Færsluflokkur: Bloggar
Fimmtudagur, 14. apríl 2011
Umræða í rulsflokki.
Ekki er það undarlegt, að hægt gangi að endurreisa samfélagið, þegar umræðan er illa ígrunduð og órökstudd. Hún samanstendur af gífuryrðum sem eru innihaldslaus með öllu.
Vissulega eru margir málefnalegir í umræðunni, en þeir fá lítinn hljómgrunn, því fólk er hrifnara af lyginni.
Þvættingurinn um Sjálfstæðisflokkinn er með ólíkindum.
Flokkurinn hefur vissulega verið lengi við völd og gert mörg mistök, en að segja hann spilltari en aðrir flokkar, það hefur aldrei verið rökstutt af neinu viti.
Við búum í litlu samfélagi, ættartengsl liggja víða og það veldur vissum vandræðum.
Það hafa allir flokkar tekið þátt í að hygla sér og sínum, en það er erfitt að sanna hvað hefur verið gert rangt í því efni og hvað hefur verið gert rétt. Um það eru deildar meiningar.
Allir flokkar hafa átt fulltrúa í sendiherrastöðum, oft einstaklingar sem virðast ekki hafa neina sérþekkingu á utanríkismálum. Þeir virðast hafa fengið þessar stöður á silfurfati, oft í skiptum fyrir ýmsar tilslakanir og málamiðlanir á hinum pólitíska vettvangi.
Allir þekkja hugarfar Samfylkingar á árunum fyrir hrun, það átti að efla fjármálastarfsemi til muna og útrásina líka. Sjálfstæðismenn eru ekki saklausir af því og ekki framsóknarmenn heldur.
Vinstri grænir eru að vissu leiti undanskildir, því sá flokkur hefur aldrei vilja að fólk græði.
Allir flokkar, að VG undanskildum , tóku þátt, af fullum þunga, í að dásama bóluhagkerfið og dást að útrásarvíkingunum.
En hvað gerðu sjálfstæðismenn þegar allt hrundi?
Þeir ákváðu að skipa rannsóknarnefnd til þess að rannsaka það sem gerðist. Geir H. Haarde lagði til, að kosningum yrði frestað þar til rannsókn á aðdraganda hrunsins væri lokið.
Enginn hefur sagt með óyggjandi hætti að Geir sé óheiðarlegur maður, heldur þvert á móti.
Benda má á, að Steingrímur Joð sendi hann fyrir landsdóm "með sorg í hjarta", því hann áleit Geir vera heiðarlegt góðmenni.
Við þurfum mörgu að breyta hér á landi, en það gerist ekki með órökstuddum fullyrðingum og rifrildi, heldur með upplýstri umræðu, sem reyndar fáir íslendingar kunna.
Þeir einstaklingar úr háskólasamfélaginu sem fjölmiðlar leita til, í þeim tilgangi að upplýsa þjóðina, verða til þess, að sverta ímynd háskóla þessa lands all verulega.
Prófessorar sem hóta "Kúpu norðursins", segja að við förum á sama stað og Norður Kórea ef við samþykkjum ekki afarkosti Breta og Hollendinga, eru ekki marktækir í upplýstri umræðu.
Þeir minna um margt á kommúnista sem ég var með til sjós fyrir hartnær þrjátíu árum, en hann hataði sjálfstæðismenn svo mikið, að hann kvað Albert Guðmundsson aldrei hafa getað neitt í fótbolta, þetta er allt saman lygaáróður íhaldsins að hans mati.
Vissulega þurfum við að skoða allt með opnum huga, upplýsa um spillingu ef hún er til staðar, hvort sem um er að ræða Sjálfstæðisflokkinn eða aðra flokka.
En þá þarf að rannsaka mál með viðunandi hætti, en ekki draga ályktanir af fyrirsögnum blaða sem menn sjá snemma morguns, hálfsofandi eða taka mark á kjaftasögum sem settar eru fram til að þjóna pólitískum markmiðum spunameistara.
Aldrei hef ég t.a.m. efast um heiðarleik Jóhönnu og Steingríms, eingöngu rætt um vanhæfni þeirra og skort á vitsmunum. Það velur sér víst enginn gáfur þegar hann hefur sína vegferð í þessum heimi og vitað er, að þeim sem litlar gáfur hafa hættir oft til að ofmeta eigin getu.
Við þurfum að taka umræðuna úr ruslflokknum og fara að ræða málin á vitrænum nótum.
Öðruvísi breytist ekkert hér á landi, við verðum áfram föst í sömu hjólförunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 13. apríl 2011
Nú er Össur kátur.
Stjórnmálarefurinn Össur Skarphéðinsson er þjóðkunnur fyrir athyglisverðar stjórnmálaskýringar sínar.
Frægt er þegar hann sat yfir rauðvínsglasi og drekkti sorgum sínum yfir milljarðatapi OR vegna þess, að sjálfstæðismenn sáu ekki tækifærin sem lágu í samruna Geysis green og REI.
Þegar Atli og Lilja hættu að styðja ríkisstjórnina, þá gladdist Össur mjög yfir því, að nú væri stjórnin að styrkjast til muna.
Ásmundur Einar Daðason hefur nú einnig hætt að styðja ríkisstjórnina, þannig að utanríkisráðherrann hlýtur væntanlega að telja það auka styrk hennar að einhverju marki.
En gaman er að heyra hvað hann segir, ef Siv Friðleifsdóttir og Guðmundur Steingrímsson ganga til liðs við ríkisstjórnina.
Ætli hann telji hana veikjast við það?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 13. apríl 2011
Hvert er samband Samfylkingarinnar og útrásarvíkinganna?
Ég var að spjalla við þingmann um ýmislegt er varðar spillingu í íslenskum stjórnmálum.
Við vorum sammála um það, að víðtæk rannsókn á öllu sem viðkemur stjórnmálaflokkum þurfi að vera uppi á borðum, við þurfum að læra af rannsóknarskýrslunni og breyta samfélaginu í áttina að heiðarleikanum.
Þessi ágæti vinur minn benti mér á, að orðrómur hafi verið uppi varðandi fjármögnun á Hallveigarstíg 1. þar sem Samfylkingin er til húsa. Sá orðrómur segir, að útrásarvíkingar hafi veitt flokknum dyggilega aðstoð við að fjármagna kaupin á Hallveigarstíg 1. Sumir vilja víst meina, að Jón Ásgeir hafi fjármagnað kaupin að mestu leiti, en tekið skal fram, að þetta eru einungis grunsemdir, en ekki fullvissa.
Þegar litið er til fyrri ára, þá sést afar glöggt, að Samfylkingin studdi þá með ráðum og dáð, sem síðar urðu aðalgerendur í fjármálahruninu mikla.
Í Borgarnesi flutti Ingibjörg Sólrún ágæta varnarræðu fyrir Baugsmenn, Bjarna Ármannsyni var borðið á landsfundinn þeirra árið 2007.
Svo þegar þau komu í ríkisstjórn, þá lögðu þau mikla áherslu á það, að aðlaga lög og reglur að þörfum fjármálafyrirtækja, til þess að þau geti vaxið meira en orðið var þá þegar.
Það hlýtur líka að vekja athygli, að eftir að flokkurinn breytti sér í vinstri flokk, því það komst í tísku árið 2008, þá hafa þau hjálpað fjármálamönnum afar dyggilega.
Ekki er að sjá miklar rannsóknir á 365. miðlum svo dæmi sé tekið, en það fyrirtæki er í eigu Jóns Ásgeirs, þótt eiginkona hans sé skráð fyrir því. Óljóst eignarhald á bönkum hlýtur að vekja upp grunsemdir osfrv.
Ekki hefur samfylkingarfólk verið mjög áfjáð í að rannsaka eigin verk, þau komust að þeirri niðurstöðu að öll mistök þeirra væru sjálfstæðismönnum að kenna.
Það væri afar áhugavert að rannsaka tengsl Samfylkingar við fjármálalíf landsins, einnig þarf að rannsaka tengsl allra stjórnmálamanna og allra flokka við fjármálaheiminn.
Við eigum rétt á því, að fá vitneskju um alla þætti ofangreinds máls, öðruvísi getur ekki skapast traust milli þings og þjóðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. apríl 2011
Vonandi höfum við þá eignast bandamann.
Við sem teljum hagsmunum þjóðarinnar betur borgið utan ESB, höfum vonandi eignast góðan bandamann, sem komið getur í veg fyrir aðild okkar að ESB.
Samt er ég hræddur um, en sá ótti er vonandi ástæðulaus, að ESB vilji fá okkur inn.
Við höfum verðmæt fiskimið og í framtíðinni góða möguleika til vaxtar, þegar siglingaleiðin í norðurátt opnast.
Annars hafa þeir íslendingar, sem vilja aðild, vonandi rétt fyrir sér og Brusselmenn hafi þá engan áhuga á okkur.
Það er bara að bíða og sjá, en mér þótti vænt um stuðning Hollendingsins við málstað okkar, sem andstæðir eru aðild að ESB.
![]() |
Hóta að standa í vegi aðildar að ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 12. apríl 2011
Það vantar betri fjölmiðla og alvöru fræðimenn.
Ríkisúrvarpið hefur þær skyldur, að uppfræða hinn almenna borgara, um ýmis mikilvæg mál sem skipta máli hverju sinni.
Þeir fræðimenn sem RÚV helst leitar til, eru þekktir fyrir ósannsögli, ákveðnar skoðanir og yfirlýst hatur á Sjálfstæðisflokknum. Einnig reynast fræðimenn oft of fljótir að draga ályktanir, eins og t.a.m. Þorvaldur Gylfason.
Hann taldi bankanna vera í gríðarlega góðum málum í nóvember árið 2007, en á þeim tíma var flestum fræðimönnum heimsins orðið það ljóst, eða höfðu sterkan grun um, að fjármálakerfi heimsins væri í hættu.
Miðað við ýmsar fyrirliggjandi staðreyndir þess tíma, sem fræðimenn hefðu átt að sjá, þá var það ljóst að hið gríðarlega magn af ódýru fjármagni gæti vart staðist til lengdar. Einnig sést það glöggt, að öll útrásin var tekin að láni og prófessor í hagfræði hefði að sjálfsögðu átt að sjá það, ef hann hefði nennt að hugsa.
Haft var eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í rannsóknarskýrslunni frægu, að Þorvaldur hafi aldrei varað hana við neinu, í aðdraganda hrunsins. samt voru þau í ágætu talsambandi og Þorvaldur hafði greiðan aðgang að henni.
Þetta er svo maðurinn sem mætir glaðhlakkalegur í Silfur Egils og grobbar sig af því, að hafa séð þetta allt saman fyrir og varað við hruninu, árum saman en enginn hlustað.
Fræðimaður hlýtur að teljast fremur ótrúverðugur, þegar hann dregur dóm Hæstaréttar í efa og reynir að leita fordæmis hundrað og sextíu ár aftur í tímann, en ómenntaðir alþýðumenn vita, að bókhald landsmanna þess tíma, var ekki mjög nákvæmt sbr. rangar skráningar í kirkjubækur.
Svo þegar fjalla á um ESB og fræða almenning, þá eru fengir til þess háskólakennarar sem þrá ekkert heitara en það, að ganga í ESB. Það segir sig sjálft, að þeir eru varla að letja fólk til þess að styðja aðild.
Þórólfur Matthíasson sagði í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar varðandi hinn fáránlega og hlandvitlausa samning Svavars og Indriða, að við yrðum "Kúpa norðursins" og íslendingar fengju hvergi lán hjá nokkurri þjóð né heldur erlendum bönkum.
Það rættist ekki, svo þegar núverandi samningur var felldur, þá er hann enn með sama bullið.
Þrátt fyrir að hafa verið uppvís að alvarlegum rangfærslum og ámælisverðum hræðsluáróðri, þá heldur RÚV áfram að hampa honum.
Það er hægt að umbera ruglið í bjánum sem slysast hafa á þing, það vita allir hvernig þeir eru og enginn tekur mark á þeim.
En þegar prófessor í hagfræði segir eitthvað, þá hættir því miður mörgum til að leggja við hlustir og trúa því, að viðkomandi hafi eitthvað til síns máls.
Íslendingar geta vart hrósað sér af háu menntunarstigi, ef ofangreindir einstaklingur eru þverskurður af háskólakennurum landsins, þá fara háskólarnir í ruslflokk í alþjóðlegum samanburði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. apríl 2011
Einn mesti aulasamningur sögunnar?
Fyrir leikmann eins og mig, þá hljómar málflutningur stjórnarliða varðandi Icesave samninginn, að þetta sé einn mesti aulasamningur sögunnar og þökk sé þjóðinni, að honum var hafnað.
Mér dettur í hug, maður sem ég var með til sjós fyrir fjölmörgum árum.
Sá góði félagi, var svona frekar vitgrannur, en þægilegur í samstarfi og skilaði öllum verkum með stakri prýði.
Hann á dóttur sem var alveg að taka hann á taugum. Þar sem hann bjó ekki með móður hennar, sótti hann stelpuna alltaf þegar hann kom í land og hafði hana hjá sér í flestum inniverum.
Þegar við lögðum úr höfn sagði hann okkur frá því, hversu óþekk hún var og hann réði ekkert við helvítis frekjuna í henni. Sjálfsagt hefur barnið státað af meiri eðlisgreind en faðirinn og það getur skapað visst ójafnvægi í samskiptum föður og barns.
Svo fann hann lausnina varðandi óþekkt stelpunnar.
Hann sagði okkur frá því, að með því að láta bara allt eftir henni og kaupa það sem hún vildi, þá var hún alveg eins og engill og ekkert vandamál með hana. En það liggur í augum uppi, hvaða afleiðingar svona eftirlátsemi hefur í för með sér.
Örlítið heyri ég af þessum vini mínum og rekst stundum á hann. Sagt er að dóttir hans, sem í dag er orðin fullorðin kona og á fjölskyldu, hafi kallinn algerlega í vasanum.
Hann þrælar úti á sjó og allt sem hann þénar fer í að borga skuldir fyrir dóttur hans og tengdason, hann á aldrei krónu, samt er hann reglusamur og eyðir engu í sjálfan sig.
En það myndi aldrei hvarfla að þessum manni að gefa kost á sér til að stjórna landinu, hann þekkir nefnilega sín takmörk og það er meira en sumir geta sagt, sem þykjast þó státa af ágætum gáfum.
Ríkisstjórn Íslands sagði að Bretum og Hollendingum hafi verið greint frá því, að þetta væru ekki lögvarðar kröfur, fyrrgreindar þjóðir hafa heldur ekki fullyrt að svo sé.
Það var ákveðið að borga þeim stórfé, til þess að við fengjum frið fyrir óþekktinni í þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. apríl 2011
Íslendingar gáfu mjög gott fordæmi.
Þeir sem eiga og reka fjármálafyrirtæki eiga sjálfir að vera ábyrgir fyrir því tjóni sem þeir valda viðskiptavinum sínum, en ekki skattgreiðendur.
Ef skattgreiðendur neyðast til að bæta viðskiptavinum bankanna það tjón sem þeir verða fyrir, þá verður það til þess, að fjármálamenn geta hagað sér eins og þeim sýnist, í þeirri vissu að þeir þurfi aldrei að axla ábyrgð gjörða sinna.
Fyrrum eigendur hinna föllnu banka og útrásarvíkingar almennt, eru allir í ágætis málum, fjárhagslega séð.
Á sama tíma þarf almenningur að þola þrengingar af þeirra völdum.
Það er ekkert annað en bölvaður aumingjaskapur, að vilja borga fyrir græðgi og óábyrga hegðun eigenda og stjórnenda hinna föllnu banka.
Betra er að þola jafnvel tímabundnar þrengingar, heldur en að leggjast kylliflatur og láta fjármálaheiminn stjórna sínu lífi.
Þjóð sem hræðist hótanir og þorir ekki að standa með réttlætinu, getur ekki staðið undir þeirri ábyrgð, að teljast sjálfstæð og fullvalda.
![]() |
Óttast fordæmi Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 12. apríl 2011
Hún er vitlausari en Jóhanna.
Þá hefur Jóhanna glatað þeirri vafasömu nafnbót, að vera vitlausasti stjórnmálamaður lýðsveldisins frá upphafi og Sif Friðleifsdóttir tekið við henni, eftir að hafa komið með þá alvitlausustu hugmynd, sem heyrst hefur á þingi til þessa.
Framsóknarflokkurinn á möguleika á að bæta við sig fylgi, Sigmundur Davíð hefur sýnt mjög góða leiðtogahæfileika og flokkurinn getur styrkt sína stöðu verulega, ef rétt er á málum haldið.
En þá kemur Sif og heimtar að verða hluti af verstu ríkisstjórn sem setið hefur hér á landi frá upphafi lýðveldistímans.
Flestum hættir til að gera mistök þegar þeir eru að tileinka sér ný og framandi hlutverk.
Sigmundur Davíð gerði stór mistök, þegar hann í upphafi formannsferilsins leiddi Steingrím og Jóhönnu til valda.
Það er hægt að fyrirgefa manni svona aulamistök, sem er nýbyrjaður í pólitík, auk þess voru uppi afar sérstakir tímar þá og furðuleg stemming hjá þjóðinni í kjölfar hrunsins.
En þegar þingmaður með mikla reynslu, heimtar að fá að gera sömu mistökin aftur, þá hlýtur það að teljast merki um stórkostlegan skort á skynsemi og dómgreind.
![]() |
Vill að Framsóknarflokkur fari í stjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 11. apríl 2011
Málpípa fjármálaráðherra bullar.
Ég hlustaði á viðtal við Björn Val Gíslason alþingismann á Útvarpi Sögu. Þar hélt hann því fram, að lán erlendra ríkja til Íslands væru í uppnámi vegna höfnunar Icesave.
Þáttastjórnandi benti honum á það, að Pólverjar hefðu nú lánað okkur, án tilliti til Icesave, en frændþjóðir okkar Danir, Norðmenn, Svíar og Finnar voru víst eitthvað að setja skilyrði um lausn deilunnar.
Þingmaðurinn sagði að öll lán væru í uppnámi, lánið frá Póllandi líka, hægt væri að lesa um það á vef Stjórnarráðsins.
Mig minnti það sama og þáttastjórnanda, en til að vera viss, þá kíkti ég á vef Stjórnarráðsins.
Þar kemur fram að norðurlandaþjóðirnar segja að lausn Icesave deilunnar skipti máli, varðandi lán frá þeim, en Pólverjar og Færeyingar settu engin slík skilyrði, allavega kemur það ekki fram á vefnum.
Það má vel vera að mér hafi yfirsést eitthvað, en það sem mér blöskraði hvað mest, voru hugmyndir þingmannsins um aðgerðir í atvinnumálum.
Honum fannst það ægilega sniðugt og líklegt til árangurs, að setja stórfé í vegaframkvæmdir og önnur verk á vegum hins opinbera.
Þetta er dæmigerður hugsunarháttur vinstri manna og minnir að vissu leiti á hugmyndir þeirra, sem þeir settu fram á fundi með ríkisstjórn Davíðs Oddsonar á fyrstu árum þeirrar stjórnar.
Þá fannst þeim rosalega briljant, að hækka hátekjuskatt og nýta þá hækkun, í atvinnuskapandi verkefni.
Þótt þeim leiðist ákaflega mikið allt sem snýr að arðsemi og hagnaði, þá þarf nú líka að hugsa um það.
Hver einasta króna sem sett er í framkvæmdir á vegum hins opinbera, skapar gervihagvöxt.
Það er eins og að gefa fótbrotnum manni sterk verkjalyf, en gera ekki við fótbrotið.
Það eina sem dugar er útflutningsdrifinn hagvöxtur, fjárfesting sem skilar raunverulegum arði og fyrsta skrefið hlýtur að vera virkur lánamarkaður.
Björn Valur gerði eins og Jóhanna, nöldraði yfir tregðu bankanna til að sinna skyldu sinni, en kvað stjórnvöld afskaplega vanmáttug varðandi þá.
Hann lofaði reyndar því, að nú væri verið að þvinga bankanna til þess að fara að sinna alvöru fjármálastarfsemi, en kannski hefur hann sama tímatal og Jóhanna og Guð almáttugur.
Ætli við þurfum ekki að bíða í nokkur þúsund ár eftir árangri?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 11. apríl 2011
Dýrmætasta auðlyndin býr í börnum þessa lands.
Stundum verður mér það á, að hugsa of mikið um pólitík og í framhaldi af því, koma þau skötuhjú Jóhanna og Steingrímur Joð upp í hugann.
Þrátt fyrir ágætis jafnvægi, þá skal það viðurkennast, að of mikil hugsun um þjóðarleiðtoga okkar getur valdið hjá mér hálfgerðu ergelsi.
Til þess að dreifa huganum ákvað ég að gleðja hundinn minn og skreppa með hann í göngutúr, við gengum að skólanum sem er rétt við heimili mitt og hundsins.
Lítil telpuhnáta vék sér að okkur og spurði hvort hún mætti klappa hundinum, hún fékk fúslega heimild til þess, því hundurinn er barnelskur mjög og hin mesta gæðaskepna.
Stúlkan vék þvínæst tali sínu að mér, eftir að hafa klappað hundinum og sagði mér fréttir úr sínu lífi.
Bróðir hennar á afmæli í dag og móðir þeirra er að hennar sögn, afar leikin í bakstri og býr til bestu smápizzur í heimi.
Ég smitaðist mjög af gleði telpunnar, þannig að ég gleymdi því algerlega um stund, að það væri vinstri stjórn við völd um þessar mundir.
Þvínæst tjáði hún mér það, að stóra systir hennar væri ekki nógu viljug til að leika við hana og hún fékk aldrei að vera í herbergi systur sinnar.
Við ræddum það drjúga stund, hversu óréttlátt það væri að börn þyrftu að þola öll þessi boð og bönn, en komumst að sameiginlegri niðurstöðu þess efnis, að það væri nú samt nauðsynlegt.
Annars lærðu börnin aldrei að þekkja muninn á réttu og röngu.Síðan urðum við sammála um það, að samband þeirra systra yrði örugglega gott þegar þær yrðu fullorðnar.
Eftir nokkurra mínútna spjall við þessa skemmtilegu hnátu, gengum við heim á leið, ég og hundurinn. Mér varð hugsað til þess, hversu mikið börnin gefa af sér, án þess að hafa nokkuð fyrir því.
Í framhaldinu var mér hugsað til ábyrgðar okkar sem fullorðin erum. Með því að gefa okkur tíma til að spjalla við börnin, þá getum við verið að skapa góðar minningar hjá þeim.
Ég leiddi hugann að því, hvort þessi litla stúlka ætti eftir að minnast þessarar stundar með "karlinum með hundinn".
Sjálfur á ég góðar minningar frá mínum bernskuárum, þegar fullorðið fólk gaf sér tíma til að spjalla við mig og hlusta á mínar hugmyndir um hin ýmsu mál, það eru góðar minningar.
Ekki veit ég hvort ég hitti þessa stúlku einhvern tíma aftur, enda skiptir það engu máli.
Og ekki veit ég heldur hvort hún muni nokkuð eftir mér.
Hvorugt skiptir nokkru máli, það eina sem máli skiptir er, að við eigum oftar að hugsa til barnanna og spjalla við þau þegar færi gefst.
Það eru þau sem eiga eftir að taka við landinu, þegar við sem nú lifum, höfum kvatt þessa jörð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)