Lokað á athugasemdir.

Sumir hafa kannski veitt því athygli, að ég hef ekkert bloggað í nokkra daga.

Ekki ætla ég að hætta að blogga, langt í frá, mér þykir það afskaplega gaman. Það er oftast lítið um að vera þegar ég er í landi, frúin að vinna og piltarnir þrír í skóla.

En ég er orðinn hundleiður á ýmsum sem setja inn heimskulegar athugasemdir, þannig að ég ætla  að loka fyrir athugasemdir á þessu bloggi.

Þetta verður síðasta færslan í bili, sem hægt verður að rita athugasemdir við.

Ég vil ekki útiloka einn og leyfa öðrum að koma með athugasemdir, slíkt stríðir gegn minni skoðun varðandi málfrelsi. En margir eru þeir sem reglulega líta við og tjá sínar skoðanir á mínum skrifum, sem mér er farið að þykja vænt um, þetta fólk er ekki endilega sammála mér, heldur finnst mér það gott og heiðarlegt fólk, sem tjáir sig á málefnalegan hátt.

Ég verð þó að viðurkenna að á lengi hafði ég gaman af þessum apaköttum, en það er með þá eins og myndirnar um Bleika pardusinn, ég horfði mikið á þær á tímabili og hló mig máttlausan, svo hætti ég að hlægja því þetta voru alltaf sömu myndirnar.

Eins er það með athugasemdirnar, þegar það eru sömu frasarnir ár eftir ár og maður veit hver ritar athugasemd og hvað viðkomandi segir, þegar ég hef skrifað um ákveðin atriði, þá verður það leiðigjarnt og tilbreytingalaust til lengdar, þótt það hafi verið fyndið í upphafi.

Nú hvet ég þá sem hafa þörf fyrir að segja mig vera þröngsýnan, vitlausan, þræl þeirra sem í Valhöll starfa osfrv., til að tjá sig eins og þeir vilja og draga ekkert undan.

Ég hef aldrei tekið mark á vitleysingum, þannig að þeir geta ekki sært mig á neinn hátt, enda er ég ekki sár heldur finnst mér þetta tilbreytingalausar umræður og mér þykja þær leiðinglegar.

Ef einhver vildi vera svo vænn, þá hefur enginn sagt það ennþá að ég þiggi laun fyrir bloggið mitt og sé leigupenni Sjálfstlæðisflokksins, enginn hefur heldur haldið því fram að ég taki þátt í einhverskonar valdaplotti innan flokksins.

Það væri gaman á þessum tímamótum að lesa eitthvað almennilega krassandi um mig, flestir af þessum grunhyggnu þvörgurum sem líta hérna við og tjá sig eru svo máttlausir í sínum málflutningi að það hálfa væri nóg, emja eitthvað eins og; "þú ert svo fyndinn", "ég er að drepast úr hlátri" osfrv., það er ekkert bit í því, maður er oft í vandræðum með að svara svona aumingjalegri gagnrýni.

Nota svo tækifærið og rakka mig niður, ég loka fyrir athugasemdir næst þegar ég blogga.


Bankastarfsmenn læra seint.

Nú er bankaráð Landsbankans að fara á taugum vegna þess að bankastjórinn kvartar sáran yfir laununum sínum og honum finnst þau of lág.

Bankaráðið óttast það mjög að bankastjórinn segi upp störfum, en þarf að óttast það?

Ef bankastjórinn er svona óhress með sín kjör, þá er best að hann hætti störfum og hleypi þá öðrum að sem er tilbúinn til þess að þiggja milljón á mánuði.

Margir einstaklingar af báðum með góða menntun á sviði viðskipta og fjármálafræða eru atvinnulausir um þessar mundir, þannig að öruggt er að margir myndu sækja um starfið. Fólk sem hefur verið atvinnulaust, jafnvel mánuðum saman lítur á það sem happadrættisvinning að fá milljón á mánuði, þannig að búast má við að sá einstaklingur sem tæki við að núverandi bankastjóra mæti ferskur og hress til starfa.

En bankastarfsmenn eru enn fastir í sama hugsunarhættinum og ríkti fyrir hrun.

Þeir álitu það, að bankastjórar gætu vart sinnt sínum störfum, nema að þeir fengju tugi milljóna í laun á mánuði. En komið hefur í ljós að þeir gátu ekki sinnt sínum störfum, þrátt fyrir góð laun.

Vafalaust þolir útbólginn efnahagsreikningur bankans það vel, að borga bankastjóra margar milljónir á mánuði, það er eflaust ekki há upphæð fyrir banka að borga.

En slík ákvörðun myndi auka reiðina í samfélaginu og er hún þó næg fyrir.

Stjórnvöld og ríkisstofnanir verða að læra að lesa þjóðina rétt.

Fólk þolir ekki lengur að horfa upp á ofurlaun í bankakerfinu, á sama tíma og því blæðir vegna hrunsins. 

Einnig hefur það sannast með óyggjandi hætti, að ofurlaun laða ekki að sér hæfari stjórnendur, það vita allir sem horfa á raunveruleikann eins og hann er.

Gaman væri að sjá hversu margir hæfir stjórnendur munu sækja um, ef bankastjórinn hættir vegna launanna. Öruggt er að það kemur úrval af hæfu og vel menntuðu fólki sem sækist eftir starfinu, það getur enginn sagt að milljón á mánuði séu lág laun.

 


Það á að einangra illmennið algerlega frá umheiminum.

Illmennið Breivik nýtur enn talsverðrar athygli og augljóst er, að Norðmenn eru ómeðvitað að gefa öðrum illmennum innblástur til voðaverka.

Það er engum til góðs að komast inn í sjúkan hugarheim brjálæðingsins norska, hann á að vera lokaður í einangrun og ekki að fá að hitta neinn, svo lengi sem hann lifir.

 


mbl.is Breivik hefur áhuga á viðtali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er það orðinn glæpur að flaka sér lúðu í soðið.

Það fer að verða afskaplega snúið mál að teljast löghlýðinn borgari í þessu landi og erfiðara verður það, því lengur sem hin tæra vinstri stjórn situr.´

Ég er afskaplega hrifinn af góðum mat, kannski einum of, og ekki er verra ef maturinn á uppruna sinn í sjónum. Sjávarréttir eru bragðgóðir, hollir og fara vel í maga ásamt því að gleðja sálina og ekki er vanþörf á því á meðan þessi ríkisstjórn ergir fólk stöðugt með gagnslausum reglugerðum.

Ég hef gott aðgengi að fiski og það kemur sér mjög vel. Lúða þykir mér sérstakt hnossgæti og í þau fáu skipti sem við fáum lúðu í trollið hef ég freistast til að flaka eina og eina, það er mikil samkeppni um lúðurnar sem fást, því ég er ekki einn um það, að þykja lúða prýðismatur.

En ef ég ætla að næla mér í lúðu til að snæða þegar ég kem í land, þá er ég orðinn glæpamaður og á yfir höfði mér stórar sektir. Í lögunum koma fram nokkrar upphæðir, 400.000., 4.000.000. og 8.000.000., ekki er miðað við magn heldur þann glæp að sækja sér lúðu í soðið.

Þessar fáu lúður sem við fáum sleppa ekki lifandi frá okkur, þótt þær geti spriklað svolítið í móttökunni. Það hlýtur að vera erfitt fyrir fisk að vera í kremju í pokanum, svo er lúðuræfillinn dreginn upp ca. 100 m. og sturtað niður í móttökuna. Ef hún kemst lifandi í hafið þá er ólíklegt að hún lifi lengi eftir það sem á undan er gengið.

Sannarlega þarf að vanda þessi lög betur, því togarar eru ekki á lúðuveiðum, það villist ein og ein í trollið og það er enginn skaði af því, þótt við borðum þessi fáu kvikindi sem koma um borð.


Í frelsinu býr hin sanna viska.

Þar sem að skapari himins og jarðar er alvitur, þá valdi hann leiðir frjálshyggjunnar fram yfir leiðir stjórnlyndis.

Honum hefði verið í lófa lagið að stjórna okkur og þá hefðu lífið verið ósköp einfalt og gott. Allir gerðu rétta hluti, engin fátækt og engin stríð, allir myndu lúta Guðs vilja í einu og öllu. 

En þá værum við ekki sjálfstæðar verur og við myndum aldrei læra neitt.

Við frjálshyggjumenn tökum þá himnafeðga okkur til fyrirmyndar og boðum frelsi til athafna og orða, en vitanlega hefur fólk ekki frelsi til að skora lögmál orsaka og afleiðinga á hólm.

Frelsið gerir okkur ábyrg fyrir eigin gjörðum, ef við breytum rangt þá tökum við afleðingum af því, eins njótum við ávaxtana ef við breytum rétt.

Guð almáttugur setti okkur ýmsar reglur til að fara eftir og sonur hans Kristur gaf okkur góð heilræði til að notast við. 

Sama gildir um þá sem aðhyllast frjálshyggju, við viljum hafa fáar en skýrar reglur og koma með því í veg fyrir, að einhver geti troðið örðum um tær. Svo þar sem reglur ná ekki til, þar gildir heilbrigð dómgreind, en hún fæst ekki öðruvísi en með því, að fólk geri mistök og læri af þeim.

Sumir aðhyllast stjórnlyndisstefnur, vegna þess að þeir vita ekki betur.

Ef við treystum alfarið á visku stjórnmálamanna, þá erum við á kolrangri braut.

Segjum sem svo að við fáum góða leiðtoga sem hugsa rétt og stjórna okkur vel.

Þá missum við af dýrmætum tækifærum til að þroskast og slíkt er stórhættulegt, ef við viljum að lífið þróist áfram. Svo þegar að því kemur, að til valda komast einstaklingar sem ekki breyta rétt, þá hefur þjóðin ekki þjálfun í að hugsa sjálfstætt, samfélagið deyr og lifnar þá seint við aftur.

Fjármálakerfið hrundi, vegna þess að heimurinn svaf á verðinum. Stjórnmálamen, almenningur og stjórnendur bankanna trúðu því að endalaust fjármagnsflæði yrði til staðar um ókomna framtíð.

Við gleymdum um stund lögmálum orsaka og afleiðinga, því heimurinn hafði  haft það gott ansi lengi. En ef við þekkjum þessi einföldu lögmál, þá eigum við von um farsæla framtíð.

Heimurinn hefur þekkt góðæri og kreppur um langan aldur.

Þegar góðærið kemur, þá verðum við að leggja til hliðar og eiga sjóði til að mæta kreppunum sem koma í kjölfar allra góðæristíma.

Stjórnmálamenn eru eins og við, þeir gleyma sér og gera mistök, þess vegna getum við ekki treyst á þá.

Sá stjórnmálamaður sem þekkir þessar einföldu staðreyndir gefur þjóð sinni freslið til að þroskast og læra. Oft er þroskinn ansi sár, en því sárari sem hann er, því betur lærum við af honum.

 


"Sjáir þú mann sem þykist vitur......"

Hin helga bók geymir mikla speki sem vert er að ígrunda vel. Í orðskviðunum stendur:" Sjáir þú mann sem þykist vitur, þá er meir von um heimskingja en hann".

Þessi orð sem sett voru fram fyrir þúsundum ára eru enn í fullu gildi. Sá sem að tala fjálglega um eigið ágæti er oftast gjörsneiddur þeim kostum sem hann státar af.

Steingrímur J. Sigfússon er ágætt dæmi sem sannar þessa fornu speki. Hversu oft hefur hann ekki talað um staðfestu sína í öllum málum og áður en hann komst í ríkisstjórn, sagði hann oft að helsti styrkur hans og VG væri sá, að kjósendur gætu verið fullvissir um að hægt væri að treysta því sem hann og flokkurinn hans sögðu.

Meðna hann var í stjórnarandstöðu þá skammaðist hann út í ríkisstjórnina vegna undirgefni hennar varðandi Icesave. Þegar standa átti við stóru orðin og Icesave varð á hans forræði, þá sýndi hann einn mesta undirlægju hátt við andstæðinga eigin þjóðar sem þekkst hefur á vesturlöndum, vafi leikur á hvort meiri heigull hafi valist til leiðtogastarfa í vestrænu lýðræðisrríki og vingulsháttur hans í ESB málum er öllum kunnur.

Til að særa ekki góðan vin minn og skipsfélaga, þá skal Jóhönnu sleppt að þessu sinni. Sá góði drengur er reyndar  of greindur til að aðhyllast hennar stefnu, en honum þykir sárt að illa sé um hana rætt, því hann finnur til með aldraðri frænku sinni.

Staðreyndin er sú að mannleg viska er miklum takmörkunum háð, þess vegna þurfa stjórnmálamenn að tileinka sér vissa auðmýkt og ekki lofa meiru en þeir geta staðið við.

Í orðskviðunum segir einnig: "Sá sem er hygginn þykist heimskur".

Grunnhyggnir þvargarar bloggheima sjá eflaust fyrir sér greindan mann sem hagar sér eins og fábjáni, en það er ekki rétt túlkun.

Til að öðlast visku þarf mikla auðmýkt, við þurfum að leita hennar. "Sá sem er heimskur þykist hygginn", það stendur líka í orðskviðunum, en ef einhver telur sig hygginn, þá hefur viðkomandi oftast lokað fyrir nýja visku, höfuð hans er fullt af ímyndaðri visku og þá ekkert rými fyrir nýja.

Sá sem talar af visku hefur hlustað eftir hinni sönnu visku sem ferðast hefur um heiminn öldum saman, það er góð speki sem reynst hefur vel.

Sá leiðtogi sem vill beygja þjóð sína undir eigin vilja hefur ekki höndlað viskuna, en sá leiðtogi sem hlustar eftir þörfum þjóðar sinnar og þekkir hennar þarfir, hann þekkir hina sönnu visku.

Vitur og sannur leiðtogi er sá sem að lætur þjóð sína finna til máttar síns og lætur hana skilja að hún sé mikils virði.

Heimskur leiðtogi og viskusnauður er sá sem að segir við þjóð sína "fylgið mér því að ég hef svörin.

 

 


Öfgafemínismi er slæmur.

Á meðan ég stundaði fjöldamorð á saklausum þorskum, til þess að framfleyta sjálfum mér og fjölskyldu minni og leggja mitt af mörkum til gjaldeyrisöflunar, þá hlustaði ég á þáttinn með Sirrý á Rás 2, þar sem hún ræddi við konu sérmenntaða í kynjafræði.

Sérfræðingurinn í kynjafræðinni þrætti ekki beinlínis fyrir það, að verið væri að boða öfgafemínisma, en hún taldi það nauðsynlegt til þess að leiðrétta þann mikla mun sem hún taldi vera á möguleikum kynjanna.

Sú sérfróða í kynjafræðinni taldi það nauðsynlegt að hætta að klæða ungabörn í einkennisliti sem gefa til kynna hvaða kyni þau tilheyra og hennar skoðun er greinilega sú, að kynin ættu að hætta að klæðast fatnaði sem sýnir kyn þeirra með óyggjandi hætti, hún taldi það hið besta mál, að karlmenn fari að klæðast kjólum og nælonsokkabuxum.

Ég held að það yrði óttaleg sjónmengun fyrir flesta, að horfa upp á grófgerða karlmenn klædda á þennan hátt, en vera kann að einhverjum þyki það fallegt, sennilega er sá smekkur ekki útbreiddur mjög.

Svona þvættingur gengur alls ekki upp, vegna þess að náttúran sér til þess að kynin eru ólík í háttum og það er ekkert slæmt við það. Ýmsir sérvitringar hafa reynt að sigrast á lögmálum náttúrunnar og þrátt fyrir gífurlegar framfarir í vísindum og tækni, þá hefur það sjaldan gengið upp.

Hvað er svo athugavert við það, að kynin séu ólík og klæðist fatnaði sem sýna hvaða kyni viðkomandi tilheyrir?

Jú, öfgafemínistar segja, að konur séu að pína sig til þess að þóknast karlmönnum, með því að klæðast þröngum fatnaði og óþægilegum skóm, eyða drjúgum stundum fyrir framan spegilinn til þess að karlmenn geti viðurkennt þær sem konur.

Svo koma karlmenn sem upplifa sig sem konur og afsanna þessa tilgátu.

Þeir mála sig mikið og ganga í þröngum fötum og óþægilegum skóm, vegna þess að þá upplifa þeir sig í réttu kynhlutverki. Ekki eru þeir að þóknast karlmönnum með þessum athöfnum, heldur líður þeim best svona tilhafðir.

Taka ber fram að ekki er verið að gera lítið úr þeim mönnum sem upplifa sig sem konur, þeir eiga að sjálfsögðu að hafa frelsi til að vera eins og þeir kjósa og það er óþverraháttur að gera lítið úr þeim.

Mörgum konum líður einnig best svona tilhafðar, þær gleðja flesta karlmenn í leiðinni, þannig að tilgangurinn hlýtur að vera góður.

Svo eru það atvinnumöguleikarnir.

Í eftirsóttar stöður og ábyrgðarstöður eru oftast fleiri sem sækja um en fá viðkomandi stöður, það gildir jafnt um karla sem konur.

 Fólk af báðum kynjum þarf að hafa mikið fyrir því að sanna sig og vinna sig upp, sumum veitist það létt og öðrum erfitt eins og gengur.

Við ræddum þennan þátt félagarnir um borð meðan við snæddum kvöldverðinn. Þá sagði skipstjórinn okkur frá öllum þeim fjölda símtala sem hann hefur fengið frá aðilum sem óska eftir að komast um borð. Það þykir eftirsótt að komast um borð í togara um þessar mundir, enda eru launin ansi góð.

Af öllum þessum fjölda hefur aðeins ein kona hringt, þannig að ekki virðist áhuginn vera mikill.

Nú erum við allir um borð mjög jafnréttissinnaðir, skipstjórinn þar með talinn að sjálfsögðu og við vildum gjarna fá konur í hópinn. Konur eru skemmtilegir félagar og mórallinn verður bara betri ef það er kona í hópnum, já við erum mjög hrifnir af konum.

En þær verða vissulega að standa undir væntingum, þetta er líkamlega erfið vinna og það má enginn hlífa sér um borð, þá lendir bara meiri vinna á okkur hinum og það viljum við ekki. Það verður hver og einn að vinna fyrir kaupinu sínu.

Ekki er hægt að útiloka það, að einhverjar konur séu nægjanlega hraustar líkamlega til þess að stunda störf  til sjós, þær láta bara ekkert vita af sér.

Einnig hefur verið talað um að konur séu óþarflega hógværara, en vissulega eiga þær að gera sömu kröfur til launa og karlmenn fyrir sömu störf. Raunar er þetta líka einföldun á málinu, vegna þess að til eru karlmenn sem, hafa ekki kjark til að gera kröfur, þeir hafa oftast lægri laun en aðrir, fyrir sömu vinnu. Það er þekkt á vinnumarkaði.

Konur standa fyllilega jafnfætis körlum að öllu leiti og þær geta leyst af hendi sömu störf. Hér fyrr á öldum þekktist það, reyndar í litlum mæli, að konur voru formenn á árabátum og þær þóttu standa sig mjög vel Konur hafa staðið sig vel í leiðtogastörfum, bæði hjá fyrirtækjum og þjóðum.

En sú fáránlega árátta að vilja hætta að gera konur kvenlegar og halda sér til, bæði til að gleðja augu karlmanna og upplifa sig eins og þær vilja vera, hún er ekkert annað en kjánalegar öfgar.

Vitanlega er svo í lagi þótt konur vilji hvorki ganga í kjólum né háhæluðum skóm, það ríkir sem betur fer frelsi í þessum málum.

Það er líka mjög góð leið, að klæða ungabörn í liti eftir kyni, þá kemur það í veg fyrir klaufalegan misskilning.

Sum börn hafa frekar kynlaust útlit fyrst um sinn og það getur verið mjög vandræðalegt að óska einhverjum til hamingju með fallega strákinn, ef strákurinn er svo raunverulega stelpa.


"Með þeim mæli sem þér mælið mun yður og verða mælt".

Fjallræðan er í miklu uppáhaldi hjá mér, því hún hefur að geyma mikla og djúpa speki. Stundum hef ég vitnað í fyrri hluta fyrirsagnarinnar í Mattheusarguðspjalli, en þar segir:" dæmið ei, því með þeim dómi sem þér dæmið, munuð þér og dæmdir verða". Síðari hlutinn sem fyrirsögnin vitnar í er ekki síðri.

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa alloft mælt á þeim nótum að hinn svonefndi fjórflokkur geri það að verkum að virðing alþingis fari nú þverrandi og sé í sögulegu lágmarki.

Skyldi það auka virðingu alþingis þegar þingmaður fullyrðir að við verðum brátt á sama stað og vanþróuð ríki í Afríku? Og skyldi það auka virðingu alþingis þegar þingmaður segir stöðugt að þingið sé handónýtt og á sama tíma röflar hann um svakalega spillingu og rökstyður það ekkert frekar.

Orðfæri þingmannsins væri við hæfi í hópi þar sem fólk væri að tjá sínar tilfinningar og fá útrás fyrir reiði, en stjórnmálamenn verða að vera yfir það hafnir, ef þeir vilja njóta virðingar.

Skyldi það vera góð leið til virðingar, að mæla þau orð, að ríkisstjórnin sé gjörsamlega vanhæf, mæla orð þess efnis að Hreyfingin ástundi heiðarlega pólitík þar sem fólk segir ekki eitt og gerir ekki annað, setjast svo á fund með ríkisstjórninni, sem þau fordæmdu og ræða um mögulegan stuðning við hana?

Væru þau sjálfum sér samkvæm og stefnu sinni trú, þá myndu þau vitanlega heimta kosningar strax, til þess að fólk fengi að velja sér fulltrúa á þing, þau vilja jú veg lýðræðis sem mestan að eigin sögn.

Þau segjast vilja að stjórnarskrárbreytingar nái fram að ganga og þess vegna þykir þeim ágætt að núverandi ríkisstjórn sitji áfram.

En þjóðin er ekkert sérstaklega áfjáð í að breyta stjórnarskránni eða fá nýja, þátttaka í kosningum til stjórnlagaþings sýnir fram á það með óyggjandi hætti.

Skoðanakannanir segja aldrei allan sannleikann, þær eru of ófullkomnar til þess, en þær eru ágætis vísbendingar.

Ef Hreyfingin hefði fylgi og traust kjósenda, þá myndu þau mælast hærri í skoðanakönnunum. En með málflutningi sínum hafa þau glatað trausti þjóðarinnar.

Þau mæla það að fjórflokkurinn hafi orsakað þverrandi traust á hinu háa alþingi og með þeim mæli mun þeim augljóslega og verða mælt.

Kannski væri við hæfi að skoða þau í ljósi þess sem síðar kom í fjallræðunni, orðin um flísina og bjálkann.

 

 


mbl.is Ekki aukið virðingu almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálshyggjan hefði getað bjargað miklu.

Þeir sem kenna frjálshyggju um hrunið eru á miklum villigötum, enda hafa þeir sem tjá sig hvað mest um frjálshyggju ekkert vit á henni.

Kannski má segja að frjálshyggjan hafi að einhverju leiti verið notuð sem viðmið, varðandi einkavæðingu bankanna en allt hálfkák er vitanlega slæmt, það er oftast best að fara alla leið.

Samband á milli einkafyrirtækja og stjórnmálamanna er eitur í beinum frjálhyggjunnar, því það skekkir samkeppnisstöðu á markaði. Sá sem hefur gott aðgengi að stjórnmálamönnum hefur vitanlega ákveðna foréttindastöðu, en í frjálshyggjunni hafa allir jöfn tækifæri.

Þannig er sú frjálshyggja sem ég og aðrir meðlimir frjálshyggjufélagsins trúum á og skoðum bnakakerfið aðeins í því ljósi.

Bankarnir voru einkavæddir, þannig að þeir voru orðnir að einkafyrirtækjum sem störfuðu á eigin ábyrgð. Það er þá þeirra verkefni að sannfæra sína viðskiptavini um að innistæður þeirra væru tryggar.

Þeir hefðu þá getað samið við tryggingafélög eða sett á fót innistæðutryggingasjóði sem væru ríkisvaldinu óviðkomandi.

Stjórnmálamenn sem fylgdu frjálshyggju út í ystu æsar, færu aldrei að ferðast til útlanda til þess að sannfæra útlendinga um að bankarnir væru í lagi, það væri bankanna að sjá um að selja sína ímynd en ekki hlutverk stjórnmálamanna.

Þá hefðu eigendur bankanna þurft að sýna meiri ábyrgð og þeir hefðu ekki getað notfært sér gott lánhæfismat íslenska ríkisins, heldur þyrftu þeir þá að byggja upp sitt lánstraust á eigin forsendum.

Eigendur bankanna hefðu þá þurft að sýna meiri aðgæslu, vegna þess að þeir báru einir og sér ábyrgð á sínum rekstri. Það slævir dómgreind fólks þegar það er fullvisst um, að ríkið hlaupi alltaf undir bagga.

Staðreyndin er sú, að bankarnir féllu m.a. vegna skorts á frjálshyggju en ekki vegna hennar og þeir sem eru ósammála því, hafa aldrei kynnt sér frjálshyggju.

Það er ekki til neitt sem heitir nýfrjálshyggja, slík orðanotkun er röng, hún er jafnröng og ef sagt væri að kynferðilegt ofbeldi væri nýkristni, vegna þess að einhverjir kirkjunnar menn hafi gerst sekir um slíkan voðaverknað. 


Leggja ber niður Landsdóm.

Sá svarti blettur sem fallið hefur á íslenska stjórnmálasögu, þegar lagt var af stað með ákæru á hendur Geir H. Haarde ætti að vera tilefni til að leggja fram frumvarp þess efnis að leggja Landsdóm niður.

Þeir sem fylgst hafa með pólitík vita, að stjórnmálamenn ganga ansi langt í því að niðurlægja sína andstæðinga, pólitík er í eðli sínu blóðug barátta og sumir svífast einskis í þeirri baráttu.

Augljóst er að með því að hafa núverandi fyrirkomulag áfram, þá er verið að bjóða upp á endalaust þvarg á þingi sem engu öðru skilar en óþægindum fyrir Geir H. Haarde og jafnvel munu sjálfstæðismenn í reiði sinn leggja til að Jóhanna og Steingrímur verði ákærð einnig.

Þau hafa sér litlar málsbætur varðandi einkavæðingu bankanna til óþekktra aðila, hátt í tvöhundruð milljarða tilgangslaus fjárútlát sem runnu í fallnar fjármálastofnanir og tryggingafélag, svo ekki sé talað um vinnubrögðin í Icesave málinu. Hafi fyrrverandi ríkisstjórn gersat sek um refsiverð afglöp, þá gildir það sama um þá sem nú situr.

Þingmenn eiga ekki að rannsaka verk hvorki pólitískra andstæðinga né samherja, þeir eru einfaldlega vanhæfir til þess af eðlilegum ástæðum.

Það er hlutverk alþingis að finna út réttu leiðina til þess að fá úr því skorið, hvort ráðherra hafi gerst brotlegur við lög.

En alvitlausasta leiðin er vitaskuld sú, að láta ákæranda sjá um rannsókn málsins. Sá sem að ákærir er oftast sannfærður um sekt þess sem hann ákærir eða telur sínum hagsmunum best borgið ef sektin er sönnuð.

Vönduð rannsókn fer þannig fram, að sá sem tekur að sér verkið hefur engar skoðanir á sekt eða sakleysi, heldur metur fyrirliggjandi gögn með óháðum og yfirveguðum hætti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband