Færsluflokkur: Bloggar

Enn einn vitleysisgangurinn.

Jón Bjarnason birtist landsmönnum sem nýbakaður sjávarútvegsráðherra sperrtur mjög, íklæddur þjóðbúningi íslenskra karla.

Eitt af hans fyrstu axarsköftum voru, að gefa út yfirlýsingu þess efnis, að eftirfylgni við tillögur Hafró yrði 100%. Látum það var þótt hann hefði sagt það í íslenskum fjölmiðlum, íslendingar eru mörgu vanir og taka ekki hátíðlega allt, sem úr munni stjórnmálamanna kemur.

En hann sagði þetta í bréfi til alþjóðlegu hafrannsóknarstofnunarinnar og hætt er við, að umheimurinn taki það alvarlega, sem maður skreyttur ráðheratitli lætur frá sér fara.

Það nýjasta hjá honum er víst, að takmarka veiðar í dragnót, því honum hefur verið talin trú um, að snurvoðin sé hættulegt veiðarfæri fyrir lífkerfi hafsins.

Dragnótin veiðir eingöngu á sand eða leirbotni, þar sem lítið er um gróður. Prýðis hráefni kemur úr dragnótinni, því hún er dreginn stutt á grunnu vatni.

En honum er sama um flottroll, sem drepa viðkvæmar lífverur sem búa ofarlega í sjónum.

Ef honum langar til að banna eitthvað, þá væri óneitanlega vitlegra að banna flottroll heldur en snurvoð.

Það væri skynsamlegast fyrir hann, að beita sér fyrir öflugri hafrannsóknum, heldur en taka ákvarðnir sem engu máli skipta.

Sá sem að lendir í því, að fara með dragnót annarstaðar en í sand eða leir, hann passar sig á að gera það ekki aftur.

Nema hann hafi gaman af netabætningum og eigi of mikið af veiðarfærum.


mbl.is Dragnótaveiðar takmarkaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta skrefið er að lesa.

Þegar dvalið er á lítilli eyju norður í Atlandshafi, án tíðra ferðalaga til annarra landa, þá er hætt við að sjónarhornið verði helst til of þröngt.

Í þessháttar aðstæðum, hættir fólki til, að telja ástandið betra í öðrum löndum og að hér á landi ríki ekkert nema spilling, heimska og fáfræði.

Þá getur verið gott að grípa til kunnáttu þeirrar, sem byrjað var að leggja drög að strax í sex ára bekk, þ.e.a.s. raða saman stöfum þeim er birtast á tölvuskjám og pappír og átta sig á merkingu orðanna sem þeir mynda.

Oft er orðunum raðað saman í samræmi við þekkingu þess er á takkaborðið leikur, í þeim tilgangi að uppfræða íbúa þessa heims.

Þetta virðist einfalt, en er fyrir suma óskaplega flókið.

En ef fólk nennir að hugsa og notfæra sér leskunnáttuna, þá gæti opnast alveg nýr heimur.

Hér á landi lifum við sambærilegu lífi og fólk í öðrum vestrænum löndum. Ergelsi út í stjórnmálamenn er alþjóðlegt fyrirbæri, stundum er innistæða fyrir því og stundum ekki. Bankahrun átti sér stað víðar en hér á landi, ef marka má heimsfréttirnar, þannig að hrunið okkar er ekki einstakt fyrirbæri.

Ekki hef ég lesið um erlenda stjórnmálaleiðtoga sem dregið hafa fyrrum forsætisráðherra fyrir dóm, fyrir óljósar sakir, með sorg í hjarta því forsætisráðherran fyrrverandi er jú, að mati ákærandans heiðarlegt góðmenni.

En það kann að vera misskilningur, ég hélt að hvergi á byggðu bóli fyndust eins vitlausir háskólakennarar og þeir Þórólfur Mathíasson og Þorvaldur Gylfason.

En ágætur maður sem þvælst hefur í háskóla flestra landa sagði mér, að flest vestræn ríki hefðu háskólamenn á borð við  fyrrgreinda menn.

Þótt við höfum það ekki verra, en fólk almennt í vestrænum ríkjum, þá er ekki þar með sagt að engu megi breyta, við eigum stöðugt að huga að breytingu og þróun.

En gera þarf það á yfirveguðum nótum, án sleggjudóma.

Í aldanna rás hefur verið rituð ágæt speki, sem kennir okkur að hugsa rétt. Ef við stöndum saman og virðum hvert annað, þá er fyrsta stkrefið stigið.

Svo má huga að samkenndinni; "allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, skuluð þér og þeim gjöra", þetta var ritað fyrir ansi mörgum árum, en margir hafa ekki enn skilið þessi orð.

Ef við hættum að hugsa "ég" og förum að hugsa "við", þá er annað skref stigið í endurreisninni.

Ef ég hugsa um hag náunga míns og hann hugsar um minn hag, þá hlýtur vandamálunum að fækka umtalsvert.

En það er aðeins fyrsta skrefið að lesa, næsta skrefið er að skilja og við fullkomnum það, með því að framkvæma.


Kominn tími til.

Vonandi færist þjóðfélagsumræðan upp á hærra plan í kjölfar þessarar málsóknar, þótt meðlimir dómstóls götunnar haldi vafalaust áfram að þvaðra út í loftið.

Dómstóll götunnar lætur sér oftast nægja að hlíða á eitt og eitt orð og dæma samkvæmt því, eins og t.d.; "helvítis íhaldið olli hruninu", "þetta voru mútur" osfrv. Hugsuðir hópsins líta svefndrukknum augum yfir fyrirsagnir blaðanna og eru með allt á hreinu eftir lesturinn.

Ég get aðeins sagt, að ég efist stórlega um að Guðlaugur hafi þegið mútur, en ég get hvorki sannað það né afsannað. Til þess þarf rannsókn þar til bærra aðila, enginn dómstóll, fyrir utan hinn hlandvitlausa dómstól götunnar, lætur sér nægja að dæma fólk samkvæmt áliti þeirra á því.

Vonandi verður gerð almennileg rannsókn á þessu máli í heild sinni, til þess að eðlilegt fólk fái einhverja niðurstöðu í málið.

Dómstóll götunnar er ekki skipaður eðlilegu fólki, heldur samansafn einstaklinga sem vill ekki sannleikann, heldur býr til leikrit sem þjóna á þeirra vafasama málstað.

Björn Valur væri án efa ágætlega hæfur, til þess að veita "Dómstól götunnar" forstöðu, hann á jú djúpar rætur í hans flokki.

En taka ber fram, að margir í vinstri flokkunum eru víðsýnir og skynsamir einstaklingar.


mbl.is Ætlar að stefna Birni Val
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta verður vonandi metsölubók.

Nú situr vinur minn Óli Björn Kárason sveittur við skriftir í sveitasælunni nyrðra.

Hann hyggst koma með nýja sýn á niðurstöðu Rannsóknarnefndar alþingis og er það vel, því allt of margir álíta skýrslu nefndarinnar innihalda sannleikann um aðdraganda hrunsins, sumir sem halda þessu fram hafa ekki einu sinni lesið skýrsluna.

Ekki ætla ég að hæla mér af því, að hafa lesið hana spjaldanna á milli, en örlítið hef ég þó gluggað í hana.

Skýrslan inniheldur vissulega ágætar ábendingar en hún er engan veginn tæmandi uppgjör hrunsins sem varð.

Þess vegna ber að fagna þessu framtaki Óla Björns, því nauðsynlegt er að horfa á málin í víðara samhengi, til þess að geta lært almennilega af því sem miður fór.

Óli Björn hyggst skoða þátt dómsstóla, en hann vill meina að þeir hafi bundið hendur stjórnvalda að einhverju leiti.

Bók sem skrifuð er af einum vandaðasta blaðamanni þjóðarinnar hlýtur að vekja athygli, ég vona að sem flestir lesi hana og hafi gagn af.


Enginn sigur er enn í höfn.

Þótt tekist hafi að drepa Bin Laden, þá er ekki þar með sagt, að sigur sé í höfn, þótt Cameron sé bjartsýnn.

Enda er það oft í eðli stjórnmálamanna að hrósa sigri, til þess að bæta sinn málstað.

Osama Bin Laden er ekki sá eini sem hefur það markmið, að útrýma vestrænni menningu og boða hryllingsstjórn í heiminum og vel kann að vera, að hryðjuverkasamtökin eflist enn frekar, eftir að leiðtogin er fallinn, nú er Bin laden orðinn píslarvottur í þeirra augum.

Á meðan vestræn ríki eru að skipta sér af ófriðnum í Mið austur löndum, þá heldur stríðið áfram og að telja það sigur, að drepa einn mann úr þeirra röðum er óttalega mikil þvæla.


mbl.is Osama bin Laden allur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðismenn vilja gagnsæi.

Þessi tillaga Kjartans Magnússonar sýnir enn og aftur þá viðleitni sjálfstæðismanna, að vilja hafa allt uppi á borðum, öfugt á við Samfylkinguna sem vill helst ekki birta neitt sem litið getur illa út fyrir þau.

Minna má á verk Geirs H. Haarde, þegar hann skipaði rannsóknarnefndina til að fara yfir störf ríkisstjórnar sinnar.

Þótt sumir andstæðingar flokksins reyni að klína öllu sem miður fer upp á hann, þá fer það ekki á milli mála, að enginn flokkur reynir eins mikið, að koma sannleikanum til skila.

Sjálfstæðismenn fóru með málefni OR í sinni borgarstjórnartíð, þannig að ef eitthvað vafasamt hefur verið gert af þeirra völdum, þá kemst það væntanlega upp. En ég efast um að þeir hafi nokkuð að fela.

Öllum stjórnmálamönnum getur orðið á að gera mistök og margir gera þau ansi slæm.

Það sýnir drengskap mikinn að vilja rannsaka eigin verk og leggja þau fyrir kjósendur, undanbragðalaust.

Ætli Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki bara sá heiðarlegasti eftir allt, þrátt fyrir að vera ekki fullkominn.


mbl.is Vill aflétta leynd af fundargerðum OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf kjark til að viðurkenna mistök.

Einn góður vinur minn sat á þingi þann tíma, sem sjálfstæðismenn voru í samstarfi við Samfylkinguna.

Hann benti mér á það, að þá hafi ríkisútgjöld aukist um 20%, en sjálfstæðismenn eru mjög svekktir út í sjálfa sig, fyrir að hafa aukið ríkisútgjöld allt of mikið.

Hvenær hafa sjálfstæðismenn kennt samfylkingarmönnum um aukin ríkisútgjöld sín?

Að sjálfsögðu aldrei nokkurn tíma, því þeir vita, að þeir báru líka ábyrgð.

En samfylkingarforystan vælir út af meðvirkni við sjálfstæðismenn og kenna þeim um allt sem miður fór í þeirra verkum.

Samfylkingarforystan er nefnilega gjörsneydd öllu sem heitir kjarkur.

Það kallast ekki kjarkur, að hrópa illa ígrundaðar fullyrðingar og geta sjaldan rökstutt nokkurn skapaðan hlut, slíkt kallast ræfildómur.


Er þetta allt saman Hrannari að kenna?

Ætli Hrannar B. Arnarson sé stöðugt að hræra í Jóhönnu ræflinum og telja henni trú um, að hún sé góður leiðtogi og frábær forsætisráðherra?

Hann hefur hag af því, starf aðstðarmanns forsætisráðherra, er sennilega ágætis staða og þokkalega launuð.

Jóhanna sagði í viðtali við DV um helgina, að hún hefði í hyggju að halda áfram í pólitík og gefa kost á sér í embætti formanns, ef hún hefði áfram stuðning sinna flokksmanna.

Hún hefur slík heljartök á flokknum, að hæpið er að nokkur þori að mótmæla, enda sagði hún að það væri uppi ágreiningur í öllum flokkum, nema Samfylkingunni.

Ágreiningur þýðir nefnilega í hennar huga, það að vera ekki á sama máli og hún.

En kerlingarræfillinn, hún er alltaf jafn seinheppin.

Þegar hún hitti forætisráðherra Breta, þá sagði hún að fæðingarorlof karla hér á landi, væri ansi rausnarlegt.

Það mun alfarið vera á ábyrgð sjálfstæðismanna.

Svo sagði hún í viðtalinu við DV, að vel hefði verið tekið á fjármálum stjórnmálaflokka, varðandi styrki osfrv.

Það mun hafa verið gert að frumkvæði sjálfstæðismanna einnig og Kjartan Gunnarsson fyrrum framkvæmdastjóri flokksins stýrði þeim umræðum.

Það þyrfti einhver góður einstaklingur í Samfylkingunni að hvísla því að henni, að taka ekki mark á öllu sem Hrannar segir.

Hvatning hans til yfirboðara síns er að verða þjóðinni ansi dýr, svo ekki sé talað um hvað gerist, ef hún neitar að hætta.


Þekkir fólk muninn á stjórnlyndi og frjálslyndi?

Í umræðu síðustu vikna, finnst mér margir komast að þeirri niðurstöðu, að þeir sem vildu samþykkja Icesave-samninginn og skoða inngöngu í ESB séu frjálslyndir mjög.

En við hin sem vildum ekki samþykkja samninginn og erum andvíg ESB aðild séum stjórnlynd.

Þetta er vitanlega argasta kjaftæði og stórkostleg öfugmæli, sett fram til þess að rugla umræðuna og snúa henni á hvolf.

Ég er alveg svakalega frjálslyndur að eðlisfari og veit fátt leiðinlegra, en þá áráttu margra að vilja þvinga sína skoðun upp á aðra, með öllum ráðum.

Ég er það lánsamur að eiga fimm mannvænleg börn og þau eru öll nánir og miklir vinir mínir.

Um daginn var ég að ræða við eitt af mínum góðu afkvæmum um pólitík. Afkvæmið spurði mig, vitanlega vel meðvitað um pólitískar skoðanir föður síns, enda þarf ekki langa viðkynningu til að komast að þeim, hvort það væri raunverulega best að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Þá endurtók ég það heilræði, sem hefur verið eitt meginstefið í mínum uppeldisaðferðum, að hver og einn þyrfti að ákveða sjálfur, hvaða skoðun hann hefur. Vitanlega fór ég yfir stefnur flokkanna með henni og hvatti hana til að kynna sér þær vandlega, taka síðan upplýsta ákvörðum um, hvað hentaði henni best.

Ég sagði jafnframt, að ég myndi virða þá niðurstöðu sem fengist, hver sem hún væri.

Heimurinn er yfirfullur af fólki, sem þykist hafa fundið hinn stóra og endanlega sannleik og þvælist um allt, í þeim tilgangi að þvinga eigin skoðunum upp á saklaust fólk.

Það kallast stjórnlyndi af versta tagi.

En það að halda sínum skoðunum á lofti og hafa sterka sannfæringu, þarf ekki endilega að teljast stjórnlyndi, heldur innlegg í upplýsta umræðu.

Aldrei hef ég þekkt þá tilfinningu, að líka illa við manneskju fyrir það eitt, að vera ósammála mér. Það er afar einkennileg afstaða og nálgast mikilmennskubrjálæði.

Mannshugurinn hefur margar og ólíkar birtingarmyndir, þess vegna getur ákveðin skoðun virkað sönn í huga eins, en argasta lygi í annars manns huga.

Þegar fólk áttar sig á þessari einföldu staðreynd, þá skapast jarðvegur til þess að skiptast á skoðunum á upplýstum nótum og það kallast frjálslyndi að mínu mati.

 


Óttaleg móðursýki út af einni skopmynd.

Viðbrögðin hjá Siv Friðleifsdóttur og fleirum, vegna skopmyndarinnar af henni, lýsa óttalegri móðursýki, sem því miður er að festast í sessi hér á landi.

Stjórnmálamenn þurfa að þola það, að gert sé grín að þeim.

Ekki þykir það virðuleg staða, að vera fyllibytta, en Jón Baldvin Hannibalsson var oftast teiknaður í því hlutverki, þaðan af síður þykir það flott hjá karlmönnum, að klæðast peysufötum, en þannig var Steingrímur Hermannsson oftast sýndur í skopmyndum.

En þessir ágætu menn voru ekki sívælandi yfir öllu eins og allt of margir gera nú á tímum.

Grunnhyggni er að festa sig í sessi hér á landi, það skilja fáir líkingarmál. Vitanlega er Siv ekki í hlutverki vændiskonu á myndinni, heldur er eflaust verið að lýsa því, að hún sé að falbjóða sig í pólitík.

Margir andans menn, sem oft sjá hlutina í öðru og stundum réttara ljósi en fjöldinn, notast við líkingarmál til að koma sínum skoðunum á framfæri, Jesús Kristur gerði svipaða hluti með sínum dæmisögum.

Til þess að þroska skilningarvitin, þá er ágæt leið að velta fyrir sér merkingu fyrirbæra eins og orða og teinaðra mynda.

Þeir sem skilja eingöngu það sem þeir sjá berum augum, geta seint vænst þess að státa af einhverjum alvöru skilningi á lífinu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband