvað mest fyrir. Það er vegna þess að það hentar þeim ekki í augnablikinu.

Ég veit ekki hvort nokkur stjórnmálafræðingur getur skilið Samfylkinguna, kannski væri ráð að leita álits hjá sálfræðingum?


mbl.is Stöðugir níðpóstar um Lilju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Guðlaugur Þór!

Guðlaugur Þór Þórðarson hefur sýnt það og sannað, að hann er í hópi okkar öflugustu þingmanna, einnig stóð hann sig með afbrigðum vel sem heilbrigðisráðherra.

Gaman verður að fylgjast með framvindu málsins hjá Ríkisendurskoðun.

Ekki er ég viss um að Jóhanna segi af sér, hún er eins og staður hestur og hreyfir sig hvergi, hvað sem á dynur. En ósennilegt er að hún sitji annað kjörtímabil, bæði sökum aldurs og einnig er fremur ólíklegt að nokkur heilbrigð manneskja treysti henni eftir allt sem á undan er gengið.

Já, tími Jóhönnu fór jafn snögglega og hann kom.


mbl.is Svör ráðherra til Ríkisendurskoðunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnalagþing.

Nokkrir álitsgjafar og samfélagsrýnar hafa fjargviðrast, yfir lítilli kosningaþátttöku til stjórnlagaþings og einn spekinganna lét í ljósi áhyggjur af gáfnafari þjóðarinnar af þessum sökum.

Ég tel það nú bara gáfnamerki að taka ekki þátt í svona dellu, reyndar lét ég mig hafa það að kjósa, til þess að greiða góðum bloggvinum mínum atkvæði, en ég hafði víst lofað þeim því.

Ég tel, ásamt þorra þjóðarinnar, að stjórnarskrábreytingar séu ekki mjög aðkallandi um þessar mundir. Og mér finnst það ekki traustvekjandi, þegar sá sem flest atkvæði hlaut, telur stjórnaskrána hafa valdið hruninu, að hluta til.

Ef það stendur til að breyta stjórnarskránni þá er það á verkssviði alþingis. Þótt stjórnarliðar óski eftir ábendingum, svona rétt til málamynda, þá verða þær látnar sem vind um eyru þjóta, ef niðurstaða stjórnlagaþings gengur í berhögg við stefnu og vilja sitjandi stjórnvalda.

Það má kannski segja að stjórnvöld vilji fá staðfestingu á sinni skoðun frá stjórnlagaþinginu.

Ekki er þjóðin samt áhugalaus um kosningar, Icesave kosningarnar sýndu það með óyggjandi hætti. Menn nenna bara ekki að standa í einhverju bulli.


Hef ég einhver réttindi?

Umræðan um mannréttindi, félagsleg réttindi osfrv. kemst alltaf annað slagið á flug og þá halda menn gjarna að þetta sé allt saman sjálfsagt og eðlilegt, að hafa öll þessi réttindi.

Oft undrast ég tregðu fólks til að skilja heiminn, jafnvel þótt það hafi dvalið í honum ansi lengi.

Heimurinn bíður ekki upp á nein réttindi, eingöngu ýmsa duttlunga sem við þurfum að sætta okkur við. Vegna þess að siðgæðisvitund manna á vesturlöndum sem og samkennd hefur virkað ágætlega, þá búum við vesturlandabúar við þokkaleg skilyrði, en það virðist vera einskær heppni sem ræður för, þegar fólk fær að fæðast í landi eins og Íslandi.

En þegar fólk kynnist ekki öðru en þokkalegu lífi, þá telur það sér trú um að það sé sjálfgefið.

En öll þessi ásköpuðu réttindi, verður fólk eitthvað sáttara?

Bróðir minn kvæntist konu sem alin er upp í svörtustu Afríku, í gegn um hana hef ég kynnst hennar fjölskyldu.

Í uppvextinum kynntist hún ekki lúxus á borð við ísskáp, þvottavél osfrv., peningar þekktust ekki heldur, nema að litlu leiti. Þegar hún og bróðir minn giftust, þá þurfti að fá vottorð frá heimalandinu, sem staðfesti að hún var ekki öðrum manni gefin.

Mörgum finnst Ísland spillt land, en mágkona mín er ekki á sama máli. Hún ólst nefnilega upp við spillingu.

Faðir hennar hafði samband við embættismann sem sá um útgáfu þessara vottorða. Það var hægt að fá vottorð, en embættismaðurinn vildi greiðslu fyrir, þ.e.a.s. mútur. Fyrst bað hann um 50.000. ísl. krónur, en tveim dögum síðar hafði embættismaðurinn áttað sig á því að íslendingar ættu talsvert af peningum (þetta var árið 2006). Hann hækkaði gjaldið upp í 100.000. krónur og það þurftu hin verðandi brúðhjón að greiða fyrir pappírinn. Annars hefði ekkert vottorð fengist og ekkert orðið af hjónabandinu.

Þrátt fyrir aðstæður þessa góða fólks, þá finnst mér gaman að sjá hversu lífsglöð þau eru. Alltaf hlægjandi og dansandi, allt liðið faðmar mig þéttingsfast þegar við hittumst og einlægur kærleikur skín úr þeirra augum.

Þeim finnst íslendingar svo þungir eitthvað og stífir, það er eins og það vanti alla gleði í þá, segja þau.

Samt hafa þau enginn alvöru réttindi í sínu heimalandi. Af viedeomyndum að dæma, sem bróðir  minn tók þar ytra, þá virðast allir vera glaðir með það litla sem þeir hafa. Ekki er glæsiklæðnaði fólksins fyrir að fara né heldur viðunandi húsnæði, að okkar mati. Samt eru þau margfalt glaðari í sínum aðstæðum, heldur en við í okkar.

Með því að skoða heiminn í heild sinni, í stað þess að halda að hann sé eingöngu á þessari litlu eyju, þá er vel hægt að gleðjast yfir þeim réttindum sem við íslendingar þó njótum.

Í það minnsta er ég óskaplega glaður með lífið hérna á Íslandi, því ég veit það, að heimurinn býður ekki upp á fullkomin samfélög.

Ágætt væri að fólk reyndi að efla hjá sér víðsýnina og sjá hvað við höfum það gott, við getum meira að segja lifað ágætu lífi, alla vega ennþá, með kolgeggjaða ríkisstjjórn við völd.

Peningar eru nefnilega ekki allt, þótt vissulega skipti þeir miklu máli.


Er Jóhann af Reykásættinni?

Ég hef gaman af að spekúlera í ættum fólks, eins og margir samlandar mínir hafa.

Flestir kannast við hinn vinsæla álitsgjafa Spaugstofumanna Ragnar Reykás, en þeir hafa eins og aðrar virtar fréttastofur, djúphygginn samfélagsrýni á sínum snærum.

Ragnar hefur mjög sterka sannfæringu fyrir öllum málum og gífurlega mikla réttlætiskennd. En hann getur breytt um sannfæringu eins og hendi sé veifað, og verður hin nýja ávalt jafnsterk hinni fyrri, jafnvel þótt hún sé algerlega "ormvent" á við þá sem hann hafði í upphafi.

Jóhanna líkist hinum virta samfélagsrýni Spaugstofumanna um margt. Þegar hún var félagsmálaráðherra hér fyrr á árum, þá var það hennar sannfæring sem gilti og hún skeytti lítt um félaga sína í ríkisstjórninni . Hún taldi sig vera að framfylgja stefnu flokksins. Þegar henni fannst að sér vegið vegna tryggðarinnar við stefnu flokksins, þá stofnaði hún nýjan flokk, sem nefndur var Þjóðvaki.

Svo varð hún forsætisráðherra og þá birtist "Reykásgenið".

"Ma, ma, maður bara áttar sig ekki á þessu, ja bíddu nú við, það að greiða atkvæði gegn ríkisstjórninni, verandi stjórnarliði, það er náttúrulega alveg út í hött". Þetta er hennar sjónarmið í dag.

Þótt ég telji Lilja ólíkt greindari en Jóhönnu, þá má leiða rök að því, að hún hafi verið að gera nákvæmlega það sama og Jóhanna gerði í fyrri ríkisstjórnum. Lilja er bara að fylgja sinni sannfæringu og hún telur sig einnig vera að framfylgja stefnu flokks.

Nú er Jóhanna  orðin forsætisráðherra og þá er það alveg út í hött sem hún gerði í fortíðinni. Núna eiga stjórnarliðar ekki að láta eigin sannfæringu vera að þvælast fyrir sér.

Það eina sem gildir nú um stundir er að greiða atkvæði sem hentar ríkisstjórninni.

Ætli Reykásættin sé eins ríkjandi í Samfylkingunni eins og margir telja t.a.m."Engeyjarættina" vera í Sjálfstæðisflokknum?

Í það minnsta virðist Samfylkingin breyta um stefnu eins og hendi sé veifað, allt eftir því hvernig hinir pólitísku vindar blása hverju sinni.

Og alltaf er sannfæringin jafn sterk, hvort sem hún liggur til hægri eða vinstri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband